20. desember 2017

Tónskáld desembermánaðar, Milton Babbitt, hefur svolítið gleymst núna í amstri daganna. Það hefur fallið milli skips og bryggju, ef maður kýs að orða það svo. Í gær hitti ég Þ og A á Loftinu í Bankastræti, og allan þann tíma sem ég sat með þeim var ekki minnst einu einasta orði á Milton. Bara eins og hann hefði aldrei verið til. Ég verð reyndar að játa að Joan Cabanilles, tónskáldið sem ég valdi upphaflega sem tónskáld mánaðarins, en vék svo til hliðar til að rýma fyrir Milton Babbitt – hann, það er að segja Joan Cabanilles, hefur á síðustu dögum hljómað oftar en Milton Babbitt þar sem ég hef verið staddur, svolítið í bland við Endurreisnardansana í flutningi Davids Munrow og félaga í The Early Music Consort of London-hópnum, og Oh Baby með LCD Soundsystem. Síðarnefnda laginu hef ég áður deilt hér á síðunni, og ef ég man rétt (sem ég veit að ég geri), þá fékk David Munrow og The Early Music Consort of London-hópurinn líka sitt pláss á síðunni. En hey (eins og Rob Reiner orðaði það), hér er hið geysifallega verk Babbitts:

Í gær, stuttu eftir að ég myndskreytti nokkrar línur úr ljóðabókinni Öfugsnáða, fékk ég póst þess efnis að það væri kominn ritdómur um bókina. Hann birtist á Bókmenntavef Borgarbókasafnsins. Fyrir utan að gleðjast yfir því að fá umsögn um bók, þá gladdist ég mjög mikið yfir því að í umsögninni væri minnst á ljóðið um þykku teppin og pípulagnirnar. Rétt eins og ekki var einu einasta orði vikið að Milton Babbitt á Loftinu í gær, þá hafði ég aldrei heyrt nokkra manneskju tala um þetta tiltekna ljóð í Öfugsnáða – ég segi ekki að mikil umræða hafi átt sér stað um bókina, ekkert málþing eða svoleiðis; en þetta er samt sem áður það sem mér datt í hug að segja: að ég hefði „aldrei heyrt nokkra manneskju tala um þetta tiltekna ljóð“ osfrv. Hér er slóðin á dóm Úlfhildar Dagsdóttur:

https://bokmenntaborgin.is/umfjollun/ofugsnadi

Nú þegar ég opnaði fyrir útvarpið, klukkan átta, til að heyra morgunfréttirnar, heyrði ég lesna auglýsingu um „jólagjöf iðnaðarmannsins“. Og sem ég hélt utan um tölvumúsina með hægri hendinni, og teygði mig í kaffibollann með þeirri vinstri, fannst mér eins og verið væri að auglýsa bókina mína í útvarpinu, að það væri hún sem væri „jólagjöf iðnaðarmannsins“. Líklega gerðist þetta vegna þess að ég var með hugann við ljóðið um pípulagnirnar.