Gagnrýni MBL

Guðmundur S. Brynjólfsson, Morgunblaðinu, 1. mars:
Og skipta þá kjúklingar engu máli? *****

Í Hlíðunum stendur hús á milli annarra húsa. Bragi Ólafsson tekur okkur inn í þetta hús í nýju leikriti sem heitir Hænuungarnir og hefur leikurinn undirtitilinn Minningar frá Karhula.

Til þess að auðvelda okkur leið inn í húsið hefur Bragi fengið Stefán Jónsson, sem hefur svo kallað á Börk Jónsson, en sá hefur ráðist í umfangsmikið múrbrot til þess að fjarlægja “fjórða vegginn” en ekki nennt að fága ummerkin svo við fylgjumst með í gegnum stór göt í grófmölvuðum múrveggnum. Inni er fólk á ferli. Inni er fínlega leikið og þó múrbrotið sé groddalegt og tjáningarmáti sumra persónanna klunnalegur og húsið kuldalegt í hlíðskum hlýleika sínum þá er heildarmyndin svo fín að ætla mætti að Stefán Jónsson hafi ekki einungis leikstýrt af kunnáttu sinni og listrænu innsæi heldur og með skífmáli.

Eggert Þorleifsson leikur hinn óborganlega Sigurhans, það er gráðugur maður, latur, sjálfhverfur og notalega leiðinlegur. Svona blaut týpa sem gaman er að hitta tvær til þrjár klukkustundir á ári – að því gefnu að maður geti ráðið aðstæðum og farið þegar manni dettur í hug. Eggert leikur þennan mann með tilþrifum. Allt sem Eggert gerir: þetta smáa, fína, óþolandi, hroka-, yfirdreps-, skítlega- en samt gæskulega smeðjufas er svo vel unnið að ekki verður betur gert. Eggert Þorleifsson hefur bætt enn einni skrautfjöður í sinn hatt.

Að búa með fífli

Það þarf alltaf eina konu til þess að búa með svona fífli, hvort heldur er í leikbókmenntunum eða hinum leikbókmenntunum; lífinu sjálfu. Ragnheiður Steindórsdóttir er þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að leika Olgu, konuna hans Sigurhans – Olga Ragnheiðar er svo þreytt á þessu manngerpi sínu, frekju hans og sérgæsku, að ég átti von á því að hún gengi út á hverri mínútu, en um leið vissi ég að hún færi hvergi. Svo góður er leikur Ragnheiðar að ég samþreyttist við að horfa á hana.

Fyrir ofan þau hjón býr roskin fjasandi kona, Elín, vel til hafður eldri borgari, sem heyrir illa, talar mikið og því með athyglisgáfu í lágmarki. Fordómar hennar eru ígrunduð speki sem á sér rætur í almannarómi heillar aldar. Hversdagur hennar hvílir á þeim hinum dulúðarfulla grunni sem eru minningar hennar frá Karhula. Hér er komin Kristbjörg Kjeld og fer á kostum. Ekki veit ég til hvers ég ætti að fara ausa lofi á Kristbjörgu Kjeld, þar eru allir lækir bakkafullir svo ég segi bara: Ó góði Guð, takk fyrir hana Kristbjörgu Kjeld!

Og hann á svo sem líka þakkir skildar fyrir Pálma Gestsson og svo hætti ég trúarlegum upphrópunum því þetta er leikdómur. Pálmi leikur Carl sem býr með syni sínum í íbúðinni til hliðar við Sigurhans og Olgu. Okkur er gert ljóst að Carl hefur þurft að glíma við rispur á geðinu og því þurft að leggjast inn á “deild” – það er einhver þungi í þessari persónu en samt ofsi undir niðri, nema hvað Pálmi teiknar upp svo trúverðuga mynd að maður fylltist samúð með honum aftur og aftur. Þó er þetta ekki skemmtilegasti maður í heimi sem Pálmi dregur hér svo listilega upp. Carl á son sem býr í föðurhúsum. Sá heitir Anastasías, sá er föður sínum góður. Hér dregur Friðrik Friðriksson upp týpu sem er inn í sig – en maður fær samt á tilfinninguna að hann leyni á sér og muni spjara sig, samtalið við Olgu (sem við heyrum ekki) í eldhúsinu gefur manni þá hugmynd. Þó er ljóst að einhverjar örður hefur hann á sálinni. Friðrik gerir þessum manni frábær skil með nærgætinni og fallegri túlkun.

Ekki lengur efnileg, góð

Fyrir ofan þá feðga býr enginn sem stendur, því Þóroddur er dáinn, en lifir þó, og er það ein snilldin í þessu verki hvernig maður samsamaðist þeim tíðindum að þessi Þóroddur hefði dáið fyrir skemmstu – þó manni komi sá maður hreint ekkert við. En, þarna er Lillý dóttir hans á ferli og hana leikur Vigdís Hrefna Pálsdóttir. Sú er ekki lengur efnileg leikkona heldur góð. Hér leikur Vigdís hlutverk sem örugglega er skemmtilegt viðureignar, því Lillý er margbrotnari en fyrst sýnist, hún er annað en ætla má, rís hærra en gefið er til kynna í fyrstu en þar spilar Bragi Ólafsson meistaralega á fordóma leikhúsgesta. Sérdeilis góð frammistaða hjá Vigdísi.

Hér hefur Stefán Jónsson unnið afrek. Allt þetta spilverk er eins og feiknahraður djass, Stefán hamrar nótnaborð leiklistarinnar eins og Theolonius Monk píanóið á góðum degi hér áður og fyrrum. Fellur hvergi í ódýrar gildrur eða reynir nokkurs staðar að losna undan einu eða neinu. T.d. finnst mér frábært hve brjálæðislegur djassáhugi Sigurhans nær aldrei að yfirtaka hljóðmynd verksins, það hefði verið auðvelt að falla í slíka gryfju. Eins er flott hvernig samspilið milli íbúðanna tveggja er sett upp, bæði í andstæðum og í samhljómi, í texta og í mynd.

Börkur Jónsson á mikinn heiður skilinn fyrir algjörlega frábæra leikmynd. Það er ekki lítið að setja Hlíðarnar inn í Íþróttahús Jóns Þorsteinssonar – sem er meira að segja í allt öðru hverfi! Það er ólíkt innanstokks í íbúðunum tveim. Sigurhans ræður ríkjum í annarri þeirra, þar er sigur hans augljós – það sem hann á og notar skiptir þar máli. Annað ekki. Hjá feðgunum er fábreytni og flatskjár á raðgreiðslum.

Lýsing Halldórs Arnar Óskarssonar er heimilisleg, natúralísk eins og vera ber. Með sama blæ eru búningar Ríkeyjar Kristjánsdóttur sem fer þá leið að leika sér með raunveruleikann, sú kúnst er línudans af því að við sjáum hann gjarna ekki í réttu ljósi. Ríkey hefur næmt auga; góða sjón.

Að drýgja glæp

Í snarbröttum Hlíðum hefur þessi þjóð fundið sig á undanförnum mánuðum og í sígandi skriðunni hefur hún reynt að skilgreina sig upp á nýtt – eftir hentugleikum. Oftar en ekki fer sú skilgreining fram með því að benda á hina. Þjófkenna aðra. Hér hafa verið margir Sigurhansar sem hafa einungis hugsað um að fá allt sitt. Þeir hafa ekki viljað leggja neitt fram, ekki gera neitt fyrir aðra, ýja endalaust að því að þeir séu betri en hinir, þeirra djassmúsík er þeirra sönnun fyrir því að þeir standi traustari fótum en hinir sem horfa bara á sjónvarp. Allir hafa sinn djass.

Svo eru þeir sem hafa drýgt þann glæp – af því að þeir hafa bara sjónvarp og aftur sjónvarp að halda sér í – að hafa keypt sér flatskjá á 36 mánaða raðgreiðslum. En þeir eru í skriðunni bornir þyngstum sökum! Vei þeim! Samt er það bara venjulegt fólk sem enn er gott við veika feður og einmana syni. Og neðarlega í brattanum á hraðri leið niður er þá að finna sem passa ekki, eða finna sig ekki passa, af því að þeir eru ekki í takt og falla með öðrum og flóknari hætti en hinir – þeir klæðast of stórum flíkum eða of fáum.

Ótaldir eru þá þeir sem hafa þegar skilað sínu en gleymst hefur að þakka – þeir eru stundum sælli dánir því stílbrot í veitingum erfidrykkjunnar mun þá alltaf halda nafni þeirra á lofti. Þeir af þessum sem enn lifa, sporna við fótum í hruninu, halda sér til og ylja sér við minningarnar frá Karhula.

Og kannski er það lærdómurinn sem draga má af þessum frábæra margslungna gamanleik Braga Ólafssonar, þessari drepfyndnu leiksýningu, að öll eigum við einhverjar minningar frá einhverju Karhula að byggja á. Hænuungar – afsláttar eða þjófstolnir – skipta í raun engu!