19. september 2017

Í gær var það „popp dagsins“, sem ég veit að mæltist vel fyrir hjá að minnsta kosti einum lesanda; hann, þessi „eini“ lesandi, hringdi sérstaklega í mig til að láta mig vita að hann hefði hlýtt á Luciu Popp syngja Händel af mikilli ánægju, allt að því áfergju (sem ég verð að segja að er ekki mjög viðeigandi orðalag þegar rætt er um þessa tónlist Händels). En þetta var í gær. Í dag er nýr dagur. „Í dag“. Og nú er komið að ljóðlistinni. Að „prósaljóði dagsins“. Ljóðið birtist upphaflega á vefnum mbl.is, einmitt „í dag“, þess vegna datt mér í hug að það gæti verið prósaljóð „dagsins“:

DREKINN

„Ég  hafði eng­an áhuga á að stýra þess­ari nefnd,” seg­ir Brynj­ar Ní­els­son, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins. Brynj­ar var í morg­un sett­ur af sem formaður stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar Alþing­is. Nýr formaður var kjör­inn. Brynj­ar seg­ir að sú ráðstöf­un hafi ekki komið hon­um á óvart, enda hafi legið fyr­ir að nýr meiri­hluti hafi verið orðinn til í nefnd­inni. Hann seg­ir að hon­um hafi verið til­kynnt ákvörðunin fyr­ir fund­inn. Þess vegna hafi hann ekki mætt á fund­inn. „Ég var drek­inn,“ sagði Brynj­ar og bætti við að hon­um gremd­ist ekki niðurstaðan. Þvert á móti væri hann dauðfeg­inn að vera laus við að stýra þess­ari nefnd. Hann hefði eng­an áhuga á þeim mál­efn­um sem að nefnd­inni snúi. Nefnd­in hafi upp­haf­lega átt að vera í hönd­um minni­hlut­ans en að hann hafi svo „setið uppi með hana“.

18. september 2017

Popp dagsins:

Í sveitinni um helgina voru skýjamyndir yfir Strúti með allra einkennilegasta móti. Ein myndin var af ungverskum heyvagni, sem á vantaði annað hjólið – þótt ekki vantaði heyið á hann! – og til hliðar við þessa mynd, líklega í beinni línu upp af rótum Strúts, vinstra megin, mótaði fyrir auga, fremur dimmu á að líta, sem horfði í áttina að yfirgefnu hlöðunni í landi Kolstaða (þar sem ekkert hey er að finna, bara snöru hangandi úr þverbitanum í loftinu). Mér fannst eins og þetta auga væri að láta mig vita að ég ætti að endurskoða fjórða og síðasta hluta sögunnar sem ég skrifaði í sumar um þessa drungalegu hlöðu í hlíðinni – og ég er að hugsa um að taka augað á orðinu. Þegar ég sneri mér við, eftir að hafa „kontemplerað“ þessar skýjamyndir sunnudagsins, og sneri mér síðan aftur við, til að sjá hvort þær væru ennþá á himni, voru þær horfnar. Og einhvern veginn engin leið að vita með vissu hvort ég hefði sjálfur átt þátt í að forma þær.

