Ég þekki fólk sem kaus Vinstri græna í síðustu alþingiskosningum. Þegar ég nefndi þessa staðreynd við frænda, þar sem hann var nýsestur í stólinn í stofuhorninu, fannst mér hann horfa á mig eins og Hector Salamanca, frændi Tucos Salamanca í Breaking Bad-seríunni (og Better Call Saul). Ég er auðvitað að ýkja; ég á heldur ekki við að svipurinn hafi verið eitthvað í líkingu við það þegar Hector var með plasttúburnar í nefinu, og lá eitthvað mjög mikið á hjarta án þess að geta komið því frá sér. Frændi er ekki þannig. Eflaust langaði hann til að segja eitthvað við mig, þegar ég nefndi þetta með kjósendur Vinstri grænna; en hann hafði vit á því að þegja. En varðandi þarsíðustu færslu mína, þá hafði ég ætlað mér að segja eitthvað um Halldór og Pujec – ég mundi líka eftir því að ég hafði gleymt að gera grein fyrir endanlegri niðurstöðu bókmenntagetraunarinnar (hinnar írsku) – ég mundi eftir því vegna þess að ég er að lesa svo skemmtilega írska bók í augnablikinu, norður-írska – en allt þetta verður að bíða um stund. Ég get ekki leyft mér að sinna frænda lengur að sinni, nú þegar klukkan er rétt gengin í tíu, og himinninn yfir Bláflöllum er orðinn á litinn eins og ljósið í salnum á efstu hæð Grand-hótelsins (í sjónlínunni við Bláfjöll).