Enn og aftur fer ég í huganum til laugardagsins sem var. Var tilraun hins óþekkta bílstjóra til að koma mér út af veginum ef til vill þaulúthugsuð? Hafði hann komist á snoðir um ferðir mínar – ferðir mínar og Vasilys (þetta held ég að hljóti að vera áhrif frá Pnín-lestri augnabliksins – ég er ekki viss um að Basil sætti sig við breytta mynd af nafni sínu) – og að hann, bílstjórinn, hafi vísvitandi beðið eftir okkur við veginn? Fannst honum nóg að ég hefði ekið gegnum Reykholtssveit – að ég hefði enga ástæðu til að fara lengra en það? Mig undrar hversu mikið fólk leggur á sig til að ná markmiði sínu. Í þessu tilviki hefði viðkomandi kallað það sama yfir sjálfan sig og hann ætlaði mér – hann eða hún hefði ekki farið lengra í sínu eigin lífi, hvorki aftur í gegnum Reykholt eða lengra í burtu frá Reykholti. En það er augljóst að hann eða hún (einhvern veginn held ég að þetta hljóti að hafa verið hann) hefur talið að lengra væri ekki ástæða til að fara. Ég kom hins vegar í veg fyrir að planið gengi eftir. En hugsanlega sat þessi „aðili“ fyrir einhverjum öðrum þegar við Vasily vorum horfnir úr augsýn, þótt líklega væri ég nú þegar búinn að heyra um það í fréttum.
Ég hefi annars ákveðið að hengja upp nokkrar myndir. En verð samt fyrst að taka fram að nú hefur Joan Cabanilles ýtt Milton Babbitt út af borðinu sem tónskáldi desembermánaðar; það gerðist í gær (þótt ekki fyndist tími til að greina frá því þá) – og ég er alveg viss um að það hljóti að fara vel saman að hlusta á tilbrigði Cabanilles við Fólíuna, og horfa á myndirnar um leið (gott ef tónlistin er ekki sérstaklega samin við þessar myndir). Hér er tónlistin:
Og hérna eru myndirnar. Fyrst er Tungl og krani, svo kemur Hús og bílar, og að lokum Strik á himni.