Einhverra hluta vegna var ég aldrei mjög spenntur fyrir hljómsveitinni Joy Division á sínum tíma, um og eftir 1980 – það voru aðrar hljómsveitir frá Manchester sem tóku meira pláss í lífi mínu (og vitsmunalífi, eins og Guðbergur Bergsson myndi orða það), sérstaklega The Fall og The Smiths, jafn ólíkar og þær tvær hljómsveitir voru. En kannski hafði ég ekki þörf fyrir myrkrið sem fylgdi Ian Curtis og félögum þegar ég var að verða tvítugur, og kannski fannst mér eitthvað tilgerðarlegt við allan þann drunga. En nú eru nokkur ár liðin frá árinu 1980; og í fyrradag, á laugardagsmorgni, horfði ég á mynd frá árinu 2007 um Joy Division: their own story in their own words. Þetta er í einu orði sagt frábær mynd. Á umslaginu er vitnað í einhvern gagnrýnanda hjá The Guardian, “A must-see“, og það er einmitt það sem þessi mynd er: ekki hægt að láta hana framhjá sér fara, eða hvernig sem maður útleggur “A must-see“. Efst á umslaginu er vitnað í gagnrýnanda Time Out: “A visionary piece of filmmaking.“ Kannski eru það óþarflega hástemmd orð, en ég var alveg sammála þeim á meðan ég horfði á myndina. Ég er ekkert endilega viss um að ég muni hlusta mikið meira á Joy Division en ég gerði áður, en ég veit að ég á eftir að horfa á þessa mynd aftur, því hún sýnir manni á mjög svo lágstemmdan og áreynslulausan hátt hversu mikil áhrif fjórir ungir menn geta haft á líf annarra (og vitsmunalíf), án þess að fatta það almennilega á meðan þeir eru að því. Maður fær að vísu á tilfinninguna að Ian Curtis hafi verið fyllilega meðvitaður um hverju þeir voru að miðla. Kvöldið áður en hann drap sig horfði hann á hina snilldarlegu bíómynd Stroszek eftir Werner Herzog, um þau Bruno S., Evu og Scheitz, sem ferðast úr eymdinni í Berlín yfir í annars konar eymd í Bandaríkjunum – og eins og þeir vita, sem eitthvað vita um Joy Division, átti hljómsveitin að fara í sína fyrstu hljómleikaferð til Ameríku daginn eftir að Ian hengdi sig.
Author: admin
25. ágúst 2018
Þetta skyldmenni hafði haft það hlutverk innan fjölskyldunnar að vera vandræðamaðurinn, ef ekki beinlínis svarti sauðurinn þá að minnsta kosti drukkni frændinn; sá sem börnin hlökkuðu til að fá í heimsókn, af því hann kom alltaf færandi hendi, en fullorðna fólkið kveið fyrir. Honum – sem í augnablikinu er að rifja þetta upp (ætli sé ekki best að byrja að nefna hann með nafni: við nefnum hann Bé) – þykir sagan af frændanum ekki leiðinleg, þessi fáránlega saga af afabróðurnum. Einmitt vegna þess hversu fáránleg hún er.
Frændinn, sem hér er nefndur Lalli, hafði farið í veiðiferð. Svo oft hefur Bé velt þessari sögu fyrir sér – því þetta er nefnilega saga sem maður rifjar ekki bara upp heldur veltir fyrir sér – að hann hefur látið sér detta í hug að gera eitthvað við hana; hugsanlega koma henni á framfæri við einhvern sem gæti stuðlað að því að koma henni yfir í myndrænt form. Þyrlan, vatnið, hinn tilhlökkunarblandni ótti sem hafði grúft sig yfir fjölskylduna heilan sólarhring eins og dimmblár, fagur skuggi; allt var þetta efni í sögu eða kvikmynd; og ekki síst þáttur litla drengsins sem að lokum fann frændann á lífi við vatnið á undan þyrlunni, falinn bakvið runna, eins og dauðan að sjá, en aldrei meira lifandi, því hann, hinn drukkni frændi, vissi að þessi saga myndi fylgja sér það sem eftir væri. Hann hafði verið afgreiddur í huga fjölskyldunnar sem dauður, og hávaðinn í þyrlunni varð upp frá því í huga hans – en ekki fjölskyldunnar – tákn um lífið með stóru L-i.
„Dáinn maður rifjar ekki upp eitthvað sem gerðist á meðan hann var á lífi.“ Þau orð frændans, sem féllu í einni heimsókn hans til bróðurdóttur sinnar, eru eins og brennimerkt í huga Bé; hann hafði setið í eldhúsinu með systur sinni og borðað gamalt snakk sem Lalli frændi hafði fært þeim systkinunum; og Lalli hafði staðið í dyragættinni og blandað saman frásögnum af sjálfum sér úr nútíð og þátíð, angandi af einhverju sterku, sem í endurminningu Bé voru kökudropar.
(úr seinni hluta smásögunnar Forstofan, Gegnum símann – Dulnefnin 2016)
24. ágúst 2018
Þótt ef til vill hafi staðið til í upphafi (þegar fyrirsögnin FRÆNDI datt hérna inn í fyrradag) að velta sér upp úr „frændanum“ eins og enginn væri morgundagurinn – að blóðmjólka það orð, frændann – þá hefur sú ákvörðun verið tekin að slíkt gangi ekki til lengdar; það verði eitthvað að vera í bland inn á milli, eitthvað annað en bara eitthvað um „frændann“, þótt líklega muni hann, „frændinn“, verða fyrirferðamikill þegar upp er staðið, komi að þeirri stundu að upp verði staðið. Í dag birtist annars staðar á netinu spjall við „skyldmenni frændans“ um bókalestur, í Ráðuneyti Leslistans; og mér, skyldmenninu, finnst af því tilefni rétt að benda á Leslistann, sem er einmitt ein af þeim síðum sem það, skyldmennið, hafði í huga þegar það nefndi vefsíður um bókmenntir og tónlist í spjallinu (en nefndi þó ekki með nafni þar, heldur bara hér). Þetta er sem sagt ábending „frændans“ á þessum föstudegi:
23. ágúst 2018
Með því að þrýsta eyranu að hurðinni rifjast upp fyrir mér þegar Lárus frændi, Lalli, föðurbróðir mömmu, strunsaði út af æskuheimili mínu einn daginn fyrir fjörutíu árum, sótvondur og bölvandi; hann hafði komið færandi hendi fyrr um daginn, með tvo innkaupapoka fulla af morgunkornspökkum sem hann hafði fengið frítt frá einhverjum kunningja sínum, sendibílstjóra; hann vildi gefa okkur systkinunum pakkana. Og hann gaf okkur þá, þrátt fyrir að mamma vildi helst ekki að við tækjum við þeim, vegna þess að morgunkornið væri orðið of gamalt. Pabbi hafði ekki haft neina skoðun á því, ekki frekar en á öðru sem viðkom þessum frænda okkar. En morgunkornið var ekki ástæðan fyrir því að Lalli fór út af heimilinu illa stemmdur. Það gerðist vegna þess að hann var orðinn of drukkinn þegar leið á daginn, að mati mömmu. Hann var búinn með áfengið sem hann hafði meðferðis; hann var farinn að biðja mömmu og pabba um að gefa sér af sínu. Og við systkinin biðum inni í herberginu okkar, með eyrun á hurðinni; við biðum eftir því að Lalli myndi hrópa aftur á mömmu að hún væri aumingi og nirfill; hann hefði langað til að gleðja krakkana hennar en fengi ekkert nema skít í staðinn; það yrði bið á því að hann kæmi í heimsókn aftur.
„Þú ert ekkert nema helvítis nirfill!“ hrópaði hann, áður en mamma skellti á hann hurðinni.
(úr fyrri hluta smásögunnar Forstofan, Dyrabjöllunni hringt – Dulnefnin 2016)
22. ágúst 2018
Hér átti að vera tóndæmi með hljómsveitinni Art Ensemble of Chicago, en ég finn það dæmi ekki á tiltæku formi á netinu, svo ég verð bara að finna eitthvað annað. Það gerðist um daginn að ég eignaðist plötuspilara. Ég fékk hann í afmælisgjöf. Ég hafði séð auglýsingu frá raftækjaverslun í bænum, og þegar ég kynnti mér vöruúrval búðarinnar sá ég að þeir (í búðinni) voru með plötuspilara til sölu, ansi ódýra, og ég hugsaði sem svo að ef til vill ætti ég að nota tækifærið og óska mér plötuspilara í afmælisgjöf; ég gæti tengt hann við græjurnar í herberginu mínu, og dregið fram allar gömlu vínilplöturnar mínar. Og nú hefur allt þetta gerst: ég fékk plötuspilarann í afmælisgjöf; og gömlu vínilplöturnar (þó ekki allar) hafa verið fluttar úr geymslunni upp í íbúð. Og það sem meira er: ég hef eignast sex nýjar hljómplötur. Tvær þeirra fékk ég í afmælisgjöf; hinar fjórar keypti ég fyrir peninga sem móðir mín gaf mér í tilefni dagsins. Ein þessara platna, sem ég fékk í stóru plötubúðinni við Hlemm, er tónleikaplatan Urban Bushmen með Art Ensemble of Chicago. Ég hafði aldrei heyrt þá plötu áður, bara Nice Guys (sem ég keypti líka í stóru plötubúðinni; ég var búinn að glata mínu gamla vínileintaki – þvílíkt fín sem sú plata er) og Full Force (sem ég á á geisladiski). Urban Bushmen er einhver fínasta jazzplata sem ég hef heyrt. Og ekkert endilega fínasta jazzplata, heldur bara fínasta plata. Reyndar tvær plötur: þetta er tveggja platna albúm. Og það er á henni, eða þeim, sem lag Roscoes Mitchell, Uncle, er að finna – lagið sem ég finn ekki á youtube. Fyrri hluti þess er aftast á C-hliðinni, og sá seinni opnar D-hliðina. Samanlegt tekur Uncle á átjándu mínútu að flytja. Agalegt að geta ekki deilt laginu hér. En líka góð tilfinning að það sé bara að finna á vínilplötunni. Því ég er nefnilega ekki viss um að hljómplatan Urban Bushmen sé fáanleg á geisladiski. Ég verð að athuga það. Jú, reyndar. Hún var endurútgefin á geisladiski 2008. Auðvitað. Uncle. Frændi. Eitthvert fyndnasta orð í íslensku, eða hvaða tungumáli sem er. Tío. Oncle. Onkel. Kummisetä. Frændinn sem kemur í heimsókn og gefur börnum bróður síns bláan Ópalpakka. Eða börnum systur sinnar rauðan. Og dónalegi frændinn, Lester Bowie, sem kom í heimsókn, ásamt Don Moye, í Bergstaðastræti 9a fyrir um það bil 20 árum, ábyggilega fullur, annars hefði hann ekki verið jafn dónalegur og hann var. Svo var hann dáinn þremur árum síðar, ekki nema 58 ára gamall. En eitthvað verð ég að spila, fyrst Uncle er ekki í boði á netinu. Hér eru Lester og Don, og Roscoe og Malachi – þetta er ekki verra en Uncle:
22. desember 2017 (aukafærsla, rétt fyrir miðnætti)
22. desember 2017
21. desember 2017
20. desember 2017
Tónskáld desembermánaðar, Milton Babbitt, hefur svolítið gleymst núna í amstri daganna. Það hefur fallið milli skips og bryggju, ef maður kýs að orða það svo. Í gær hitti ég Þ og A á Loftinu í Bankastræti, og allan þann tíma sem ég sat með þeim var ekki minnst einu einasta orði á Milton. Bara eins og hann hefði aldrei verið til. Ég verð reyndar að játa að Joan Cabanilles, tónskáldið sem ég valdi upphaflega sem tónskáld mánaðarins, en vék svo til hliðar til að rýma fyrir Milton Babbitt – hann, það er að segja Joan Cabanilles, hefur á síðustu dögum hljómað oftar en Milton Babbitt þar sem ég hef verið staddur, svolítið í bland við Endurreisnardansana í flutningi Davids Munrow og félaga í The Early Music Consort of London-hópnum, og Oh Baby með LCD Soundsystem. Síðarnefnda laginu hef ég áður deilt hér á síðunni, og ef ég man rétt (sem ég veit að ég geri), þá fékk David Munrow og The Early Music Consort of London-hópurinn líka sitt pláss á síðunni. En hey (eins og Rob Reiner orðaði það), hér er hið geysifallega verk Babbitts:
Í gær, stuttu eftir að ég myndskreytti nokkrar línur úr ljóðabókinni Öfugsnáða, fékk ég póst þess efnis að það væri kominn ritdómur um bókina. Hann birtist á Bókmenntavef Borgarbókasafnsins. Fyrir utan að gleðjast yfir því að fá umsögn um bók, þá gladdist ég mjög mikið yfir því að í umsögninni væri minnst á ljóðið um þykku teppin og pípulagnirnar. Rétt eins og ekki var einu einasta orði vikið að Milton Babbitt á Loftinu í gær, þá hafði ég aldrei heyrt nokkra manneskju tala um þetta tiltekna ljóð í Öfugsnáða – ég segi ekki að mikil umræða hafi átt sér stað um bókina, ekkert málþing eða svoleiðis; en þetta er samt sem áður það sem mér datt í hug að segja: að ég hefði „aldrei heyrt nokkra manneskju tala um þetta tiltekna ljóð“ osfrv. Hér er slóðin á dóm Úlfhildar Dagsdóttur:
https://bokmenntaborgin.is/umfjollun/ofugsnadi
Nú þegar ég opnaði fyrir útvarpið, klukkan átta, til að heyra morgunfréttirnar, heyrði ég lesna auglýsingu um „jólagjöf iðnaðarmannsins“. Og sem ég hélt utan um tölvumúsina með hægri hendinni, og teygði mig í kaffibollann með þeirri vinstri, fannst mér eins og verið væri að auglýsa bókina mína í útvarpinu, að það væri hún sem væri „jólagjöf iðnaðarmannsins“. Líklega gerðist þetta vegna þess að ég var með hugann við ljóðið um pípulagnirnar.
19. desember 2017
Það er ekki alveg laust við að ég hafi sjálfur misskilið nokkur orð sem kaflastjórnandi lét falla um nýútkomnar bækur á Íslandi í færslu gærdagsins, þegar hann var beðinn um að láta í té einhverjar hugmyndir að jólagjöf (handa þeim sem bað um hugmyndirnar). Að kstj. skyldi ekki detta nein ný íslensk bók í hug (fyrir utan bók hans sjálfs) átti auðvitað ekki að merkja að honum fyndist engin slík bók eiga erindi undir jólatréð – þetta var einungis sett fram, eins og það var gert, í þeim tilgangi að hafa ástæðu til að láta kstj. verða ringlaðan í höfðinu; honum fannst svo smart að draga upp þá mynd af sjálfum sér að hann sundlaði og riðaði til falls – það er einmitt þannig sem hann sér sjálfan sig, frá því hann vaknar á morgnana, og þangað til hann lognast út af á kvöldin. Og meira þessu tengt: hann (kstj.) var einmitt spurður að því í gær – reyndar kom spurningin frá honum sjálfum – hvort hann ætlaði ekki að segja frá einhverjum nýjum íslenskum bókum sem hann hefði lesið nýlega, bókum sem hefðu komið út í jólabókaflóðinu. Og þær eru nokkrar, sem hann hefur lesið. Og margar ansi fínar, maður lifandi. En nú er bara svo komið að kstj. er orðinn svo ringlaður yfir öllum þessum spurningum um nýjar íslenskar bækur, og hvort þessi eða hinn ætli ekki að gera hitt eða þetta, að sviminn í höfðinu er raunverulega langt að því kominn að knýja hann til jarðar – hann veit ekki hvort hann ræður við meira í bili. Líklega fer honum ekki vel að vera að tjá sig um bækur „samkeppnisaðila“ (eins og einn höfundurinn orðaði það svo hnyttilega í einu jólabókaflóði liðinnar tíðar) – svo er hann líka hræddur um að einhver fari að vitna í hann, ef ekki í auglýsingu, þá til dæmis á götuhorni í Reykjavík, eða einhvers staðar á jaðri einhvers samfélagsmiðilsins. Það sem stóð til að hafa hérna á síðunni í dag var enn eitt „strikið á himni“ – því var um daginn lofað að þessi strik yrðu að einhvers konar seríu, jafnvel jólaseríu – en svo hefur „eitthvað ekki gerst“ í þeim málum, nema að kstj. náði mynd af nokkrum strikum annarrar tegundar þegar hann var á gangi framhjá Hörpu um daginn; og núna dettur honum í hug að nota þessi annarrar tegundar strik sem eins konar auglýsingu fyrir jólabókina sem hann var að gefa út. Hann ætlar að birta nokkrar línur úr einu ljóði bókarinnar, ljóði sem kallast Þykk teppi, og láta myndina sem fylgir vera myndskreytingu á orðunum:
„Að einhverjar pípulagnir
eigi eftir að liðast um allt þetta rými
sem núna er bara sólbakað loft
og vindþurrkað.“
„En vætt af regninu – stundum,“
gríp ég fram í fyrir honum,
„– kannski falið af myrkrinu?“
18. desember 2017
Eins gott að vera ekki að hafa of mörg orð með þessu:
Ég fékk annars póst frá ónefndum aðila í gær (vil ekki nefna hans hans, því pósturinn fjallaði um vandamál tengt jólagjöfum, og ekki ætla ég að fara að ljóstra upp einhverju svoleiðis, það gæti skemmt jólagleðina fyrir öðru fólki tengdu aðilanum), og hann, aðilinn, sagði mér frá því að fjölskyldan lægi á baki hans með þá spurningu – nei, annars: réttara að orða þetta svona: fjölskyldan stæði yfir honum frá morgni til kvölds, og æpti á hann: Hvaða bók? Hvaða bók viltu fá í jólagjöf! Segðu okkur: hvaða bók!!! En hann hafði ekkert svar á reiðum höndum, og þess vegna sneri hann sér til mín. En ég gat ekki hjálpað honum. Mér datt bara ekki ein einasta bók í hug, ekki einu sinni mín eigin bók, því varla ætlaði ég að hvetja hann til að beina þeirri ósk til fjölskyldunnar að hún gæfi honum í jólagjöf bók sem hann átti nú þegar. Ég einfaldlega stóð á gati. Ég nefndi einhverjar bækur út í loftið, einhvern veginn alveg hugsunarlaust, og fljótlega fann ég að mig var farið að sundla, ég hálfpartinn riðaði til falls; og það var þess vegna sem ég greip til þess ráðs að setja lagið með Louis Armstrong á fóninn – reyndar ætlaði ég að setja annað lag af þessari sömu plötu með lögunum eftir Fats Waller (Ain´t misbehaving, þar sem eitthvert fínasta trompettsóló í sögu trompettsins er að finna), en ég var orðinn svo ringlaður í höfðinu, eftir að hafa reynt að láta mér detta í hug einhver bókartitill sem hinn ráðvillti „spurnaraðili“ gæti stungið upp á við fjölskyldu sína að hún gæfi honum í jólagjöf, að ég ýtti óvart á þetta lag, Blue turning grey over you; og þess vegna hljómar það hér, en ekki hitt lagið með sólóinu sem ég nefndi.
15. desember 2017
Dýrin í skóginum geta aldrei öll orðið vinir. Það hef ég séð í augum hins bengalblandaða Vasily, þegar hann horfir á eftir spörfuglinum eða músarrindlinum, og ræður ekki við sig. Ég myndi aldrei treysta dýrinu fyrir að láta fuglinn í friði – en þegar Basil er í sveitinni, þá er hann með ól um hálsinn, og úr ólinni hangir bjalla; svo er hann líka mest innandyra, þar sem fuglarnir eru ekki. Þegar ég las eftirfarandi orð Símons Vestarr í Kjarnanum áðan, þá spurði ég sjálfan mig hvort ekki væri ráð að láta ákveðna stjórnmálamenn hafa eitthvað um hálsinn á sér.
„Að kalla Bjarna Ben drullusokk er ómálefnalegt og óhjálplegt. Að kalla hann Panamaprins er kannski líka óþarfi. En að kalla hann spilltan? Það er ósköp einfaldlega sannleikur sem allir landsmenn eiga rétt á að fá að vita. Máltækið segir: oft má satt kyrrt liggja. En það á ekki við um heilindi stjórnmálamanna. Og hér komum við að lýðræðislegum þroska íslensku þjóðarinnar.
Bak við heiftina í íslenskri stjórnmálaumræðu er raunveruleg neyð fólks sem samfélag okkar hefur brugðist. Við strokum þá neyð ekki út með því að láta Katrínu vera kurteisa við Bjarna eða með því að festa upp platta sem á stendur: „Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir.“ Raunveruleg samræðustjórnmál byggjast á gagnkvæmu trausti og Sjálfstæðisflokkurinn er ekki traustsins verður.“
(S. V., Kjarnanum, 14. des.)
En hér (á eftir myndinni úr Valhöll, Háaleitisbraut) kemur músík dagsins: La Mourisque eftir Tylman Susato – ég eignaðist þetta nýlega á disk, í þessum sama flutningi Davids Munrow og félaga í The Early Music Consort of London, og þetta vill ekki fara af fóninum.
En nú að gærdeginum. Mig grunar nefnilega að það sé að fæðast sería (hugsanlega jólasería – það á eftir að koma í ljós). Ég fór á pósthúsið í gær (til að senda henni Olgu bók; hún býr í London), og í sömu ferð fór ég í fiskbúðina – allt þetta fótgangandi (bara svo það sé á hreinu); og hvað færði þessi ferð mér annað en gleðina yfir að hafa sent pakkann, og hinn ferska þorskhnakka? Hún færði mér strik á himni. Auðvitað flaug að mér að segja prik á himni – hverjum hefði ekki dottið það í hug? – en ég hélt aftur af mér. Í bakaleiðinni úr fiskbúðinni tók ég mynd af tveimur strikum á himni. Fyrra strikið birtist mér fyrir tilviljun, þegar ég var að taka mynd af Apótekinu og Bleksmiðjunni við Gullteig; seinna strikið varð á vegi mínum vegna þess að ég var að skima eftir fleiri strikum á himni. Ég var staddur á brúnni, þaðan sem ég tók líka mynd af Esjunni – kannski birti ég þá mynd síðar; hér er hvorki staður né stund fyrir hana.
14. desember 2017
Enn og aftur fer ég í huganum til laugardagsins sem var. Var tilraun hins óþekkta bílstjóra til að koma mér út af veginum ef til vill þaulúthugsuð? Hafði hann komist á snoðir um ferðir mínar – ferðir mínar og Vasilys (þetta held ég að hljóti að vera áhrif frá Pnín-lestri augnabliksins – ég er ekki viss um að Basil sætti sig við breytta mynd af nafni sínu) – og að hann, bílstjórinn, hafi vísvitandi beðið eftir okkur við veginn? Fannst honum nóg að ég hefði ekið gegnum Reykholtssveit – að ég hefði enga ástæðu til að fara lengra en það? Mig undrar hversu mikið fólk leggur á sig til að ná markmiði sínu. Í þessu tilviki hefði viðkomandi kallað það sama yfir sjálfan sig og hann ætlaði mér – hann eða hún hefði ekki farið lengra í sínu eigin lífi, hvorki aftur í gegnum Reykholt eða lengra í burtu frá Reykholti. En það er augljóst að hann eða hún (einhvern veginn held ég að þetta hljóti að hafa verið hann) hefur talið að lengra væri ekki ástæða til að fara. Ég kom hins vegar í veg fyrir að planið gengi eftir. En hugsanlega sat þessi „aðili“ fyrir einhverjum öðrum þegar við Vasily vorum horfnir úr augsýn, þótt líklega væri ég nú þegar búinn að heyra um það í fréttum.
Ég hefi annars ákveðið að hengja upp nokkrar myndir. En verð samt fyrst að taka fram að nú hefur Joan Cabanilles ýtt Milton Babbitt út af borðinu sem tónskáldi desembermánaðar; það gerðist í gær (þótt ekki fyndist tími til að greina frá því þá) – og ég er alveg viss um að það hljóti að fara vel saman að hlusta á tilbrigði Cabanilles við Fólíuna, og horfa á myndirnar um leið (gott ef tónlistin er ekki sérstaklega samin við þessar myndir). Hér er tónlistin:
Og hérna eru myndirnar. Fyrst er Tungl og krani, svo kemur Hús og bílar, og að lokum Strik á himni.
12. desember 2017
Það kemur að því að ég sest inn í bílinn
sem bíður mín á stæðinu.
Eins og nágranninn í húsinu við hliðina
gerir á hverjum degi.
Hjá mér mun þetta gerast
aðeins einu sinni.
(Öfugsnáði, bls. 43)
Annaðhvort er það sjálfsvorkunn eða lögreglueðlið í mér – hugsanlega hvorutveggja – en ég er enn að reyna að sjá fyrir mér manneskjuna í jeppanum sem ók í veg fyrir mig (og aðstoðarmann minn) í Reykholtssveit síðasta laugardag. Hefði henni tekist það sem ég þykist vita að hafi ekki verið ætlunarverk hennar, þá efast ég um að ég væri að velta þessu fyrir mér núna – ég þykist reyndar líka vita að hefði svo farið að minn bíll lenti á hennar, þá hefði þessi tónlist (hér fyrir neðan) tekið að hljóma í kyrrðinni sem hlýtur að koma í kjölfar svo harkalegs stefnumóts tveggja ökutækja:
9. desember 2017
Samkvæmt yfirskrift bloggsins (þessa bloggs hér) breyttist gærdagurinn óvænt í hvíldardag. Sem hann var ekki. Ég hafði því ætlað mér að hafa þennan laugardag sem „virkan“ dag, en dagurinn í dag fór óvænt í ferðalag (einnar klukkustundar og fjörutíu mínútna) – hann hafði líka í för með sér tilraun óþekkts bílstjóra til manndráps af gáleysi; sá sem hefði dáið, hefði tilraunin tekist, var ég – og vegna þess að á áfangastað er mun kaldara en í þéttbýlinu, þá neyðast fingurnir til að viðhafa annars konar fingraleikfimi en lyklaborðsáslátt (til að ná í sig hita) – ég veit að þetta hljómar eitthvað mjög tvírætt, jafnvel óviðeigandi, en það er ekkert svoleiðis – auk þess sem mig grunar að áfallastreita spili inn í, að það sé hún sem dregur mann að lyklaborðinu, jafnvel þótt fingurnir ráði ekki við ásláttinn vegna kuldans sem umlykur þá. En maður á aldrei að gera ráð fyrir að komast heilu og höldnu á áfangastað (og Basil gerir það ekki heldur; hann var með mér í bílnum). En þegar það tekst – þegar maður nær á áfangastað – þá er líka ástæða til að gleðjast. Svo er annað: Þegar á mann er ráðist á maður auðvitað að taka þátt í árásinni – mér tókst það samt ekki í dag, vegna þess að árásin var svo óvænt. Hefði ég vitað af henni með hálfrar mínútu fyrirvara hefði ég hiklaust reynt að aka í veg fyrir sjálfan mig, eins og hinn óþekkti bílstjóri í Reykholtssveitinni. En þarna var bara enginn fyrirvari. Og nú er orðið svo dimmt að það hlýtur að vera kominn tími á smá Milton Babbitt. Því hann er ennþá tónskáld mánaðarins. Það sem hér hljómar held ég að hljóti að vera tónskreyting á þeim augnablikum sem líða eftir að reynt er að drepa mann af gáleysi (þótt auðvitað sé spurning hvort sögninni „að reyna“ sé ofaukið):
7. desember 2017
Ég var í gær eitthvað að tala um upplestra. Í dag ætlaði ég síðan að hneykslast á frétt sem ég sá í Guardian, um undirskriftalista sem verið var að safna til að krefjast þess að málverk Balthusar, Thérèse dreymir, yrði fjarlægt af vegg Metropolitan-safnsins í New York. Ég ætla að halda áfram að hneykslast á því, en samt að nota hið dýrmæta auglýsinga- og kynningarpláss sem mér býðst hérna á vefnum til að minnast aftur á upplestur fjögurra misungra manna í Stúdentakjallaranum í kvöld. Einhverra hluta vegna eru það bara „menn“ sem lesa í gluggalausu byrginu undir Bóksölunni (sem er þó væntanlega undir öðru rými en Bóksölunni) – reyndar er ákveðin ástæða fyrir því að engir kvenmenn eru með í hópnum, því kvöldið er skipulagt sem kynning á nýjum ljóða- og smásagna- eða prósabókum Bjarts, sem sagt ekki skáldsögum. Ef þetta væri skáldsagnakvöld, þá væri kynjahlutfallið að öllum líkindum ofurlítið „réttara“. En hér er tilkynning (að vísu hefur titillinn á bók Ragnars Helga eitthvað misfarist; hann á að vera Handbók um minni og gleymsku):
https://bokmenntaborgin.is/borgin/vidburdir?event=5a257cef9c07071d64c9bf5b
Hér er svo umfjöllun Guardian um hið furðulega mál sem tengist Balthus:
https://www.theguardian.com/artanddesign/2017/dec/06/new-york-metropolitan-museum-art-refuses-remove-girl-balthasar-klossowski-voyeurism-complaint
6. desember 2017
Trausti Jónsson, veðurfræðingur og áhugamaður um veður, birti í gær á bloggsíðu sinni færslu um ákveðið veðurfræðilegt fyrirbæri sem hann nefndi „öfugsniða“. Ég er ekki vanur að fletta upp á bloggi Trausta – vissi reyndar ekki af því – en mér var sent þetta í gær, stuttu áður en ég fór í Gröndalshús til að lesa upp úr ljóðabókinni Öfugsnáða. Í orðabókinni er gefin upp önnur mynd af orðinu öfugsnáða, sem er öfugsnoði; og á göngu minni út í Gröndalshús, í tungllýstri stillu meðfram Rauðarárvíkinni, með flöktandi norðurljósin yfir mér (sem var reyndar á bakaleiðinni; ég mátti ekkert vera að því að fylgjast með umhverfinu á leiðinni út í Gröndalshús, ég var með hugann fyrir lesturinn framundan), bjó ég til nýtt „öfugs-orð“ – það orð gæti hentað vel yfir börn sem stinga snuðinu vitlaust upp í sig: öfugsnuði. Nú man ég ekki hvort ég hafi einhvern tíma staðið mín eigin börn að því að setja snuðið öfugt upp í sig; en einhver börn, í sögu snuðsins, hljóta að hafa gert það. Þau börn eru öfugsnuðar. En hér er niðurlag Trausta í útskýringu sinni á hinum veðurfræðilega skánafna Öfugsnáða (eins og sendandi slóðarinnar orðaði það):
… austan- og norðaustanátt ríkjandi, hvöss undan Suðurlandi. Ofar er vindur mjög hægur (grænn litur) en þar ofan við vex vindur af suðvestri þar til komið er í kjarna heimskautarastarinnar í um 9 km hæð (300 hPa).