16. september 2017

Í gær, 15. september, átti ég erindi í Krónuna úti á Grandagarði rétt fyrir hádegi – eins konar „hliðarerindi“. (Ég þurfti nefnilega að fara í raftækjaverslunina við hliðina á Krónunni, en sú búð var ekki opin þegar ég mætti þangað, þannig að ég ákvað að drepa tímann á meðan ég biði með því að ganga um gólf Krónunnar, jafnvel skoða þar vöruúrvalið – sem ég gerði.) Inni í Krónunni voru stödd tvö rútufylli af velsældarlegum Japönum að kaupa nýlenduvörur til að fara með út í rútu. Ég tók eftir að flestir keyptu þeir sömu vörurnar (og í einkennilega miklum mæli): harðfisk (svokallaðan bitafisk), kavíar í túbum, og Hraun og Æði (í meira magni en ég hef nokkurn tíma séð íslenska neytendur setja í sínar körfur). Ég þarf ekki að taka það fram, en í gær hlaut að liggja nokkuð vel á manni, eftir tíðindi miðnættisins í fyrradag; en burtséð frá því fannst mér allt í einu eitthvað fallegt og hjartnæmt við að sjá alla þessa Japani kaupa íslensku vörurnar í Krónunni (þótt túbukavíarinn sé vissulega ekki framleiddur hér á landi). Jafnvel þótt ég hefði persónulega ekkert á móti því að vera frá Japan – að vera fæddur þar og uppalinn, á ég við – þá gladdist ég virkilega yfir að vera Íslendingur þarna í Krónunni, þar sem ég stóð í biðröðinni við kassann og horfði á hina langt að komnu ferðamenn raða Hrauninu og Æðinu á færibandið, og síðan borga fyrir það með greiðslukortunum sínum. Ég fann til mín sem Íslendingur. En hver kom Japönunum upp á Hraunið og Æðið? Sú spurning gerðist nokkuð áleitin í huga mér. Hugsanlega leiðsögumaðurinn. Eða leiðsögumennirnir, þeir sem sátu fremst í rútunum sem biðu fyrir utan, við hliðina á bílstjóranum? Mér finnst það líklegt. Nema að í míníbarnum á hótelinu hjá Japönunum hafi verið að finna Hraun og Æði, sem þeir væru búnir með; að þeim nægðu ekki eitt Hraun á dag, eða eitt Æði; að þeir vildu meira. Núna sé ég fyrir mér (um að bil sólarhring eftir að ég fylgdist með þeim í búðinni) að þeir, Japanirnir, séu á vappi fram og aftur ganginn í rútunum sínum, glaðhlakkalegir og sperrtir (búnir að fá allar fréttir um „stöðugleika“ Sjálfstæðisflokksins: þriðja stjórnarhrun þeirra á tæpum áratug), og séu að bjóða hver öðrum upp á Hraun og Æði – og auðvitað leiðsögumanninum líka (og bílstjóranum). En eins og ég nefndi, þá er ég að gera þetta að umtalsefni hér vegna þess að það er létt yfir mér þessa stundina – það er ennþá létt yfir mér þótt gærdagurinn sé liðinn. Það er einhver hreinsun sem liggur í loftinu – manni líður eins og einhver örlítil von sé til þess að íslenskt samfélag losni við karaktera eins og BB og Brynjar Níelson úr stjórnmálum. Að vísu truflast svolítið einbeitingin á svona dögum; maður nær ekki að festa sig almennilega við annað sem liggur á skrifborðinu hjá manni, nú þegar allt leikur á reiðiskjálfi innan veggja Valhallar við Háaleitisbraut; enginn veit hvað snýr upp eða niður, þótt allir passi þeir upp á, Sjálfstæðismennirnir, að hafa Fálkanæluna nælda í jakkaboðunginn. Ég finn líka núna – afsakið (mér liggur við að segja „afsakið meðan ég æli“) – að ég er alveg að missa mig yfir ógeðsklúbbnum í Valhöll. Haldi ég áfram mikið lengur, þá er ég nokkuð viss um að ég muni missa eitthvað út úr mér sem ég sjái eftir síðar. Þess í stað ætla ég að láta nægja að vitna í orð Nínu Rúnar Bergsdóttur, dóttur Bergs Þórs, í Fréttablaðinu í dag; viðbrögð hennar við tali Bjarna Benediktssonar í Valhöll í gær: „Mér fannst hann ótrúverðugur. Í allri hans framgöngu hefur hann viljað gera lítið úr þessum málum. Mér fannst framganga hans í Valhöll í gær lýsa hroka og eiginhagsmunum. Það hefur ekki breyst frá því málið hófst í sumar.“ (Mér hefur sjálfum stundum liðið eins og ég sé við það að missa æruna í augum sjálfs mín, í öll þau ár sem ég hef pirrað mig yfir núverandi forsætisráðherra vorum, en ég held að í ljósi „nýjustu framgöngu“ ráðherrans þurfi ég ekki að hafa áhyggjur af ærumissi – ekki út af þessu að minnsta kosti. Öll reiði gagnvart þessum manni er réttlætanleg.)

14. september 2017

Auðveldasta leiðin til að leysa vandamál er að neita tilvist þess. (Isaac Asimov)

Svo er ekki vitlaust að setja músík á fóninn, því þótt vandamálið sé leyst, þá er minningin um það ekki horfin. Það er því best að velja einhverja fyrirferðarmikla músík, sem gæti hugsanlega ýtt burt minningunni um stund (að minnsta kosti í sjö mínútur, eða svo):

13. september 2017

Til að reyna að skilja þankagang og framkomu hæstvirts dómsmálaráðherra Íslands, Sigríðar Á. Andersen – ekki bara í máli stúlknanna tveggja sem vilja halda áfram að eiga heima á Íslandi, heldur bara almennt, og þá ekki síst hvað varðar tilburði hennar til að halda upplýsingum frá almenningi – þá setti ég á fóninn tónverkið Kontakte eftir Karlheinz Stockhausen. Ég hef reynt þessa aðferð áður, að spila ákveðna tónlist með það fyrir augum að hún hjálpi mér við að fá einhvern botn í ákveðinn stjórnmálamann íslenskan. Í það skiptið, það er að segja fyrra skiptið, setti ég í spilarann Nonsense Madrigals eftir György Ligeti (og gleymdi reyndar að slökkva áður en næsta verk hófst, Mysteries of the Macabre, svo ég leyfði því bara að hljóma líka). Árangurinn varð slíkur – það er að segja jákvæður – að mér fannst ég endilega eiga að reyna þetta aftur. Og nú hef ég gert það, í þetta sinn til að reyna að skilja Sigríði Á. En það gerðist ekki neitt. Sigríður er mér enn hulin ráðgáta. Að vísu er ekki rétt að „ekkert hafi gerst“, því að lokinni hlustun á Kontakte í þetta sinn finnst mér ég skilja verk Stockhausens mun betur en ég gerði áður (en auðvitað á kostnað þess að ég botna enn minna í Sigríði Á. Andersen en nokkurn tíma fyrr). En talandi um músík, þá horfði ég aftur á Stroszek Werners Herzog í gærkvöldi, í þetta sinn án hljóðrásarinnar, en með rödd Herzogs yfir, þar sem hann sagði frá gerð myndarinnar, samstarfinu við leikarana, og tilfinningum sínum gagnvart þeim og myndinni í heild. Stroszek er absólút mynd þess eðlis að maður gæti horft á hana aftur og aftur, það er þvílík dýpt og þvílíkt líf í karakterunum; en það er ekki síður upplifun að heyra í leikstjóranum tala yfir myndina – það er reyndar alltaf gaman að heyra Herzog tala. En hvað hefur þetta með músík að gera? Notkun á músík í þessari mynd er held ég alveg sérkapítuli út af fyrir sig, jafn sparleg og hún er, en það sem ég ætlaði að minnast á var það sem Werner Herzog kallaði the poetry of capitalism; talnaþulur sem farið er með undir lok myndarinnar, þegar verið er að bjóða upp eigur Brunos, Scheitz og Evu, í tuttugu stiga frosti (ef marka má orð Herzogs um hitastigið á tökustað). Talnaþulurinn heitir Ralph Wade, og er (eða var?) það sem kallað er livestock auctioneer. En hér er þetta – ljóðlist auðvaldsins:

