Ég hafði á þeim tíma jafnvel hugsað upp aðferðir til að ryðja þessum manni úr vegi, að koma honum frá á einhvern hátt, þótt útfærslan á þeirri gjörð væri aldrei þaulhugsuð. En þarna er hann sem sagt kominn. Ég hef ekki séð hann mjög lengi.
Á rigningardegi í júní, þegar England og Costa Rica eigast við í heimsmeistarakeppninni í fótbolta í Brasilíu, er þrjátíu og fimm ára gamall maður staddur á pósthúsinu í miðbæ Reykjavíkur. Í tösku sinni er hann með umslag og í umslaginu er handrit að skáldsögu. Á meðan hann bíður eftir afgreiðslu kemur hann auga á mann sem hann kannast við frá því fyrir rúmum áratug, mann sem um tíma var kærasti stúlku sem hann elskaði sjálfur úr fjarlægð. Minningin um hatrið á þessum manni heltekur huga hans og verður til þess að hann yfirgefur pósthúsið áður en hann nær að koma frá sér umslaginu.
Sögumaður er saga um eltingarleik.
Sögumaður er sjöunda skáldsaga Braga Ólafssonar. Bragi hefur einnig gefið út ljóða- og smásagnasöfn, og skrifað leikrit fyrir útvarp og svið. Fjórar af skáldsögum Braga hafa verið tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og starfsfólk bókaverslana útnefndi tvær þeirra skáldsögu ársins, Samkvæmisleiki og Sendiherrann. Sú fyrrnefnda hlaut einnig Menningarverðlaun DV og Sendiherrann tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Þekktasta bók Braga erlendis er án efa skáldsagan Gæludýrin sem hefur komið út á fjölda tungumála.