23. september 2018

Gamanmál á sunnudegi

(eða Ekkert gamanmál á sunnudegi, alveg eftir því hvernig á það er litið)

Mér finnst gott að vera niðri við höfn. Það er eitthvað úr æsku. Í dag gerði ég smá stans við höfnina norðan við Kaffivagninn, og horfði til austurs, í átt að Hörpu og Landsbankahúsinu sem verið er að byggja við hliðina á Hörpu. Þegar mér varð litið til vinstri (í norðurátt) sá ég skilti frá Faxaflóahöfnum sf., sem á stóð að frjálst væri að veiða fisk á bryggjunni. En þar var líka varað við því að fara glannalega – samt ekki orðað þannig – og bent á að nota björgunarvesti ef maður dytti í sjóinn. Þetta um björgunarvestin var orðað svona:

Björgunarvesti er hægt að fá hjá hafnarverði á hafnarvoginni.

Ég var kannski í einhverju ákveðnu skapi þegar ég las þetta, en samstundis langaði mig til að eiga svolítið við textann, og krota yfir tvo stafi í setningunni, þannig að hún yrði svona:

Björgunarvesti er hægt að fá á hafnarverði á hafnarvoginni.

Mig langaði í raun mjög mikið til að láta til skarar skríða. Gott ef ég var ekki farinn að leita í vösum mínum að tússpenna, eða einhverju áhaldi sem ég gæti notað til að skrapa af h-ið og j-ið. En ég er löghlýðinn borgari ­– og prúður. Ég hef það ekki í mér að eyðileggja, eða fara illa með hluti í umhverfi mínu, og allra síst hluti sem ég ber ekki ábyrgð á sjálfur. Mér fannst ég samt þurfa að gera eitthvað, þar sem ég stóð þarna. Þess vegna henti ég mér í sjóinn, í stað þess að krota yfir stafina á skiltinu. Áður en ég stökk gekk ég úr skugga um að enginn sæi til mín. Ég veit að ég ber ábyrgð á sjálfum mér, og hefði þess vegna með góðri samvisku getað látið mig sökkva til botns þarna við bryggjuna, en ég gerði það ekki. Skortur á karakter, veit ég að einhver hugsar. Ég veit það vegna þess að ég hugsaði það sjálfur. Það var við illan leik sem ég komst aftur á þurrt land. Illan leik? Það er einkennilegt orðatiltæki.

22. september 2018

„En það er þó ekki slæmt að vera aukapersóna í sjálfum Ofvitanum, þrátt fyrir að hafa nálega svelt Þórberg Þórðarson í hel.“ (um Ástu málara: Stefán Pálsson, Fréttablaðinu í dag)

Með tilvitnun dagsins fylgir lag með hinni sovésku Elenu Obraztsovu:

Og í tilefni dagsins nýlega tekin ljósmynd frá Rauðarárvíkinni:

 

21. september 2018

When it´s Summer in Siam

And the moon is full of rainbows

When it´s Summer in Siam

And we go through many changes

When it´s Summer in Siam

Then all I really know

Is that I truly am

In the Summer in Siam

(Shane McGowan)

Þetta er góður texti. Eða hvað?

–Yeah, it´s good one, yeah. But I wouldn´t have put that out under the label of the Pogues, you know. I would have put that out as a solo single. It´s a good track, I mean, it´s a lot better than the stuff they wrote. It´s a good track, but they fucked it up, you know. That was meant to be one verse, just one verse.

And that´s it?

–Yeah, and that´s it, just the, “When it´s summer in Siam …” Just one verse, then …

–Then that´s the end?

–Then that´s the end. That´s what it was meant to be.

It´s like a musical haiku?

–Yeah, a musical haiku, yeah. Well, not really a haiku, cause a haiku has only got three lines, but I know what you´re getting at. Like “Jonesburgh Illinois“, by Tom Waits, just four lines, just four short lines. You only need to say it once. Everybody gets the message.

(Victoria May Clarke & Shane McGowan: A Drink with Shane McGowan, bls. 237)

Fjórar línur. Eða átta, eins og þær eru settar upp á textablaðinu. Línur sem vilja ekki fara úr höfðinu. Ég hef oft spurt mig hvort lagið sé gott eða vont, alveg frá því ég heyrði þetta fyrst, árið 1990. Eins og sögupersónan sem ég er að burðast með þessa dagana – og árin – þá get ég aldrei ákveðið hvað mér á að finnast um hlutina (og þaðan af síður lögin). En það er kannski best; ég er ekkert viss um að ég væri ánægðari með sjálfan mig ef ég gæti fullyrt um gæði hlutanna. Mér finnst samt gott að lesa að Shane McGowan sé ánægður með lagið – og textann.

20. september 2018

Alveg á sama hátt og maður heyrir línu í popplagi, og hún festist í hausnum, hnýtur maður um einhver töluð orð í útvarpi, kannski bara eina setningu, og án þess að ná öllu samhenginu situr línan eftir í hausnum – og að tíu mínútum liðnum er maður búinn að gera hana að sinni eigin. Eftirfarandi setningu heyrði ég í útvarpinu í fyrradag (í Víðsjá); ég veit svo sem ekki hvort ég hef hana alveg rétt eftir: „Það er full vinna, og þess vegna ekki á færi þeirra sem vinna fulla vinnu.“ Ég hef ekki hugmynd um hvað var sagt á undan þessu, og heldur ekki á eftir; en það skiptir ekki máli: ég held að þetta hljóti að segja allt. Engu við þetta að bæta. Nema kannski að minnast á það að ég var að lesa svo góða bók um daginn, bók nr. 2 í jólabókaflóði, þannig séð (allavega nr. 2 sem ég les – og jólabókaflóðið varla byrjað): Katrínarsögu eftir Halldóru Thoroddsen. Ferlega fín bók um íslenska hippakynslóð – og hugsanlega örlög þeirrar kynslóðar. Ég veit ekki alveg hvaða orð maður ætti að nota yfir þessa sögu. Ævintýraraunsæi? Halldóra býr til svakalega flottar setningar, og tekst – held ég örugglega öðrum fremur, að minnsta kosti mjög mörgum fremur – að flétta „stórar“ hugmyndir inn í mjög svo látlausa frásögn og samtöl, þannig að hugmyndirnar, og jafnvel það sem hún vill segja manni, lýsist mun sterkar upp en ella. Og það er alltaf í því mjög fínn húmor. En talandi um línur sem festast í kollinum á manni, þá „(leggur fólk) allt of mikla áherslu á þetta líf eftir að guð dó.“ Þessi var ein af mörgun línum í bókinni, og ég fann hana strax aftur; hún er á blaðsíðu 34. Í sögunni segir Katrín síðan frá því að henni sé afar illa við hina svokölluðu skyldulesningu, og hafi þess vegna aldrei lesið Tolkien „þegar allir áttu að vera að lesa Hringadróttinssögu. Af hverju þessi mótþrói? Æ, eitthvað truflar hana við allan þennan samhug.“ Ég gat ekki annað en verið 100% sammála þessu. Af hverju að lesa Tolkien þegar allir hinir höfundarnir eru í boði, þeir sem enginn veit að maður á að lesa? Og nú verður maður bara að vona að Katrínarsaga verði ekki gerð að skyldulesningu í einhverjum skólanum. En það er víst kominn tími á músík – hádegið búið. Engin skylda að hlusta:

19. september 2018

Enn einn dagurinn, að þessu sinni 19. september árið 2018:

„Benedikt Jóhannsson, stofnandi Viðreisnar og fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra, segir að sá sem hafi ákveðið að endurbirta blogg Halldórs Jónssonar í Staksteinum sé jafn ógeðslegur gamall karl og Halldór. Má leiða að því líkum að þar eigi hann við Davíð Oddsson, ritstjóra Morgunblaðsins og fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins.

Sjá einnig: Morgunblaðið birtir orð Halldórs sem varði Downey: „Rétttrúnaður að mega ekki troða sér í sleik við konur“

Halldór, sem þykir gífurlega umdeildur, beindi sjónum sínum að kynferðislegri áreitni og þá sérstaklega í samhengi við mál Orkuveitu Reykjavíkur. Hann bar svo saman dansæfingar í MR við nauðgunarmál í Bandaríkjunum.

Sjá einnig: Halldór Auðar hvetur fólk til að segja upp áskrift að Morgunblaðinu samstundis

Benedikt segir á Facebook að sér hafi einfaldlega orðið óglatt við að lesa skrifin sem birtust í Morgunblaðinu í dag. „Enn einn dagur þar sem ég sé eftir að vera búinn að segja upp Mogganum. Þá get ég ekki gert það í dag. Mér varð bókstaflega óglatt að lesa um þetta. Tveir ógeðslegir gamlir karlar sleikja botninn á mykjuhaugnum, annar með því að halda að það sé sniðugt að skrifa svona, hinn með því að halda að það sé sniðugt að birta svona skrif.“ (eyjan.dv.is, 19.09.2018)

Ég tel mig þekkja það manna best (kannski ekki best af öllum, en nokkuð vel samt) að það getur verið erfitt að neita sér um hluti; en að neita sér um áskrift að Morgunblaðinu – ég tala nú ekki um að standast þá freistingu að birta eitthvað í Morgunblaðinu (eins og mér skilst að Benedikt Jóhannsson geri reglulega) – það getur varla verið mjög erfitt. Ég stenst þó sjálfur ekki þá freistingu að setja á fóninn hinn franska Charles Aznavour. Hér er hann að syngja eigið lag (lag sem margir þekkja úr hinni dásamlegu rómantísku gamanmynd Notting Hill) – og mér sýnist að ég sé áhorfandi (og hlustandi) númer 3.760.139 á youtube:

Úps. Ég mislas orðin frá Benedikt. Ég gerði mér grein fyrir því þegar ég endurlas þau á meðan ég hlustaði á Charles syngja lagið sitt. (Svona getur tónlist skerpt huga manns.) Benedikt segist einmitt vera búinn að segja upp áskrift að Morgunblaðinu – ég hlýt að hafa hraðlesið þegar ég las þetta fyrst, og ég er ekki góður í hraðlestri. Þannig að Benedikt er maður sem getur neitað sér um þá hluti sem honum eru ekki að skapi. En hann getur samt ekki neitað sér um að skrifa í „hlutinn“ sem honum mislíkar. Það hlýtur að vera næsta skref hans, að gera það – og varla er það mjög þungt skref að taka. (Benedikt er reyndar Jóhannesson, ekki Jóhannsson, eins og segir í fréttinni á Eyjunni. Það er sem sagt ekki bara ég sem misskrifa og misles.)

18. september 2018

Ég ímynda mér að lesandi „frænda“, og jafnvel sjálfur frændinn, hugsi sem svo að ekki hafi hljómað nein tónlist á heimili „skyldmennisins“ í nokkra daga, því hér á yfirráðasvæði „þess“ hafa engin tóndæmi verið nefnd svo dögum skiptir, og hreinlega ekkert verið nefnt sem tengist hinu formúleraða hljóði, jafnvel ekki sjálf þögnin sem stundum heyrist þegar nálin stöðvast á plötunni eða geisladiskurinn hættir að snúast í slíðrinu. Það hefur ekki einu sinni verið rætt um Bítlana (The Beatles). Ekki orð sagt um Uriah Heep (svo ég nefni bara eitthvað). En í gær, þegar „hin tímabundna fólksfjölgun frá útlöndum“ var að spóka sig við Sólfarið við Rauðarárvíkina, og „hinn innlendi hjólamaður“ rann eftir stígnum fyrir ofan göngustíginn, þann sem er merktur hjólreiðamanninum og andarungunum, fengu skyndilega allir viðstaddir, bæði útlendingurinn og sá innlendi á hjólinu, á tilfinninguna að verið væri að spila lagið með Maríu Dolores Pradera – lagið sem hér hefur lengi staðið til að leika fyrir gesti; það, lagið (Que nadie sepa mi sufrir), hljómaði í öllum sínum mikilleik yfir víkinni, með Esjuna í bakgrunni (eins og hún væri allt í einu orðin að músíkvídeói); og hinn blanki ferðamaður og fjáði Íslendingurinn sameinuðust um stund í hlustuninni (sem var ókeypis): þeir horfðu í andakt yfir að snjólausu fjallinu, og sneru eyrum sínum í sömu átt – tóku jafnvel niður höfuðföt sín og hlífðarhjálma til að geta notið tónlistarinnar sem ómengaðrastrar. (Svona kom þetta orð út, þegar ég reyndi að skrifa það: ómengaðrastrar. Læt það standa.) En verð ég ekki að láta lagið með ungfrú Pradera fylgja með í þessari færslu? Læt það gossa, fyrst maður er að nefna þetta.

Þetta er sem sagt tónlistin sem ég fékk í afmælisgjöf um daginn frá Madrid. H og A höfðu keypt þessa fínu plötu með Maríu Dolores Pradera, án þess að hafa haft hugmynd um að ég átti hana einu sinni á kassettu (og á kannski ennþá, niðri í geymslu); og þau gáfu mér líka aðra plötu (meira í gríni en alvöru – héldu þau): Momentos með Julio Iglesias (spænsku útgáfuna, ekki ensku). Svona getur lífið verið. „Er ekki lífið svona?“ eins og Helga Kress spurði víst nemendur sína í bókmenntafræðinni, þegar hún vildi gera lítið úr bókum sem henni fannst miðla einmitt þessu: „Er ekki lífið svona?“ En það er svona. Maður fær plötu í afmælisgjöf frá Madrid, og hún reynist vera með söngkonunni Maríu Dolores Pradera. Hin platan kemur síðan úr allt annarri átt – „Iglesias-áttinni“. Annars hafði ég ætlað mér að gera þá félaga Petrov og Borishov að umtalsefni að þessu sinni – og var ábyggilega búinn að lofa því líka um daginn. (Petrov og Borishov eru reyndar ekki þeirra réttu nöfn, las ég – sem auðvitað gerir umtalsefnið enn meira spennandi.). Ég hafði meira að segja ætlað mér að biðla til íslenskra rithöfunda og kvikmyndagerðarmanna, jafnvel myndlistarmanna, að halda aftur af sér að gera bók eða (bíó)mynd um Petrov og Borishov, nefnilega vegna þess að ég mig langar svo mikið sjálfur til að nota efniviðinn í bók (frekar en bíó eða mynd). En kannski er það alls ekki góð hugmynd, því þetta efni hefur einhvern veginn afgreitt sig alveg sjálft; það er bara þarna á youtube og í fréttamiðlum, og líklega fullkominn óþarfi að vera að búa til einhver tilbrigði við það. En skáldsagan sem þetta er, eða yrði – hún er rússnesk. Sem er heppilegt, þar sem „Petrov“ og „Borishov“ eru sjálfir rússneskir. Eða segjast vera það. Já, einmitt: þeir segjast vera rússneskir. Mér finnst samt að bíómyndin um skrípalmálið hljóti að vera eftir Béla Tarr, það er að segja ungversk. En Béla Tarr segist vera hættur að búa til bíómyndir. Alger mistök. Hjá honum, það er að segja. En þvílíkur efniviður:

14. september 2018

„Einar Örn notaði tímann til að lesa.“ En ekki allan tímann. Það er óþarfi að nefna það, en auðvitað minnir þetta á brandarann um starfsmanninn á trésmíðaverkstæðinu sem tjáði verkstjóra sínum að hann myndi ekki láta klippa allt hárið á sér þegar hann færi til rakarans í hádeginu, einmitt vegna þess að hárið óx ekki allt í vinnutímanum, þeim stutta tíma sem hann hafði starfað á verkstæðinu, sem var ekki nema frá því klukkan átta um morguninn. Ég veit ósköp vel að þetta er eini brandarinn sem ég kann (og hef þess vegna sagt hann oftar en aðra brandara – sem ég kann ekki); og ég veit líka að ég er ekki að segja hann í heild sinni, enda er þetta brandari með „double punchline“, eins og það er kallað – ég er í raun ekki að segja hann, heldur bara að segja frá honum (sem maður ætti aldrei að gera þegar kemur að bröndurunum – slíkt jafngildir því að „kryfja froskinn“, eins og þeir segja á auglýsingastofunum); en það sem ég tel mig líka vita í tengslum við þennan „klassíska“ brandara (sem kemur úr Íslenskri fyndni), er að hann er einhver „heimspekilegasti“ brandari sem ég veit um. Og nú er reyndar komið að atriði sem „fellir“ þessa síðustu fullyrðingu mína, nefnilega því að ég veit ekki hvers vegna brandarinn er heimspekilegur. Og þar sem ég hef ekki til ráðstöfunar neitt sérstaklega meiri tíma en Einar Örn (eða hver sem er á okkar aldri), þá ætla ég ekki að nota þann takmarkaða tíma sem ég þó hef, til að reyna að útskýra eitthvað sem ég veit að yrði mér ofviða. Ég ætla því að loka þessari síðbúnu föstudagsfærslu hér á „Frændanum“ með svolitlu tóndæmi af alheimsnetinu (og um leið að fresta því enn eina ferðina að spila Maríu Dolores Pradera, eins og ég hefi margsinnis lofað). Og hvað skyldi það verða, þetta tóndæmi? Ég „notaði tímann“ í hádeginu í dag til að hlusta á Louis Armstrong spila og syngja lög eftir W.C. Handy, en það er ekki sú músík sem verður fyrir vali „frændans“ núna, heldur … Og nú get ég bara ekki ákveðið mig. Ég myndi helst vilja spila einhverja músík sem færi vel undir viðtalinu við Petrov og Boshirov, þar sem þeir lýsa heimsókn sinni (á Russia Today) til Salisbury, en mig eiginlega skortir hugmyndaflug til að vita hver sú músík ætti að vera, þannig að ég held ég setji bara á fóninn lag sem hæglega gæti orðið leiðarvísir inn í helgina framundan, hvort sem fólk hyggur á ferð út fyrir borgina, eða tekur þann pólinn í hæðina að dvelja í borginni. Ladies and gentlemen, hér er Johnny Winter, hinn ljóshærði, að syngja um nafna sinn:

12. september 2018

„Og svo fór ég að hugsa.“ Það gerðist í Öskjuhlíðinni. Í hádeginu. Og mér datt í hug að láta þetta sem ég hugsaði enda á síðustu setningunni í bók Jónasar Reynis, Millilendingu, „Svo lagðist hann …“ osfrv. Frændi kæmi þar ekkert við sögu. En svo hugsaði ég meira. Maður stelur ekki frá yngri höfundi. Maður lánar honum. Og ef eitthvað er öruggt í þessum heimi, þá hefði ég ekkert haft á móti því að hafa lánað honum þessa síðustu setningu. En hann fattaði upp á henni sjálfur. Hér er svo tónlist dagsins, áður en María Dolores Pradera skellur á með öllum sínum þunga einhvern næstu daga – Old and new dreams (ekki flottasta hljómsveitarnafn í heimi, en samt):

11. september 2018

Frændi dáinn. Það hélt ég að minnsta kosti. En svo fékk ég símtal, eins og út úr kosmósinu, eins og mér er sagt að sé sagt, þess efnis að hann, frændi, hefði líklega bara farið út í búð – út í Nexus, eitthvað svoleiðis – og væri enn meðal vor. Kannski var hann eitthvað hræddur, og hljóp í felur – út í Nexus? – vegna þess að ellefti september var að nálgast. Ég hefði tekið hann með mér í réttirnar á laugardaginn var, hefði ég vitað þetta; en svo get ég vel ímyndað mér að þar hefði hann ekki síður orðinn hræddur. Hljóðin í lömbunum í Fljótstungurétt voru nefnilega mennsk. Ég hafði aldrei áður komið í réttir – og veit ekki af hverju ég fór núna (þó ég viti það svo sem alveg) – en hafði heldur ekki dottið í hug að me-ið í litlu lömbunum hljómaði eins og upp úr barka miðaldra manns sem er hræddur, eða veit ekki hvar hann hefur sjálfan sig. Það er ógleymanleg sjón að sjá lömbin beinlínis stökkva inn í réttirnar, eins og þau langi ekkert frekar en að vera slátrað. Og ég hugsaði: Á ég að byrja að borða kjöt aftur? Eftir þessa reynslu í Hvítársíðunni mun ég framvegis alltaf heyra í höfði mínu hið mennska jarm þegar ég horfi á manneskjuna stinga upp í sig unninni eða óunninni kjötvöru – þegar hún pakkar hinu blandaða kjötmeti inn í brauðhylkið, ásamt steikta lauknum og remúlaðinu, og stingur upp í sig á horni Tryggvagötu og Pósthússtrætis. Þá mun heyrast me í höfði mínu, og ég verð að passa mig á því að herma ekki eftir því hljóði með munninum. Svo þegar ég keyrði Kaldadal daginn eftir réttirnar sá ég kindur á stangli, eins og villuráfandi og týndar, og mér varð hugsað til titilsins á ljóðabók Þorsteins frá Hamri, Langnætti á Kaldadal … Sitjum nú sundraðir, drekkum / í sólinni, eigum vísa / þögn, þurrð veiga / og þrúgandi nótt. … Kannski voru þessar ær sem ég sá ofurölvi – mér fannst eins og þær væru reikular í spori. En líklega var það hristingurinn í bílnum sem orsakaði þá hugsun. Það var síðan ógleymanlegt, rétt eins og reykurinn úr réttunum er ógleymanlegur, að sjá Þingvallavatn birtast í framrúðunni, eftir að hafa ekið Kaldadalinn og Uxahryggina … Nú er ég orðinn svo sentímental að hið hálfa væri líklega alveg nóg. Það var ekkert varið í að sjá Þingvallavatn í framrúðunni. Það hefði ekki einu sinni verið neitt varið í að sjá það í baksýnisspeglinum. Það er einfaldlega ekkert varið í Þingvallavatn. Er þetta ekki bara einhver pollur sem gæti gufað upp hvenær sem er? Ég hef stundum reynt að veiða fisk úr vatninu, en ég virðist vera alveg hættur því. Annars var ég eitthvað að hugsa um að setja hérna í lok færslunnar lagið sem ég hef verið að lofa (eins og upp í ermina á mér – ermina á mér?); en finnst núna einhvern veginn meira við hæfi að pikka inn ljóð Þorsteins úr Langnætti á Kaldadal, Til þín þegar hvessir: Yfir beinin í mosanum flögra ég fremur en geng / til þín þegar hvessir / ég kann að eiga brýnna erindi en margur / til þín þegar hvessir // Því fleiri en ég eru á ferð um auðnina / til þín þegar hvessir / og kannski fer enginn erindisleysu nema ég / til þín þegar hvessir

7. september 2018

Það er dásamlegt að fylgjast með fréttum af skrípóinu í Hvíta húsinu í Washington vegna hins nafnlausa „landráðabréfs“ sem New York Times birti. Og ekki síður gaman til þess að hugsa með hvaða hætti ritstjórar Morgunblaðsins muni koma Bandaríkjaforseta til varnar að þessu sinni. Veit Bandaríkjaforseti af því að hann á sér öflugt málgagn á Íslandi? Það lítur ekki út fyrir að hann viti margt, að minnsta kosti ekki mikið af gagnlegum upplýsingum, en ég gæti þó vel trúað því að hann vissi þetta; þetta er ábyggilega ein af þeim fáu staðreyndum sem hann vill vita – og veit að er rétt. Ég var að lesa í ævisögu John Kennedy Toole í morgun (í staðinn fyrir að lesa Morgunblaðið – á hverjum morgni les maður eitthvað í staðinn fyrir Morgunblaðið), og þar sem fjallað er í bókinni um áhuga Tooles á miðaldaheimspeki, og andúð hans á amerískri samtímamenningu, stendur þetta: But in America, a fool could become a millionaire, while the genius lay destitute, all under the guise of economic freedom. Söguhetja Tooles, Ignatius Reilly – það yndislega erkifífl – varð aldrei milljóneri, en það varð Donald Trump. Og hann er fífl. Það vita allir. Meira að segja ritstjóri Morgunblaðsins, sá nafnlausi (eins og höfundur „landráðabréfsins“ er nafnlaus), veit það, um leið og hann gerir allt sem hann getur til þess að reyna að líkjast Bandaríkjaforseta sem mest. Og það tekst. (Þetta rímaði, þannig lagað.) En af því ég notaði orðið dásamlegt hér að ofan, þá kemur það aftur í hugann þegar ég leiði hann að bókinni sem ég las í gær. Hún er óútkomin – bara komin úr prentsmiðjunni – eftir einn alfyndnasta rithöfund landsins. Ég held ég megi samt ekki segja frá henni (nafngreindri), því hún er ekki komin út. En nóg um það í bili. Það er hádegi. Ég hef notað þetta hádegi fyrsta föstudags í september (hluta af því, að minnsta kosti) til að skrifa þessa færslu – ég ætlaði að skrifa um allt annað, t.d. lagið sem ég hef lofað að spila í nokkra daga, en hinn sprenghlægilegi Bandaríkjaforseti, og stuðningsmaður hans á Morgunblaðinu, og líka þessi óútkomna bók sem ég las í gær, er efst í huga mér núna. Svo hef ég líka notað hádegið til að hlusta á hljómplötu Pink Floyd, Relics, sem er eins konar best of-plata með lögum af fyrstu plötum Pink Floyd. Arnold Layne, See Emily Play … Þetta eru háklassísk popplög. Syd Barrett. The Madcap. En nú er hádegishléið búið. Og ég er að hugsa um að breyta yfirskrift bloggsins í Einn frændi á viku. Það er allt of mikið að vera að skrifa eina færslu á dag. Ein á viku hlýtur að nægja.

6. september 2018

Ef einhver tónlist á heima á vínilplötu, þá er það tónlist Antons Webern. Í mínum augum – eða eyrum – hefur helsti gallinn við geisladiskinn alltaf verið sá að of miklu efni er hlaðið á hann. Í staðinn fyrir að búa til 12 laga plötu býr rokkhljómsveitin til 17 eða 19 laga plötu, og hrúgar öllum aukalögunum aftast á diskinn, bara til að eyðileggja heildaráhrifin. Einn af kostum vínilplötunnar er hins vegar sá að hver hlið hefur yfirleitt ekki meira en tuttugu mínútur af músík. Ég var að eignast gamla Supraphon-plötu, frá 1967, með svítu eftir Schoenberg, fyrir heila fjölskyldu af klarinettum, þrjú strengjahljóðfæri og píanó, op. 29, og tveimur verkum eftir Webern: tríói fyrir fiðlu, lágfiðlu og selló, op. 20, og kvartett fyrir fiðlu, klarinett, tenór saxófón og píanó, op. 22 – eins gott að nefna allar þessar tæknilegu upplýsingar, fari svo að einhvern langi til að hlaupa út í búð og kaupa þessa músík (eða kveikja á henni á youtube) – og það er eins og það er: að hlusta á þessi verk af vínilnum, að þurfa að snúa plötunni við, og dusta af henni ryk (sem hafði áhrif, því nálin hökti svolítið í fyrra Webern-verkinu), er tvöföld ánægja á við þá ánægju sem fæst af því að hlusta á þetta á geisladiski. Double happiness, eins og Japanir orða það. Kannski eru vínilplötur frá Supraphon eitthvað sérlega góðar, en hljómurinn af þessari gömlu plötu er snarpur, stökkur og svalur – mér finnst ég þurfa að grípa til enskrar tungu til að lýsa honum: crunchy, crisp og cool, eitthvað svoleiðis; þetta átti samt ekki að vera þýðing á íslensku orðunum – svona hljómur er held ég óhugsandi á geisladiski. Hljómsveitin sem spilar verkin heitir Musica Viva Pragensis. Ég veit ekkert um hana, nema að hún er tékknesk (eða tékkóslóvakísk). En hér er kvartett Weberns op. 22, undir stjórn Pierre Boulez – sexy stuff, eins og einn álitsgjafinn á youtube orðar það svo svalt:

IV. septembre 2.018

Rétt í þessu er ég að gera mér grein fyrir að dagurinn í dag gleymdist. Fjórði september, árið 2018 – þess dags verður því líklega minnst fyrir að hafa gleymst. Það hefur líka gleymst að birta úrslit leiksins milli íslenska kvennalandsliðsins og þess tékkneska, sem ég hef fyrir satt að hafi verið leikinn á Laugardalsvellinum. Ég sá á einhverjum miðlinum, það var um fjögurleytið, að Tékkar hefðu skorað í sinni fyrstu sókn í leiknum, en svo hafa ekki komið neinar frekari fréttir. Kannski voru ekki fleiri sóknir. Ég giska á að leikurinn hafi farið 0 – 0 – að þetta fyrsta mark Tékkanna hafi verið dæmt af að leik loknum – eða gleymst. Það hlýtur að geta gerst, að skoruð mörk gleymist. Ég ætla hins vegar að reyna að muna eftir deginum á morgun. Og spila einhverja músík.

3. september 2018

„Það er ekkert sem bendir til þess að Donald Trump bandaríkjaforseti sé geðveikur, sagði Óttar Guðmundsson geðlæknir í Morgunútvarpinu á Rás2 í morgun. (Ég las þetta á vef Ríkisútvarpsins.) Ég hlusta sjálfur aldrei á Rás2, bara Ríkisútvarp nr. 1. Og breska ríkisútvarpið. Aldrei á Rás2 – veit varla hvað það er, þótt ég muni vel eftir fyrstu útsendingu þessarar „Rásar2“, eins og hún er kölluð; ég vann þá hjá Póstinum, það var stuttu eftir að Pósturinn flutti upp í Ármúla. Og talandi um Póstinn (einkafyrirtækið, ekki ríkis-). Ég sagði frá því um daginn, á Leslistanum (leslistinn.is), að ég hefði fengið afhenta í Síðumúlanum, á pósthúsinu, bók sem ég pantaði frá Englandi, og að bókin hefði verið blaut í gegn í pakkanum, sem sagt ónýt. (Það er að vísu hægt að nota hana, eftir að ég þurrkaði hana á ofninum í nokkra daga, en hún er ansi furðuleg í laginu, eiginlega sprenghlægileg.) Eins og mér bar að gera, samkvæmt tilmælum starfsmanna Póstsins, sendi ég tjónaskýrslu, og fór fram á að fá bókina endurgreidda, og helst að þeir pöntuðu hana aftur fyrir mig (því hún hafði blotnað í þeirra vörslu, eftir að hún kom til landsins); en ég veit ekki til hvers fólk er beðið um að fylla út tjónaskýrslu, verði sendingar fyrir tjóni, því mér var sagt í tölvupósti (mörgum dögum eftir að ég sendi tjónaskýrsluna) að ég fengi tjónið ekki bætt; þeir bættu ekki svona tjón. Ég hef ekki ákveðið hver verða næstu skref í þessum samskiptum mínum við einkafyrirtækið Póstinn. Kannski skrifa ég bara smásögu, og sel hana í Lesbókina. En hér er næsti „teaser“ – það er að komast hefð á þessa „teasera“ mína:

2. september 2018

Spáin fyrir leik gærdagsins stóðst: 4 -7. Nema að úrslitin urðu – þegar flautað var til leiksloka – 0 – 2. Og hvernig var leikurinn? Því er ekki auðsvarað. Ef til vill var ég svolítið sleginn út af laginu þegar ég fylgdist með leikmanni nr. 2 í íslenska liðinu undirbúa sig fyrir að taka innkast á vallarhelmingi þýska liðsins, í beinni sjónlínu við okkur áttmenningana, þar sem við sátum í efstu röð (Ö-röðinni), í nyrðri hluta gömlu stúkunnar, því ég sá ekki betur en að hún, leikmaðurinn, væri ófrísk, eiginlega kasólétt, eins og sagt er. En þá kom í ljós að hún var með boltann undir treyjunni sinni, og virtist vera að þurrka hann, svo hann rynni síður úr höndum hennar þegar hún kastaði honum inn á völlinn. Ég er ekki að segja að ég hafi látið þetta trufla mig það sem eftir lifði leiks, en einhvern veginn sat þetta í mér, að minnsta kosti þangað til þýska landsliðið skoraði fyrsta markið, sem gerðist stuttu fyrir leikhlé. Þetta er merkilegur leikur, fótboltinn. En hvers vegna? Því er heldur ekki auðsvarað (ekki í svona stuttri bloggfærslu eins og hér). Og hvað hét hún, leikmaður nr. 2, sú sem ég hélt að væri ófrísk? Mér láðist að lesa nafn hennar á bakhlið treyjunnar – ef til vill var ég of upptekinn við að fylgjast með leik þýska liðsins, því svo sannarlega var ekki mikið um „leik með boltann“ af hálfu íslenska liðsins; en þetta er kannski það sem gerir fótboltann svo merkilegan: að á meðan annað liðið á vellinum spilar með boltann sín á milli (á milli leikmanna), kemst hitt liðið upp með að sparka boltanum bara eitthvað, fram og til baka, stundum út af vellinum, og upp í loftið, eins og án markmiðs eða tilgangs, en nær samt að tapa með ekki meira en tveggja marka mun. Ég geri mér grein fyrir að ég er ekki sá „kvalífíkeraðasti“ til að analísera svona fótboltaleik (jafnvel þótt ég hafi einu sinni verið fenginn í beina útsendingu í sjónvarpssal til að tjá mig um orðnotkun í lýsingum fótboltalýsenda; ætli það hafi ekki verið fyrir tæpum tuttugu árum), en það var ýmislegt sem fór á milli okkar, þeirra sem sátu í Ö-röðinni í nyrðri hluta stúkunnar í gær, ýmislegt um leikinn, þá aðallega um samspil leikmanna, ýmislegt sem mér fannst á því augnabliki sem við létum þau orð falla, að gæti alveg átt heima í sjónvarpsþætti; mér fannst við hljóma eins og álitsgjafar í íþróttaheiminum, og svo framvegis. Ég segi „og svo framvegis“, því einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að ég sé búinn að blóðmjólka þetta umtalsefni, að ég ætti í raun að setja punkt við það hér. Ég sá ekki sjónvarpsfréttir í gærkvöldi, en þar hefur ábyggilega verið farið yfir leikinn, og úrslitin útskýrð, eða sett í samhengi við önnur úrslit í fótboltasögunni. En allavega: úrslit leiksins í gær eru staðreynd: „stelpurnar okkar“ töpuðu 0 – 2 fyrir „stelpunum þeirra“, Þjóðverjanna – nú er það bara leikurinn við „stelpur tékknesku þjóðarinnar“ sem gæti ráðið úrslitum um hvort „stelpurnar okkar“ eigi möguleika á að komast í umspil um það hvort þær komist á HM í Frakklandi á næsta ári, til að geta spilað við „stelpur heimsins“ á því móti. Þetta er spennandi. En dularfullt. Það er einhver mystík yfir vötnunum. Ég veit að ég ætlaði að tala um hljómplöturnar sem ég fékk um daginn (búinn að vera að lofa því í nokkra daga), en nú er einhvern veginn öll orkan farin í spjallið um fótboltann, þannig að ég ætla að láta mér nægja að bauna út enn einum „teasernum“. Myndbandið með Julio Iglesias gærdagsins var allsvakalegt, ég játa það; en ég bið lesendur að hafa aðrar væntingar fyrir næsta myndband – það er allt annars eðlis:

1. september 2018

Hér er dómur um amerísku útgáfu skáldsögunnar Sögumaður, í veftímariti sem kallast The Arkansas International:

The Arkansas International

NARRATOR BY BRAGI ÓLAFSSON, TRANSLATED BY LYTTON SMITH

Lytton Smith’s English translation of Bragi Ólafsson’s Narrator is as compelling and readable as it is bizarre. Our narrator, G.’s otherwise mundane day is interrupted when he spots an old romantic rival, Aron, at the post office. Abandoning his task, he proceeds to stalk his perceived adversary through the city of Reykjavik, casting suspicions about Aron’s actions, and reminiscing about his unrequited love. G. is both endearing and vaguely sinister as we move through his surreal story. The more we learn about his life, his past, and his views of the world, the more we question the truth he is presenting to us.

Ólafsson bends rules of tense and perspective, and Narrator is made all the better by it. Hopping between first and third, between past and present, these breaks in form capture G.’s erratic temperament, and explore the psychic distance between character and narrator. G. strives for objectivity, wants to cast himself as the hero, but cannot help slipping back into his own obsessive, unreliable mind. The kind of novel that teaches you how to read it while you’re reading it, Narrator asks odd, fascinating questions about the function of the narrator as a character, and the reliability of self-reflections and our accounts of ourselves.

En þar sem ekki hefur enn unnist tími til að gera hljómplötum skil (hljómplötum sem verða sífellt fleiri og fleiri í staflanum við spilarann; ég var að eignast tvær plötur með sovéskri fólkmúsík í fyrradag, sem full ástæða er til að fjalla um einnig), þá heldur „teaser“ gærdagsins áfram, eins og ekkert sé. Það er auðvitað við hæfi að hér sé boðið upp á gamla fótboltahetju, þar sem nú eru aðeins tæpar tvær klukkustundir þar til þýska kvennalandsliðið mætir því íslenska í „óvináttuleik“ á Laugardalsvelli, jafnvel þótt hetjan sé karlkyns:

31. ágúst 2018

Nákvæmlega sólarhringur í kvenleik Íslands og Þýskalands. Ég veit ég ætlaði í dag að afgreiða færslu sem upphaflega átti að birtast í gær (um hljómplötur sem ég fékk að gjöf frá Madrid), en dagarnir vilja stundum fara í annað en ætlað var, og stundum til góðs; og þannig hefur ræst úr þessum degi: hann hefur nýst í eitthvað mun þarfara en að segja frá notuðum hljómplötum frá höfuðborg Spánar. Meira um þær hljómplötur síðar (því nú er ég hættur að taka fram hvenær umfjöllunin muni eiga sér stað nákvæmlega – það stenst aldrei hjá mér). Ég á heldur ekki von á að skýrslan um fótboltaleik morgundagsins muni birtast sama dag og leikurinn fer fram; ég myndi giska á sunnudaginn, daginn eftir leikinn. En hér er svolítill „teaser“ fyrir færsluna um hljómplöturnar (svona bara til þess að einhver tónlist megi hljóma á föstudegi, síðasta degi ágústmánaðar):

30. ágúst 2018

Í dag hafði ég ætlað mér að segja frá tveimur hljómplötum sem ég fékk að gjöf í fyrradag, en svo bárust mér ákveðin tíðindi, ótengd plötunum, sem mig langaði til að gera skil áður en ég færi að tjá mig um þessar plötur. Allajafna reyni ég að forðast mikla umfjöllun um peninga – hún hefur alltaf ákveðna áhættu í för með sér („Nú, hann er bara með allan hugann við peninga, drengurinn“, osfrv.) – og helst alls ekki að nefna neinar peningaupphæðir; en þessi tíðindi sem ég minntist á byggja í raun of mikið á ákveðnum upphæðum til að hægt sé að sleppa þeim alveg í samhenginu. Þetta fjallar um styrki frá National Endowments for the Arts í Ameríku, til bókmenntaþýðinga; og vegna þess að einn styrkurinn er veittur til „aðila“ sem ég þekki vel, Englendingsins Lytton Smith (sem hefur þýtt tvær af mínum bókum, og nokkrar sögur og ljóð), þá datt mér í hug að honum fyndist ef til vill svolítið skrítið – „svolítið sérstakt“, eins og sumir kysu að orða það – að ég léti þessi tíðindi fara alveg framhjá „frændanum“, að ég minntist ekki einu orði á styrkinn sem Lytton var að fá, bara eins og ég (eða frændi) hefði aldrei frétt af honum – að styrkurinn hefði í raun aldrei verið veittur. Ég hefði fullan skilning á því, að Lytton myndi hugsa eitthvað á þessa leið – ég myndi gera það sjálfur, fengi ég styrk. Einhverjum kann að finnast það óþarfi að ég skuli nefna nöfn allra hinna sem fengu svona styrk, og vitaskuld væri nóg að hafa upphæðina 12,500 dollarar bara einu sinni, í stað þess að hafa hana í sviga á eftir öllum nöfnunum; en ég ætla ekki að hugsa meira um það. Fyrst kemur listinn yfir alla styrkþegana; síðan útlisting á styrknum til Lyttons:

National Endowment for the Arts

arts.gov

Fiscal Year 2019 NEA Literature Translation Fellowship Recipients

Number of Grants: 25 Total Dollar Amount: $325,000

Some details of the projects listed are subject to change, contingent upon prior NEA approval. See the following pages for more information on the projects and translators. Please note these awards are pending Congressional approval of the NEA’s fiscal year 2019 budget.

  • Kaveh Bassiri, Fayetteville, AR ($12,500)
  • Eric M. B. Becker, Jackson Heights, NY ($12,500)
  • Ian Boyden, Friday Harbor, WA ($12,500)
  • Sean Gasper Bye, Brooklyn, NY ($12,500)
  • Rachel Careau, Hudson, NY ($12,500)
  • Peter Covino, Providence, RI ($12,500)
  • Anna Deeny Morales, Chevy Chase, MD ($12,500)
  • Katrina Dodson, Brooklyn, NY ($12,500)
  • Jennifer Feeley, South Lyon, MI ($25,000)
  • Edward Gauvin, Eugene, OR ($12,500)
  • Elizabeth Harris, Alma, WI ($12,500)
  • Stefania Heim, Bellingham, WA ($12,500)
  • Thomas J. Kitson, New York, NY ($12,500)
  • Karen Kovacik, Indianapolis, IN ($12,500)
  • Christina E. Kramer, Toronto, ON ($12,500)
  • Oksana Maksymchuk, Fayetteville, AR, ($12,500)
  • Lynn E. Palermo, Lewisburg, PA ($12,500)
  • Kerri A. Pierce, Honeyoye Falls, NY ($12,500)
  • Kristina Reardon, Worcester, MA ($12,500)
  • Lola Rogers, Seattle, WA ($12,500)
  • Samah Selim, Port Washington, NY ($12,500)
  • Antony Shugaar, La Jolla, CA ($12,500)
  • Lytton Smith, Rochester, NY ($12,500)
  • Marcela Sulak, Louise, TX ($12,500)
  • Rose Waldman, Brooklyn, NY ($12,500)

Lytton Smith, Rochester, NY ($12,500)

To support the translation from the Icelandic of the novel Blot by Sígrun Pálsdóttir. Although Pálsdóttir (b. 1967) has won or been short-listed for all of Iceland’s major literary prizes, including the prestigious Icelandic Bookseller’s Literary Prize and the Icelandic Women’s Literature Prize, her books have not yet been translated into English. The topics she explores in her fiction—issues of reality, misjudgment, and social expectations guiding individual actions—are timely in a climate of social media and virtual realities. In Blot, a 17th-century manuscript becomes the catalyst for the collapse of an historian protagonist’s physical and mental world into the realm of delusion. The novel dramatizes the hold parents’ lives have on those of their adult children, the pressure to be original in one’s research, and the demands made on women scholars.

Lytton Smith is an award-winning poet and one of the leading translators of Icelandic in the United States. His translations of book-length works from Icelandic include Bragi Ólafsson’s The Ambassador, published by Open Letter, and Tómas Jónsson: Bestseller, a 400-page modernist classic published in 1966 and dubbed “the Icelandic Ulysses.” A recipient of numerous grants and awards, he teaches at the State University of New York at Geneseo.

ps. svo er það leikurinn á laugardag, stundvíslega kl. 14:55.

29. ágúst 2018

Það er virkilega gaman að heyra Guðmund Andra tala um Bítlana, og dálæti sitt á þeim. Ég vildi að ég hefði jafn gaman af Bítlunum og hann. (Rétt eins og Guðmund sjálfan – ef eitthvað er að marka bókatitlana hans – langar til að kunna að dansa – sem ég aftur á móti kann.) Mér finnst til dæmis agalegt þegar jazztónlistarfólk er að spila lög Bítlanna, nema reyndar þegar Brad Mehldau spilar And I love her. Það er smart. Ég man eftir því að einhver sagði – kannski var það bara Guðmundur Andri? – að sá sem ekki hefði gaman af Bítlunum hlyti að vera vond manneskja. Ég er hún. Vonda manneskjan. Sú sem lýgur. Því ég hef nefnilega gaman af sumum lögum eftir Bítlana. Back in the USSR er gott lag (jafnvel þótt Beach Boys séu í enn minna uppáhaldi hjá mér en Bítlarnir). Og Get back er líka flott lag. Þar nýtur sín vel Ringo Starr. Ef það er þá hann sem spilar í laginu. En þá er það ekki meira í bili. Ég var að hugsa um að láta tóndæmi fylgja færslunni, en það yrði einhvern veginn of fyrirsjáanlegt. Kannski frekar á morgun, því á morgun hef ég hugsað mér að segja frá vínilplötunum sem ég fékk í gærkvöldi.

28. ágúst 2018

Rétt í þessu var ég að fatta að tríó pólska píanóleikarans Marcin Wasilewski verður með tónleika á Jazzhátíð Reykjavíkur núna snemma í september. Af því tilefni eru hér tvær útgáfur af sönglagi Hanns Eisler, An den kleinen Radioapparat; ein þýsk:

og önnur pólsk:

En talandi um Þýskaland, þá er ég að fara í fyrsta skipti á ævinni að sjá íslenska kvennafótboltalandsliðið spila, núna eftir nokkra daga. Það spilar á Laugardalsvelli á laugardag – við þýska kvennafótboltalandsliðið. Ég hlakka til. Ég mun gefa skýrslu. Ég spái því að leikurinn fari 4 – 7, og að Guns´n´Roses spili tvö lög í hléinu. Þetta verður eitthvað, eins og sagt er. Samkvæmt spánni verður rigning. Ég fer ekki með „frænda“, ef einhverjum skyldi detta það í hug; ég fer með fjórum eða fimm ungum stúlkum – misungum að vísu. Misungar er svakalegt orð!