12. september 2017

Fyrir nokkrum mánuðum – líklega var það fyrir ári – heyrði ég vitnað í eftirfarandi ljóð í messu í Ríkisútvarpinu. Það var ungur kvenprestur sem það gjörði. Og hún vitnaði ekki bara í eina eða tvær línur úr ljóðinu, hún beinlínis fór með það í heild sinni. Ég væri ekki að rifja þetta upp hefði það verið karlprestur sem lét sér detta þetta í hug. (Er eitthvað jafn ógnvekjandi – og ögrandi – og karlprestur?) Ég er heldur ekki að rifja þetta upp vegna þess að mér finnist að komið sé haust, það er af og frá. Ég er að þessu vegna þess að þegar ég hjólaði með Rauðarárvíkinni í morgun, þá mundi ég eftir þessu með kvenprestinn; hann rifjaðist upp fyrir mér einmitt vegna þess að ég spurði mig þeirrar spurningar hvers vegna væri ekki komið haust. Og ég fór líka að velta því fyrir mér að eitthvað hlyti að vera í ljóðinu, fyrst verið var að vitna í það í kirkjunni.

 

HAUSTIÐ

 

Haustið, hvílíkur léttir!

 

Árstíðin sem ekur í veg fyrir skóginn

sú sem leggur þér skæri í hönd

og pappír.

 

Sú sem ég þekki best

skólataskan sem ilmar

af bókum um allt sem er liðið

af leðri og gljáandi epli

og kveðju að heiman.

 

(Ansjósur, 1991)

 

Tónlist dagsins er eftir Anton Webern. Þó ekki væri nema til að láta sig hlakka til haustsins. Auðvitað ætti ég að hafa eitthvað eftir Freymóð Jóhannsson, Tólfta september, „límonaðidrenginn“, en ég var bara búinn að ákveða að hafa Anton Webern; og það sem manni dettur í hug fyrst, maður á að reyna að halda sig við það.

11. september 2017

R. hringdi í mig áðan til að spyrja hvort hann gæti kíkt í heimsókn til mín í vikunni. Hann er að þýða bók eftir mig, skáldsöguna Sögumaður (eða Sögumann, ég veit aldrei hvort maður beygir titilinn á hlutnum, þegar orðið sem lýsir honum hefur þegar verið beygt); og hann vill spyrja mig út í nokkur atriði í þýðingunni. Því þrátt fyrir að orðaforði bókarinnar sé ekki mjög flókinn, þá er notkun persónufornafna í henni svolítið snúin þegar kemur að því að breyta íslenskunni yfir í frönsku. Eins og venjulega þegar R. hringir, þá erum við fljótlega farnir að tala um eitthvað annað en það sem hann ætlaði að tala um þegar hann ákvað að hringja; og í þetta sinn (eftir að hafa rætt um fjölda byggingarkrana í notkun í Reykjavík í augnablikinu, og háþrýstidælur, þær sem eru notaðar til að fjarlægja graffiti af veggjum húsa) barst talið að gæludýrum. Það tengdist þó ekki því að R. þýddi einu sinni aðra bók eftir mig, einmitt með þeim titli: Gæludýrin. Hann vildi vita hvort ég vissi hvað væri vinsælasta „nýja“ gæludýrið í dag. Ég var svo vitlaus að láta mér detta í hug að það væri köttur, en R. leiðrétti mig: „Nei, ég á við „nýja“ gæludýrið.“ En áður en hann sagði mér það, þá spurði ég hann (með hugann við að R. ætlaði að heimsækja mig í vikunni): „Ertu nokkuð með ofnæmi fyrir Basil?“ Ég er strax búinn að gleyma hverju R. svaraði nákvæmlega – hann hafði ekki hugmynd um að inn á heimili mitt væri komið dýr af þeirri tegund sem Basil er – en í svari hans fólst þó að hann hefði ekki ofnæmi fyrir Basil – ég vona að ég hafi skilið hann rétt. Hann útskýrði meira að segja fyrir mér upprunalega merkingu orðsins basil (hvers rússneska mynd, til dæmis, er nafnið Vassily). Það þýðir konungur. Ég þarf að segja Basil það, næst þegar hann kemur inn í herbergi til mín. (Það verður kannski til þess að hann hættir að líta á sig sem fursta.) En hvað er þetta „nýja“ vinsæla gæludýr sem R. var að spyrja mig um? Jú, það er margglytta. Auðvitað er það margglytta, hugsaði ég. R. hafði lesið grein um þetta í belgísku dagblaði, sem hann ætlar að senda mér. Ég veit að þetta er ekkert sérstaklega aðkallandi umræðuefni á þessum degi, 11. september; en núna er of seint að breyta því – ég er búinn að minnast á þetta. Ég hafði ætlað mér að tala um dómsmálaráðherra, Sigríði Á. Andersen, og yfirlýsingu hennar um að það „kæmi ekki til greina að endurskoða mál sem dúkka hérna tilviljanakennt upp í umræðunni“, en nú má segja að R. hafi komið mér til hjálpar með því að hringja og fara að tala um margglyttur, því þannig fékk ég fína afsökun fyrir að fara nú ekki að tala um dómsmálaráðherra. R. rifjaði líka upp, í sambandi við margglytturnar, að fyrir mörgum árum hefði verið mjög vinsælt að nota hreyfimyndir af margglyttum sem skjáhvíla í tölvum (screen savers) – ég er ekki frá því að ég sé sjálfur að nota þetta umræðuefni sem skjáhvíli hér og nú.

9. september 2017

Eins og allir muna var enska hljómsveitin The Who háværasta rokkhljómsveit síns tíma (kannski allra tíma), með sín 80.000 vött á Wembley Stadium. Það komst engin önnur hljómsveit með tærnar þar sem Keith Moon og félagar höfðu hælana. Ekki einu sinni Spinal Tap síðar, með sinn sérsmíðaða gítarmagnara sem var hægt að stilla upp í ellefu. Hugsi maður til Íslands, þá efast ég líka um að hérlend hljómsveit hafi nokkurn tíma haft yfir 80.000 vöttum að ráða á sviðinu, ekki einu sinni Ham eða Mínus. En við eigum annað sem heyrist svolítið í, því nú höfum við eignast háværasta forseta íslenskrar lýðveldissögu, Guðna Th. Í gegnum fjölskyldutengsl heimsótti ég Bessastaði í gær. Það var gaman. Ég hef ekki komið á Bessastaði í 12 eða 13 ár – óþarfi að rifja upp ástæðuna fyrir því, og sömuleiðis óþarfi að láta það hljóma eins og sjálfsagt mál sé að fara á Bessastaði (ég er að reyna að ímynda mér hversu mörgum prósentum þjóðarinnar hefur aldrei verið formlega boðið þangað) – en nú í gær hljóp aldeilis á snærið: það hafði komið inn um lúguna boð frá forsætisembættinu – það hafði með Bókmenntahátíðina að gera – og það var eiginlega ekkert annað í stöðunni en að þiggja boðið, þótt ekki allir úr fjölskyldunni kæmust með, t.d. ekki aðstoðarmaður minn Basil (vegna anna). En hér er löng saga stutt (kaflahaldari hefur ekki meiri tíma aflögu í augnablikinu): Mér er sagt að forsetinn „sem var“ (á undan Guðna Th.) hafi notað míkrófón þegar hann talaði við gesti sína. Það gerði Guðni Th. aftur á móti ekki í gær, jafnvel þótt svo margmennt væri í „stofunni“ hjá honum að nánast ógjörningur væri að ná til alls fólksins með röddinni einni. En bara „nánast“. Guðna tókst að gera sig heyranlegan með því að tala hátt. Eiginlega mjög hátt. Það má segja að hann hafi hrópað, jafnvel æpt, á mannskapinn. Ég veit það hljómar ekki vel þegar sagt er frá því, en Guðni hljómaði afar hressilega með þessari raddnoktun. Og mjög svo óforsetalega. Enda gerir hann svolítið út á að vera „óforsetalegur“, sem er mjög fínt. Mér datt meira að segja í hug að þarna í gær, á þessari háværu bókmenntasamkomu, hefði hann getað kallað sig Guðni THX. Og í raun væri það vel við hæfi, til dæmis í ljósi þess að í gær sagði hann útlensku gestunum (og þeim innlendu) frá því að hann hefði einu sinni þýtt bók eftir Stephen King; og síðast þegar ég heyrði hann tala (live), þá vitnaði hann í Arnold Schwarzenegger. Það var í Hannesarholti. Aftur er ég kominn langt frá því sem ég ætlaði að tala um í þessari færslu. Ég ætlaði nefnilega að minnast á Frederic Sjöberg, Timothy Snyder og Etgar Keret, þrjá höfunda sem hafa talað á hátíðinni, en það verður að bíða betri tíma. (Sem táknar auðvitað að ekki verður af því.) Ég ætlaði líka að minnast á hinn suður-kóreska höfund Han Kang, en hann, eða hún réttara sagt, talaði svo lágt að það heyrðist ekki neitt í henni, jafnvel þótt hún hefði talað í míkrófón. En það skildist alveg.

 

8. september 2017

Það var ekki vegna þess að Werner Herzog er væntanlegur á kvikmyndahátíð í Reykjavík – ég vil allavega ekki kannast við það – en ég fékk lánaða bíómyndina Stroszek í gær, og horfði á hana í gærkvöldi (sem auðvitað er vafasamt að játa, því ég hefði átt að vera á bókmenntahátíð). Er Reykjavík annars að drukkna í hátíðum? Ég hafði séð Stroszek áður, það var ábyggilega í Fjalakettinum (þar sem ég sá reyndar Werner Herzog, þegar hann kom á sviðið í Tjarnarbíói og svaraði spurningum eftir sýningu „dverganna sem byrjuðu líka smátt“); og það var ansi gaman að sjá hana aftur. Sumar af myndum Herzogs hafa haft þvílík „örlagaáhrif“ á mann, en ég er ekki frá því að Stroszek sé einna sterkust þeirra. En ég ætlaði þó ekki að tala mikið um Stroszek (fólk verður bara að sjá þá mynd), heldur langaði mig til að koma að örstuttu myndbandi með Werner Herzog, þar sem hann ræðir gastrónómísk málefni – þetta gæti nýst þeim sem þurfa að fæða leikstjórann á meðan hann dvelur á Íslandi:

 

7. september 2017 (aukafærsla)

Örlagaránið hefur alltaf verið eitt af mínum uppáhaldsorðum, eftir að ég heyrði það sagt í Spaugstofunni einhvern tíma í fyrndinni – ég man samt ekki alveg samhengið. Og síðan þá hefur mér verið tamt að kalla hitt og þetta örlaga-hitt og þetta. En nú þarf ég að gera játningu. Ég kíki stundum á vefsíðu Jónasar Kristjánssonar. Í gær gerði Jónas að umtalsefni grein Ragnars Önundarsonar um harmsögu nýfrjálshyggjunnar á Íslandi, eins og Ragnar nefnir þá sögu réttilega; og Jónas segir í lok pistilsins að örlagaverkefni þjóðarinnar næstu árin ætti að vera það að endurheimta norræna velferðarkerfið og hætta að hossa ríkum á kostnað fátækra – með öðrum orðum: leiðrétta Örlagaránið. Ég sé fyrir mér forsíðu sérstaks bæklings sem ríkisstjórn Íslands gefur út um átakið: Örlagaverkefni ríkisstjórnar Íslands – næstu árin.

