Það var ekki vegna þess að Werner Herzog er væntanlegur á kvikmyndahátíð í Reykjavík – ég vil allavega ekki kannast við það – en ég fékk lánaða bíómyndina Stroszek í gær, og horfði á hana í gærkvöldi (sem auðvitað er vafasamt að játa, því ég hefði átt að vera á bókmenntahátíð). Er Reykjavík annars að drukkna í hátíðum? Ég hafði séð Stroszek áður, það var ábyggilega í Fjalakettinum (þar sem ég sá reyndar Werner Herzog, þegar hann kom á sviðið í Tjarnarbíói og svaraði spurningum eftir sýningu „dverganna sem byrjuðu líka smátt“); og það var ansi gaman að sjá hana aftur. Sumar af myndum Herzogs hafa haft þvílík „örlagaáhrif“ á mann, en ég er ekki frá því að Stroszek sé einna sterkust þeirra. En ég ætlaði þó ekki að tala mikið um Stroszek (fólk verður bara að sjá þá mynd), heldur langaði mig til að koma að örstuttu myndbandi með Werner Herzog, þar sem hann ræðir gastrónómísk málefni – þetta gæti nýst þeim sem þurfa að fæða leikstjórann á meðan hann dvelur á Íslandi: