Dýrin í skóginum geta aldrei öll orðið vinir. Það hef ég séð í augum hins bengalblandaða Vasily, þegar hann horfir á eftir spörfuglinum eða músarrindlinum, og ræður ekki við sig. Ég myndi aldrei treysta dýrinu fyrir að láta fuglinn í friði – en þegar Basil er í sveitinni, þá er hann með ól um hálsinn, og úr ólinni hangir bjalla; svo er hann líka mest innandyra, þar sem fuglarnir eru ekki. Þegar ég las eftirfarandi orð Símons Vestarr í Kjarnanum áðan, þá spurði ég sjálfan mig hvort ekki væri ráð að láta ákveðna stjórnmálamenn hafa eitthvað um hálsinn á sér.
„Að kalla Bjarna Ben drullusokk er ómálefnalegt og óhjálplegt. Að kalla hann Panamaprins er kannski líka óþarfi. En að kalla hann spilltan? Það er ósköp einfaldlega sannleikur sem allir landsmenn eiga rétt á að fá að vita. Máltækið segir: oft má satt kyrrt liggja. En það á ekki við um heilindi stjórnmálamanna. Og hér komum við að lýðræðislegum þroska íslensku þjóðarinnar.
Bak við heiftina í íslenskri stjórnmálaumræðu er raunveruleg neyð fólks sem samfélag okkar hefur brugðist. Við strokum þá neyð ekki út með því að láta Katrínu vera kurteisa við Bjarna eða með því að festa upp platta sem á stendur: „Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir.“ Raunveruleg samræðustjórnmál byggjast á gagnkvæmu trausti og Sjálfstæðisflokkurinn er ekki traustsins verður.“
(S. V., Kjarnanum, 14. des.)
En hér (á eftir myndinni úr Valhöll, Háaleitisbraut) kemur músík dagsins: La Mourisque eftir Tylman Susato – ég eignaðist þetta nýlega á disk, í þessum sama flutningi Davids Munrow og félaga í The Early Music Consort of London, og þetta vill ekki fara af fóninum.
En nú að gærdeginum. Mig grunar nefnilega að það sé að fæðast sería (hugsanlega jólasería – það á eftir að koma í ljós). Ég fór á pósthúsið í gær (til að senda henni Olgu bók; hún býr í London), og í sömu ferð fór ég í fiskbúðina – allt þetta fótgangandi (bara svo það sé á hreinu); og hvað færði þessi ferð mér annað en gleðina yfir að hafa sent pakkann, og hinn ferska þorskhnakka? Hún færði mér strik á himni. Auðvitað flaug að mér að segja prik á himni – hverjum hefði ekki dottið það í hug? – en ég hélt aftur af mér. Í bakaleiðinni úr fiskbúðinni tók ég mynd af tveimur strikum á himni. Fyrra strikið birtist mér fyrir tilviljun, þegar ég var að taka mynd af Apótekinu og Bleksmiðjunni við Gullteig; seinna strikið varð á vegi mínum vegna þess að ég var að skima eftir fleiri strikum á himni. Ég var staddur á brúnni, þaðan sem ég tók líka mynd af Esjunni – kannski birti ég þá mynd síðar; hér er hvorki staður né stund fyrir hana.