7. september 2017

Í raun ættu allir dagar að rísa við tónlist Holgers Czukay.

En talandi um músík, þá sé ég að Bókmenntahátíð í Reykjavík hefur ráðið til sín hljómsveit með nafninu Royal til að spila á svokölluðu bókaballi í lok hátíðar. Það hljómar eins og standi til að efna til slagsmála á ballinu. Ef ég fer á ballið, þá verður það svo sannarlega ekki til að dansa; ég mun fara til að snapa fæting. Við undirleik Royal. En það er ekki bara Bókmenntahátíð sem efnir til dansæfinga. Smekkleysa sm. ehf. hefur blásið til einnar slíkrar í dag, í Þjóðarbókhlöðunni. Þar verður að vísu ekki dansað, en alveg örugglega slegist; þetta er opnun sýningar á ýmsum minjum úr 30 (að vísu 31) ára sögu fyrirtækisins; það verður upplestur úr útgefnum bókum Smekkleysu, og kannski óútgefinni bók; það verður boðið upp á léttar veitingar (til að mýkja upp fyrir slagsmálin); og, eins og fyrr segir: það verður slegist. Atburðurinn á að hefjast kl. 17 í dag. En aftur að Bókmenntahátíð. Ég missti af opnun hennar í gær, en mér var sagt, eftir á, að þar hefði verið gert opinbert – þetta var í Ráðhúsi Reykjavíkur, Das Rathaus – að bókmenntir væru ekki bókmenntir ef ekki fælist í þeim mannréttindabarátta. Kannski var best að ég komst ekki þarna í gær. En ég stefni á að fara á aðra viðburði, að minnsta kosti að hlusta á Fredrik Sjöberg tala um flugur.

6. september 2017

Tónlistarmennirnir hrynja niður einn af öðrum. Arthur Blythe í mars, 76 ára; Walter Becker um daginn, ekki nema 67 ára gamall; Jaki Liebezeit í janúar; og núna í gær, félagi Jakis í Can, hinn magnaði Holger Czukay, að vísu orðinn 79 ára. Af hverju er verið að taka frá okkur alla þessa músíkanta? Hver verður næstur? Verð ég næstur? Ég komst nefnilega að því í gær, þegar ég fór í Tónastöðina til að kaupa músíknámsbækur fyrir píanónemann á heimilinu, að í mér blundar tónlistarmaður (rétt eins og í ónefndnum manni blundar fól). Ég horfði á bassagítarana sem héngu á veggnum, vinstra megin við gítarana, og ég hugsaði: Ég myndi vilja eiga svona Gretsch-bassa. Og ég fór yfir nokkrar bassalínur í huganum, á meðan ég beið eftir afgreiðslu. Svo þekkti ég þann sem afgreiddi mig. Sá maður þekkti systur mína þegar þau voru börn/unglingar, hann hafði komið inn á heimili foreldra minna (þegar ég var sautján eða átján), og séð kontrabassann sem bróðir systur minnar, moi, átti á þeim tíma, og nú rifjaði hann þetta upp: „Ég man eftir kontrabassanum þínum,“ sagði hann. „Ég sá hann.“ Og ég mundi eftir honum líka. Ekki löngu eftir að þessi maður (sem afgreiddi mig í gær) sá þennan tékkneska „verksmiðjubassa“ á heimili okkar systkinanna brotnaði bassinn: systir mín opnaði skápinn sem hann var geymdur í (hvað var hann að gera þar?), og þá datt bassinn í gólfið, og hann hálsbrotnaði. Ég lét líma hann saman, en seldi hann svo stuttu síðar, orðinn afhuga kontrabassanáminu, enda kominn með rafmagnsbassa í hendurnar. Það voru mistök. Og það voru líka mistök að mæna svona á Gretsch-bassann á búðarveggnum í gær og hugsa um að mig langaði í svoleiðis; ég ætti miklu frekar að fá mér kontrabassa. Ég myndi passa mig mjög vel á að geyma hann ekki inni í skáp að þessu sinni, að minnsta kosti taka hann út úr skápnum þegar systir mín kæmi í heimsókn og færi að opna skápana. En þetta var útúrdúr. Núna er Holger Czukay farinn. Ég man fyrst eftir honum úr Pop og Bravo-blöðunum. Andlitin á Can-mönnum voru ógnvekjandi á þeim tíma; ég lagði aldrei í að kynna mér tónlist þeirra. (Ég ætla þó ekki að ljóstra því upp hvað ég hlustaði á í staðinn.) Þessa dagana er mikið talað um „tímalausa snilld“, og til þess að vera ekki öðruvísi en aðrir hvað það varðar, þá ætla ég að ljúka þessum minningarorðum mínum um Holger Czukay með eftirfarandi tóndæmi:

En svo er það gærdagurinn. Það náðist að horfa á fótbolta og fara í bíó. Og hvorutveggja var algerlega stöngin inn, þótt ekki hefði það verið þannig sem Gylfi skoraði mörkin sín. (Það munaði samt litlu að þriðja ísl. markið yrði til með „stönginni inn“.) Undir trénu er virkilega fín mynd. Ég þori ekki að nota orð eins og „hugsanlega besta íslenska kvikmynd í svo og svo langan tíma“, eða „sigur fyrir leikstjórann og handritshöfund“, eitthvað svoleiðis; en þetta er absólútamente mynd til að sjá aftur hið fyrsta. Við ræddum svolítið í eftirpartíinu um að eitt ákveðið „örlagaatriði“ í myndinni minnti allverulega á eina söguna í mynd argentíska leikstjórans Damiens Szifron, Trylltum sögum (Relatos salvajes); en einhver af „okkur“ sem ræddum þennan „aðkallandi samanburð“ afgreiddi Undir trés-atriðið sem skemmtilegan „reffa“ í mynd Szifrons – og ég var alveg sammála því – auk þess sem Huldar Breiðfjörð, handritshöfundur myndarinnar í gær (ásamt Hadda) sagði mér að þeir hefðu skrifað myndina áður en Trylltar sögur komu í bíó, og ég er alveg maður til að trúa því. Enda skiptir ekki máli hvort atriðið er referens í aðra mynd; þessi sena er algerlega mögnuð, bæði í leik og útfærslu, og hvernig sagan byggir hana upp. Auk þess sem hún sjálf, og allt það sem liggur undir í Undir trénu, er fóðruð af gömlum minnum, bæði úr íslenskum fornsögum og erlendum kvikmyndum; en alltaf samt með fókus á að vera sitt eigið verk, og eitthvað nýtt. Sem ég held að þessi mynd sé: eitthvað nýtt. Ég hef sjálfur einu sinni skrifað um húsfund í fjölbýlishúsi – það er reyndar efni sem allir ættu að spreyta sig á, jafnvel þótt þeir hafi aldrei farið á slíkan fund (sem ég hef varla gert sjálfur) – en húsfundurinn í Undir trénu er einstakt augnablik í kvikmyndasögunni, svo ég gerist ofur hátíðlegur. Það var líka hátíð í gær.

5. september 2017 (aukafærsla)

Tvær spurningar leituðu á mig þegar ég var í mínum hefðbundna constitutional í dag, í einum af skógum Reykjavíkur, í nágrenni kirkjugarðs. Ég hlýt að hafa verið að hugsa eitthvað á þeim nótum að ég gæti lent í einhverju á göngu minni, einhverju sem hefði ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Eflaust hafa þær hugsanir mínar stjórnast af nálægðinni við kirkjugarðinn, þar sem einmitt hvílir svo margt fólk sem á sinni tíð lenti í einhverju, jafnvel einhverju sem varð til þess að það hóf sína hvíld löngu áður en til stóð. Í því ljósi er aftur á móti frekar einkennilegt að þessar tvær fyrrnefndu spurningar hafi leitað á mig, en þær voru þessar: Þegar á mann er ráðist, eru þá réttu viðbrögðin þau að koma sjálfum sér til varnar? Á maður ekki frekar að taka þátt í árásinni?

5. september 2017

Framundan í dag eru tveir atburðir, sem ábyggilega er hægt að kalla stóra; og með góðum vilja get ég tengt þá báða mínu eigin sjálfi, hvort sem sú tenging stækkar þá eða smækkar. Sá fyrri er leikur íslenska landsliðsins í fótbolta, og þess úkraínska. Það vita það ekki allir, ekki einu sinni fólk í mínum „innstu hringjum“, en ég æfði einu sinni fótbolta með félagsliði. Með Knattspyrnufélagi Reykjavíkur. Ég hefði getað náð langt – upp allan völlinn, býst ég við, hefði ég bara sýnt því meiri áhuga, og ekki látið önnur áhugamál trufla. Hinn atburður dagsins er Íslandsfrumsýning bíómyndarinnar Undir trénu eftir Hafstein Gunnar Sigurðsson. Þegar ég fékk boðskort á sýninguna hugsaði ég sem svo: Af hverju sýna þeir myndina á sama tíma og Íslendingar spila við Úkraínu? Og ég spurði mig líka: Af hverju þurfa fótboltaleikir að vera á kvöldin, þegar leikmenn eru kannski búnir að fá sér eitthvað með matnum, og hugsanlega líka eitthvað fyrir matinn – af hverju eru svona leikir ekki hafðir fyrr um daginn, t.d. upp úr hádegi, eða um miðjan daginn – helst ekki of nálægt hádegismatnum, svo leikmenn séu ekki of þungir á sér og slappir, því það má heldur ekki útiloka að þeir fái sér eitthvað með hádegismatnum. En allar þessar áhyggjur mínar hurfu mjög snöggt þegar ég komst að því að leikurinn á Laugardalsvellinum á að byrja klukkan hálfsjö eða sjö í kvöld, en ekki klukkan átta, eins og ég hafði óttast. Þessi „nýja“ tímasetning ætti í fyrsta lagi að koma í veg fyrir að landsliðsmeðlimir séu búnir að hesthúsa kvöldmatinn sinn (og allt sem honum fylgir), og í öðru lagi verður þá leikurinn væntanlega búinn áður en sýning myndarinnar eftir Hadda hefst, en hún á að hefjast klukkan níu í kvöld. Nema auðvitað að komi þurfi til vítaspyrnukeppni og framlengingar – og umspils (er það ekki það sem það er kallað: umspil?) – þá teygist á leiknum, eins og fólk veit. En við skulum ekki gera ráð fyrir að þetta endi í vítaspyrnukeppni eða framlengingu. Nú er því útlit fyrir að ég geti gengið inn í bíósalinn í kvöld með úrslit landsleiksins í huganum. En hver er hin „tengingin“ við atburði dagsins, sem ég nefndi hér í upphafi? Ég var bara búinn að nefna eina þeirra, það er að segja þá tengingu að eitt sinn leit út fyrir að ég myndi ná langt í fótboltanum.[1] Hin tengingin er sú að einu sinni ætlaði Hafsteinn Gunnar að gera bíómynd eftir einni af bókunum mínum, nefnilega Hvíldardögum, skáldsögunni sem kom út árið 1999. Hann var búinn að skrifa handritið, sem mér leist mjög vel á – Hafsteinn er sérlega flinkur maður – en svo fékk hann enga peninga í verkefnið, þannig að ekkert hefur orðið af því. Og nú er ég búinn að nefna þetta með seinni tenginguna. Og hvaða lærdóm má draga af þessu öllu? Hugsanlega þann að ferill minn í íþróttum, og frægð í gegnum kvikmyndamiðilinn – allt þetta var drepið í fæðingu. Það fékk ekki að blómstra. Hefði ég haldið áfram í boltanum, léki ég hugsanlega með Huddersfield á Englandi, eða Galataserai í Tyrklandi (nefni bara tvö nöfn af handahófi); og hefði fjármagn fengist til að búa til bíómyndina eftir Hvíldardögum, væri ég á gangi upp og niður eftir rauða dreglinum í Feneyjum eða Los Angeles. Ég verð hins vegar, í fyrsta lagi, að láta mér nægja að fylgjast með Gylfa Þór og félögum „óbeint“ í gegnum sjónvarpið – ekki einu sinni af varamannabekknum (þar sem ég hefði getað verið, hefði ég bara, osfrv.) – og í öðru lagi verð ég að sætta mig við að sagan sem sýnd verður í Háskólabíói í kvöld er ekki eftir mig.

[1] Þetta er reyndar ekki rétt: ég var búinn að nefna seinni tenginguna, ég sá það þegar ég las þetta yfir.

4. september 2017 (aukafærsla)

Þættinum hefur borist bréf. Það barst utan úr geimnum. Ég er ekki vel að mér í geimvísindum, og heldur ekki landafræði – ég er almennt ekki vel að mér í neinu; ég er það sem skáldið Fire Iron kallar fjölómenntaður – en ég tel mig samt vita að bréfið sem mér barst í dag hafi borist utan úr geimnum. Ekki að það skipti miklu máli; það sem skiptir máli er að þættinum (heimasíðunni) barst bréf með fyrirspurn um færsluna sem ég birti fyrr í dag. Ég var spurður hvað orðið öfugsnáði þýddi. Og ég fékk strax á tilfinninguna að geimveran sem spurði mig hafi hugsað sem svo að þetta orð þýddi eitthvað vafasamt, eitthvað miður gott, jafnvel eitthvað sem almennt er ekki talað um á hans slóðum. En það er ekki um neitt svoleiðis að ræða. Öfugsnáði er einfaldlega staðarheiti; það er svæði við Þingvallavatn, þar sem fólk veiðir fisk, aðallega murtu, en líka hinar tegundirnar sem Þingvallavatn býður upp á. Og þaðan hef ég titilinn á ljóðabókinni sem ég minntist á í færslu dagsins. En öfugsnáði hefur líka orðabókarskýringu. Eða skýringar. Og þær skýringar gerðu ekkert til að draga úr áhuga mínum á að nota þetta orð mér til framdráttar, ef svo má að orði komast. Framdráttur … það er ekki síður athyglisvert orð. En hér er öfugsnáði, og það sem hann þykist standa fyrir:

 

ÖFUGSNÁÐI KK, öfugsnoði KK 1 lamb með öfugt hárafar við fæðingu og sem skiptir um ull á fyrsta vori • kind sem fer úr ull að hausti 2 vanþrifaskepna 3 ógerðarlegur, öfugsnúinn maður

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
OLYMPUS DIGITAL CAMERA

4. september 2017

John Ashbery, bandaríska ljóðskáldið sem dó í gær, 90 ára gamalt, skrifaði einu sinni flokk ljóða sem hann nefndi French Poems. Ástæðan fyrir nafngiftinni var sú að hann orti ljóðin á frönsku, tungumáli sem hann þekkti vel og þýddi mikið úr, og snaraði þeim síðan yfir á sitt móðurmál, ensku – hann fór þessa leið til að forðast venjubundin orðasambönd í ljóðunum, eins og hann orðaði það sjálfur. Árið 1967 hrósaði John Ashbery ljóðum annars bandarísks ljóðskálds, Franks O´Hara, fyrir að hafa ekkert „prógramm“, og einkum fyrir að sneiða hjá því að fjalla um Víetnamstríðið, sem þá var auðvitað algengt umfjöllunarefni bandarískra skálda. Annað ljóðskáld, Louis Simpson, var ekki ánægt með þessi jákvæðu orð Ashberys í garð O´Hara, og hann skammaði Ashbery fyrir að gera lítið úr samvisku annarra ljóðskálda. Svar Ashberys var á þá leið að hann hefði verið að hrósa O´Hara fyrir að gefa samvisku sinni einstaka rödd, sem væri mun meira virði en sá pólitíski kveðskapur sem flestir væru að sinna á þeim tíma. Og hann bætti við: „Ljóðlist er ljóðlist. Mótmæli eru mótmæli.“ Ég þekki ljóð Ashberys ekki mjög vel, en fannst ég samt hafa leyfi til að nota nokkrar af línum hans sem tilvitnun í ljóðabókina sem ég gef út í haust, Öfugsnáða. Ég hafði ætlað að nota þau óþýdd, en Magnús Sigurðsson, ljóðskáld og þýðandi, sem kíkti á handritið fyrir mig, spurði hvort hann mætti ekki snara þeim yfir á (hið hverfandi) móðurmál okkar, íslensku, og ég þáði það með þökkum. Hér eru þessar línur sem ég mér fannst ég þurfa að hafa með í bókinni minni, í þýðingu Magnúsar:

