15. október 2016

Daginn áður en Bob Dylan var útnefndur sem næsti nóbelshöfundur í bókmenntum keypti ég mér bók í second-hand-bókabúð í Cambridge, Massachusetts, bara af því að hún var svo ódýr: Like a rolling stone – Bob Dylan at the crossroads, eftir Greil Marcus. Ég er „ævilangur“ aðdáandi Bobs, sérstaklega þeirra platna sem hann gaf út á árunum 1965 til 1976; en ef ég væri Bob Dylan – ef það gerðist allt í einu að ég væri hann, og hann ég – þá myndi ég gera það sama og Sartre gerði á sínum tíma, að afþakka heiðurinn. Mér finnst þetta misráðið. Ég er alveg sammála því sem Kristján B. sagði í útvarpsþættinum Lestinni í gær, að verk Bobs Dylan væru ekki bókmenntaverk. Og allt í lagi með það. En einmitt vegna þess finnst mér (og mig grunar að það muni gerast) að Bob Dylan eigi að afþakka kurteislega. (Barack Obama hefði líka átt að afþakka sín friðarverðlaun, finnst mér. Það var alveg nóg að heimsbyggðin frétti af því að nóbelsnefndin hefði hugsað til hans; það stenst engin rök að Bandaríkjaforseti taki á móti friðarverðlaunum.) Svo er líka miklu smartara af tónlistarmanni að senda frá sér kurteislega yfirlýsingu um að hann afþakki verðlaun fyrir bókmenntaverk. En nú verð ég afsaka mig (gagnvart sjálfum mér), því ég hef ekki tíma til að skrifa meira. Það er laugardagur. En fyrst ég hef minnst á Bob Dylan, þá ætti maður auðvitað að vera að hlusta á Bob Dylan þessa dagana. Ég „lenti aftur á móti í því að lenda“ í svolitlu nostalgíukasti vegna annars tónlistarmanns, bandarísks; ég keypti mér Born to run með Bruce Springsteen, í sömu búð og ég keypti bókina um Bob Dylan. Hún kostaði ekki nema 5.99 American Dollars. Ég held ég hafi síðast hlustað á Born to run, í heild, þegar ég var 17 eða 18. En þvílík plata. Ég ætla að leyfa mér að nota hæsta stigið: snilld. Ég er samt ekkert viss um að Bruce Springsteen sé snillingur (ekki á sama hátt og Arnold Schoenberg eða Eric Dolphy eða Miles Davis – sem ég veit reyndar ekki heldur hvort flokkist sem snillingar); en Born to run er svo fín plata að maður neyðist til að nota hæsta stigið. Auðvitað gerist það að fólk sem ekki er snillingar búi til eitthvað sem er snilld – eða á það skilið að vera verðlaunað með hæsta stiginu. Og talandi um hæsta stigið, þá er mér ljúft og skylt (hræðilegt orðalag; ég lofa að nota það ekki aftur) að benda á skrif Gunnþórunnar Guðmundsdóttur um nýjustu útgáfu Smekkleysu, skáldsöguna Kompu eftir Sigrúnu Pálsdóttur. Ég veit ég var búinn að lofa (sjálfum mér) að minnast á nokkrar aðrar nýútkomnar bækur, en aftur verður útgáfa Smekkleysu að ganga fyrir:

 

http://hugras.is/2016/10/freistingar-arkivunnar/

8. október 2016

Féeggsstaðaá er á sem fellur niður í Barká í Hörgárdal. Ég vissi það ekki fyrr en í dag. Ég vissi ekki heldur að á Íslandi væri til á sem kölluð er Féeggsstaðaá. En allt er til, jafnvel þótt ég finni ekki mynd á netinu af ánni Féeggsstaðaá. Ég gæti látið fylgja eitthvert annað myndefni, ótengt ánni (eða jafnvel tengt Hörgárdal), en Féeggsstaðaá says it all, eins og sagt er á ensku.

7. október 2016

Nú vill svo til að ég er staddur í húsi með fólki frá Texas – og verð næstu dagana – fólki sem samkvæmt grun, og nokkuð haldbærri vissu, ætlar sér að kjósa forsetaefni Repúblikanaflokksins í næsta mánuði. Þetta eru roskin hjón; ég hef hitt þau áður. Í gær sagði konan mér frá tónleikum sem hún fór á með Elvis Presley þegar Elvis var um tvítugt, og hún líklega 13 eða 14. Þeir hafi verið haldnir á Cotton Bowl-leikvanginum í Dallas, þar sem konan býr ásamt manni sínum. Ég fletti þessu upp á netinu áðan, og fann út að Elvis var 21 árs þegar hann spilaði á Cotton Bowl; og hún, konan, nýorðin 15 ára; hún átti afmæli daginn fyrir tónleikana, sem voru haldnir 11. október 1956. Hér er ítarefnið um þessa fjölmennu tónleika:

 

http://www.elvis-history-blog.com/elvis-dallas-56.html

 

Á sunnudaginn næsta, 9. október, verða kappræður Dónalds og Hillaríar (Hillarís?) nr. 2 í sjónvarpinu hér í States. Ég sé fyrir mér að þetta verði eitthvað sem ég mun rifja upp eftir 10 eða 20 ár (ef almættið leyfir): kvöldstundin sem ég átti með fólkinu sem ætlaði sér að kjósa Dónald, fyrir framan sjónvarpið þar sem Dónald var að kappræða við Hillarí (Hillaríu); þegar helst mátti ekki ræða þessi mál í þeim hópi sem saman var kominn fyrir framan sjónvarpið, vegna þess að málið var allt of viðkvæmt: ef rætt væri um það sem fram færi á sjónvarpsskjánum myndi allt fara í háaloft, eða (sem mig grunar að sé líklegra) að samræðurnar þögnuðu um leið og þær hæfust. Hvort sem gerist, þá verður stemmning. Ég mun kannski rjúfa þögnina (eða yfirgnæfa hávaðann í heiftarlegu rifrildinu) með einhverju um íslenska pólitík; um Sigmund Davíð og nafna minn Gunnar. Og helli Bud Light yfir pappírinn og orðið. (Það er svo langt síðan heyrst hefur í Elvis Presley, að ég ætla að bæta úr því ekki seinna en núna. Elvis Presley: It´s Impossible.)

 

3. október 2016

Þegar ég horfði á útgöngu fráfarandi formanns Framsóknarflokksins (meðvituð ofstuðlun) í Háskólabíói gærdagsins, varð mér strax hugsað til fyrstu sögunnar í nýja smáprósasafninu frá Gyrði Elíassyni, Langbylgju. Sagan heitir Fallið, og segir frá kófdrukknum dönskum svínabónda um borð í flugvél frá Czech Airlines á leið frá Prag til Kaupmannahafnar. Ég ætla ekki að útlista söguna frekar – ég skora bara á fólk að ná sér í bókina og lesa – en það sem gerist er allsvakalegt; ég get lofað því. En var það eitthvað svakalegt sem gerðist í Háskólabíói gærdagsins? Var það ekki bara eðlilegt framhald þeirrar atburðarásar sem Framsóknarflokkurinn hefur hannað síðustu vikur og mánuði? „Eðlilegt framhald“? Tónlist dagsins í dag kemur frá Rod Stewart:

 

30. september 2016

Nýjasta útgáfa Smekkleysu sm.ehf. er skáldsagan Kompa eftir Sigrúnu Pálsdóttur. Ég ætlaði að nota dagsetningu dagsins í dag til að segja frá öðrum bókum, meðal annarra endurútgáfu Sæmundar á 90 sýnum úr minni mínu eftir Halldóru Thoroddsen (sem er alveg milljón fín), og annarri endurútgáfu (Kúbudagbókinni eftir Óskar Árna Óskarsson) sem er ekki síður fín bók – og nú fer þessi listi að lengjast nokkuð, því í gær fékk ég tvær glænýjar bækur eftir Gyrði Elíasson (smáprósasafnið Langbylgju, og ljóðabókina Síðasta vegabréfið) – en allt þetta verður að bíða annarrar dagsetningar (kannski morgundagsins, 1. október), því Smekkleysa verður að ganga fyrir, það er svo sjaldan sem Smekkleysa gefur út bækur. Ég ætla meira að segja að láta kynningartextann fyrir Kompu fylgja með:

 

Fræðimaður, ung kona, verður fyrir smávægilegri truflun inni á handritasafni við rannsókn á 365 ára gamalli dagbók. Afleiðingarnar eru afdrifaríkar en koma þó ekki í ljós fyrir en sex árum síðar þegar konan áttar sig á að rannsóknartilgáta hennar hefur í öll þessi ár verið byggð á röngum forsendum, og að ritgerðin, heilar 600 síður, er að öllum líkindum þvættingur frá upphafi til enda. Í örvæntingu sinni grípur hún til þess eina ráðs sem virðist geta bjargað henni úr skelfilegum aðstæðum, en verknaðurinn eykur bara á hremmingar hennar og áfallið í kjölfar þessa alls verður til þess að gömul veikindi taka sig upp. Buguð og í fræðilegri sjálfheldu frestar hún námslokum og fylgir eiginmanni sínum heim til Íslands. Þar burðast hún með leyndarmál sitt og laskaða sjálfsmynd gagnvart fjölskyldu og vinum, og tekst á við afleiðingar veikinda sinna, ofskynjanir, sem virðast þó að lokum ætla að opna henni leið út úr ógöngunum.

Kompa er skáldsaga um uppruna sögulegra heimilda og tilviljunarkennda varðveislu þeirra.

Sigrún Pálsdóttir lauk doktorsprófi í sagnfræði frá University of Oxford árið 2001 og hefur frá námslokum einkum unnið við ritstjórnarstörf; frá árinu 2008 sem ritstjóri Sögu, tímarits Sögufélags. Fyrri bækur hennar eru Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar (2010) og Sigrún og Friðgeir. Ferðasaga (2013)

29. september 2016

Vakni ég í fyrramálið mun ég laga mér kaffi; pissa og bursta tennurnar, og drekka kaffið sem ég laga. Svart, eins og ég er vanur að drekka það. En vakni ég ekki verður allt svart, eins og kaffið.

 

23. september 2016

Prógramm gærkvöldsins í MH gekk fyrir sig eins og ætlað hafði verið. Ég las textana um Botnskálann, og aðrir höfundar lásu sína texta; það var þéttsetinn Norðurkjallari, og Yrsa Þöll Gylfadóttir (sem las upp ansi skemmtilegan texta úr óbirtri skáldsögu) sagði mér að Þorgerður Ingólfsdóttir væri í húsinu (in da house – sem sagt í gærkvöldi), eftir að ég hafði eitthvað minnst á gamla minningu úr Norðurkjallara, minningu sem hafði með Þorgerði að gera, og Paul Zukovsky og Purrk Pillnikk – fyrstu æfingu Purrks Pillnikk, sem einmitt átti sér stað í Norðurkjallara (þegar Þorgerður og Paul voru að vinna að öðruvísi músík á efri hæðinni, í Hátíðasalnum – segi kannski frá þessu seinna). En sem sagt: Hamraskáldaupplesturinn var fínn. Svo fórum við, nokkrir höfundarnir, á Kringlukrána rétt fyrir lokun, og fengum okkur hressingu. Ég hlakka mjög til að lesa Látra-Björgu eftir Hermann Stefánsson. Sú bók á að koma út fyrir jólin. En nú að öðru. Ég hef gerst gestabloggari hjá dóttur minni Hrafnhildi. Hún heldur úti þessum fína vef, Ráðlögðum jazzskammti:

 

https://radlagdurjazzskammtur.wordpress.com

 

Þegar ég sendi henni þetta áðan – það var í hádeginu hér í Mordor, Reykjavík – var morgunn hjá henni í Cambridge, Massachusetts. Og þetta fór strax á vefinn. Enda má ekki bíða með eitthvað svona; Arthur Blythe þolir enga bið.

22. september 2016

Fjórir dagar liðnir og ég hef ekki bætt úr misheppnaðri birtingu minni á myndinni af fráfarandi forsætisráðherra og Danadrottningu. Rúma hálfa viku hefur sú myndbirting legið í loftinu en ekki losnað úr því ástandi og orðið að veruleika. Sá sem hefur ekki tíma til að sinna heimasíðunni sinni, hann hlýtur að vera að gera eitthvað annað. Og það stendur heima: ég er að gera svolítið annað. Það er varla að ég hafi tíma til að pikka inn þessi orð hér, því þetta „annað“ sem ég er upptekinn við hefur einmitt með orð að gera (en spurning hvort orð sé á því gerandi). (Ég hef aldrei áður notað þetta orðalag: að orð sé á því gerandi. Einhvern tíma er allt fyrst.) Í kvöld á ég að lesa upp í Norðurkjallara Menntaskólans við Hamrahlíð, ásamt öðrum höfundum sem stunduðu nám við þann skóla. Því var stungið að höfundunum að þeir læsu eitthvað sem tengdist veru þeirra í skólanum, en vegna þess að ég man ekki í fljótu bragði eftir að hafa skrifað eitthvað sérstaklega um MH, þá datt mér í hug að taka einn léttan Guðberg á þetta, og lesa eitthvað sem ég hefði skrifað um Verzlunarskóla Íslands, þar sem ég var við nám áður en ég hóf nám við Menntaskólann við Hamrahlíð. En ég finn ekki heldur neitt sem ég hef skrifað um Verzlunarskóladvöl mína. Nema þá auðvitað bullið sem ég birti í skólablaðinu, Viljanum (þvílíkt nafn á skólablaði!). Ég ætla ekki að fara að rifja upp þau skrif. Er þá niðurstaðan sú að ég hef ekkert skrifað um reynslu mína í þessum skólum? Sé svarið já, þá er ástæðan líklega sú að ég var aldrei almennilega með hugann við þessa skóla á meðan ég var þar. Ég var annars staðar. Hér í Kafla á dag hef ég nýlega (minnir mig) rifjað upp einkunnablað mitt frá VÍ; og ef ég mínusa frá góðar einkunnir í tungumálunum, þá held ég að aðrar einkunnir mínar úr báðum skólunum, VÍ og MH, séu fullkomlega áþreifanleg sönnun þess að ég var fjarverandi í námi mínu á meðan ég stundaði það. Ég hef aftur á móti skrifað eitthvað um veru mína og reynslu í Hagaskóla (sem er gagnfræðaskóli, eins og það hét þá). Sá skóli dúkkar upp í nokkrum sögum, aðallega smásögum (minnir mig). En hvað á ég þá að lesa upp fyrir nemendur MH í kvöld? Ég er að hugsa um að lesa tvo stutta texta um Botnskálann í Hvalfirði, og nota tækifærið til að kynna smásagnaúrvalið sem kom út í vor, Dulnefnin. (Það verður að kynna þá bók betur; ég hef á tilfinningunni að ekki eitt einasta eintak hafi selst.) Botnskálinn er umfjöllunarefni sem hentar hverri stund og hverjum stað, jafnvel Norðurkjallara. Því mig grunar að ekki svo margir áheyrendur í kjallaranum í kvöld muni hafa hugmynd um hvað Botnskálinn er. Eða var. Hvað hann er – hann er nefnilega ennþá til, að minnsta kosti fýsískt séð, kannski ekki beint „andlega“. Þegar Guðbergur var beðinn um að tala um Halldór Laxness í sjónvarpinu, stuttu eftir að Halldór lést, þá talaði Guðbergur um Jón úr Vör. Ég mun segja frá Botnskálanum þegar ég á að tala um Menntaskólann við Hamrahlíð. (Myndefni dagsins í dag er ljósmynd sem ég tók árið 2011 af bakhlið þess sem einu sinni var Botnskálinn, og er það í einhverjum skilningi enn. Myndin af Danadrottningu og fráfarandi forsætisráðherra verður að bíða betri tíma. Enda allt í lagi með það: ég held að sú mynd hljóti að vera sígild, rétt eins og myndin af fyrrverandi forseta Íslands og Ratzinger páfa. ps. Aftur klikkar myndbirtingin. Myndin af bakhlið Botnskálans vill ekki festast á síðunni. Ég verð að biðja um tæknilega aðstoð. Getur einhver veitt mér tæknilega aðstoð? Sigurjón?)

 

18. september 2016

Kafla á dag hefur borist mynd í tölvupósti. Myndefni. Ég geri ráð fyrir að myndin sé tekin í Kaupmannahöfn. Hún sýnir „framsóknarmann“ og hina glaðhlakkalegu Margréti Þórhildi danadrottningu (án sígarettu – en hún er kannski hætt). Jafnvel þótt Margrét virki svo glöð á myndinni að það hvarflar að manni að varla sé á færi mannlegrar veru að sýna meiri gleði en hún sýnir, þá er ég ekki frá því að „framsóknarmaðurinn“ sé öllu kátari en drottningin á því augnabliki sem myndin er tekin. En það er túlkunaratriði. Myndin á að minnsta kosti vel við á svona björtum sunnudegi á Íslandi. Það er annars spáð rigningu seinnipartinn eða í kvöld, hér á suðvesturhorninu. Í gær var sagt við mig: „Þannig að þú ætlar að kjósa Viðreisn?“ Þetta kom alveg flatt upp á mig. Ætlaði ég að kjósa Viðreisn? Hvar hafði sá sem spurði mig heyrt eitthvað um það? Ég ákvað að snúa vörn í sókn (með þeim fyrirvara að ég myndi draga úr sókninni frekar snögglega þegar samtalinu yndi fram – „yndi fram“, segir maður það?): „Já, ég var eitthvað að hugsa um það,“ sagði ég. „En fólkið í Viðreisn er sjálfstæðismenn,“ sagði viðmælandinn. „Nú, þá gengur það ekki,“ sagði ég, og bætti við: „En hvað er þá hægt að kjósa? Pírata?“ „Samfylkingin er í mestri þörf fyrir atkvæði í augnablikinu,“ sagði viðmælandinn, og útskýrði fyrir mér að hann hefði ætlað sér, sem félagshyggjumaður, að kjósa Vinstri-græna, en væri farinn að hallast að því að Samfylkingin hefði meiri þörf fyrir atkvæði hans en Vinstri-grænir. „En þá ertu að kjósa Össur Skarphéðinsson,“ sagði ég (og fannst ég aftur hafa snúið vörn í sókn). „Já, þá gengur það ekki,“ sagði viðmælandinn. Lengra varð samtalið ekki. Og við fórum báðir að hugsa um „Framsóknarflokkinn“, og þörf hans fyrir atkvæði frá landsmönnum. Við hugsuðum um Bósa Ljósár, að minnsta kosti ég. (Í ljós kemur að myndin frá Kaupmannhöfn vill ekki festast á vefsíðunni. Tæknin eitthvað að stríða mér. „I´ll have to look into this,“ eins og sagt er á ensku.)

 

16. september 2016

Bara til að láta mig sjálfan vita að ég sé á lífi. Þetta er annars falleg dagsetning. Heil vika undirlögð af flutningum úr 101 í 105, frá gamla kirkjugarðinum yfir í Mordor Reykjavíkur. Ég lít í anda núliðna tíð. Og horfi til turna Stýrimannaskólans, Háteigskirkju og Hallgrímskirkju – og til Bláfjalla. Í huganum horfi ég aftur á móti til Vatíkansins, og af því ræðst myndefni dagsins (eða öllu heldur vikunnar, því Kafli á dag, dagsins í dag, er í raun Kafli á viku).

9. september 2016

Gamla konan sem sat fyrir framan mig á tónleikunum í Hörpu í gær klappaði svo mikið fyrir rússneska píanóleikaranum í lok Rakhmanínov-konsertsins að ég óttaðist í raun og veru að hún myndi ekki hafa það af. Ég var sjálfur hættur að klappa – gat einfaldlega ekki meir – þegar hún var ekki nema hálfnuð með sitt klapp. Kannski er ég ekki sanngjarn að segja að þessi kona hafi verið gömul, en hún var að minnsta kosti tuttugu árum eldri en ég. Fyrir utan gleðina með tónleikana (sérstaklega Ravel-ballettinn eftir hlé) gladdist ég mjög yfir að ekkert gerðist fyrir konuna; ég las nefnilega fyrir nokkrum vikum um eitthvert atvik í Eldborgarsalnum þegar þurfti að kalla til lækni; en þarna sluppum við fyrir horn: það gerðist ekkert svoleiðis í gærkvöldi. „Eldri“ konan klappaði ekki síður fyrir Dafnis og Klóa eftir hlé, og nýja stjórnandanum, Tortelier; en það var ekki eins ákaft klapp og fyrir rússneska píanóleikaranum, Lugansky – kannski var af henni dregið. En þetta var gott kvöld. Ég elska Ravel ekki minna núna en ég gerði.

6. september 2016 (aukafærsla)

Það eina skemmtilega við hinn leiðinlega fótboltaleik í gærkvöldi var áhorfendaleysið. En svo er spurning hvort það hafi einmitt verið áhorfendaleysið sem gerði leikinn leiðinlegan. Mér varð strax hugsað til Ashes to ashes eftir Harold Pinter, þar sem Devlin ræðir um Guð við Rebeccu:

 

Be careful how you talk about God. He´s the only Go we have. If you let him go he won´t come back. He won´t even look back over his shoulder. And then what will you do? You know what it´ll be like, such a vacuum? It´ll be like England playing Brazil at Wembley and not a soul in the stadium. Can you imagine? Playing both halves to a totally empty house. The game of the century. Absolute silence. Not a soul watching. Absolute silence. Apart from the referee´s whistle and a fair bit of fucking and blinding. If you turn away from God it means that the great and noble game of soccer will fall into permanent oblivion.

 

(Vegna fámennisins á 70.000 manna leikvanginum í Kiev heyrði maður í fyrsta skipti í gær í þjálfara íslenska liðsins þegar hann hrópaði leiðbeiningar til „strákanna“. Hann hrópaði meðal annars: „Þið verðið að refsa þeim!“ Þá varð mér hugsað til Guðs.)

6. september 2016

MANNAMÓT

ljóð í óbundnu máli eftir Sigmund Davíð Gunnlaugsson

 

„Ég hef ekki, frá því ég byrjaði í stjórnmálum, fundið eins mikinn stuðning og velvild frá almenningi eins og síðustu misseri. Á meðan á öllu þessu gekk síðasta vor, þá vissulega vissu margir ekki hvernig ætti að taka því, en ég til dæmis fer ekki út í búð núna eða einhvers staðar á mannamót öðruvísi en að það komi til mín fólk til að ræða þessi mál og alltaf á jákvæðum nótum; til þess að segja mér að núna þegar rykið sé sest þá sjái menn hverskonar aðför þetta hafi verið og alltaf hvatning: ekki gefast upp. Við treystum á að þú haldir áfram. Þú verður að halda áfram þeirri baráttu sem þú hefur leitt. Oft fengið að heyra: ef þú lofar mér að þú heldur áfram þá skal ég kjósa Framsóknarflokkinn í fyrsta skipti.“

 

(birtist í Kjarnanum 4. sept. 2016, en var upphaflega flutt á útvarpsstöðinni Bylgjunni þann dag, fyrir hádegi)

5. september 2016

Auglýsing: Þessa viku verða Dulnefnin (sögur 1996 – 2014) bók vikunnar á Rás 1. Það prógramm hefst í Víðsjá í dag, og lýkur næsta sunnudag. Ég fór í spjall til Helga Snæs Sigurðssonar í morgun (við töluðum um ferhyrninga og miðaldra karlmenn, meðal annars); svo skilst mér að Guðrún Lára Pétursdóttir, sem skrifaði eftirmála bókarinnar, og Árni Matthíasson, eigi að spjalla um Dulnefnin á sunnudaginn. Messan í Hafnarfjarðarkirkju í gær var sem sagt upptakturinn að þessu. (Núna var ég búinn að láta mér detta í hug að birta hér stystu söguna í Dulnefnunum, en mundi þá eftir því að ég birti tvö eigin ljóð í gær, og fannst að með birtingu sögunnar (Botnskálinn) yrðu birtingar á eigin efni fulltíðar hér á síðunni, þannig að ég ætla að hafa smá músík í staðinn. Þessa dagana er ég að reyna að gíra mig upp í að senda einhvers konar gestafærslu á bloggsíðuna Ráðlagður jazzskammtur, sem nýlega hefur verið ræst í netheimum (https://radlagdurjazzskammtur.wordpress.com) – ef ég má gera svoleiðis, það er að segja – og var eitthvað að hugsa um að láta þá færslu fjalla um snillinginn Gil Evans. En svo var ég hálfpartinn fallinn frá því; ég fór að hugsa um að velja svolítið annað. En til að láta ekki Gil Evans liggja alveg óbættan hjá garði, þá hefi ég látið mér detta í hug að spila hann hér í dag, og láta hann verða upptakt að gestafærslunni á Ráðlögðum jazzskammti (ef ég má á annað borð koma með gestafærslu – ég endurtek það), jafnvel þótt í gestafærslunni verði ekkert minnst á Gil Evans. Ég hefi valið hina óviðjafnanlegu útgáfu af lagi Willies Dixon, Spoonful; þetta er að finna á plötunni The Individualism of Gil Evans, aukalag á geisladisksútgáfunni.)

4. september 2016 (aukafærsla)

Móðir mín hringdi í mig í dag. Bara rétt áðan. „Hvað heldurðu, sonur sæll,“ sagði hún (hún orðaði það reyndar ekki þannig): „það var vitnað í ljóð eftir þig í útvarpsmessunni áðan!“ „Hvaða ljóð?“ spurði ég. „Það var eitthvað um haustið,“ sagði hún, „eitthvað um ilmandi skólatösku. Í hvaða bók er þetta?“ Það fór um mig óttablandin sæla, og um leið skammaðist ég mín (búinn að vera vondur við forsætisráðherra, eða „forsætisráðherra“, í færslu morgunsins, og ábyggilega búinn að hugsa eitthvað ljótt um kirkjuna í landinu líka frá því ég vaknaði í morgun); og ég svaraði mömmu: „Þetta ljóð er í bókinni Ansjósur. Það heitir Haustið.“ Ég spurði hana hvort þetta væri framar- eða aftarlega í messunni; við ræddum síðan um eitthvað annað, alveg ótengt haustinu eða ljóðlistinni; mig minnir (þótt ekki sé nema korter liðið frá símtalinu) að við höfum rætt svolítið um Katrínu Jakobsdóttur, Birgittu Jónsdóttur, og klæðnað kvenna á alþingi (jú, ég man það alveg núna: við töluðum um þetta – mamma var ekki alveg dús við hvernig þær Katrín og Birgitta koma fyrir; henni fannst Birgitta stundum eins og draugur; og ég get alveg tekið undir það – mér finnst það samt svolítið flott þegar fólki tekst að vekja upp þá hugmynd með klæðaburði sínum að það sé framliðið). En núna, þegar klukkan er að verða hálftvö, er ég búinn að hlusta á prestinn, Þórhildi Ólafs, fara með ljóðið mitt, og strax farinn að endurskoða hug minn gagnvart kristinni trú og kirkjumálum landsins. Moi orðinn hluti af predikun á sunnudegi í Hafnarfjarðarkirkju!? En moi er afar stoltur og ánægður. Með því að klikka mig í gegnum klukkutíma langa messuna heyrði ég að vitnað var einnig í ljóð eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur og Snorra Hjartarson, gott ef ekki Matthías Jóhannesen líka, en Haustið mitt brestur á í kringum 38. mínútuna.

HAUSTIÐ

 

Haustið, hvílíkur léttir!

 

Árstíðin sem ekur í veg fyrir skóginn

sú sem leggur þér skæri í hönd

og pappír.

 

Sú sem ég þekki best

skólataskan sem ilmar

af bókum um allt sem er liðið

af leðri og gljáandi epli

og kveðju að heiman.

 

(Á sömu opnu í bókinni, vinstra megin, er ljóð sem ég hlýt á sínum tíma að hafa passað vel upp á að lenti í opnu með Haustinu.)

 

AÐ LOKNU SUMRI

 

Væri skap hans mælt í rúmmetrum eða öðrum kassalaga einingum, mæltist það á borð við meðalstóra hlöðu,

 

risastóra hlöðu að loknu sumri, og ég er þar á vappi í kring með eldspýtnastokkinn minn.

4. september 2016

Að kalla „forsætisráðherra“ feitilíus eru mistök vegna þess að „forsætisráðherra“ er meira fauti en feitur. Munið „Fiskistofu í heild sinni til Akureyrar“. Ég á að minnsta kosti mjög erfitt með að gleyma því máli; ég hef reynt en án árangurs. En hefði Arnar Páll Hauksson kallað „forsætisráðherra“ fauta, hefði hann þá verið neyddur til að biðjast afsökunar? Ég fletti orðinu fauti upp, og þar stendur þetta: 1 heimskingi 2 sá sem reiðist fljótt og illa, bráðlyndur maður. Að fautast er útskýrt svona: 1 asnast, bjálfast 2 hegða sér reiðilega, rjúka upp í reiði. Ég held, ef maður tekur mark á orðabókinni, að það hefði verið meiri ástæða til að fara fram á afsökunarbeiðni hefði Arnar Páll kallað „forsætisráðherra“ fauta – með öðrum orðum bráðlyndan heimskingja. En „Fiskistofa í heild sinni til Akureyrar“ var samt afar heimskuleg fyrirskipun, og asnaleg og bjálfaleg. Hvort ákvörðunin hafi verið tekin í einhverri reiði er ekki gott að segja, en ég er ennþá á því að „forsætisráðherra“ sé fauti frekar en feitur. Og biðst ekki afsökunar á því, enda virtist „forsætisráðherra“ (þá sjávarútvegsráðherra) ekki vera neitt sérstaklega sorrí vegna yfirgangs síns gagnvart starfsfólki Fiskistofu, þótt hann hafi neyðst til að draga ákvörðun sína til baka. En aðeins meira um orðið fauti. Ég fletti því upp í gömlu samheitaorðabókinni: flón, fól, funi, æðikollur, sbr. ofsamaður. Einmitt. Hinn hægláti „forsætisráðherra“ er ofsamaður. Myndskreyting dagsins er annars af gömlum framsóknarmanni (og Ratzinger páfa).