Ég var um daginn spurður af manneskju sem ég hitti í ónefndri verslun: „Hver er þessi Svanur sem nefndur er í nýrri skáldsögu þinni, Sögumanni; ljóðskáldið sem varð manni að bana inni á veitingastaðnum Caruso? Mér fannst eins og ég hefði einhvern tíma áður heyrt eða lesið um þann mann.“ Jú, það getur verið, svaraði ég, og langaði til að bæta við þau orð að hann (sá sem spurði) væri góður (í merkingunni glöggur) að muna eftir Svani – Svani Bergmundssyni – en ég lét það ógert; ég svaraði einungis: „Jú, það getur verið.“ Og átti við að vel væri hugsanlegt að hann, þessi lesandi Sögumanns, hefði einhvern tíma heyrt eða lesið um umræddan mann. Og ég sagði honum frá því sem ég sjálfur mundi um ljóðskáldið Svan, og því sem gerðist fyrir þann mann, ekki bara inni á Caruso (þegar Caruso var enn í Bankastræti, ekki fluttur í Austurstræti), heldur einnig frá aðdraganda óhappsins og eftirmála. Nú nenni ég varla að fara að rifja þetta allt upp hér, enn eina ferðina; ég læt nægja að benda á frásögnina af Svani og ljósmyndaranum (þeim sem Svanur drap); hana er að finna í bókinni Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson, í kafla 31. En kannski er ástæða til að taka fram að uppnámið í titli bókarinnar vísar ekki til þess sem gerðist inni á Caruso.