30. ágúst 2017

Wednesday Night Prayer Meeting. Ég var að hugsa um að hafa þessa færslu bara það: lag Charles Mingus með þeim titli, bæði vegna þess að nú er miðvikudagur, og ég er að lesa svo skemmtilega og fræðandi bók um Mingus (Better git it in your soul, an interpretive biography of C. M., eftir Krin Gabbard), þar sem meðal annars er sagt frá miðvikudagskvöldsmessunum sem drengurinn Charles var dreginn á í Watts-hverfinu í Los Angeles („that dark church where everyone was screaming“); en svo þegar ég fletti upp á youtube, þá datt ég niður á svo frábæra upptöku með einni af fínustu hljómsveitum Mingusar, sextettinum með Eric Dolphy og Jaki Byard, að mér fannst ég verða að hafa það í staðinn. Þetta er upptaka frá Noregi, frá 1964; þeir eru að spila Take the A Train eftir Billy Strayhorn. Kannski hefur fólk ekki tíma til að hlusta til enda, en ég myndi láta mig hafa það í sirka sjö og hálfa mínútu; það er svo gaman að fylgjast með hljómsveitarstjóranum bregða sér frá, á sirka 5,44 mínútu, á meðan Eric Dolphy fær að vera einn með bassaklarinettunni. Og á meðan Eric Dolphy er einn með bassaklarinettunni, þá er engin hætta á ferðum …

29. ágúst 2017

Í Fréttablaðinu um síðustu helgi var tveggja síðna umfjöllun um minnkandi bókalestur á Íslandi. Ég var úti á landi um helgina, og sá því ekki blaðið fyrr en í gær, á mánudegi, sem hlýtur þá að merkja að ég hafi ekki skoðað blaðið í tölvunni, eins og maður gerir stundum – kannski var ég bara upptekinn við að lesa bók í sveitinni? Umfjöllunin í blaðinu var fín – held ég – þar var rætt við nokkra íslenska höfunda, og fleira fólk sem tengist bókaútgáfu; en blaðamennirnir, sem voru tvær ungar konur, hefðu samt mátt biðja einn af viðmælendum sínum um að skýra mál sitt aðeins betur, fannst mér. Stefán Máni, höfundur Svarts galdurs og fleiri bóka, sagði meðal annars þetta:

„Almenningur hefur smám saman orðið afhuga íslenskum bókmenntum. … Það eru vissulega margir sem lesa en ekki endilega íslenskar bækur. Að mínu mati er snobbið að drepa íslenska menningu, þá helst bókmenntir og kvikmyndir. Frá því að Laxness fékk Nóbelinn hafa íslenskir höfundar upp til hópa skrifað bækur í þeim tilgangi að fá hól og verðlaun hjá einhverri elítu í stað þess að skrifa fyrir almenning, að föndra við stíl í stað þess að segja sögur.“

Þetta hljómar svolítið eins og Guðbergur Bergsson að fjölyrða um íslenska rithöfunda og listamenn („Listamaðurinn verður að …“ osfrv.; „Rithöfundurinn býr í kjallara …“ ogsfrv.), þótt líklega tæki Guðbergur ekki undir allt þetta sem Stefán Máni segir. En hvort sem þetta hljómar í anda Guðbergs eða einhvers annars, þá hlýtur maður að spyrja sig: Hvaða bull er þetta eiginlega? Hvað er Stefán Máni að meina? „Snobbið að drepa íslenska menningu“? „… að föndra við stíl“? Stefán Máni heldur áfram:

„Ef bækur eru ekki skrifaðar fyrir fólkið í landinu, fyrir hvern þá? Berum virðingu fyrir almenningi – hann borgar launin okkar. Og berum virðingu fyrir þeim listamönnum sem skapa fyrir fólkið í landinu. Þannig verður menning til – þannig snúum við blaðinu við.“

Þarna verður reyndar ekki vart við Guðberg Bergsson, kannski frekar einhver prest, líklega prest sem er nýbyrjaður í starfi. „Berum virðingu fyrir almenningi …“? Ég er litlu nær, en ég ímynda mér að Stefán eigi við það að ákveðnir rithöfundar sýni almenningi óvirðingu með því að „föndra við stíl“, og þar með gleymi þeir að segja sögu (sem almenningur hefur borgað rithöfundinum fyrir að gera – borgað honum fyrirfram). Og mjög líklegt er einnig að Stefán sé á þeirri skoðun að snobbið, sem er að murka lífið úr íslenskri menningu (þá helst bókmenntum og kvikmyndum), sé helst að finna í föndri höfunda við stíl. Kannski lögðu blaðamennirnir tveir ekki upp með að vera gagnrýnir á orð viðmælenda sinna þegar þeir söfnuðu saman í greinina, en mér finnst samt einhvern veginn að þeir hefðu átt að spyrja Stefán Mána: „Hvað áttu við með að snobb sé að drepa íslenska menningu? Er íslensk menning í dauðateygjunum, af völdum snobbs? Og hvað áttu við með orðinu snobb?“ Og kannski hefðu þeir líka átt að biðja höfund Svarts galdurs um að segja sér fyrir hverja hann álíti að íslenskir „föndurhöfundar“ séu að skrifa, fyrst þeir eru ekki að skrifa fyrir (íslenskan) almenning. Líklega er það ósanngjarnt af mér að setja bara spurningarmerki við það sem Stefán Máni segir í Fréttablaðsgreininni, en ekki það sem t.d. Auður Ava Ólafsdóttir segir, eða Katrín Jakobsdóttir; en málið er bara það – og kannski er það hrein og bein vænisýki – að mér líður svolítið eins og ég hljóti að vera einn af „föndurhöfundum“ Stefáns Mána; að ég beri ekki virðingu fyrir íslenskum almenningi, sé bara að dunda mér við að föndra í vinnunni – að ég skuldi jafnvel íslenskum almenningi peninga sem hann hefur borgað mér fyrir að skrifa fyrir sig sögu. En ég er sjálfur íslenskur almenningur. Og kannski liggur sönnun þess (að ég sé ísl. almenningur) í því að ég hef sjálfur sest niður með bók eftir Stefán Mána, með það fyrir augum að lesa hana. Til dæmis opnaði ég Svartan galdur, og þegar ég var kominn á blaðsíðu 16, þá gat ég ekki varist þeirri hugsun að á þeirri síðu (og yfir á bls. 17) væri að finna texta sem svolítið hafði verið „föndrað“ við. Á einni blaðsíðu í Svörtum galdri Stefáns Mána – og ég ítreka: á einni síðu – er að finna allt þetta:

„Hennar [augu] eru stór og brún, hlý eins og síðkvöld á Spáni. … Í höfðinu á honum þyrlast orð og setningar í hringi, eins og skrælnuð laufblöð í húsasundi. … sólin kemur seint upp, apríkósugul, og sest snemma, dökk eins og blóðappelsína. … Skammdegið leggst hægt og rólega yfir, eins og nótt allra nótta. … Það er ljósið sem býr til skuggann. … Haustið er hægur dauði, þunglyndi náttúrunnar.“

Hm.

