„Einar Örn notaði tímann til að lesa.“ En ekki allan tímann. Það er óþarfi að nefna það, en auðvitað minnir þetta á brandarann um starfsmanninn á trésmíðaverkstæðinu sem tjáði verkstjóra sínum að hann myndi ekki láta klippa allt hárið á sér þegar hann færi til rakarans í hádeginu, einmitt vegna þess að hárið óx ekki allt í vinnutímanum, þeim stutta tíma sem hann hafði starfað á verkstæðinu, sem var ekki nema frá því klukkan átta um morguninn. Ég veit ósköp vel að þetta er eini brandarinn sem ég kann (og hef þess vegna sagt hann oftar en aðra brandara – sem ég kann ekki); og ég veit líka að ég er ekki að segja hann í heild sinni, enda er þetta brandari með „double punchline“, eins og það er kallað – ég er í raun ekki að segja hann, heldur bara að segja frá honum (sem maður ætti aldrei að gera þegar kemur að bröndurunum – slíkt jafngildir því að „kryfja froskinn“, eins og þeir segja á auglýsingastofunum); en það sem ég tel mig líka vita í tengslum við þennan „klassíska“ brandara (sem kemur úr Íslenskri fyndni), er að hann er einhver „heimspekilegasti“ brandari sem ég veit um. Og nú er reyndar komið að atriði sem „fellir“ þessa síðustu fullyrðingu mína, nefnilega því að ég veit ekki hvers vegna brandarinn er heimspekilegur. Og þar sem ég hef ekki til ráðstöfunar neitt sérstaklega meiri tíma en Einar Örn (eða hver sem er á okkar aldri), þá ætla ég ekki að nota þann takmarkaða tíma sem ég þó hef, til að reyna að útskýra eitthvað sem ég veit að yrði mér ofviða. Ég ætla því að loka þessari síðbúnu föstudagsfærslu hér á „Frændanum“ með svolitlu tóndæmi af alheimsnetinu (og um leið að fresta því enn eina ferðina að spila Maríu Dolores Pradera, eins og ég hefi margsinnis lofað). Og hvað skyldi það verða, þetta tóndæmi? Ég „notaði tímann“ í hádeginu í dag til að hlusta á Louis Armstrong spila og syngja lög eftir W.C. Handy, en það er ekki sú músík sem verður fyrir vali „frændans“ núna, heldur … Og nú get ég bara ekki ákveðið mig. Ég myndi helst vilja spila einhverja músík sem færi vel undir viðtalinu við Petrov og Boshirov, þar sem þeir lýsa heimsókn sinni (á Russia Today) til Salisbury, en mig eiginlega skortir hugmyndaflug til að vita hver sú músík ætti að vera, þannig að ég held ég setji bara á fóninn lag sem hæglega gæti orðið leiðarvísir inn í helgina framundan, hvort sem fólk hyggur á ferð út fyrir borgina, eða tekur þann pólinn í hæðina að dvelja í borginni. Ladies and gentlemen, hér er Johnny Winter, hinn ljóshærði, að syngja um nafna sinn: