„Þá er fallegasta mánaðarnafnið aftur dottið inn á dagatalið.“
„Fallegra en apríl?“
„Og fallegra en september.“
„Ekki þó fallegra en október? Og febrúar?“
„Kannski ekki. En samt. Er á meðan er.“
„Ég var að komast að því að í bók Snorra Hjartarsonar, Hauströkkrinu yfir mér, er ljóð sem hefur sama titil og ljóð í bókinni sem ég er að fara að gefa út, Öfugsnáða. Það er orðið ansi langt síðan ég las Hauströkkrið yfir mér – ég hef reyndar aldrei átt þá bók sjálfur; ég fékk Kvæðasafn Snorra lánað á bókasafninu í gær, mig langaði til að lesa aðeins meira af Snorra, eftir að móðir mín gaf mér eintakið sitt af Laufi og stjörnum um daginn – og ég sé núna að það var löngu tímabært að lesa þessa bók Snorra aftur.“
„En hvað með þetta ljóð sem þú nefndir – hvað kallast það?“
„Við Suðurgötu. Ég mundi ekki eftir að það væri ljóð með þeim titli í bókinni.“
„Og þú áttir heima við Suðurgötu.“
„Ég veit.“
Stutt þögn. Mávur flýgur í veg fyrir byggingarkrana í glugganum.
„Ég átti heima þar í tólf ár.“
„Ég líka.“
„Við báðir.“
„Snorri Hjartarson hvílir við Suðurgötuna.“
„Kannski ekki alveg við götuna. Ekki eins og Einar Bragi. Eða Benedikt Gröndal. Og Sigurður Breiðfjörð.“
„Sigurður Breiðfjörð var reyndar fluttur aðeins ofar í garðinn. Það er að segja steinninn hans – ekki hann sjálfur. Aðeins ofar er þó ef til vill fullýkt – líklega er réttara að segja ögn ofar; við erum ekki að tala um nema einn eða tvo metra. En mér er sagt að Sigurður liggi þar sem niðurfallið er, upp af miðju hliðinu þaðan sem gengið er í áttina að Jóni Sigurðssyni (og séra Friðriki); þar sem forseti borgarstjórnar gengur alltaf með blómsveiginn á 17. júní.“
„Varla liggur hann þar sem niðurfallið er?“
„Mér var sagt það. Ég hef tilhneigingu til að trúa því sem mér er sagt. Það var bara steinninn sem var fluttur.“
„En hvað með ljóð Snorra? Einhver líkindi með því og þínu ljóði?“
„Það held ég ekki. Á meðan mitt ljóð „gerist“ í húsgarði austanmegin Suðurgötunnar (þar sem við bjuggum, manstu?), er ljóð Snorra ort um kirkjugarðinn vestanmegin. Við Snorri erum auðvitað afar ólíkir, nema hugsanlega að því leyti að honum fannst víst gott að drekka Campari. Og að reykja. En við erum kannski líka ólíkir í því að ég læt nánast aldrei eftir mér að drekka Campari, og það er ekki oft sem ég reyki. En þetta – þetta með Snorra og ítalska bitterinn og sígaretturnar – það er náttúrlega bara eitthvað sem ég heyrði. En eins og ég sagði: ég trúi mjög oft því sem ég heyri. Ég ræð ekkert við það. Einhver segir eitthvað við mig, og ég trúi því.“
„Getur verið að við séum að tala um þetta af því að við viljum ekki tala um það sem þessi augnablikin vofir yfir í íslenskum stjórnmálum?“
„Ég held þú hittir alveg naglann á höfuðið þar. Að vísu var eitthvað ýjað að því seint í gær að búin yrði til stjórn þar sem Panamamennirnir tveir yrðu skildir eftir úti í vegkantinum, svo ég vitni í herra E. Að þeir fengju ekki að vera með. Að við myndum horfa á þá liggja úti í vegkantinum, eins og tvo ryðgaða stuðara sem hafa dottið af bílnum, og ekki gafst tími – og enginn vilji var heldur fyrir – að festa á skrjóðinn áður en haldið var af stað aftur. En burtséð frá því, þá fannst mér þetta áhugavert, þetta með titlana í ljóðabókunum tveimur, Hauströkkrinu og Öfugsnáða. Og mér má alveg finnast það. Alveg eins og mér finnst, til dæmis, ljóðabók Dags Hjartarsonar, Heilaskurðaðgerðin, vera góð bók.“
„Þetta er að verða ansi þétt ljóðaspjall hjá okkur, sýnist mér.“
„Því svartara sem það verður í íslenskri pólitík, þeim mun bjartara verður yfir okkur.“
„En hvernig er ljóð Snorra um Suðurgötuna?“
„Megum við birta það hér?“
„Það held ég að hljóti að vera. Erum við ekki alltaf að birta einhver ljóð í leyfisleysi?“
„Þú átt við: að því oftar sem við gerum eitthvað í leyfisleysi, þeim mun meiri heimild höfum við til að halda því áfram?“
„Erum við aftur farnir að tala um pólitík?“
„Ég var að vona ekki. En það er samt ekki hægt að segja að ljóð Snorra fjalli beinlínis um Suðurgötuna. Mitt ljóð gerir það ekki heldur. Það fjallar um endalok heimsins.“
„Ljóð Snorra?“
„Nei, mitt. Svo fjallar það náttúrlega um sig sjálft, eins og flest, ef ekki öll, ljóð gera. Og fellur um sig sjálft, eins og öll hin ljóðin gera.“
„Eigum við að láta það flakka?“
„Ljóðið mitt?“
„Nei, Snorra.“
„Af hverju ekki? En mikið var mamma þín góð að gefa þér Lauf og stjörnur.“
„Heldur betur.“
„En verðum við ekki fyrst að losa okkur við gæsalappirnar, áður en við látum ljóðið flakka?“
„…….“
…….
VIÐ SUÐURGÖTU
eftir Snorra Hjartarson
Hvít þoka
og fuglar á hægu flugi
milli trjánna
yfir rökum gangstígum
grasi
og blómum sem drúpa
þungum krónum
Hvít þokan
og dánarheimurinn myrki
djúpt í jörð
undir rótum trjánna
Tveir heimar
andstæður og eining
heimur lífs
og dauða.