25.ágúst 2017

Auðvitað hljómar það sem fullkomin rökleysa, og eiginlega alveg út í hött, sama hvernig á það er litið, en það er ekki hægt annað en að kenna í brjósti um brölt Valhalla-samtakanna við að finna einhvern „aðila“ sem hægt væri að dubba upp sem borgarstjóraefni. „Nýjustu“ nöfnin sem nefnd hafa verið eru Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, og Páll Magnússon þingmaður (fyrir samtökin). Ef ég væri ekki á leiðinni upp í sveit (og staddur í miðri niðurpökkun fyrir þá ferð) myndi ég reyna að stinga upp á einhverjum nöfnum sem Sjálfstæðisflokkurinn ætti að íhuga sem borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins. En ég hef bara ekki tíma. Mér dettur samt í hug Brynjar Níelsson, hressi þingmaðurinn, sá sem … (nú er ég alveg að renna út á tíma; meira síðar – sem auðvitað verður ekki, því eins og minn glöggi lesandi veit, þá (ég birti þetta óbreytt, þótt það standist ekki málfræðilega): „ef ég nefni í einni færslu að ég ætli að gera eitthvað ákveðið að umtalsefni í þeirri næstu – ef til vill vegna þess að í augnablikinu hafi ég ekki tíma til þess, eða þurfi að láta eitthvað annað meira aðkallandi ganga fyrir – verður yfirleitt ekkert úr því að ég nefni það sem ég frestaði, en lofaði að nefna næst.“ En fyrst ég er að kenna í brjósti um Valhalla Party, þá finnst mér eins og ég eigi að birta mynd hérna með færslunni, svo að hann (Flokkurinn) geti huggað sig við hana (myndina) – inntak hennar; efni og merkingu – á meðan ekki finnst nothæft borgarstjóraefni til að ýta fram í kosningum komandi árs:

23. ágúst 2017

Í þessum færslum mínum hef ég rekið mig á að ef ég nefni í einni færslu að ég ætli að gera eitthvað ákveðið að umtalsefni í þeirri næstu – ef til vill vegna þess að í augnablikinu hafi ég ekki tíma til þess, eða þurfi að láta eitthvað annað meira aðkallandi ganga fyrir – verður yfirleitt ekkert úr því að ég nefni það sem ég frestaði, en lofaði að nefna næst. Til dæmis nefndi ég í fyrradag, ef ég man rétt, að ég ætlaði að tala um Myndljóðasýningu Óskars Árna Óskarssonar í Borgarbókasafninu, en enn hefur ekkert orðið af því (nema þá í þessu formi hér: að láta þess getið að ég hafi ekki talað um sýninguna). Að vísu er Myndljóðasýningin þess eðlis að líklega er óþarfi að hafa mörg orð um hana, önnur en þau að hún er til staðar. Myndljóðin skýra sig sjálf. Ég hlustaði á Óskar „lesa upp“ úr þeim um daginn, á opnun sýningarinnar, og þá kom á daginn að þessi ljóð, sem ort eru á Silver Reed ritvél, og byggja á táknum lyklaborðs vélarinnar, gera sig jafnvel betur í upplestri en önnur ljóð sem ekki er hægt að kalla myndljóð í sama skilningi og Silver Reed-ljóðin. Og nú, þegar lítur út fyrir að umræðan um hinn horfna sjómann á Skúlagötunni sé búin í bili, þá er óhætt að mæla með sýningu Óskars í Grófinni. Eins og glöggir lesendur muna eftir, þá nefndi ég líka í fyrradag að ég ætlaði að tala um Söngvarann í Ríkissjónvarpinu á Menningarnótt, en glöggir lesendur vita líka að „ef ég nefni í einni færslu að ég ætli að gera eitthvað ákveðið að umtalsefni í þeirri næstu – ef til vill vegna þess að í augnablikinu hafi ég ekki tíma til þess, eða þurfi að láta eitthvað annað meira aðkallandi ganga fyrir – verður yfirleitt ekkert úr því að ég nefni það sem ég frestaði, en lofaði að nefna næst.“ Þannig að. Og nú er komið í ljós að stuðningur landsmanna við ríkisstjórn Íslands mælist 27,2%. Mér sýnist að eina haldreipi þessarar stjórnar sé (séu?) einkunnarorð menntamálaráðherra hennar (sem þannig séð eru það eina sem hann hefur fram að færa í sínu embætti): „að vona hið besta“. Mér sýnist líka að í stöðunni sé ekki um neitt annað að ræða en að enda þetta á tóndæmi. Fyrir valinu verður eftirlætismúsík aðstoðarmanns míns, Basils hins fjórfætta (að minnsta kosti þegar sólin skín; hann er meira fyrir Anton Webern þegar sólin skín ekki):

22. ágúst 2017

Á SÍÐSUMARSDÖGUM

Fyrst læt ég vera að slá grasið. Dreifi síðan glerbrotum yfir túnflötinn, til að finna þau aftur í iljum krakkanna sem skilja skóna sína eftir á gangstéttinni hinum megin við grindverkið.

Börnum þykir gaman að leika sér í háu grasi. Ég hef gaman af börnum.

