Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson er ný skáldsaga eftir Braga Ólafsson. Svolítið snúið er að útskýra efni hennar í stuttu máli, en þó má ef til vill nefna þrjá þræði sem ganga í gegnum söguna: handritið sem nefnt er í titli bókarinnar, óvæntan föðurarf Arnar Featherby og ferð þeirra Jóns með skipi til Englands og aftur til baka, auk þess sem vitna má í niðurlag setningar undir lok bókarinnar til að bregða frekara ljósi á hana: „… hin íslenska þjóð hefur ekki við að endurheimta hetjur sínar og handrit.“
Handritið (svo notuð sé styttri útgáfan af titlinum) tengist lítillega síðustu skáldsögu Braga, Sendiherranum, því Sturla Jón Jónsson, hinn eiginlegi sendiherra í þeirri bók, er sonur Jóns Magnússonar, annars tveggja höfunda kvikmyndahandritsins sem minnst er á í titli nýju bókarinnar. Jenný Alexson, sú sem fylgist með og skráir niður sögu Jóns Magnússonar og Arnar Featherby, er auk þess systir Fannýjar Alexson, móður Sturlu Jóns Jónssonar.