Einn athugull lesandi „heimasíðunnar“ sendi mér tölvupóst, hvar finna mátti eftirfarandi spurningu: Ertu viss um að sjónvarpsauglýsing Allianz hafi verið nákvæmlega svona? Þá átti hann við hvort auglýsingin hefði verið orðuð eins og ég vildi meina að hún hefði gert, „Því miður vitum við ekki hvenær lífið tekur enda“. Þessi athugasemd tölvupóstssendandans setur mig alveg úr jafnvægi, ég skal viðurkenna það. Því nú er ég ekki 100% viss um að ég hafi heyrt rétt þegar ég hlustaði á sjónvarpsauglýsinguna í gær (ég sá hana reyndar ekki; ég sneri baki í tækið). Að ég hafi einu sinni unnið á auglýsingastofu hefur ekkert með þetta að gera („unnið einu sinni“? – ekki bara „einu sinni“, heldur í 5 ár með hléum); en vissulega hljómaði texti sjónvarpsauglýsingarinnar (eins og ég heyrði hann) afar einkennilega – nánast eins og mistök hefðu átt sér stað – því varla vill tryggingasöluaðilinn Allianz gera viðskiptavinum sínum það að vita hvenær ævi þeirra endar? En endilega – ef einhver getur leiðrétt „misheyrn“ mína frá því í gær, þá væri það vel þegið. Ég er meira að segja alveg opinn fyrir póstum frá Allianz – bara að þeim fylgi ekki tilboð í líftryggingu, eitthvað svoleiðis.