(Dragsúgur, 1986)

21. ágúst 2017

Það verður ekki tekið af mannfólkinu að það er skrítið. People are strange. Það er að segja þegar upp sprettur umræða um Sjómanninn á veggnum og Hjörleif Guttormsson. Ég las einhvers staðar (á samfélagsmiðli) að Hjörleifur væri að sýna sjómönnum í landinu óvirðingu með því að vilja myndina af þeim (eða fulltrúa þeirra) burt af fallegum hvítum vegg í bænum (vegg sem nú er orðinn helmingi fallegri en hann var nokkurn tíma, eftir að sjómaðurinn fór af honum). Svo las ég líka að sjávarútvegsráðherra væri að hugsa um að láta mála þennan sama sjómann aftur á vegginn. Það er ekki bara að mannfólkið sé skrítið; sjávarútvegsráðherra er orðinn stórskrítinn líka. Nú óttast ég mest – fyrst öll þessi samúð með sjómanni á vegg er komin upp á yfirborðið – að gefið verði leyfi á fleiri myndir af ólíkum starfsstéttum á veggi bæjarins, að borgin muni fyllast af tíu metra háum myndum á útveggjum húsa, að borgarbúar nái ekki að einbeita sér að akstri – ekki einu sinni að göngu, eða hverju sem er; allra síst sínum eigin hugsunum – vegna þess að … Á Menningarnótt næsta árs verður (sé ég fyrir mér) afhjúpuð mynd af Ráðherranum á norðurvegg Stjórnarráðsins; á Degi íslenskrar tungu (sem ég man reyndar ekki hvenær er á árinu) mun blasa við okkur Rithöfundurinn (í allri sinni stærð) á vesturhlið Þjóðmenningarhússins; og ef við færum okkur út fyrir borgina (sem mig grunar að muni gerast þegar skriðan er farin af stað, og ekki verður úr nógu mörgum veggjum að spila á stór-Reykjavíkursvæðinu), þá fáum við Fangann á framhlið Litla-Hrauns. Ég er að hugsa um að bjóða Hjörleifi Guttormssyni í kaffi til að ræða málin. Við munum ekki setjast niður á Kaffi Loka á Skólavörðuholti (þar munum við aldrei fá vinnufrið fyrir Vinum Sjómannsins); við munum frekar koma okkur fyrir í horninu á Babalú við Skólavörðustíginn (látum okkur stíginn nægja, í staðinn fyrir holtið) – á Babalú má frekar vænta þess að verði að finna fólk af þeirri gerðinni sem ekki hefur samúð með Sjómanninum á veggnum. Ég ætlaði reyndar að fjalla um Söngvarann í Ríkissjónvarpinu í þessari færslu, Friðrik Dór (Dóra?), en það verður að bíða betri tíma. Ég ætlaði líka að segja frá Myndljóðasýningu Óskars Árna Óskarssonar í Borgarbókasafninu í Grófinni; en nú óttast ég að Óskar muni ekki fá neina samúð út á það að ég – andstæðingur Sjómannsins á veggnum – sé að tala vel um hann (Óskar) í sömu færslu og ég er að níða stígvélið af Sjómanninum. Þannig að ég bíð með umfjöllun mína um Myndljóðasýninguna. Ekki fara að sjá hana strax – bíðið þar til að umræðan um Sjómanninn er yfirstaðin. Það sem hins vegar vefst fyrir mér í augnablikinu er hvort ég þurfi ekki að hafa myndefni með færslu sem þessari – til að draga athyglina frá umfjöllun minni um Sjómanninn. Ég ætla að fletta upp í „myndbanka“ mínum og athuga hvað ég finn. (dok) Ég datt niður á þetta:

20. ágúst 2017

Nú líður mér svolítið eins og ég sé að skrifa í dagbók (moi – nýbúinn að lýsa því yfir að þessi bloggsíða sé ekki dagbók), en svo bar við að íbúar fjármálahverfisins í 105 lögðu leið sína í nýopnaða Mathöll á Hlemmi í gær. Við fórum í okkar fínasta púss, enda Menningarnótt í borginni (eini dagur ársins sem gengur undir nafninu Nótt), og við gengum sem leið lá niður á Hlemm. (Gott ef ég tók ekki svarta innkaupapokann minn með, ef svo færi að við keyptum eitthvað í Mathöllinni – ég hafði séð fyrir mér fullan poka af fersku grænmeti, og kannski nýveiddan hnakka af þorski líka.) Nú, svo er ekki meira með það: við gengum inn í Mathöllina, og höfðum ekki verið þar nema hálfa mínútu eða svo, þá hittum við fólk sem við þekktum. Eftir að hafa spjallað við fólkið (meðal annars um Mathöllina) hittum við fleira fólk sem við þekktum, og eftir að hafa spjallað við það fólk (ekki þó um Mathöllina – í þetta sinn var umræðuefnið bækur og bókaútgáfa), hélt áfram að dúkka upp fólk sem við þekktum – það varð eiginlega ekkert lát á þessu; við höfðum ekki nokkurt næði til að virða fyrir okkur innviði Mathallarinnar. Ég nefndi áðan að við hefðum rætt um Mathöllina við fólkið sem við hittum fyrst eftir að við komum inn; en líklega er það ekki alveg rétt, því við höfðum í raun ekki myndað okkur neina skoðun á því sem fyrir augu bar (auk þess sem við höfðum hvorki haft tíma né næði til að virða það fyrir okkur). Það vildi síðan svo til að síðustu manneskjurnar sem við töluðum við í þessari heimsókn okkar í Mathöllina voru á leið út úr Höllinni; og einhvern veginn atvikaðist það svo að við urðum þeim samferða út um dyrnar, og vorum allt í einu komin niður að Snorrabraut þegar við gerðum okkur grein fyrir að Mathöllin væri að baki, að þeirri heimsókn væri lokið. Svo héldum við áfram niður Laugaveginn, þar sem við sinntum einu litlu erindi, áður en við snerum aftur, í þetta sinn norður eftir Snorrabrautinni, og framhjá Lögreglustöðinni og Kínverska sendiráðinu. (Gaman að geta þess að við sáum einmitt lögreglustjórann í Reykjavík inni í Mathöllinni; hún var þar í fylgd annarra lögreglumanna, væntanlega að ganga úr skugga um að allt gengi vel fyrir sig. Og rétt að geta þess líka – fyrst ég nefndi Kínverska sendiráðið – að við sáum enga Kínamenn í Mathöllinni.) En eftir á að hyggja – og þrátt fyrir að við næðum ekki að horfa mikið í kringum okkur í Mathöllinni – vaknaði sú spurning í hugum okkar hvort Mathöllin væri rétta nafnið yfir þá starfsemi sem nú hafði verið ýtt úr vör í gamla strætóhúsinu við Hlemm. Svarti innkaupapokinn minn hefði ekki komið að miklum notum þar inni, jafnvel þótt við hefðum haft allan tímann í heiminum til að skoða okkur um og versla. Jú, þarna voru hinir og þessir veitingastaðir, og ísbúð og vínbar (og salernisaðstaða fyrir túristana), en ég varð ekki var við að matur væri seldur, nema þá í formi eldaðra rétta og smurbrauðs. Ekkert grænmeti. Enginn nýveiddur þorskhnakki. Bara kælt hvítvín, danskt smurbrauð af fínni gerðinni, og bjór úr glansandi nýjum dælum. Það vantaði bara þægilega tónlist, til dæmis „djass af þeirri gerðinni sem ljúft er að hafa á fóninum yfir kvöldmatnum“. Ég veit að ég var rétt í þessu að segja frá því að við hefðum gengið niður Snorrabrautina, og þaðan framhjá Lögreglustöðinni og Kínverska sendiráðinu, en það er ekki rétt: ég sagði það bara til að geta komið hér að lögreglustjóranum í Reykjavík (sem þó er alveg satt og rétt að við sáum í Mathöllinni) og Kínverska sendiráðinu (ég er með Kínverska sendiráðið á heilanum, það játast hér með). Sannleikurinn er sá að við gengum frá Laugaveginum upp í Skipholt, því í Skipholti er Bónusverslun, og þar er einmitt selt grænmeti (að vísu ekki nýveiddur þorskhnakki). En talandi um Bónus og grænmetið þar, þá hitti ég manneskju á föstudaginn sem sagði mér svolítið um grænmetið í Bónusbúðunum. Þessi manneskja þekkir aðra manneskju, og síðarnefnda manneskjan þekkir Englending sem vinnur við að selja grænmeti til annarra landa. Englendingurinn sagði síðarnefndu manneskjunni frá því að hann seldi íslenskum svínaframleiðanda grænmeti (fóður handa svínunum); þetta fyrirtæki væri með bleikt svín í lógóinu sínu … Það kom í ljós að hinn íslenski viðskiptavinur Englendingsins var Bónus, og að grænmetið sem Bónus keypti af honum var (í skilningi Englendingsins) dýrafóður. Þannig að við, íbúarnir í fjármálahverfinu, fórum í Bónus á Menningarnótt (eftir að hafa verið í Mathöllinni), til að kaupa grænmeti ætlað svínum, vegna þess að í Mathöllinni var ekki selt grænmeti, eins og við höfðum látið okkur detta í hug að væri gert, áður en við fórum þangað. En varð okkur meint af svínafóðrinu? Nei. Næstum sólarhringur er liðinn frá því við neyttum þess, og ekkert bendir til annars en að grænmetið í Bónus nýtist í manneldi líka. (Og hvað segir það okkur – um okkur sjálf?) En hefði ég ekki þegar verið búinn að kaupa mér bjór í Vínbúðinni fyrr um daginn (til að hafa á Menningarnótt – fyrir gesti, það er að segja), þá hefði ég getað fengið svoleiðis í Mathöllinni – þar flaut bjórinn út um allt; þar var meira að segja lykt af humlum í loftinu; ég fann það á meðan ég talaði við allt fólkið sem við hittum.

