Grunsamlega lítið heyrist frá álitsgjafanum Brynjari Níelssyni þessa dagana, nú þegar gósentíð ríkir fyrir álitsgjafa, með dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra og allt það – og auðvitað forsætisráðherra sem ber ábyrgð á ráðherrunum sem ég nefndi á undan honum. Ég hef því sjálfur ákveðið að gefa álit, ég sem aldrei geri svoleiðis. En áður en ég læt vaða ætla ég að birta svör sem mér bárust við spurningum mínum í getrauninni sem ég hafði um daginn, sem snerist um það hver hefði skrifað orðin um þorpið, og úr hvaða bók þessi texti kæmi. Fyrir þá sem muna ekki neitt ætla ég að endurbirta brotið úr bókinni (sem ég vil ítreka að er gefin út af Everyman´s Library í Ameríku):
It is an unlikely town, huddled, quiet, pretending to be asleep. Its streets are narrow, not quite self-evident as streets and with meetings which seem accidental. Small shops look closed but are open.
Nú. Og hver voru svörin? Vegna þess að þau voru öll röng mun ég ekki nefna nöfn þeirra sem giskuðu; ég vil ekki gera þeim það til minnkunar, og heldur ekki vegna þess að ég vil síður eiga það á hættu að þeir hunsi algerlega næstu getraun mína – ef það verður þá önnur getraun, því það er ekki laust við að ég sé pínu hvekktur yfir því hversu þátttakan í getrauninni um daginn var slök. En fyrsta svarið sem mér barst var þetta: Sherwood Anderson, Winesburg, Ohio. Svar númer tvö: Laurie Lee (sá sem mér er sagt að eigi orðin um að rassinn sé andlit konunnar – sem ég á samt bágt með að trúa), Cider with Rosie. Og þriðja og síðasta svarið: Fjodor Dostójevskí – engin sérstök bók tilgreind. Þetta er allt kolrangt. Eins rangt og það getur orðið. En takk fyrir svörin. Nú ímynda ég mér að einhver hugsi sem svo að með því að vera að rifja upp einhverja getraun sem allir voru búnir að gleyma (og jafnvel ég sjálfur, sá sem bjó hana til) sé ég að humma fram af mér að koma með álitið sem ég lofaði að gefa, það sem mér fannst að Brynjar Níelsson ætti að vera búinn að gefa okkur nú þegar; og nú verð ég líka að játa að þetta er einmitt það sem vakti fyrir mér. Ég ákvað að draga þessa gömlu getraun mína upp úr kistu gleymskunnar í þeim eina tilgangi að fría mig undan því að gefa álit. Ég hef ekkert að gefa í þá veru. En þar fyrir utan felst líka ákveðið álit í því að nefna starfsheiti ráðherranna þriggja sem ég nefndi. Ég held ég láti bara nægja hafa mynd. Og nú veit ég að einhver dæsir og hugsar með sjálfum sér að ég hafi oft áður birt þessa mynd. En aldrei er góð mynd of oft birt. Það er allt of oft sem hún er ekki birt: