5. desember 2016

NÁMSKEIÐ Í LISSABON

til Dags Sigurðarsonar

Vegna skorts á lýsingarorðum fór einn barþjónninn á Brasileira á námskeið í tungu sinni. Eftir þrjár vikur þegar hann sneri aftur til starfa hafði allt tekið breytingum; eldri kona sem setið hafði við sama borð frá því elstu menn mundu, og lesið í þykkri bók, var dáin, og í stað andlitsmynda á veggjum var kominn spegill svo djúpur að verð hafði hækkað á drykkjum. Þjónninn gat ekki fundið eitt einasta orð til að lýsa því sem hann sá! Eitt andartak fannst honum sem námskeiðið hefði verið sóun á tíma og peningum en með hjálp starfsfélaga sinna sættist hann á að nú væri lýsinga ekki þörf; námi hans væri lokið og breytingunum myndi hann venjast áður en vissi.

(úr Ansjósum, 1991)

29. nóvember 2016 (aukafærsla nr. 2)

Eggjamálið brúna verður enn svartara með hverri mínútunni sem líður. Í viðtali við Vísi punktur is er brúni eggjamaðurinn beðinn um að útskýra myndskeiðin sem birt voru í Kastljósi í gærkvöldi, og hann játar (óumbeðinn) að hafa slátrað þeim sem tóku myndirnar:

Hvernig útskýrirðu þá myndskeiðin sem birt voru í Kastljósi? 

„Þessi myndskeið höfum við reyndar ekki séð áður og þau voru tekin af hópi sem var slátrað stuttu síðar.

29. nóvember 2016 (aukafærsla)

Vigdís Hauksdóttir, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, segir að umfjöllun RÚV um Brúnegg sé gerð „til þess að knésetja íslenskan landbúnað.“ Það sé „agenda RÚV og “góða fólksins”.“ Þetta kemur fram á Facebook­síðu Vigdísar. Þar sakar hún Kastljós líka um að falsa myndirnar sem birtust í þættinum í gærkvöldi og segir þáttinn þekktan fyrir að falsa myndir með umfjöllun. „Voru þessar myndir frá búinu? Voru þessar myndir kannski frá öðru hæsnabúi í öðru landi? Kastljós er þekkt fyrir að falsa myndir með umfjöllun – væri einnar messu virði að senda fyrirspurn um það“

Þá segir Vigdís að Ríkisútvarpið stundi falsanir og „3.600 milljónir renna úr vasa okkar landsmanna inn í þessa skoðanamyndandi stofnun – það var maður sem hafði samband við mig í gær og sagði mér að starfsmannafjöldinn á RÚV væri kominn yfir 700 manns með verktökum – hvenær er nóg nóg?“ segir hún á Facebook. (Kjarninn, 29. nóvember 2016)

29. nóvember 2016

Sögusvið Fjarverunnar: Skammidalur

G. Bragi, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, er orðlaus yfir umfjöllun Kastljóss um brúna eggjabóndann í gærkvöldi. Hann kallar þetta viðbjóð. Ef eitthvað er að marka hina sláandi umfjöllun Ríkissjónvarpsins í gær, þá gerir maður líka ráð fyrir að hægt sé að marka það sem heyrðist í Ríkisútvarpinu í morgun; og samkvæmt því voru það mistök innan ráðuneytis nafna míns Gunnars sem ollu því að ekkert var gert í þessu með eggjabóndann brúna. Þetta las ég á Eyjunni:

„Í samtali við RÚV í morgun segir Gunnar Bragi að mistök hafi valdið því að málið fór ekki lengra innan ráðuneytisins, starfsmaður sem fékk málið á sitt borð hætti og málið hafi ekki ratað á borð neins annars. Gunnar Bragi segist fyrst hafa frétt af málinu þegar Kastljós spurðist fyrir um málið á dögunum en farið verði yfir málið í ráðuneytinu í dag.“

Það verður sem sagt farið yfir málið. „Það má vera“ að farið verði yfir þetta „óheppilega“ mál. Íslenskt fæðuöryggi. Íslenskur landbúnaður. Íslensk tollavernd. G. Bragi. Jón Bjarnason. Framsókn/Sjálfstæðisflokkur (og bráðum + Viðreisn/Björt framtíð). Andstæðingar ESB-aðildarviðræðna. Brún egg. Ég er alveg við það að detta í Lestargír Eiríks í Ríkisútvarpinu. Maður ælir. „Maður sést æla ofan á nafna sinn.“ Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks verpir brúnum eggjum. „Vorið færði mér óhugnanlegan hlátur fábjánans.“ (Mig grunar að þetta sé rangt munað hjá mér, en ég er með plástur á þumli vinstri handar, og hitti ekki nógu vel á lyklaborðið. Því er hyggilegast að setja punkt hér. Tvípunkt.)

