Guðrún Elsa Bragadóttir fjallaði nýlega um fyrstu bók Braga Ólafssonar, Hvíldardaga, á bloggsíðunni Druslubækur og doðrantar sem er vistuð á vefsvæði Miðjunnar. Guðrún Elsa hafði ekki lesið aðrar bækur eftir Braga en séð leikritið Hænuungana. Eftir lesturinn er hún nokkuð viss um að eiga eftir að lesa fleiri bækur eftir höfundinn.
Grípum niður í umfjöllunina þar sem hún fjallar um aðalsögupersónuna:
„Lesandi fær að sjá í honum alla þessa smávægilegu og hlægilegu galla sem ég held að allir hafi upp að vissu marki, en eru svo fáránlegir að við viljum ekki að aðrir komist að því að við höfum þá. Hann hugsar til dæmis óþarflega mikið um það hvað aðrir séu að hugsa, eyðir töluverðum tíma í langa og ítarlega dagdrauma um það hvernig það væri að þekkja fólk sem hann þekkir ekki og hann á erfitt með að taka einfaldar ákvarðanir. Hann segir meinlausar lygar til að komast hjá því að hitta fjölskyldu sína og eyðir mikilli orku í það að komast hjá því að gera hluti, en endar auðvitað á því að eyða meiri tíma og orku í undanbrögð og fresti heldur en það hefði tekið að gera hlutinn bara strax. En það eru þessi smávægilegu, hlægilegu atriði sem eru uppistaðan í aðalsögupersónu og í raun meginefni bókarinnar. Og maður hlær og engist um til skiptis.”