16. ágúst 2017

40 ár síðan Elvis dó. Og sirka jafn langt síðan David Bowie gaf út „Heroes“. Og 40 ár sömuleiðis liðin frá pönksumrinu í London. Fyrst þetta er orðin ein allsherjar tónlistarfærsla, þá er ekki úr vegi að rifja upp nokkur orð úr jazzgagnrýni Fréttablaðsins frá því í morgun: „Ef finna má að einhverju er það helst skortur á ljóðrænu. Lítið var um djass af þeirri gerðinni sem ljúft er að hafa á fóninum yfir kvöldmatnum.“ Ég hafði verið að hugsa um að láta fylgja þessari færslu tóndæmi frá Elvis eða Sex Pistols, en nú finnst mér einhvern veginn meira við hæfi að velja eitthvað sem tengist upprifjun minni á jazzgagnrýni morgunsins í Fréttablaðinu (fyrst sú upprifjun kom á eftir spjallinu um Elvis og pönksumarið 1977), eitthvað sem gæti líka nýst sem tónlist til að láta fylgja kvöldverði dagsins. Mér datt fyrst í hug John Zorn, en ákvað síðan að hafa það Albert Ayler:

15. ágúst 2017

Á dauða mínum átti ég von (og á enn) – en ekki því að við Hjörleifur Guttormsson yrðum sammála um nokkurn hlut. En nú hefur það gerst; ég las um það í Fréttablaðinu í morgun. Það vill nefnilega svo til að hið skelfilega fyrirbæri, sjómannsmyndin á vegg Sjávarútvegshússins, er horfið af veggnum, og ekki nóg með það: Hjörleifur Guttormsson, sem býr við Vatnsstíginn, rétt hjá Sjávarútvegshúsinu, fagnar því að sjómaðurinn hefur verið málaður af veggnum. Það segir í frétt blaðsins að Hjörleifur hafi verið hávær andstæðingur sjómannsins. Ég hef sjálfur verið þögull andstæðingur sjómannsins (hingað til); ég hef blótað í hljóði í hvert sinn sem sjómaðurinn á veggnum hefur lent í sjónlínu minni, rétt eins og ég hef blótað (og stundum upphátt) þegar ég horfi á myndirnar á húsaveggjunum í Vesturbænum, t.d. við Seljaveg. Þetta er alger hörmung. Þetta er versta tegund af kitsi. Ekki það að myndirnar séu ljótar í sjálfu sér, þær eru alls ekki illa gerðar (og hugurinn á bakvið þær eflaust ekki vondur heldur) en „drengurinn með tárin“ á ekki heima þar sem ekki verður hjá því komist að taka eftir honum – hann á auðvitað helst heima einhvers staðar bakvið hurð. Gott hjá þér, Hjörleifur. Kannski hefur Hjörleifur sjálfur fyrirskipað að myndin af sjómanninum yrði máluð burt, því enginn vill kannast við að hafa gert það. Ef svo er, þá endurtek ég: Gott hjá þér, Hjörleifur, maður á að taka málin í sínar hendur, ef enginn annar nennir að standa í því. Einu sinni vann ég í fiski á Neskaupstað. Það var árið 1981, og þá var Hjörleifur Guttormsson iðnaðarráðherra. Ég man eftir því einn daginn þegar hann kom akandi á gljáfægðum Mercedes Benz (væntanlega í aftursætinu) inn á bryggjusvæðið fyrir framan frystihúsið. Svo steig hann út úr bílnum. Og við fiskvinnslufólkið horfðum á hann. Þarna var hann á sínum heimavelli, í Litlu-Moskvu. Gott ef einn starfsmaðurinn í frystihúsinu var ekki kallaður Stalín (sá sem fór alltaf á klósettið kl. tólf á hádegi – alltaf á slaginu). En á Neskaupstað 1981 var engin mynd af sjómanni máluð á fimm hæða háan húsvegg. Þar var heldur ekki mikið um fimm hæða hús. Og þess vegna gat Hjörleifur horft í kringum sig án þess að láta eitthvað svoleiðis fara í taugarnar á sér. Og við í frystihúsinu gátum fylgst með Hjörleifi stíga úr Benzinum, án þess að eitthvað í umhverfinu færi í taugarnar á honum, iðnaðarráðherranum úr Alþýðubandalaginu. En kannski fór eitthvað í taugarnar á honum, eitthvað sem hann sá þegar hann steig út úr bílnum. Kannski við, starfsmennirnir í frystihúsinu? Það var þó ekki að sjá að honum mislíkaði nokkuð þegar hann steig út úr bílnum. Ég man einmitt að okkur fannst reisn yfir honum, og bara sú staðreynd að við sæjum hann í eigin persónu stíga út úr ráðherrabílnum setti aukalit á daginn, og lyfti okkur upp. Ég held meira að segja að ég hafi sagt frá þessu í dagbókinni minni sem ég hélt á þessum tíma. En nú hef ég sagt frá þessu með Hjörleif og sjómannsmyndina hér í Næsta kafla, þótt Næsti kafli sé langt frá því að geta kallast dagbók. Og ég gleðst yfir því að við Hjörleifur erum sammála um að minnsta kosti eitt í lífinu: að svona myndir á húsveggjum borgarinnar, eins og af sjómanninum, eigi frekar heima bakvið hurð (t.d. úti á landi).