25. nóvember 2016

Næsti kafli hefst á því að hópurinn sem þýddi ljóðaúrval Ewu Lipsku (ef manni leyfist að beygja nafn hennar) á íslensku var tilnefndur til þýðendaverðlaunanna í gær. Neyðarútgangur fékk með öðrum orðum fimm gular rósir (það eru myndir af þeim í einhverjum fjölmiðlum dagsins í dag). Hinn íslenski Pólverji Olga Holownia, okkar góði vinur, stjórnaði þessu öllu saman, og gerði sitt besta (sitt albesta) til að láta svo líta út fyrir að við hin, Áslaug Agnarsdóttir, Óskar Árni Óskarsson, Magnús Sigurðsson og ég, kynnum pólsku, sem við gerum í raun ekki, nema auðvitað Áslaug að einhverju leyti, í gegnum sína rússnesku. Samstarfið við Olgu, og Aðalstein Ásberg, hinn stórhuga útgefanda, var glimrandi fínt og skemmtilegt. Eins og ljóð Ewu. Ég ætla sjálfur að halda upp á þetta með því að fara upp í sveit. Í sumarhúsið. Vetraráform um sumarferðalag, svo maður vitni í G.eneral E.lectric. Eða myndi það vera öfugt: sumaráform um vetrarferðalag? Hinir þýðendurnir sem voru tilnefndir til verðlaunanna í gær í Borgarbókasafninu eru Ófeigur Sigurðsson, Sölvi Björn Sigurðsson, Sigurður Pálsson, Hallgrímur Helgason og Árni Óskarsson (sá sem ósjaldan er ruglað saman við Óskar Árna Óskarsson – og öfugt). Fólk verður sjálft að finna út hvaða verk þessir þýðendur þýddu; ég hef ekki tíma til að telja það upp.

24. nóvember 2016

Bókmenntaumfjöllun í jólabókaflóðinu (svona nokkurn veginn í hnotskurn – ég fékk þetta sent í tölvupósti, þetta kemur úr Morgunblaði dagsins í dag):

„Fléttan er vel úthugsuð og lesandinn fær innsýn í þankagang stjórnleysingja, sem aðhyllast djöflatrú. Sláturhús 5 eftir Kurt Vonnegut er nefnt til sögunnar, eflaust til þess að styrkja málstaðinn, en að sama skapi er skotið á góða fólkið, viðkvæmu ljóðskáldin, lýrísku smásagnahöfundana og mærðarlegu módernistana, „sem kjökra eins og sveitaprestar og skrifa stórkostlegar bækur sem enginn nennir að lesa en allir þykjast skilja“.

Sagan byrjar vel en heldur fer að kárna gamanið þegar kuklið og sálfarirnar ná yfirhöndinni. Hugsanlega höfðar þetta til þeirra sem trúa á spíritisma, en virkar frekar óraunverulegt hjá öðrum.“

… en virkar frekar óraunverulegt hjá öðrum!!! Þetta eru lokaorð dómsins, en fram að þeim hafði ekki verið vikið orði að kukli eða sálförum.

