Wednesday Night Prayer Meeting. Ég var að hugsa um að hafa þessa færslu bara það: lag Charles Mingus með þeim titli, bæði vegna þess að nú er miðvikudagur, og ég er að lesa svo skemmtilega og fræðandi bók um Mingus (Better git it in your soul, an interpretive biography of C. M., eftir Krin Gabbard), þar sem meðal annars er sagt frá miðvikudagskvöldsmessunum sem drengurinn Charles var dreginn á í Watts-hverfinu í Los Angeles („that dark church where everyone was screaming“); en svo þegar ég fletti upp á youtube, þá datt ég niður á svo frábæra upptöku með einni af fínustu hljómsveitum Mingusar, sextettinum með Eric Dolphy og Jaki Byard, að mér fannst ég verða að hafa það í staðinn. Þetta er upptaka frá Noregi, frá 1964; þeir eru að spila Take the A Train eftir Billy Strayhorn. Kannski hefur fólk ekki tíma til að hlusta til enda, en ég myndi láta mig hafa það í sirka sjö og hálfa mínútu; það er svo gaman að fylgjast með hljómsveitarstjóranum bregða sér frá, á sirka 5,44 mínútu, á meðan Eric Dolphy fær að vera einn með bassaklarinettunni. Og á meðan Eric Dolphy er einn með bassaklarinettunni, þá er engin hætta á ferðum …