4. ágúst 2017

Í fyrsta ljóði bókar sem á að koma út í haust, Öfugsnáða (ég læt þetta hljóma eins og ég hafi ekki minnst á þennan bókartitil áður), þar lýsi ég trillu sem siglir á Rauðarárvíkinni, í átt að Sólfari Jóns Gunnars Árnasonar við Sæbrautina. Þessi trilla, og sigling hennar, er ekki eitthvað sem ég fann upp á sjálfur; ég sá hana fyrr í sumar; hún kom siglandi í átt frá Laugarnesinu, og hægði síðan ferðina þegar hún nálgaðist Sólfarið, eins og til að leyfa túristunum sem þar stóðu að mynda sig með símunum sínum. Það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég virti þetta fyrir mér voru simpansarnir í dýragörðum stórborganna, þeir sem stilla sér upp við rimlana eða glerið, og gretta sig framan í fólkið sem hefur borgað sig inn í garðinn. Líklega mjög einkennilegt að fá þá mynd í hausinn við að horfa á veðurbarna trillu á kuldalegum haffleti. Mér datt líka í hug ljóð Rilkes um hlébarðann (eða Lébarðann, eins og Helgi Hálfdanarson hefur það). Þriðja hugdettan var síðan sú að festa þessa mynd af trillunni og túristunum í ljóð – að nýta þetta photo opportunity á annan hátt en að smella af, enda var ég ekki með myndavél á mér. Þannig að ég sagði frá þessu í ljóði. („So I wrote a book about it …“ eins og David Toop orðaði það í fyrirlestri sínum á Orðinu tónlist í Tjarnarbíói í kringum árið 2000.) En svo gerist það, að í gær, þegar ég hjólaði eftir Sæbrautinni í átt að miðbænum, tók ég eftir að sama trilla, sú sem ég hafði fest í ljóðinu, var á sama róli og fyrr í sumar, á nákvæmlega sama stað og hún er í ljóðinu. Hún hægði ferðina þegar hún nálgaðist Sólfarið, og dólaði sér síðan letilega fyrir framan túristana með myndavélasímana. Ég vissi ekki hvað mér átti að finnast um þetta. Allt sem gerist oftar en einu sinni á auðvitað minna erindi í ljóð en það sem gerist bara einu sinni; en svo ákvað ég með sjálfum mér að þetta væri staðfesting á því að ljóðið segði satt og rétt frá, að líkingin við simpansana í búrunum ætti rétt á sér. Skrítið orðalag, að líking „eigi rétt á sér“ … Núna er ég á einhverjum villigötum. Og þá er líka best að setja punkt. Færsla dagsins í dag átti upphaflega að fjalla um forsætisráðherra Íslands, en skynsemin varð reiðinni yfirsterkari, og þess vegna fór ég að hugsa um simpansa og lébarða. Og núna er allt í einu komin verzlunarmannahelgi.

3. ágúst 2017

Fyrir ekki svo löngu pikkaði ég inn ljóð Harrys Martinson, Sæsímaskip, og setti hér á heimasíðuna, og lét fylgja þá yfirlýsingu að þetta ljóð hefði á sínum tíma gert mig að sósíalista; það hafi síðan nýlega aftur gert mig að sósíalista, eftir að ég hætti að telja mig vera slíkan. Sé það rétt að ég sé orðinn sósíalisti aftur, þá er auðvitað líklegast að ég sé einhvers konar búbblusósíalisti, vel að merkja ekki kampavínssósíalisti (ég tími ekki að blæða í svoleiðis fínerí), heldur búbblusósíalisti – það er hægt að fá ágætis freyðivín fyrir minna en tvö þúsund krónur. En hvað sem því líður, þá langar mig núna, 3. ágúst, að pikka inn aðra þýðingu Jóns úr Vör á ljóði eftir Harry Martinson. Það ljóð er mér álíka minnisstætt og Sæsímaskip, enda eiga þessi tvö ljóð ýmislegt sameiginlegt (annað en að vera fín ljóðlist, og fallega þýdd af Jóni úr Vör). Ef ég væri ekki hættur að borða kjöt sé ég alveg fyrir mér að ég myndi fá mér búbblur með káetusúpunni sem kemur fyrir í ljóðinu hér á eftir, fyrst hún bragðast ekki betur en hún gerir. Ég sé reyndar líka fyrir mér að væri ég sveittur og sótugur, eins og sjómennirnir úti fyrir Koddhöfða, léti ég mig hafa það að slafra í mig kjötsúpunni, jafnvel þótt engar búbblur væru í boði.

 

SJÓFUGLAR

eftir Harry Martinson

 

Hugsanir okkar eru sjófuglar –

alltaf á flótta.

Á meðan við spænum kjötsúpu

í káetunni okkar úti fyrir Koddhöfða

dritar gamli vinurinn okkar sjófuglinn

á skalla Rokkalklettsins –

hins aldna vegprests í hafinu,

eða dottar eins og syfjaður lundi

með nýþvegið skyrtubrjóst

niðri við Ross-sundin,

ef hann þá ekki kurrar eins og vegmóð dúfa

í eyra Karenar, hennar Karenar minnar elskulegrar

í borgarstjóraeldhúsinu í Kjerneminde.

 

Hugsanir okkar eru sjófuglar

og ætíð fljúga þær frá okkur;

og við sitjum í káetunni hjá Koddhöfða,

sveittir og sótugir – og kjötsúpan –

ja, ef satt skal segja, þá gæti hún verið betri.

2. ágúst 2017

Þegar ég horfi af svölunum mínum (t.d. þegar ég ákveð að nú sé tími til að anda að sér hreinna lofti en því sem leikur um skrifstofuna), þá lít ég stundum í áttina til Hallgrímskirkju. Og hugsa um það sem gerist þar innandyra. Eða hugsa ekki neitt. En nú er svo komið að verið er að byggja íbúðablokk við Skúlagötuna, sunnanmegin við Fosshótelið í Þórunnartúni (stærsta hótel á landinu), og sú blokk á að vera tólf hæðir, samkvæmt upplýsingaskilti á girðingunni sem lokar af byggingarsvæðinu. Mér sýnist á öllu (meðal annars af því að bera saman þær hæðir sem þegar hafa risið í nýju byggingunni, og hæð Fosshótelsins, sem er, að mig minnir, sextán eða sautján hæðir, kannski átján) að nýja blokkin í Skúlagötunni muni á endanum taka af mér útsýnið yfir að Hallgrímskirkju. Hugsanlega mun þó spíran á henni – og krossinn ofan á – gægjast upp yfir tólftu hæðina. Það verður kannski til þess að þegar ég fer út á svalir (til að anda að mér hreina loftinu) hugsi ég frekar um hvað mögulega sé að gerast innandyra í nýju tólf hæða blokkinni í Skúlagötunni, en inni í Hallgrímskirkju. Kannski held ég bara áfram að hugsa ekki neitt. En þegar ég nefndi „tólf hæðir“ í upphafi þessarar færslu núna rétt áðan, þá grunaði mig að ég myndi freistast til að birta ljóð í lok færslunnar. Ég eiginlega vissi það. Hin raunverulega ástæða þess að ég nefndi Hallgrímskirkju og hálfu blokkina við Skúlagötuna (sem þeir segja að verði fullkláruð á næsta ári) er sú að mig langaði til að hafa lítið ljóð í færslunni. Færslan átti í upphafi bara að vera ljóð. Svo bættist hitt við, eins og í framhjáhlaupi. Ljóðið er úr bók sem kallast Fjórar línur og titill.

ÞRETTÁNDA HÆÐIN

 

Þegar ég fékk að vita að þeir ættu ekki herbergi

nema á tólftu og fjórtándu hæð,

spurði ég hvort þá þrettándu vantaði.

Nei, hótelið var ekki hærra en þetta.

23. júlí 2017 (aukafærsla)

Sem betur fer er ég þeirrar gerðar að geta viðurkennt eigin mistök. (Kannski ekki alltaf – viðurkenni það líka.) Og nú þarf ég að viðurkenna mistök af minni hálfu, mjög svo nýleg. Ég nefndi í færslunni rétt áðan að fyrrv. forseti Íslands hefði hallast í áttina að páfa – orðaði það meira að segja þannig að hann væri að detta á páfann – en það er heldur betur rangt: Ólafur Ragnar er við það að detta aftur fyrir sig (í áttina frá páfanum). Skil ekki hvernig eitthvað svona gat gerst fyrir mig, að muna ekki svona grundvallaratriði. En þá er það frá – mistökin viðurkennd.

23. júlí 2017

Ég þekki þessa tilfinningu frá því áður: maður gerir margar atrennur að því að loka ljóðahandriti; í einhver þrjátíu skipti (kannski bara tuttugu) er maður alveg viss um að heildin sé komin, en daginn eftir, jafnvel strax um kvöldið, kemur í ljós að sprunga er í heildinni – og hún lekur. Auðvitað á ljóðahandrit að leka; sprungurnar í því eru öndunin sem handritið þarf á að halda – og auðvitað er ég bara að nota þetta líkingamál til að reyna að vera smart. En einhver tilfinning er það sem segir manni að ljóðahandrit sé komið, og þurfi ekki á fleiri ljóðum að halda, eða fleiri breytingum. Og núna í dag gerðist þetta hjá mér, með handrit sem kallast Öfugsnáði. Það er langt síðan titillinn var ákveðinn, og líka langt frá því að fyrsta gerð var tilbúin – sú gerð líkist ekki mikið þeirri nýjustu – en ljóðið sem varð til í dag (helmingurinn af því undir stýri á leiðinni í Borgarfjörð) held ég að hafi skellt hurðinni á frekari breytingar (eða gerðir). Eftirlætis orðtækið á mínu heimili er „að gera breytingar“ (það kemur frá yngsta aðilanum, að vísu ekki dýrinu, „aðstoðarmanninum“, þeim sem í raun er yngsti aðilinn); en nú eru „breytingarnar“ að baki: Öfugsnáði verður eins og hann er núna. Og þá er ekkert eftir annað en að spila músík. Ég hafði verið að hugsa um að láta ljóðið frá í dag fylgja með í færslunni, en núna tími ég því ekki. Ég læt nægja að hafa titilinn: Eins konar millifyrirsögn. En hver verður músíkin? Hvað er við hæfi á skýjuðum, en mildum, sumardegi í Reykholtssveit? Á meðan ég velti því fyrir mér dettur mér í hug að hafa frekar myndskreytingu en músík (er aðallega að hugsa um myndina af fyrrv. forseta Íslands, þar sem hann dettur í áttina að páfa, á heimili páfa); en það er allt of freistandi að láta músík fylgja, fyrst maður hefur nefnt þann möguleika á annað borð. Hef ég einhvern tíma haft Juliu (beygist: Julia) Holter hér á heimasíðunni? Nei, ég held ekki. Ég hef vitnað í texta eftir hana, en aldrei haft tóndæmi. Ókei. Svo er ekki meira með það. Niðurstaðan er fengin: fyrst kemur myndin af hallandi forseta (fyrrv.), síðan Julia Holter:

 