Guð minn góður. Ég þarf væntanlega ekki að taka fram um hvaða bók var verið að skrifa. Enska útgáfan myndi líklega kallast Black Magic. Ég held ég verði að halda upp á ársafmæli bloggsíðunnar (Kafla á dag) með því að gera krossmark. Ég veit bara ekki hvar ég á að gera krossmarkið. Ég ætla líka að skipta um nafn á síðunni. Nú á hún að kallast NÆSTI KAFLI. Ég treysti mér ekki lengur til að halda úti kafla á dag, jafnvel þótt ég hafi haft þann fyrirvara að stundum komi kaflarnir sjaldnar en það. „Næsti kafli“ merkir einfaldlega að hver kafli, eða hver færsla, sé næsta færsla, hvort sem daginn áður hafi birst færsla, eða daginn eftir muni birtast önnur færsla. Þetta held ég að henti mér afar vel, því það gerist svo oft að ég verð orðlaus, að minnsta kosti þegar kemur að því að tjá mig um eitthvað annað en það sem ég hef hugsað mér að setja í bók (og má þar af leiðandi ekki birta áður en að útgáfu bókarinnar kemur). Núna – bara rétt áðan – langaði mig til dæmis að tjá mig eitthvað um stjórnmálaflokkinn Viðreisn, en um leið og mig langaði til þess hvarf löngunin. Í staðinn ætla ég að rifja upp fyrstu færsluna sem birtist á þessu bloggi mínu, fyrir ári síðan; hún tengdist bókinni sem ég var að kynna á þeim tíma, Sögumanni:

G er eini stafur stafrófsins sem verður að orðinu ég, lesi maður hann aftur á bak.

23. nóvember 2016

Enn hef ég ekki ákveðið hvað skal gera við þessa heimasíðu (sem má víst ekki kalla heimasíðu, er mér sagt; mér skilst að það eigi að kalla þetta vef – sem mér finnst sjálfum frekar óþægilegt orð); ég veit sem sagt ekki hvað ég á að gera við þennan vef (eða heimasíðu) þegar hann (eða hún) verður eins árs á morgun. Ég er samt kominn með hugmynd, að minnsta kosti að yfirskrift. (Yfirskriftin skiptir alltaf mestu máli; hún stjórnar því sem raðast undir.) Fyrir stuttu var ég eitthvað að ræða við stjórnanda annarrar „heimasíðu“, Ráðlags jazzskammts, og við urðum sammála um það að tenórsaxófónleikarinn Charlie Rouse, sá sem spilaði mjög lengi með kvartett Thelonious Monk (allavega á flestum Columbia-plötunum), hefði ef til vill ekki verið rétti saxófónleikarinn fyrir Monk, þótt hann hljómi oft mjög smart. Það hefði verið gaman að fá fleiri upptökur með Monk og Coltrane saman. Allt of lítið til af þeim. (Eins og einhver skrifaði í kommentin á youtube: Eins og Beethoven og Mozart saman …) Hér eru þessir frábæru Carnegie Hall-tónleikar sem lágu óútgefnir í næstum heila öld:

En sá saxófónleikari sem mér finnst einna mest gaman að heyra með Monk er Johnny Griffin. Þeir spiluðu eitthvað saman með Art Blakey og Sendiboðum hans, en hér eru þeir á Five Spot-klúbbnum árið 1958 – þetta eru svakalega fínar upptökur:

22. nóvember 2016

Uppáhaldsbrandarinn minn í íslensku sjónvarpi:

Svo sé ég á netinu að Einar Örn (fyrrverandi eiginmaður minn) rifjar upp að fyrir 30 árum, upp á dag, kom út litla platan með laginu Ammæli. Ammæli á því 30 ára ammæli í dag.

Eftir tvo daga á þessi vefsíða mín eins árs afmæli. Ég fattaði það í gær. Og ég þarf að taka ákvörðun um hvort ég hætti mér út í annað ár af því sama. Ég er að hugsa um að „gera breytingar“, eins og það er orðað á mínu heimili. Ég hef tvo daga til að ákveða í hverju þær breytingar muni felast. En þangað til: uppáhaldslínur úr nýlegu ljóðasafni:

Tómu herbergi

var komið fyrir í myrkri

íbúðarhússins.

