„Ég þekki að minnsta kosti sjö – nei, átta, hugsanlega níu – einstaklinga sem munu herðast í stuðningi sínum við Sjálfstæðisflokkinn, nú þegar sýslumaður hefur sett lögbann á umfjöllun Stundarinnar, Reykjavík Media og Guardian (Guardian?!!!) um fjármálaóreiðu starfandi forsætisráðherra (fyrrv. fjármálaráðherra!???). Ég veit að „ég“ er ekki „margir“, en mér reiknast samt til að það megi margfalda töluna sjö til níu með einhverri mun hærri tölu, svo hárri að fylgi Sjálfstæðisflokksins mun stóraukast frá því sem var (í síðustu könnun) – það mun enda í að minnsta kosti 29 til 33% þegar talið verður upp úr kjörkössunum.“
„Hún er ekki að aukast, bjartsýnin, frá því síðast.“
„Nei, enda var þá ekki búið að segja frá þessu með lögbannið. Svona hlutir vinna alltaf með þeim sem „verða fyrir þeim“ (í skilningnum „setja lögbannið á“). Birgir Ármannsson og B. Níelsson eiga eftir að stórgræða á þessu. Líka Guðlaugur Þór (starfandi utanríkisráðherra), sérstaklega ef hann bætir aðeins í þjáningarsvipinn sem honum hefur tekist að koma sér upp á síðustu árum.“
„Þannig að Valhallarfálkinn er ekkert að lækka flugið?“
„Síður en svo. Við sjáum ekki lengur í hann, svo hátt er hann floginn.“
„Er þá ekki bara kominn tími á Bud Powell?“
„Ég held það.“