„Þættinum“ hefur borist „bréf“. Það („bréfið“) barst reyndar óbeint, í gegnum aðra „bloggs-síðu“, þessa hér:
https://kaktusinn.is/2017/09/29/espergaerde-skyjafar-og-skithaelar/
En það var ekki þetta sem stóð til að tala um í þessari aukafærslu – „þetta“ gerðist „of seint“ til að „þáttastjórnandi“ teldi sig hafa tíma til að bregðast við, þótt tilefnið hefði „alveg gefið tilefni til þess“. Það sem stóð til að tala um hér (fyrst „aukafærsla“ var komin á dagskrá – mig grunar reyndar að hún hafi verið komin á dagskrána svolítið fyrr í dag, löngu áður en „bréfið“ barst – ég var þá staddur á gangi í miðbæ Reykjavíkur, ég var að tala við hana Hildi Finnsdóttur fyrir utan veitingastaðinn Veður – ég tek fram: fyrir utan) var frétt á Eyjunni fyrr í dag (ég veit: nástaða!) um að formanni Framsóknarflokksins, þess dularfulla stjórnmálaafls á Íslandi, fyndist staðan í kjölfar „klofnings“ Framsóknarflokksins vera orðin „erfið og óheppileg“. Ég hef reyndar (aftur „nástaða“!) snúið við orðaröðinni í þessu: það sagði nefnilega í fréttinni að staðan væri orðin „óheppileg og erfið“. Ég þykist alveg skilja hvað átt er við með orðinu erfið í þessu samhengi, en það er mér algerlega hulið hvað meint er með hinu orðinu, orðinu óheppileg. Hvernig getur pólitískt ástand verið „óheppilegt“? Mig minnir að ég hafi velt vöngum yfir þessu orði áður í tengslum við pólitík (hér á bloggs-síðunni), en þar sem ég hef gaman af endurtekningu og þráhyggju, þá finnst mér alveg tímabært að leita skýringa á þessu furðulega orði, óheppilegt. Snæbjörn – hefurðu einhverja skoðun á því?