30. september 2017 (aukafærsla)

Eitt það alleiðinlegasta sem mannskepnan stendur frammi fyrir er að ryksuga. En hún neyðist til þess. Það verður stundum að soga upp rykið af gólfunum og teppunum, t.d. á þriggja eða fjögurra vikna fresti, hið minnsta. It can´t be helped. Og þetta þurfti ég að gera í morgun (vegna þess að það voru nokkrar vikur liðnar frá því síðast). En eins og með svo margt annað hér á „síðunni“ stóð upphaflega ekki til að gera ryksog að umtalsefni, alls ekki. Eina ástæðan fyrir þessu uppátæki (að tala um jafn hversdagslegan hlut og að ryksuga) er sú að í hvert skipti sem ég ryksuga (hvort sem það er í vesturbænum – sem verður væntanlega ekki oftar – eða austurbænum, nú eða upp í sveit), þá rifjast upp fyrir mér eitt ákveðið ljóð úr síðustu bók Dags Sigurðarsonar, Kella er ekkert skyld þeim. Og þá meina ég: í hvert skipti. Og á meðan ég fer með það í huganum (eða það sem ég man úr því) er eins og ég gleymi því að ég sé að ryksuga – svona getur ljóðlistin nýst manni; hvílíkt notagildi sem hún hefur í lífi manns. En hey, let´s boogie, eins og Rob Reiner sagði. Hérna er ljóðið

GOTT FORDÆMI

 

Óvenjulegur húsfreyr í gamla vesturbænum

nennir ekki að beygja sig

eftir smápeníngum

þegar hann ryksugar

 

Svona gerir Dagur

hugsar hann meðan skrýmslið gleypir þá

 

Samt hefur slíkt ekki sést til mín