21. júlí 2017

Fyrst ber að geta þess að eftirfarandi færsla átti að berast í gær, en vegna tæknilegs ómöguleika gat ekki orðið af því: fúnksjón (vef-eitthvað – kann ekki orðið yfir það) lá niðri. En nú er það komið í lag. Hlutirnir fara sjaldnast eins og maður ætlar. Um daginn (17. júlí) ætlaði ég að setja inn færslu um bíómyndina sem ég hafði séð daginn áður (tvisvar þann dag, svo því sé haldið til haga); en áður en ég vissi af (áður en hausinn kom nokkrum vörnum við) var ég farinn að tala um „klassík dagsins í dag á mínu heimili“ (jazzlag með Fo´tet Ralphs Peterson); og vegna þess að það verkefni var farið af stað fannst mér erfitt að hætta við (enda alveg þess virði að minnast á Fo´tet Ralphs Peterson). Bíómyndin sem ég ætlaði að segja frá er hins vegar argentísk og heitir Relatos salvajes (Wild Tales). Hún er eftir ungan leikstjóra og handritahöfund, Damián Szifron, og framleiðandi er Pedro Almodóvar. Ég veit fullvel að ég er ekki að færa einhverjar nýjar fréttir úr kvikmyndaheiminum – ég hefði fyrir löngu átt að vera búinn að sjá þessa mynd – en mér finnst stór ástæða til að segja frá henni, því mig grunar að lesandi þessarar síðu hafi ekki séð hana. Trylltar sögur (eða hvernig sem maður kýs að snara hinum lýsandi titli yfir á Old Norse) segja sex mismunandi langar sögur um hefnd. Þessar sögur, og hvernig þær eru sagðar, eru stórhættulegar (í merkingunni gagnlegar) fyrir höfund; ekki bara höfund eins og mig – mikið gæfi ég annars fyrir að vita hvers konar höfundur ég er – heldur kannski sérstaklega aðra kvikmyndahöfunda en Damián Szifron. Ég veit ég sagðist ætla að „segja frá“ þessari mynd – og var þá eflaust að hugsa um að vitna í eitthvað úr henni, eða tjá mig um efnið, osfrv. – en nú finnst mér eins og slíkt væri illa gert gagnvart lesanda síðunnar (ef hann hefur ekki þegar séð myndina). Það nægir að nefna nafn hennar; og ég treysti því að lesandinn taki mark á mér þegar ég lýsi því yfir að þetta sé bíómynd sem maður verður að sjá. Eins og í flestum smásagnasöfnum eru sögurnar misgóðar, eða misáhrifamiklar, en allar sex eru svo vel skrifaðar og útfærðar, að maður fær aldrei á tilfinninguna að einhver þeirra hefði mátt missa sín. Það var bara ein önnur bíómynd sem kom upp í hugann þegar ég horfði á þessa mynd, og það var Vofa frelsisins eftir Buñuel. Ekki bara vegna þess að þar eru sagðar nokkrar ólíkar sögur, heldur er eitthvað skylt með geggjuninni og húmornum í þessum tveimur myndum. Fimm stjörnur (sex danskar). Núna er aftur á móti komin upp sama staða og fyrir fjórum dögum, þegar ég ætlaði að segja frá Relatos salvajes, en sagði í staðinn frá Fo´tet Ralphs Peterson – ég ætlaði mér nefnilega í dag að tala um kvikmyndaáhorf gærkvöldsins. Sem var Clockwork Orange (enduráhorf). Og reyndar ætlaði ég líka að segja frá tónlistarneyslu minni í gærkvöldi, áður en ég horfði á Clockwork Orange. Ég hlustaði nefnilega á tvær hljómplötur sem ég hef ekki heyrt lengi í heild sinni: ´Heroes` og Lodger með David Bowie. Þær voru þó ekki hugsaðar sem upphitun fyrir mynd Kubricks; ástæðan fyrir því að ég setti þær á fóninn (eða í slíðrið) var sú að fyrr um daginn fékk ég í pósti bókina Low eftir rithöfund sem heitir Hugo Wilcken; bók sem eins og nafnið bendir til fjallar um plötuna Low eftir David Bowie. Líkt og með Trylltar sögur Damiáns Szifron ætla ég að halda aftur af mér með að lýsa þessum plötum öllum – það er búið að lýsa þeim nógu oft, þótt þeim sem það hafa gert hafi láðst að fjalla af sanngirni um mikilvægan þátt bassaleikarans George Murray og trommuleikarans Dennis Davis. Reyndar voru þeir tveir, George og Dennis, ásamt gítarleikaranum Carlos Alomar, teknir svolítið fyrir í annarri bók sem ég las um daginn, On Bowie eftir tónlistarskríbentinn Rob Sheffield; og mér sýnist að í bók gærdagsins, Low (sem ég er ekki byrjaður að lesa) sé sérstaklega fjallað um hversu stórt og mikið hlutverk George, Dennis og Carlos leika á þessum dásamlegu plötum Bowies. En hvert er ég eiginlega kominn? Af hverju er ég að segja frá þessu? Ég veit ég er svolítið upptekinn af tónlist áttunda áratugar síðustu aldar í augnablikinu – það hefur að gera með bókina sem ég er að skrifa (sem kemur út á næsta ári, ekki á þessu, eins og upphaflega stóð til) – en ég verð samt að stilla mig af í að fjalla um músík, því ég hef ekki hundsvit á músík. Nú finnst mér ég þurfa að endurtaka: hvar var ég staddur? Clockwork Orange. Ég treysti mér ekki að tala um þá mynd, nema að minnast á (sem ég mundi ekki eftir frá því ég sá myndina fyrir sirka 40 árum) að gæludýr hrottans Alex DeLarge heitir Basil. En Basil hans Alex er ekki köttur, eins og kötturinn sem ég þekki (og heitir einmitt Basil), heldur snákur. Nóg um það. Af því ég nefndi David Bowie hérna áðan, þá rifjast upp fyrir mér að ég hafði um daginn ætlað mér að setja hjer á síðuna (ansi margt sem ég hef ætlað að setja hér á síðuna!) lagið I took a trip on a gemini spacecraft, af plötunni Heathen, ekki bara til að koma því lagi að sérstaklega, heldur til að benda á frumútgáfu þess, með Legendary Stardust Cowboy. Auglýsingafólk talar oft um „epli og appelsínur“ – mér varð hugsað til þeirrar klisju þegar ég heyrði Legendary Stardust Cowboy flytja þetta lag sitt, sem David Bowie gerði síðan að sínu. Þetta er ansi áhugavert. Gjörið svo vel. Fyrst Legendary Stardust Cowboy:

Svo David Bowie:

 

 

17. júlí 2017

Ég veit að það er ekki liðinn mánuður, en samt. Síðast leið mánuður. Og ég var um daginn að því kominn að gefa Næsta kafla nýtt heiti: Kafli á mánuði. En núna er ég hættur við það, enda færsla dagsins afar brýn; hún þolir ekki nokkra bið; hún snýst um það að spila klassík dagsins í dag, sautjánda júlí – klassík dagsins í dag á mínu heimili, það er að segja. Klassíkin er í flutningi Ralphs Peterson, eða Fo´tets Ralphs Peterson, eins og hann kallar hljómsveitina á plötunni. Platan heitir Ralph Peterson presents the Fo´tet, en ekki spyrja mig hvað „Fo´tet“ á að þýða; ég veit það nefnilega ekki, og hef ekki tíma til að fletta því upp. Tónsmíðin kallast Urban Omen, og er eftir víbrafónleikara Fo´tetsins, Bryan Carrott. Aðrir í hljómsveitinni eru Don Byron, sem spilar á klarinett og bassaklarinett, og bassaleikarinn Melissa Slocum. Ég keypti þessa plötu í Woodstock í New York-fylki árið 1991, á meðan ég var í hljóðveri að taka upp músík með allt annarri hljómsveit, í Bearsville-hljóðverinu. (Sé Bearsville-hljóðverinu flett upp á netinu kemur í ljós að það er ekki lengur til. Sem er alger synd; ég væri alveg til í að vera í nýrri hljómsveit – samt ekki þeirri gömlu – bara til að fá að dvelja í Bearsville aftur.) Ralph Peterson og Fo´tet hans (þetta er að verða býsna þjált nafn, Fo´tet) tóku upp sína plötu sömuleiðis í New York, í A & R Recording, árið 1989. En svo er ekki meira með það – hér er Urban Omen, með Fo´tet Ralphs Peterson:

26. júní 2017

Það er alger tilviljun að kaflinn á undan kafla dagsins hafi sama númer, 26: 26. maí / 26. júní. Ég veit ég þarf ekki að taka fram að ekkert í heiminum er tilviljun; en þetta með töluna 26 var það samt: ég hafði ekki hugsað mér að láta mánuð líða milli færslna. Nú verð ég reyndar aðeins að hafa mig hægan, því sá sem hefur legið kyrr í svona langan tíma, hann á ekki að hreyfa sig mjög snöggt. Á sama hátt og manneskja sem hefur reikað um vatnslaus í eyðimörkinni í nokkra daga, hún á að fara varlega þegar hún loksins kemst í vatn; hún á bara að fá sér nokkra dropa. Ég var eitthvað að hugsa um að minnast á ljóðabókina sem á að koma út næsta haust – til að hrinda kynningarstarfinu af stað, langt á undan öllum hinum sem hyggja líka á einhvers konar kynningarstarf – en eftir nánari umhugsun (ég tala nú ekki um eftir þetta sem ég sagði um eyðimörkina og vatnið og allt það), þá hef ég ákveðið að fara hægt í sakirnar. Ég var búinn að ákveða að tala sérstaklega um eitt ljóðið í bókinni, Næturpóstana, sem ég síðan kippti út úr handritinu, eftir ábendingar um að það ljóð gæti meitt bæði mig og yrkisefnið; en það verður að bíða betri tíma. Að vísu er annað ljóð með sama titli komið inn í handritið (í þetta sinn með litlu n-i: næturpóstarnir), og þar er í einni línunni vísað til gömlu Næturpóstanna (með hástafnum), án þess þó að lesandi ókunnugur gömlu Næturpóstunum fái nokkra hugmynd um hvert inntak þeirra var – og er (því einhvern tíma verða Næturpóstarnir með háa n-inu sendir af stað – ég þarf bara að bíða eftir rétta augnablikinu). Nú finn ég hversu mikið hin snögga (og óundirbúna) hreyfing þess sem hefur setið of lengi kyrr tekur í; ég verð að passa mig á að droparnir verði ekki að heilum sopa. Ég ætla að láta aðstoðarmann minn, Basil Hallvarð, sjá um myndefnið að þessu sinni. Það er mynd af honum sjálfum:

26. maí 2017

„But now old friends are acting strange …“ Hvað er það með þetta lag Joni Mitchell, Both sides now? Ég heyrði það fyrst með Frank Sinatra, þegar ég var sirka 12 eða 13; pabbi og mamma áttu plötu með honum, sem ég spilaði á Telefunken-spilaranum í stofunni. Þetta var sem sagt kammermúsík þeirrar stofu, og þess tíma. Ég held ég hafi næst heyrt það með Joni Mitchell sjálfri, á tónleikaplötu sem ég átti með henni, Miles of aisles – mjög fín útgáfa – en svo þegar hún syngur lagið á plötunni Both sides now, árið 2000, sem hún gerði með 70 manna strengjasveit og Wayne Shorter, orðin aðeins eldri en hún var, er maður alveg varnarlaus. Og maður hugsar: hvaða önnur lög hafa svipuð áhrif og þetta lag? Kannski Moon River. Kannski Now my heart is full. Eða It´s raining today? „But now old friends are acting strange …“ Þetta er ein af þessum ógleymanlegu línum í sönglagi, í sama flokki (svo ég haldi áfram flokkuninni) og „í dögum hvarf hún inn um aðrar dyr“. Eða „Tell all of my friends / I don´t have too many …“ En nú er ég farinn. Það er að segja: minn ytri maður er á leiðinni annað. Í ferðalag. Ferðaferð, eins og söngdúettinn Kleópatra söng. Ég horfi með tilhlökkun og hryllingi til þess að vera ekki með tölvu í tæpa viku – mest þó tilhlökkun. Ég fékk fjóra fyrstu þættina af nýju Twin Peaks-seríunni í gær inn í tölvuna mína (eftir ólöglegum leiðum, en með því loforði gagnvart sjálfum mér að síðar muni ég kaupa þá), en ég náði ekki að horfa nema á tæpa tvo. Restin verður það að bíða, þangað til ég kemst aftur í tölvuna. Og minn innri sem ytri maður bíður spenntur eftir framhaldinu – framhaldinu almennt. (Hljómar soldið eins og ég sé að gefa þessari kveðju einhverja extra vigt …)