Í nýrri bók Hermanns Stefánssonar, Leiðin út í heim, stendur þetta (skáletrun mín): Palli hrekkur í kút við þá tilhugsun að það kunni að orka harla einmanalegt að standa þarna og mæna á skó. Félagslegt eftirlit segir honum að það sé handan marka hins eðlilega – og þó er ekkert félagslegt eftirlit þarna á ganginum. Ég hrökk ekki síður í kút við að lesa þetta. Ekki vegna þess að mér fyndist ég sjálfur hafa skrifað þessi orð, heldur þvert á móti vegna þess að mér fannst þau vera skrifuð um mig. Þetta ætti reyndar ekki að þurfa að koma mér á óvart, því Hermann er alltaf að skrifa um mig. Leiðin út í heim er óbeint, en líka beint, byggð á bók Jens Sigsgaard, Palli var einn í heiminum. Bókarkápan gefur það sterklega til kynna. (Nú hljóma ég óneitanlega eins og ég sé um það bil að fara að skrifa ritdóm, en það er ég alls ekki að gera; ég er bara að minnast á þessa bók Hermanns af því hún kveikti á mér. Og í mér.) En þarf maður, eða ætti maður, að lesa bók Sigsgaards áður en maður les bók Hermanns? Maður þarf það ekki, en maður ætti kannski að gera það. Rétt eins og maður fer í nærbuxur áður en maður fer í utanyfirbuxurnar. Rétt eins og maður lærir að lesa áður en maður tekur sér bók í hönd. Hm? Ég lét eftir mér að taka fram eintak mitt af Palla á meðan ég las Hermann. Og á meðan ég virti fyrir mér bókarkápurnar tvær hvarflaði að mér að leggjast í einhvers konar samanburð. Ég held að flestir geti fallist á að Palli var einn í heiminum sé einhvers konar hrollvekja. Að vísu með happy ending. Leiðin út í heim er það líka, þótt annarrar tegundar sé. En auðvitað virka hrollvekjur best ef maður er plataður til að hlæja nokkrum sinnum áður en skelfingin ríður yfir. Ég hló sirka tuttugu sinnum á meðan ég las Leiðina út í heim. Af þeim skiptum voru sirka tíu upphátt. En ég ætla ekki að segja of mikið; þessi bók Hermanns segir það allt fyrir mann. Ég ætla bara að fá að vitna smá í viðbót í textann: Hann horfir á handþurrkuhólk á útikamri í almenningsgarðinum. Á honum stendur afskiptasamt boðorð hjálpseminnar: „Dragið hreint fyrir næsta mann.“ Einhver hefur krotað með tússi hið augljósa mótsvar þess andfélagslega til sletturekunnar: „Hann getur gert það sjálfur.“ Hvorugt skiptir máli núna, næsti maður er alltaf Palli sjálfur svo hvort tveggja núllast út. Og bara eitt enn, áður en ég hætti (þetta er orðið allt of langt): Vegasalt: Mannsins merkilegasti leikur. Eins og þeir vita sem hafa lesið Palli var einn í heiminum kemur vegasalt fyrir í sögunni. Sem er auðvitað sorglegt, því Palli hefur engan til að vega salt við. Sjálfur var ég að hugsa um að nota þetta orð, vegasalt, sem titil á bókina sem ég gaf út um daginn – það var einn af nokkrum titlum sem ég mátaði við söguna, í einhverri örvæntingu sem greip mig þegar mér datt í hug að upprunalegi titillinn væri ekki nógu góður – en sem betur fer gerði ég það ekki, því orðið vegasalt á miklu betur heima í Leiðinni út í heim, og hefði misst allan sinn þunga í samanburði við Palla Hermanns, sem eins og Palli Sigsgaards situr öðru megin á vegasaltinu, og engin Stína eða Pési er hinum megin, en spurning hvort Palla sé ekki bara nákvæmlega sama.