Þessi breyting vindhraða og stefnu með hæð heitir „reverse shear“ á erlendum málum – sem ritstjórinn kýs að kalla „öfugsniða“ á íslensku.
Hér má svo sjá færsluna í heild sinni:
https://trj.blog.is/blog/trj/entry/2207559/
Upplesturinn í Gröndalshúsi gekk mjög vel fyrir sig. Gesti mátti telja á fingrum beggja handa, og ef upplesarar sjálfir voru taldir með (þeir voru sjö) komust ekki mikið fleiri fyrir í salnum. Þannig að hálfpartinn lásum við höfundarnir fyrir fullum sal. Nú, svo er ekki meira með það. Ég gekk aftur heim í myrkrinu, og núna horfði ég á hverfandi ofurmánann yfir Rauðarárvíkinni, og á norðurljósin (með augum útlendinganna sem stóðu við Sólfarið), og ég blístraði nokkrar hendingar úr Speglunum Miltons Babbitt, tónskáldi desembermánaðar, og lofaði sjálfum mér því að þegar ég kæmi heim myndi ég setja Joan Cabanilles á fóninn (til að hann lægi ekki alveg óbættur hjá garði – úti í vegkantinum, eins og E orðar það) – ég myndi síðan hugsa um allt sem ég hafði gert yfir daginn, og líka það sem ég hafði gert áður (og ekki gert – aðallega það), síðustu þrjá til fjóra áratugina – jafnvel það sem ég hefði í hyggju að gera síðar. „Að gera síðar“? Það eru heldur betur verkefni framundan: upplestur á drengjakvöldi Bjarts í Stúdentakjallaranum á fimmtudagskvöld, og Gljúfrasteinsupplestur á sunnudag klukkan fjögur. Þar með eru upplestrar fyrir jól upptaldir, nema að mér verði boðið að lesa upp í Valhöll við Háaleitisbraut, eða í Jólagarðinum í Eyjafirði – á þessum tveimur stöðum hef ég aldrei lesið upp. Aldrei. Aldrei nokkurntíma.
5. desember 2017
Aðstoðarmaður minn Basil hafði í nokkra daga í heimsókn hjá sér annan aðila af sömu tegund, en nú er sá aðili farinn til síns heima, og Basil er hvorki mönnum né dýrum sinnandi (hugsanlega þó dýrum, en þau er bara ekki að finna í neinu magni þessa stundina). Hann fæst ekki einu sinni til að aðstoða mig við skrifstofustörfin. Blöðin sem þjóta út úr prentaranum vekja ekki lengur áhuga hans, alveg sama þótt á þeim sé að finna glæný paragröf, eða brakandi ferskar línur um fánýti mannlegs lífs. Hans eina huggun er að hlusta á tónverk Miltons Babbitt, líklega vegna þess að hann skilur ekkert í þeim. Svipurinn í augum hans, þegar hann horfir á mig (líklega vitandi að það sama fer inn um mín eyru og hans), felur í sér þá spurningu hvort ég skilji eitthvað í þessu sjálfur. En það er sem sagt augljóst af þessu að Milton Babbitt heldur enn stöðu sinni sem tónskáld desembermánaðar (þótt Joan Cabanilles banki fast á dyrnar með sínum þriggja alda gömlu hnúum).
4. desember 2017
Það sem skrifað hefur verið með pennanum getur ekki einu sinni öxin höggvið burt (rússneskur málsháttur). Bara ef það væri svoleiðis. Hvert einasta orð (kannski ekki alveg hvert einasta) sem ég skrifaði fyrir helgi hefur nú verið fjarlægt af pappírnum – ég notaði til þess öxina sem ég geymi bakvið sjónvarpið.