12. október 2017

„Ég frétti að þú hefðir fengið bréf frá Áslaugu varðandi rússneska orðið sem þú varst að bögglast með.“

„Jú, það er rétt.“

„Og að þú hefðir algerlega verið „nappaður í bakaríinu“?“

„Stendur heima. Ég held að það sé ekki hægt að orða það öðruvísi.“

„Og hvað? Einhverjar staðreyndavillur?“

„Það má segja það, þótt auðvitað séu reglur tungumálsins ekki ófrávíkjanleg lög – jafnvel ekki reglurnar í rússnesku. Tungumálið er auðvitað valdatæki, eins og við vitum, rétt eins og skammbyssan sem yfirboðarinn beinir að gagnauga undirmannsins; og ég ætla ekki að láta „málið“ stjórna mínu lífi, hvort sem það er rússneska, enska eða Old Norse (svo ég taki bara þrjú dæmi um tungumál heimsins). Ég ætla að standa í lappirnar!

„Kannski „standa heima“ í lappirnar …?“

„Ef því er að skipta, já. Ég er „heima“ núna. En í sambandi við þetta bréf sem ég fékk, þá er ekki hægt að neita því að stafsetning mín á hinu rússneska orði mozhno var kolröng. Það er að segja ef eitthvað er að marka mína (óumbeðnu) heimild fyrir því. Mér varð á að stafsetja það svona: mojsna, eins og þú hlýtur að muna, en auðvitað er það ekki stafsett þannig. Það er stafsett svona: mozhno. Að minnsta kosti skv. reglum ísl. málnefndar. En hvað hefur ísl. málnefnd með þetta að gera? Við erum að tala um rússnesku, ekki Old Norse. Ég ætla svo sem ekki að vera að hengja mig í þessi smáatriði (sbr. hið fyrrnefnda, að ég ætli ekki að láta reglur tungumálsins stjórna mér, hvorki gjörðum mínum né hugsun); en hitt er annað mál að hið svokallaða mozhno getur líka þjónað sem svar við spurningunni „Mozhno?“ Þetta er allt spurning um tónfallið. Þegar maður er á þeim buxum að spyrja, þá spyr maður „Mozhno?“, í merkingunni „Má ég?“ eða „Má þetta?“ eða „Er það í lagi?“ og svo framvegis; og vilji maður svara þeirri spurningu, nú þá breytir maður bara um tónfall, en segir samt sem áður „Mozhno“ – í merkingunni „Já já, það má.“ Eða „Alveg sjálfsagt mál,“ osfrv.“

Stutt þögn.

„Ég tók eftir því að í gær – það var eftir að flugvélin kaffærði samtal okkar um nýja popplagið – að þá allt í einu „leið dagurinn“; mig minnir að það hafi verið orðað eitthvað á þá leið að „svo hafi dagurinn liðið“.“

„Það er rétt. Þetta fór ekki heldur framhjá mér. Mér varð reyndar hugsað til setningar úr bók eftir Halldór Laxness, þegar ég sá þessi orð, „Svo leið dagurinn“. Eða, eins og það var víst: „Svo líður dagurinn“. Þetta minnti mig á setningu úr Íslandsklukku Halldórs Laxness, setningu sem er í mínum huga einhver sú eftirminnilegasta í öllum Halldóri Laxness (jafnvel þótt hún komi ekki úr Kristnihaldi undir Jökli). Það er reyndar orðið ansi langt síðan ég las Íslandsklukkuna, og ég man ekki alveg hvar þessi setning kemur fyrir í bókinni; og kannski kemur hún ekkert fyrir í henni: ég man að ég leitaði að henni fyrir nokkrum árum, með því að fletta hratt í gegnum bókina – ég vissi, eða þóttist vita, að setningin væri í lok eins kaflans – en ég fann hana ekki. Ég þarf að leita aftur. En ef við gefum okkur að minni mitt sé virkt 30 ár aftur í tímann, þá var setningin í Íslandsklukkunni svona: Svo sarð hann konuna. Auðvitað eru fleiri minnisstæðar setningar í þessari bók, ekki síst úr munni Péturs þríhross á miðilsfundinum, en …“

„Bíddu nú við! Pétur þríhross kemur ekki fyrir í Íslandsklukkunni.“

„Hvar kemur hann fyrir?“

„Það er ekki miðilsfundur í Íslandsklukkunni.“

„Ég held samt að þessi setning um konuna (og væntanlega Jón Hreggviðsson; það hlýtur að vera hann sem er falinn á bakvið hann í setningunni) sé sú sterkasta í Íslandsklukkunni. Og til þess að gera í öllum Halldóri Laxness.“

„Það getur hugsast. Það má alveg vel vera. Svo leið dagurinn.“

„Í dag?“

„Ég er að tala um það sem á eftir að gerast.“

„Dagurinn er nú reyndar varla byrjaður að líða. Mér finnst eins og hann fari einhvern veginn allt of hægt af stað.“

„Þá er bara að hraða á honum. Smá músík á fóninn?“

„Mozhno.“

11. október 2017

„… en þú ert ekkert hræddur við að segja of mikið? Of oft?“

„Ég veit ekki hvernig mér ætti að takast það. Ég hef ekkert að segja. Það er frekar að ég hafi tilhneigingu til að segja of lítið.“

„En of oft?“

„Og of oft, já.“

Samtalið á sér stað í skóginum nálægt flugvellinum.

Og of oft? Heyrði ég rétt? Þetta er ábyggilega einhver verst formaða setning íslenskrar tungu frá því íslensk tunga varð til.“

„Varð til? Hvenær varð hún til?“

„Þegar Þórbergur samdi kvæðið um Seltjarnarnesið.“

Flugvél býr sig undir að hafa sig á loft á flugbrautinni rétt hjá – sá undirbúningur hljómar (og lyktar) nánast eins og mótmæli við fullyrðingunni um Þórberg.

„Já. Ég var reyndar að hugsa um það í gær að láta fólk (lesendur þessa texta) vita hvað rússneska orðið mojsna þýðir. Þetta er ábyggilega ekki rétt stafsett hjá mér, en ég komst að því í gær hvað þetta orð á rússnesku þýðir; ég er nefnilega búinn að heyra það sagt svo oft þegar ég hlusta á rússnesku talaða, núna síðast þegar ég heyrði á tal rússnesks viðskiptamanns á veitingastað í ónefndri borg; hann sat við borðið, einn síns liðs, með kaffibolla fyrir framan sig, og talaði í farsímann sinn viðstöðulaust, ábyggilega í hálftíma, þrjú korter; og mér fannst beinlínis grunsamlegt hversu oft hann sagði orðið mojsna (eða hvernig sem það er skrifað). Og ég hugsaði með sjálfum mér (því varla hugsaði ég það með einhverjum öðrum) að mojsna hlyti að vera eitthvert mjög mikilvægt orð í viðskiptaheiminum rússneska (þótt ekki væri þessi maður, og heldur ekki ég, staddur á rússneskum veitingastað). En svo fékk ég að vita í gær – nei, það var í fyrradag – hvað orðið mojsna þýðir. Ég spurði Áslaugu að því, þegar ég fór á Vesturvallagötuna til að ná í nýju bókina hennar með rússnesku smásögunum. (Meira um þá bók síðar.) Mojsna þýðir „má ég?“, eitthvað svoleiðis. Og í fyrrakvöld, þegar ég fylgdist með íslenska fótboltalandsliðinu vinna sér inn þátttökurétt í HM í Rússlandi á næsta ári, hugsaði ég sem svo (aftur með sjálfum mér): Þetta orð á eftir að nýtast Íslendingum vel þegar þeir flykkjast til Rússlands næsta sumar til að fylgjast með öllum Aronunum og Hannesunum tækla alla útlensku fótboltamennina í Sankti Pétursborg eða Murmansk. „Mojsna, por favor?“ Ég geri mér grein fyrir að rússneskukunnátta mín nær ekki yfir mikið fleiri orð en mojsna, en ég myndi samt skilja svar Rússanna (næsta sumar) við beiðnum Íslendinganna þegar þeir síðarnefndu segðu – og munu segja – mojsna í gríð og erg þegar þeir verða komnir til Pétursborgar eða Murmansk. Ef Rússarnir segja da, þá þýðir það ; en ef svarið verður njet, þá þýðir það nei.“

„En þú hafðir ekki spáð Íslendingunum sigri í leiknum í fyrradag, var það?“

„Nei, ég ákvað að hafa rangt fyrir mér. Auk þess sem enginn er spámaður í sínu eigin föðurlandi. Og þaðan af síður um sitt eigið föðurland.“

Svo víkja þeir talinu að nýjasta lagi Gunnars Þórðarsonar (við texta Hallgríms Helgasonar), en þá er hávaðinn í flugvélinni frá því áðan orðinn svo mikill (og lyktin eftir því) – það er eins og vélin nái ekki að lyfta sér af flugbrautinni – að það heyrast ekki orðaskil; orðin beinlínis drukkna í „samgöngulátunum“.

„En …“

„Það er nú meira …“

„Alger sm …“

Svo líður dagurinn.

9. október 2017 (aukafærsla)

Ansi var „maðr“ nálægt því: ég spáði tveimur mörkum í leiknum í kvöld (1 – 1), nema að þau röðuðust öðruvísi en ég hafði ætlað. Maðr er orðinn enn meiri áhugamaður um Ísland en áður; það eina sem maðr óttast núna er að Sjálfstæðisflokkurinn græði á þessu eftir tæpar tvær vikur. En slíkar áhyggjur eru allt í einu gleymdar núna – þangað til á morgun. (Núna er maðr svolítið að rifja upp sinn eigin feril í „knattspyrnunni“, þannig að þessi færsla verður ekki mikið lengri en þetta – maður verður að hafa smá tíma fyrir eftirsjá og hugsanir um glötuð tækifæri.) Af svölunum í fjármálahverfinu (áðan) sá maðr flóðljósin á Laugardalsvelli, og … (nú er verið að draga mig út á svalir til að fagna aftur – úr fjarlægð – þannig að þetta verður ekki lengra í bili).

9. október 2017

Fyrsta kosningaspá Næsta kafla (í aðdraganda alþingiskosninga 2017): Sjálfstæðisflokkur 28,5%, Vinstri græn 26%, Alþýðufylkingin 0,02% – ég treysti mér ekki enn sem komið er að segja til um úrslit hjá öðrum flokkum, en atkvæðin munu skiptast nokkuð jafnt á milli þeirra, þótt ég búist ekki við að Dögun fái mörg atkvæði. Björt framtíð fær þó líklega eitthvað á bilinu 2 til 3% atkvæða, og Framsóknarflokkur (eða það sem eftir er af honum) 7,3%. Ætli Samfylkingin fái ekki 12,5%, nú þegar Guðmundur Andri er allt í einu hættur að skrifa pistla í Fréttablaðið. Og Píratar – ég treysti mér ekki alveg til að spá til um þá. Ég giska á 13% (því enn – sem á kannski eftir að breytast, því ég er á „fleygiferð“, eins og ég heyrði í Ríkisútvarpinu að Morgunblaðið hefði sagt um fylgi flokkanna; að fylgið væri á fleygiferð – því enn stendur hugur minn til þess að kjósa þá, Píratana – en eins og ég sagði: það gæti breyst). Miðflokkur Sigmundar Davíðs og nafna míns Gunnars fær 24 atkvæði. (Þegar maður hugsar um Miðflokkinn verður manni óhjákvæmilega hugsað til hljómplötunnar sem Smekkleysa gaf út fyrir mörgum árum, ef ekki áratugum, með hljómsveitinni Exem. Mig minnir að platan hafi kallast Kjötflykkið eða Kjötsneiðin – það hafði að minnsta kosti eitthvað með kjöt að gera. En „það sagt“, eins og ég heyrði konu segja í Ríkisútvarpinu nýlega, eða hugsanlega Ríkissjónvarpinu, þá gæti ég vel trúað að Miðflokkurinn fái þessi 20 atkvæði plús sem ég spáði honum, jafnvel 20% atkvæða, ef því er að skipta.) Eitthvað er ég samt hræddur um að ég hafi verið aðeins of örlátur á prósenturnar í þessari spá minni. Ég treysti mér ekki í augnablikinu til að leggja þær saman, en mér kæmi ekki á óvart að þær væru orðnar eitthvað fleiri en 100. En höfum í huga að auðvitað er þetta bara fyrsta spá – það koma fleiri þegar nær dregur kosningum. Staðan er allavega þessi í augnablikinu: Sjálfstæðisflokkur fær flest atkvæði, og Flokkur fólksins (sem ég gleymdi að nefna hér að ofan) fær næstflest atkvæði, eða eitthvað á bilinu 27 til 28%. Þetta myndi þýða að Sjálfstæðisflokkur og Flokkur fólksins gætu myndað saman ríkisstjórn. Sem væri í raun eðlilegt, því þá gætu „vinstri“ flokkarnir haldið áfram í sínu, eins og ekkert hefði í skorist. En þá að öðru (og áður en kemur að því ætla ég líka að spá fyrir um úrslit fótboltaleiksins í kvöld. Ég spái jafntefli, 1 – 1 eða 0 – 0. Ég vona samt að Ísland vinni Kosovó – ég er áhugamaður um Ísland). Og þá loks þetta „annað“. Eins og mig grunaði (og vissi reyndar), þá var engin tölva „fyrir mig“ í London, þar sem ég dvaldi í vikunni sem leið. Ég fékk að vísu svolítil afnot af tölvu annars aðila sem bjó á hótelherberginu, en þau afnot, eða sá tími sem maður ætlar sér, eða gefur sér, þegar maður er á „lánstíma“, dugði einhvern veginn ekki til að ég færi að „beita mér“ á nokkurn hátt, eða læsi af einhverju viti það sem ég fletti upp í tölvunni. Ég einbeitti mér frekar að því að lesa dagblöðin sem fengust gefins í móttökunni – og þar las ég ýmislegt. Ég las svo margt í blöðunum að ég er búinn að gleyma því öllu. Allt annað frá þessum dögum man ég þó, t.d. orð leigubílstjórans um að ég hefði rétt misst af Karli Bretaprinsi þar sem hann var að koma í Buckinghamhöll til að snæða kvöldverðinn með fjölskyldunni – það hefði ekki munað nema nokkrum sekúndum að við, ég og leigubílstjórinn, hefðum séð Karl koma í höllina; hann kæmi þangað alltaf á slaginu fimm). Annað af því sem ég man frá síðustu dögum er að ég fékk tölvupóst sendan frá starfsbróður mínum í greininni, um að ég hefði heyrt rétt textann í Allianz-auglýsingunni sem ég minntist á fyrir stuttu; hann, starfsbróðirinn, meira að segja sendi mér sjónvarpsauglýsingu á tölvutæku formi þessu til staðfestingar (sem ég náði að skoða í „lánstölvunni“ á hótelherberginu). Lesendum til upprifjunar var textinn í Allianz-auglýsingunni svona: „Því miður vitum við ekki hvenær lífið tekur enda.“ Ég hafði haft einhverjar áhyggjur af því að ég færi ekki rétt með textann þegar ég nefndi hann um daginn, ekki síst vegna þess að þegar ég heyrði hann hafði ég snúið baki í sjónvarpstækið; en nú er sá vafi úr sögunni – ég heyrði rétt. Ég ætla að enda þetta á þeim upplitsdjörfu nótum. Og hafa smá músík – en bara smá:

3. október 2017

Ég veit það er fáránlegt – og eiginlega stenst það ekki skoðun – að þáttastjórnandi sé að fara burt í nokkra daga, þar sem enga tölvu er að finna, og hann hefur enn ekki látið uppi hver hljómsveitin er sem hann fékk lánaða á bókasafninu (og nú er hann ekki að tala um Antony and the Johnsons). Honum finnst þó ástæða til að nefna að hann var ekki að „uppnefna“ einn eða neinn þegar hann hnikaði til stöfum í orðinu starafugl – hann þóttist vera með það alveg á hreinu að starafugl væri anagram af orðinu stafarugl. En kannski er það bara alls ekki svo. Bara alls ekki – það kannski stenst bara ekki nokkra einustu skoðun. En þegar ég hugsaði um orðið anagram, þá poppaði allt í einu upp orðið analgram, og mér fannst að slíkt orð hlyti að hafa einhverja merkingu (líka). Nú hef ég að vísu ekki tíma til að vera að velta þessu lengi fyrir mér, ég er á förum eins og áður sagði; en einhver lítill fugl í höfðinu (hugsanlega fiðrildi) hvíslaði að mér að analgram hlyti að hafa eitthvað að gera með hinn nýstofnaða skóla í ljóðlistinni, Samanherpta hringvöðvann. En hér er eitt lag í viðbót með The Pogues (það „gerist“ í Londres, þar sem enga tölvu er að finna):

2. október 2017

Sigurður Pálsson er einn þeirra höfunda sem manni verður hugsað til þegar maður hefur skrifað eitthvað, og þykist þurfa á staðfestingu að halda um hvort skrifin séu í lagi: Hvað ætli Sigurði finnist um þetta? Hvernig myndi þetta hljóma á frönsku? Mér er sérstaklega minnisstætt þegar við Sigurður vorum saman á ljóðahátíð í Liège í Belgíu fyrir rúmlega tíu árum, og hann útskýrði fyrir mér fagurfræði sína hvað varðaði treflanotkun og litaval á treflum; hvað það væri sem réði því hvort hann setti á sig hvítan eða rauðan trefil, eða einhvern annan lit. Mér dettur ekki í hug að líkja saman klæðaskáp og fatavali okkar – hans var öllu raffineraðra en mitt – en mér verður samt alltaf hugsað til Sigurðar þegar ég bind svarta trefilinn minn um hálsinn – eina trefilinn sem ég á, og þar með eina litinn á trefli sem er að finna í mínum skáp – og ég gruna mig um að vera heldur fátæklegur í andanum að hafa ekki úr fleiri litum að velja. Nú fer útför Sigurðar fram í dag. Það er skrítin tilhugsun, en auðvitað er Sigurður ekkert farinn; hann heldur áfram að vera til staðar. Ég segi bara ævinlega, eins og Kristín …

1. október 2017

Eftir að hafa horft á spjall fjögurra „álitsgjafa“ í Silfri Egils í Ríkissjónvarpinu í hádeginu (sem ég held að hafi verið frekar fínt spjall, það fannst mér allavega), þá situr eftir ein spurning sem mig grunar að mun fleiri en ég hljóti að spyrja sig. Það virðist nefnilega sem hvert einasta orð sem Styrmir Gunnarsson lætur út úr sér merki það að maður eigi ALLS EKKI að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Hann hefur áður lýst skoðun sinni á þeim samtökum, eða því sem þau standa fyrir; hann hefur lýst þeim sem spilltum og ógeðslegum; og það var ekki að heyra í þættinum áðan að hann hefði mikla trú á að þessi ólánsflokkur geti á næstunni hjálpað til við að stuðla að betri pólitík á Íslandi, og þaðan af síður stuðlað að betra samfélagi. En samt – Styrmir talar ennþá um Sjálfstæðisflokkinn sem „sinn flokk“ (eða ég heyrði ekki betur). Mun Styrmir sem sagt ganga inn í kjörklefann 28. október nk. og krota X við D? Ég þekki ekki Styrmi, en ég þekki nokkra aðra „sjálfstæðismenn“, eða „-fólk“, sem mig grunar líka að muni eyða sínu næsta X-i á D, þrátt fyrir að framáfólk flokksins sé ítrekað staðið að lygum og óheiðarleika. Er þetta ekki ein helsta meinsemdin í hinu staðnaða pólitíska lífi á landi voru? Að fólk sem hefur einu sinni horft upp eftir veggjum Valhallar við Háaleitisbraut með lotningu sjái ekki önnur hús? Ég heyrði um daginn spjall við Hildi Sverrisdóttur, einn þeirra Sjálfstæðismanna sem hröðuðu sér út af fundinum áður en kom að því að heyra nöfnin í gögnunum; og í þessu spjalli klifaði hún á því að hún væri ekki „róbot“. Þegar hún undirbjó sig fyrir þáttinn (sem var í Ríkisútvarpinu, vel að merkja) hlýtur að hafa hvarflað að henni sú hugsun að ef til vill væri hún einhvers konar vélmenni, fyrst henni fannst hún þurfa að nefna það endurtekið og ítrekað að hún væri það ekki. Þetta er allt mjög skrítið. Og þetta hlýtur að enda með því að maður spili lag með The Pogues og The Dubliners (sem hefur þó alls ekkert með vélmennin í Valhöll að gera).

30. september 2017 (aukafærsla nr. 2)

Ég var ekki fyrr búinn að nefna inni á heimilinu að ég færi alltaf að hugsa um „Gott fordæmi“ Dags þegar ég ryksugaði, þegar annar aðili sama heimilis rifjaði upp fyrir mér annað ljóð, íslenskt, um „the act of vacuum-cleaning“ eða „the act of hoovering“ – og um leið skildi ég ekkert í mér að hafa ekki orðið hugsað til þess ljóðs í morgun, á meðan ég sveif um gólfin – og eftir teppunum – með ryksuguna á hæstu stillingu. Ástæðan fyrir þessari yfirsjón gæti þó hafa verið sú að þetta ljóð sem ég var minntur á af „hinum aðilanum“ „gerist“ í raun ekki á gólfinu eða teppinu – það teygir sig dýpra inn í veröld ryksugunnar, nefnilega inn í skápinn þar sem ryksugan er geymd. Og á meðan maður ryksugar („Á meðan rithöfundurinn ryksugar hugsar hann um, osfrv“, eins og það myndi hljóma á guðbergsku), þá er líklegra að maður sé frekar með hugann við það svæði sem ryksugunni er ætlað að þrífa, en það svæði sem hún er geymd á – og þar liggur einmitt styrkur ljóðsins sem ég er um það bil að fara að pikka inn hér (vonandi með góðfúslegu leyfi). Ljóðið er eftir Gyrði Elíasson, og það er að finna í bókinni Hér vex enginn sítrónuviður:

 

HREINGERNINGAR

 

Úr leiðarvísi fyrir ræstitækna

í opinberum byggingum

 

Þegar ryksugað er

má alls ekki gleyma

að ryksuga skápinn

þar sem ryksugan

er geymd

30. september 2017 (aukafærsla)

Eitt það alleiðinlegasta sem mannskepnan stendur frammi fyrir er að ryksuga. En hún neyðist til þess. Það verður stundum að soga upp rykið af gólfunum og teppunum, t.d. á þriggja eða fjögurra vikna fresti, hið minnsta. It can´t be helped. Og þetta þurfti ég að gera í morgun (vegna þess að það voru nokkrar vikur liðnar frá því síðast). En eins og með svo margt annað hér á „síðunni“ stóð upphaflega ekki til að gera ryksog að umtalsefni, alls ekki. Eina ástæðan fyrir þessu uppátæki (að tala um jafn hversdagslegan hlut og að ryksuga) er sú að í hvert skipti sem ég ryksuga (hvort sem það er í vesturbænum – sem verður væntanlega ekki oftar – eða austurbænum, nú eða upp í sveit), þá rifjast upp fyrir mér eitt ákveðið ljóð úr síðustu bók Dags Sigurðarsonar, Kella er ekkert skyld þeim. Og þá meina ég: í hvert skipti. Og á meðan ég fer með það í huganum (eða það sem ég man úr því) er eins og ég gleymi því að ég sé að ryksuga – svona getur ljóðlistin nýst manni; hvílíkt notagildi sem hún hefur í lífi manns. En hey, let´s boogie, eins og Rob Reiner sagði. Hérna er ljóðið

GOTT FORDÆMI

 

Óvenjulegur húsfreyr í gamla vesturbænum

nennir ekki að beygja sig

eftir smápeníngum

þegar hann ryksugar

 

Svona gerir Dagur

hugsar hann meðan skrýmslið gleypir þá

 

Samt hefur slíkt ekki sést til mín

29. september 2017 (aukafærsla)

„Þættinum“ hefur borist „bréf“. Það („bréfið“) barst reyndar óbeint, í gegnum aðra „bloggs-síðu“, þessa hér:

https://kaktusinn.is/2017/09/29/espergaerde-skyjafar-og-skithaelar/

En það var ekki þetta sem stóð til að tala um í þessari aukafærslu – „þetta“ gerðist „of seint“ til að „þáttastjórnandi“ teldi sig hafa tíma til að bregðast við, þótt tilefnið hefði „alveg gefið tilefni til þess“. Það sem stóð til að tala um hér (fyrst „aukafærsla“ var komin á dagskrá – mig grunar reyndar að hún hafi verið komin á dagskrána svolítið fyrr í dag, löngu áður en „bréfið“ barst – ég var þá staddur á gangi í miðbæ Reykjavíkur, ég var að tala við hana Hildi Finnsdóttur fyrir utan veitingastaðinn Veður – ég tek fram: fyrir utan) var frétt á Eyjunni fyrr í dag (ég veit: nástaða!) um að formanni Framsóknarflokksins, þess dularfulla stjórnmálaafls á Íslandi, fyndist staðan í kjölfar „klofnings“ Framsóknarflokksins vera orðin „erfið og óheppileg“. Ég hef reyndar (aftur „nástaða“!) snúið við orðaröðinni í þessu: það sagði nefnilega í fréttinni að staðan væri orðin „óheppileg og erfið“. Ég þykist alveg skilja hvað átt er við með orðinu erfið í þessu samhengi, en það er mér algerlega hulið hvað meint er með hinu orðinu, orðinu óheppileg. Hvernig getur pólitískt ástand verið „óheppilegt“? Mig minnir að ég hafi velt vöngum yfir þessu orði áður í tengslum við pólitík (hér á bloggs-síðunni), en þar sem ég hef gaman af endurtekningu og þráhyggju, þá finnst mér alveg tímabært að leita skýringa á þessu furðulega orði, óheppilegt. Snæbjörn – hefurðu einhverja skoðun á því?

29. september 2017

Ákvarðanatökur eru erfiðar þessa dagana. Ég var eitthvað að tala um ákveðna hljómsveit í síðustu færslu – svo ákveðna að ég hef ekki enn getað gert upp við mig hvort ég eigi að nefna nafn hennar – og nú sé ég fyrir mér að nokkrar færslur í viðbót eigi eftir að líða – að vera skrifaðar – áður en ég játa endanlega á mig að ég hafi gaman af (ó)nefndri hljómsveit. Dularfullt mál, svo sannarlega. Í sömu bókasafnsferð og ég fékk plöturnar með hljómsveitinni lánaðar fékk ég líka plötu með Antony and the Johnsons, sem heitir Another World. Mér finnst Antony fínn. Eða á maður að segja fín? Another World, sem er fimm laga plata, er ekki síður dularfullt fyrirbæri en þetta sem ég hef haldið aftur af mér að nefna, því ég finn ekkert um Another World á veraldarvefnum; plötuna er ekki að finna á amazon, og þegar ég leita að henni utan amazon-svæðisins á vefnum, þá bara frýs tölvan mín. En ég fann annað með Antony and the Johnsons, sem er ekki eins dularfullt og allt þetta sem ég hef nefnt, því þar (í þessu myndbandi sem þetta er, meira að segja með uppáhaldsleikaranum Willem Dafoe – þeim sem lék Max Schreck í hinni dásamlegu mynd Shadow of the Vampire), er sýnt hvernig á að fara með karlmenn þessa heims – þannig lagað.

Með því að halda mig við „þannig lagað“ fyrirvarann á því að svona eigi að fara með karlmenn þessa heims, þá dettur mér í hug að svona meðferð eigi nafni minn Bragi Páll Sigurðsson „þannig lagað“ skilið fyrir að skrifa dóm um fyrstu bók höfundar eins og hann gerir hér í „stafaruglinu“:

http://starafugl.is/2017/aferdarfallegt-andvarp/

Að fara fram á við höfund að hann prýði sig með „hatri, blóði og hráum tilfinningum“ er svo óendanlega hallærislegt og þröngsýnt að maður einhvern veginn roðnar allur – ég vona að minnsta kosti að Jóna Kristjana þiggi ekki boð Braga Páls um að gerast félagi í þeim skíthælaklúbbi sem ég vona líka að telji ekki fleiri félaga en Braga Pál. Hvað er þetta annars með þessa kröfu hinna „samanherptu hringvöðva“ í hópi ljóðskálda um að aðrir þurfi endilega að vera eins og þeir? Sjá þeir ekki bara um það sjálfir?

27. september 2017

Í tvo daga hef ég ekki getað gert upp við mig hvort ég eigi að setja hér færslu um hljómsveitina sem ég var að uppgötva í fyrradag, eða fyrir þremur dögum – á eftir öllum hinum, geri ég ráð fyrir. Að uppgötva nýja popphljómsveit (í þessu tilviki ekki svo nýja) er alltaf talsverður áfangi í mínu hversdagslífi – það gerist ekki oft að ég „detti inn í“ hljóðheim einhverrar hljómsveitar eða popptónlistarmanns, en þegar það gerist, þá verður slík uppgötvun alltaf eins konar „double happiness“, eins og þeir í Japan orða það. Ég held samt að ég ætti að bíða aðeins með að nefna einhver nöfn – eða nafnið – ég er búinn að fá fjórar plötur lánaðar með þessari ónefndu hljómsveit á Borgarbókasafninu, en hef ekki enn getað tekið hina endanlegu ákvörðun um hvort þessi músík er endilega „málið“. Þangað til verð ég bara að hlusta aðeins meira á plöturnar, og velta kannski fyrir mér í leiðinni hvort brotthvarf Birgittu Jónsdóttur af alþingi sé gott fyrir Pírata eða ekki. Eins og staðan er í augnablikinu (hjá „þáttastjórnanda“ Næsta kafla) mun „þáttastjórnandi“ Næsta kafla setja sitt X við Pírata í yfirvofandi alþingiskosningum (eins og hann gerði síðast líka, þegar Píratar voru eini flokkurinn sem útilokaði algerlega samstarf við óvin nr. 1, sem þeir, Píratar, virðast ætla að endurtaka núna) – og allt í einu dettur honum í hug, „þáttastjórnandanum“, þegar klukkan er þrjár mínútur yfir sex, síðdegis á miðvikudegi í ofanverðum septembermánuði árið 2017, að fleiri en einn í Píratapartíinu hljóti að hlusta á þessa hljómsveit sem er að valda öllum þessum heilabrotum í popphöfðinu …

25. september 2017 (aukafærsla nr. 2)

Einn athugull lesandi „heimasíðunnar“ sendi mér tölvupóst, hvar finna mátti eftirfarandi spurningu: Ertu viss um að sjónvarpsauglýsing Allianz hafi verið nákvæmlega svona? Þá átti hann við hvort auglýsingin hefði verið orðuð eins og ég vildi meina að hún hefði gert, „Því miður vitum við ekki hvenær lífið tekur enda“. Þessi athugasemd tölvupóstssendandans setur mig alveg úr jafnvægi, ég skal viðurkenna það. Því nú er ég ekki 100% viss um að ég hafi heyrt rétt þegar ég hlustaði á sjónvarpsauglýsinguna í gær (ég sá hana reyndar ekki; ég sneri baki í tækið). Að ég hafi einu sinni unnið á auglýsingastofu hefur ekkert með þetta að gera („unnið einu sinni“? – ekki bara „einu sinni“, heldur í 5 ár með hléum); en vissulega hljómaði texti sjónvarpsauglýsingarinnar (eins og ég heyrði hann) afar einkennilega – nánast eins og mistök hefðu átt sér stað – því varla vill tryggingasöluaðilinn Allianz gera viðskiptavinum sínum það að vita hvenær ævi þeirra endar? En endilega – ef einhver getur leiðrétt „misheyrn“ mína frá því í gær, þá væri það vel þegið. Ég er meira að segja alveg opinn fyrir póstum frá Allianz – bara að þeim fylgi ekki tilboð í líftryggingu, eitthvað svoleiðis.

25. september 2017 (aukafærsla)

EIN AÐVÖRUN, EIN TILVITNUN, EIN ATHUGASEMD

A storm´s coming in … (skv. morgunútvarpi Ríkisútvarpsins)

„Því miður vitum við ekki hvenær lífið tekur enda.“ (Allianz, sjónvarpsauglýsing)

Viljum við vita það?