Eitthvað

ætti að skrifa um áhrif þessa á þig

þegar þú yrkir:

hinn miskunnarlausa nöturleika nánast tæmds huga

sem slær saman við ríkulegt, Rousseau-legt laufskrúð þeirrar þrár hans að miðla

einhverju milli andardrátta …

 

 

1. september 2017

Olivier, sem nú er á landinu, skrifaði mér tölvupóst í fyrradag, þar sem hann minntist á að hann væri að lesa ljóð Fernandos Pessoa, og allra þeirra höfunda sem rúmuðust innan í Fernando. Og þá rifjaðist upp fyrir mér að um daginn snaraði ég nokkrum línum úr ensku eftir Pessoa, eða öllu heldur Alberto Caiero; það var ekki í neinum sérstökum tilgangi, heldur bara vegna þess að þær lágu svo vel við höggi, og það lá svo vel á mér. Þetta var í sveitinni, ég hafði tekið með mér Pessoa-safnið mitt (ensku þýðingarnar), og var sestur út í sólina (þótt auðvitað hljómi það ósennilega – að setjast eins og ekkert sé út í sólina í Borgarfirði, eins og það sé sjálfsagt mál að sólin skíni á þeim slóðum – hún gerir það ekki); og í stað þess að horfa út í tómið, eða til jökla eða einfaldlega bara inn á við (eins og þar sé eitthvað að finna), fletti ég í gegnum blaðsíður bókarinnar, hverja eftir annarri, þangað til ég staldraði við eitt af ljóðum Albertos Caiero. Það ljóð var í flokknum um Fjárhirðinn; þetta var ljóðið á undan Tagus-ljóðinu fræga (sem ég hafði einmitt verið að leita að, með hugann við öll þau ósköp sem nú eru að gerast fyrir Tagus-fljótið á Spáni og í Portúgal). Og áður en ég vissi af var ég búinn að rissa upp grófa snörun á þessu ljóði, sem er númer 18 í Fjárhirðinum:

 

Frekar vildi ég vera rykið á veginum,

troðið undir fótum fátæklinganna …

 

Frekar vildi ég vera áin sem rennur,

með þvottakonurnar við bakkann …

 

Frekar vildi ég vera öspin við ána,

með himininn fyrir ofan og vatnið undir …

 

Frekar vildi ég vera asni malarans,

og láta hann berja mig og fæða …

 

Frekar allt þetta en að fara í gegnum lífið

með stöðugar áhyggjur og eftirsjá …

 

Nokkrum dögum síðar, þegar ekki lá eins vel á mér og gerði í hinni ímynduðu sól í sveitinni, var ég staddur í lyftunni upp á efri hæðirnar í fjármálahverfinu; og þá varð mér hugsað til annars skálds af Íberíuskaganum, Federicos García Lorca. Mér varð hugsað til hans vegna þess að upp úr þurru hafði ég farið að leiða hugann að nautaati; og ástæðan fyrir því að ég fór að hugsa um nautaat var sú að það lá ekki nógu vel á mér. (Auðvitað er ég skálda þetta allt saman: það liggur aldrei illa á mér, ekki í þeim skilningi.) Ég fór að hugsa um hvort maður megi leyfa sér að gleðjast yfir dauða nautabana í viðureign sinni við nautið. Allajafna er ekki á minni dagskrá að gleðjast yfir dauða lifandi vera, en eitthvað í mér fagnar því að stundum hafi nautið betur í hringnum, fyrst enn er stundað nautaat á Spáni (og víðar), þetta ógeðslega sport sem afdankaðir rómantíkerar kalla list. (Lorca og hans samtíðarmenn eru auðvitað undanskildir þeirri einkunn að kallast afdankaðir – það eru aðrir tímar í dag, og það voru aðrir tímar þá.) Það eru ekki nema tveir eða þrír mánuðir síðan ungur nautabani lét lífið í hringnum; sá var baskneskur, hálffertugur – það gerðist í einhverju frönsku héraði, væntanlega rétt norðan við landamæri Spánar. En aftur að lyftuferð minni í fjármálahverfinu, þeirri sem fylgdu hinar þungu hugsanir um nautaat. Áður en lyftan opnaðist (til að hleypa mér út) hafði ég ort eitt stykki kvæði um Nautabanann (með stóru N-i, ekkert endilega þann sem dó í franska héraðinu í júní síðastliðnum, heldur bara hvern þann nautabana sem lætur í minni pokann fyrir andstæðingi sínum); og til að yrkja þetta harðsoðna kvæði notaði ég formið á hinu fræga ljóði Federicos um dauða Ignacios Sánchez: a las cinco de la tarde, osfrv. Auðvitað hljómar þetta svo að lyftuferðin hafi verið af ishigúrískri lengd – nógu löng til að gera manni kleift að yrkja heilt kvæði milli sjö hæða – en svona kveðskapur ætlast auðvitað ekki til þess að fæðingartíminn sé lengri:

 

Hversu gott að hann dó

– klukkan fimm að kvöldi.

 

Nautið drap hann

– klukkan fimm að kvöldi.

 

Hann ætlaði að aflífa það

– klukkan fimm að kvöldi,

 

til að sýnast fagur

– klukkan fimm að kvöldi,

 

en nautið varð fyrra til

– klukkan fimm að kvöldi.

31. ágúst 2017

BOTNAÐ ÚR „LEST“ RÍKISÚTVARPSINS:

„Fátt stöðvar manninn

í leit sinni að öryggi,“

nema hugsanlega öryggisleysið

á leiðinni.