Hannes Hólmsteinn Gissurarson er ekki frændi minn. Og heldur ekki frændinn í yfirskrift þessa bloggs. Hann er „úrilli frændinn í barnaherberginu sem situr úti í horni og afneitar tungllendingunni …“ (Sif Sigmarsdóttir, Fbl. 29. september 2018) Eins og frændinn í færslu gærdagsins hér á Frændanum situr Hannes Hólmsteinn úti í horni, en ekki í stofunni heldur barnaherberginu; og þeir hafast svo sannarlega ólíkt að, Hannes og frændinn á Frændanum: á meðan frændinn í færslu gærdagsins hlustar á Borodin og lygnir aftur augum (og nælir sér í Ópal úr jakkavasanum), kennir Hannes Hólmsteinn útlendingum um það sem illa fer á Íslandi (ef ég skil Sif Sigmarsdóttur rétt); hann „kvartar yfir að það sé ekki nógu mikill sykur á pönnukökunum“, og hann úthúðar Samfylkingunni á latínu: „Carthago delenda est.“ Ég er sjálfur ekki sleipur í latínu, en þarna er Hannes víst að segja Samfylkingunni til syndanna. Og alveg ástæða til að nota latínu í þeim tilgangi, því ekki virðist Samfylkingin skilja íslensku. Þetta þýðir víst „Niður með Samfylkinguna“, segir Sif. En hvað um það. Ég sit sjálfur úti í horni minnar stofu (reyndar skrifstofu) á þessum laugardegi í lok september, og endurtek með sjálfum mér þau orð sem ég lét falla í fyrradag, að það sé löngu kominn tími til að einhver semji leikrit um Hannes Hólmstein Gissurarson. Fjármálaráðherra, sá sem pantaði af Hannesi skýrsluna um Hrunið og Davíð Oddsson, myndi alveg rúmast fyrir í því leikriti líka. Ég veit að einhver á eftir að koma með þá hugmynd að sjálfur Davíð Oddsson taki að sér að skrifa leikritið, því hann sé skáld og rithöfundur og allt það, meira að segja ritstjóri (þannig að hann gæti líka ritstýrt leikritaskrifunum), en ég held að menntamálaráðuneytið ætti frekar að leita út fyrir landsteinana til að finna rétta leikskáldið. Helst til Englands.