Það verður að segjast eins og er að valið á tónskáldi desembermánaðar heppnaðist afar vel. Þá á ég við Milton Babbitt, ekki Joan Cabanilles (þótt valið á Babbitt varpi engum skugga á Cabanilles, sem ekki varð tónskáld mánaðarins mjög lengi, ekki nema í klukkustund eða svo). Mér er skapi næst að tala um þetta sem eins konar success. Á þeim sólarhring sem er liðinn frá því ég sendi tóndæmið með Milton Babbitt út á síðunni hefur enginn séð ástæðu til að kvarta – engin athugasemd hefur borist (ekki einu sinni frá þeim sem upphaflega kvartaði yfir Cabanilles, og fékk í gegn að Babbitt yrði fyrir valinu í staðinn). Við vitum öll að þögn er sama og samþykki, og allt það; en ég held að það liggi eitthvað meira að baki þessu – að ánægjan með Milton Babbitt sé dýpri en svo að hún verði einungis staðfest með þögninni. Mér finnst ég heyra (í gegnum þögnina) raddirnar sem lýsa yfir ánægju sinni – ánægjuraddirnar. Sem þó eru alls ekki svo háværar að þær yfirgnæfi tónlist Babbitts. Og þess vegna ætla ég að taka til annað dæmi úr smiðju hins bandaríska tónskálds, nokkuð lengra en hið fyrra, því fólk ætti ef til vill að hafa meiri tíma í dag, á laugardegi, heldur en til dæmis í gær, á föstudegi, þótt ég geri mér grein fyrir því að margir séu á fullu í jólaundirbúningi þessa stundina, og hafi kannski ekki nokkurn tíma, eða einbeitingu, fyrir annað verk af lengri gerðinni (sem þó er ekki mjög langt, ekki nema tæpar níu mínútur). Að þessu sinni munum við hlýða á Tónsmíð fyrir 12 hljóðfæri, sem Babbitt lauk við að semja árið 1948.