25. september 2017

HEIMÞRÁ

Á áttundu hæð blokkarinnar í Sólheimum hlustuðum við á Buzzcocks, Magazine, Devo og Swell Maps. Ég man ekki hvað við gerðum annað, en það var kvöld, og það var myrkur; svo tókum við Swell Maps af fóninum, og settum The Fall í staðinn. Live at the Witch Trials.

Rebellious Jukebox. Repetition.* Þegar ég nefni Repetition rifjast upp fyrir mér það sem við gerðum þetta kvöld, það sem ég þóttist ekki muna áðan. Ég man eftir svarthvítu ljósmyndunum sem við skoðuðum í skini lampans í stofuhorninu, og hvaða lykt fylgdi þeim myndum; og hverjir voru með okkur þetta kvöld – og hverjar.

Ég átti sjálfur aldrei heima í Sólheimum. Það var pabbi eins okkar sem átti íbúðina (og óþarfi að taka fram að hann var ekki heima). En númerið á blokkinni er 25 – þetta er blokkin á móti bókasafninu.

*Repetition var ekki á vínilútgáfu Live at the Witch Trials, heldur einungis á endurútgáfu plötunnar, sem kom út árið 2008. Lagið er því ekki að finna á plötunni sem minnst er á hér að ofan.

23. september 2017

Háværar raddir á alheimsnetinu vilja meina að maður eigi ekki að vera að tala um það sem manni finnst vont – frekar hrósa því sem er gott. Ég tek heils hugar undir hið síðarnefnda: það er full ástæða til að hrósa því sem er gott. En það er alveg jafn mikilvægt að benda á það sem er vont. Til dæmis er pistill eftir Sif Sigmarsdóttur í Fréttablaðinu í dag, þar sem hún gerir að umtalsefni hið rotna og fúla eyðingarafl Sjálfstæðisflokkinn, en kemur um leið pabba starfandi forsætisráðherra til varnar með því að benda á að það hafi ekki verið pabbanum að kenna að ríkisstjórn sonarins féll, heldur hafi sonurinn alveg séð um þann hluta atburðarásarinnar sjálfur. En ég ætlaði ekki að fara að hugsa um Sjálfstæðisflokkinn á þessum fallega rigningarmorgni. Ég er nefnilega ennþá með hugann við bíómyndina sem ég sá í gær, á ekki síður fallegu rigningarsíðdegi (segir maður annars „á síðdegi“?). Ég fór alla leið í Egilshöll. Þangað hafði ég aldrei komið áður. Að koma í Egilshöll er eiginlega reynsla út af fyrir sig – mér hafði ekki dottið í hug að þarna væri þessi svakalega „miðstöð“. Venjulega reyni ég að fara í bíó nær miðbænum, og helst reyni ég að fara bara í Bíó Paradís, því þar eru myndirnar ekki eyðilagðar með sýningarhléi; en í gær neyddist ég til að fara í Grafarvoginn, vegna þess að bíómyndin mother! var bara sýnd í Egilshallarbíóinu á þeim tíma sem ég vildi fara í bíó. (Ég veit: þetta er að verða ansi langur formáli að minni neikvæðu umsögn um útlenska bíómynd.) Ég man ekki eftir að hafa séð mynd eftir Darren Aronofsky áður. Ég hef samt reynt að gera mér einhverja hugmynd um hvers konar bíómyndir hann býr til – og kannski hafa þeir „fordómar“ mínir orðið til þess að „ég muni ekki eftir að hafa séð mynd“ eftir hann áður. En það var eitthvað í fjölmiðlaumfjöllun um þessa nýju mynd hans, mother!, sem gerði mig spenntan. Ekki bara það að minnst væri á David Lynch, Roman Polanski og Luis Buñuel í tengslum við myndina, heldur var látið að því liggja að hún kæmi verulega á óvart sem bíómynd, að í henni væri eitthvert element sem lýsti miklu hugrekki hjá leikstjóra myndar sem væri framleidd af stóru kvikmyndafyrirtæki – og svo framvegis. (Ég reyni almennt að forðast að nota og svo framvegis, en það var bara svo margt sem manni var lofað að maður myndi upplifa ef maður færi að sjá mother! að ég nenni ekki að telja það allt upp hér.) Yfirleitt þegar maður fer í bíó reynir maður að stilla væntingum sínum í sem allra mest hóf; og þarna í gær var ég alveg undir það búinn að eitthvað í mynd Aronofsky myndi fara í taugarnar á mér, að ef til vill væri í henni einhver tilgerð (sem þarf þó ekki endilega að vera vond, alls ekki), og að dæmisagan í myndinni (sem ég var búinn að lesa um í einhverjum umsögnum) væri kannski of augljós dæmisaga. En guð minn góður. Hver er þessi maður, Darren Aronofsky? Fyrir utan það (sem ég held að hljóti að vera staðreynd) að ekkert nýtt væri í myndmáli og uppbyggingu þessarar bíómyndar, þá var hinni útþvældu dæmisögu um Móður Jörð og Guð, og sjálfselsku Guðs (og hégómleika ljóðskáldins!), makað svo kyrfilega framan í mann að hið hálfa hefði verið allt of mikið. Kannski er ég (óafvitandi) að reyna að gera þetta eitthvað spennandi með því að nefna ljóðskáldið og Guð og hégómleika í sömu andránni – og líklega er ég að því (og meira að segja alveg meðvitað), því ég hvet fólk til að fara í Egilshöll til að sjá mother! eftir Darren Aronofsky. Þetta er uppbyggileg mynd í því skyni að læra hvað ber að forðast þegar „kemur að því“ að búa til bíómynd (eða bók) – hún virkaði á mig sem einhvers konar manual – mér verður núna hugsað til bókartitils Friðriks Ólafssonar um skák: Svona á ekki að tefla. En svo má líka vera að ég sé sjálfur eitthvað viðkvæmur fyrir því að fjallað sé um hégómleika ljóðskáldsins (og Guðs) í bíómynd í Egilshöll – ég, hið viðkvæma ljóðskáld, Guðinn. Það er heldur ekki óhugsandi að ég hafi látið sýningarhléð eyðileggja fyrir mér myndina, því hvað er það annað en að „leika Guð“, að slíta í sundur tveggja klukkustunda langa bíómynd með tíu mínútna hléi?

22. september 2017

Ég veit ekki af hverju – það er eiginlega óskiljanlegt – en ég hafði aldrei séð fyrstu mynd Jacques Tati áður, Jour de fête. Þangað til fyrir þremur dögum. Fyrir nokkrum árum sá ég reyndar hluta af myndinni, þegar ég fór í heimsókn til þýðandans og „Íslandsvinarins“ Erics Boury í Caen í Normandí; hann vildi endilega sýna mér smá búta úr henni, því myndin er tekin í bænum þar sem hann ólst upp, Saint-Sévère. Ég hafði séð allar aðrar myndir Tatis áður, sumar þeirra mjög oft, sérstaklega Sumarleyfi Hulots, Mon oncle og Playtime; en líklega hef ég alltaf hugsað sem svo að Jour de fête væri ekki jafn snörp og „góð“ og seinni myndirnar, að það væri engin aðkallandi þörf á að horfa á hana. En svo eignaðist ég heildarsafn Tatis þegar ég átti afmæli í ágúst (fékk kassann í gjöf frá Evu Þórdísi Ragnarsdóttur), og á þriðjudaginn var (sama dag og Sigurður Pálsson andaðist – skrítið að hugsa til þess) var komið að því að horfa á Jour de fête. Og þvílík mynd! Það þarf ekki að nefna að allar hinar myndir Tatis (hugsanlega fyrir utan hans síðustu, Parade, sem ég hef ekki séð mjög lengi, og man voða lítið eftir) eru dásamlega fyndin og upplífgandi kvikmyndaverk, gerð af einstakri alúð og nákvæmni, og af mikilli hlýju – mér liggur við að segja ást, þótt ég bíði aðeins með það orð í bili … En nú þarf ég að hlaupa (frá hálfkláraðri færslu) – ég tek þó fram að ég er ekki að hlaupa í burtu vegna þess að ég hafi orðið eitthvað feiminn við orðið ást; ég hef bara einfaldlega öðrum (og meira áríðandi) hnöppum að hneppa í augnablikinu en að skrifa einhverja færslu um Jacques Tati (þótt auðvitað ættu allar færslur að fjalla um hann). Ég ætla samt að leyfa mér að hvetja alla þá sem einhvern tíma hafa starfað sem póstmenn (og öll þau hin sem hefur langað til, eða hafa í hyggju, að starfa sem póstmenn) að sjá bíómyndina Jour de fête. Hún er svokallað skylduáhorf fyrir verðandi/núverandi/fyrrverandi póstmenn. (Ég tilheyri sjálfur síðastnefnda hópnum.) Ég hafði reyndar ætlað mér að fara út í svolítinn kvikmyndasamanburð – var að hugsa um að tala um bíómyndina The Square, sem ég sá um daginn í Cinema Paradiso við Hverfisgötu, og bera hana saman við t.d. Jour de fête, sem hefði reyndar táknað að síðarnefnda myndin, sú franska, kæmi allbetur út en sú sænska, í minni amatörumfjöllun – en þetta verður að bíða betri tíma (sem ég geri mér auðvitað alveg grein fyrir hvað þýðir). Og nú er ég horfinn til annarra starfa. Ég rétt næ þó að líma hér við færsluna eina senu úr mynd Tatis, þar sem póstmaðurinn Francois festir sig við pallbílinn.

20. september 2017

Í Minnisbók sinni rifjar Sigurður Pálsson upp einn dag í júní árið 1982, þegar Kristín var farin heim til Íslands til að undirbúa tökur á kvikmyndinni Á hjara veraldar, og hann fór á tónleika með The Rolling Stones. „Að verða loksins vitni að leiksviðstilveru Stones, það var eins og fyrir katólikka að fá þriggja tíma áheyrn hjá páfanum,“ segir Siggi í bókinni. Seinna um kvöldið fór hann á Coupole-kaffihúsið á Montparnasse, og sat þar „einn með mat mínum“, eins og hann orðar það. En þá gerðist það að „gítarhöfðinginn“ Keith Richards kemur inn á staðinn, með nýju konunni sinni og fleira fólki, og upp hófst mikil rauðvínsdrykkja á rokkliðinu einhverja tvo metra frá borði Sigga. Á meðan Siggi fylgdist með, og vann á kjúklingnum sínum, kom að honum þjónninn á staðnum og spurði hvort hann ætlaði ekki að fá eiginhandaráritun hjá Keith. Siggi sagðist hafa hug á því, úr því svo vel bæri í veiði, en þjónninn bauð þá fram aðstoð sína: „Viltu kannski að ég sjái um það?“ Sigga þótti það heillaráð. Svona segir hann frá þessu í Minnisbókinni:

Keith tók þessari beiðni afar ljúflega. Þess vegna á ég jarteikn af þessum fundi, áritað blað með bréfhaus La Coupole, undirritað „With love, Keith Richards“.

Mig langar til að senda Sigga samskonar kveðju: „With love, B.“