(Ewa Lipska, úr ljóðinu Enginn, þýð. Olga Holownia)

21. nóvember 2016

Það var virðingarvert að borða hollan mat og rækta hann í garðinum en það var samt eitthvað bælandi og heft við það að fylla alla daga svona mikilli dýpt. (Sölvi Björn Sigurðsson, Blómið – saga um glæp)

18. nóvember 2016

Eitthvað svipað þessu leið mér þegar (og áður en) ófreskjan frá New York var kosin forseti:

“Disgusted as I am with Donald Trump, I hope that precisely the shock of electing him will maybe trigger some restructuring of the entire political space”….. (Slavoj Žižek)

Þráin eftir að allt fari úrskeiðis er líka þráin eftir hinu. Amen. Nú á bara eftir að velja mynd:

17. nóvember 2016

Nú langar mig bara til að vitna í hið stórfína þakkarávarp Sigurðar Pálssonar í tilefni af verðlaunum Jónasar Hallgrímssonar í gær:

„Með því að berjast fyrir hinni skáldlegu vídd tungumálsins þannig að fólk verði virkir notendur, skapandi lesendur og túlkendur tungunnar, og jafnframt með því að læra önnur mál, með öllu þessu erum við ekki bara að berjast gegn hinni eitruðu einsleitni heldur í raun beinlínis að hjálpa til við að byggja upp lýðræðislegt samfélag.“

Hin eitraða einsleitni … Það finnst mér vel orðað. Óvinur número uno. Og número dos ekki síður: sérhagsmunasamtök í stjórnmálum.

14. nóvember 2016

Nú veit ég ekki hvort maður hefur leyfi til að segja frá því sem gerist á facebook, sé maður ekki skráður þar inn sjálfur, en ég frétti af því að Ari Eldjárn grínisti hefði rekið augun í myndina sem fylgdi þessum bókardómi í DV og sagt frá því á facebook að hann hefði eitt augnablik haldið að myndin væri af Brynhildi Guðjónsdóttur leikkonu. Hann er ekki sá fyrsti sem ruglast. Og ekki númer tvö eða þrjú. Kannski mátti ég ekki segja frá þessu, en ég mátti til. Þó ekki væri nema til að ýta burt þeirri freistingu að láta einhver orð falla um þau orð sem þegar hafa fallið um Bjarta framtíð og fundina sem þeir sitja þessa stundina. Myndefni dagsins (fyrir utan myndina sem fylgdi dómnum hér fyrir ofan) er af samskonar plötuspilara og ég átti þegar ég var unglingur í unglingaherberginu mínu. Ég fann þetta á bland punktur is, og dauðlangar til að eignast svona aftur. En mun ekki láta það eftir mér. Samt myndi þessi græja nýtast mjög vel sem vinnugagn í tengslum við verkefnið sem ég vinn að; ég gæti meira að segja skráð hana í bókhaldið sem kostnað. En samt. Ég ætla að láta mér nægja að horfa (og hlusta ekki á gömlu vínilplöturnar sem ég geymi í geymslunni).

11. nóvember 2016

Ein af sterkustu minningum mínum frá útlöndum er sú að hafa séð Leonard Cohen á sama hóteli og ég dvaldi á (ásamt hinum Sykurmolunum) í New York árið 1988. Hótelið var Mayflower við Central Park West. Hann sat við gluggann á kaffiteríunni eða í lobbíinu, ég man ekki alveg hvort var; hann var í svargráum jakkafötum, og minnir mig svartri skyrtu eða rúllukragapeysu. Mjög smartur og elegant. Mér finnst reyndar svolítið skrítið að þessi minning sé jafn sterk og hún er, því ég hef aldrei haft mikil kynni af Leonard Cohen sem tónlistarmanni, hann hefur aldrei höfðað sérstaklega til mín. En þetta var í fyrstu heimsókn minni til Ameríku, og myndin af Cohen, þar sem hann sat þarna í sínum fallegu jakkafötum, hefur eflaust greipst í huga minn vegna þess að mér fannst að svona ættu menn að klæða sig. Og mér finnst það enn. Í næstu eða þarnæstu heimsókn minni til New York eignaðist ég reyndar jakkaföt ekki ósvipuð þeim sem Leonard Cohen klæddist þarna á Mayflower-hótelinu. Ég keypti þau samt ekki. Ég fékk þau frá starfsmanni á hótelinu sem við dvöldum á í þeirri ferð, Morgans-hótelinu á Madison Avenue. Starfsmennirnir voru allir klæddir sams konar fötum; mjög elegant, svargráum jakkafötum, sem eins og hótelið, voru afar fallega hönnuð, án þess þó að manni dytti í hug að nota orðið hönnun yfir þau. Einhvern veginn komst ég að því að það stæði til að endurnýja fatakost starfsmanna hótelsins – hvernig í ósköpunum komst ég að því? – og það varð úr að ég skipti við einn þeirra á glænýjum Sykurmolajakka (ég veit það hljómar fáránlega: það var nýbúið að framleiða einhverja voðalega popparajakka á okkur popparana, með nafni hljómsveitarinnar og eflaust einhverjum fleiri upplýsingum saumuðum í efnið, ég man það ekki alveg); ég skipti sem sagt á þeim jakka (sem starfsmanninum fannst ógurlega fínn og spennandi) og búningnum hans, svargráu Morgans-fötunum. Þetta eru einhver bestu viðskipti sem ég hef átt. Og líklega bestu föt sem ég hef átt sömuleiðis. Ég notaði þau mjög lengi, í nokkur ár, eða þar til buxurnar urðu eftir – þær gleymdust – í einhverri rútunni sem keyrði okkur milli borga í Evrópu. Jakkinn nýttist þó eftir það. En hvað með hótelið? Morgans er ennþá til, þótt eitthvað hafi útlitið breyst. Sömu sögu er ekki að segja um Mayflower-hótelið; það er horfið. Og núna er Leonard Cohen allur. Þegar ég fletti upp á netinu Leonard Cohen og Mayflower, þá birtist mynd af honum sitjandi við glugga á hótelinu, mynd frá 2001. Hann hefur sem sagt bókað sig aftur inn á hótelið við Central Park. En þótt ég sé ekki aðdáandi Leonards Cohen númer eitt (mig grunar reyndar að aðalástæða þess sé sú að ég á mjög erfitt með hversu framarlega rödd hans er alltaf höfð í hljóðblönduninni – ég veit: ekki mjög sannfærandi ástæða), þá finnst mér mjög leiðinlegt að hann sé dáinn. Það er sorglegt þegar svona sterk element hverfa úr heiminum. Og mér verður hugsað til annars Kanadamanns, Rufusar Wainwright. Rufus á barn með dóttur Cohens, Lorca Cohen. Og þeir voru góðir vinir, Leonard og Rufus. En áður en ég hætti, þá er hérna smá meira slúður: mér skilst að forræði dóttur Lorca og Rufusar, Viva Katherine Wainwright Cohen, sé bæði hjá móðurinni og Rufus og eiginmanni hans. Slúður lokast. Nú er bara spurning hvort maður dustar rykið af tónlistarmanninum og semur lag sem heitir Mayflower Hotel (því enn hef ég ekki reynslu af því að gista á Chelsea Hotel). Lagið gæti líka heitið Morgans Hotel. Það myndi fjalla um jakka. Popparajakka og jakkaföt.

Leonard Cohen, the influential singer-songwriter, at the Mayflower Hotel by Central Park in New York 2001. Photograph: Suzanne DeChillo/The New York Times

10. nóvember 2016

Béla dagsins:

 

 

Enska orðið crispy þýðir ekki bara stökkur eða ferskur, heldur líka ótvíræður og afdráttarlaus. Og gneistandi. Stundum verður maður að reiða sig á orðabókina. Og Bartók!

9. nóvember 2016 (aukafærsla)

Hinn myrki „nine eleven“:

 

„A month ago I tried to write a column proposing mean nicknames for president-elect Donald Trump, on the basis that it would be funny to turn the tables on him for the cruel diminutives he applied to others.

 

I couldn’t pull it off. There is a darkness about Trump that negates that sort of humor: a folly so bewildering, an incompetence so profound that no insult could plumb its depths.“

(Thomas Frank, The Guardian, 9. nóvember 2016)

9. nóvember 2016

„Ég vona að Donald vinni,“ sagði ég við Guðrúnu Eggertsdóttur í afgreiðslu Bókhlöðunnar um daginn; hún var á leiðinni til Chicago með syni sínum, og þau ætluðu að vera yfir kosninganóttina þar. „Þá verður kannski einhver hreinsun,“ bætti ég við. Og ég held ég hafi meint þau orð, að minnsta kosti á meðan ég var inni í Bókhlöðunni. Við Guðrún urðum samt sammála um að líklega myndi Hillary vinna. En nú hefur Donald unnið. Mér varð að ósk minni. Næsta ósk mín er sú að þessi úrslit skili sér inn í stjórnarmyndun á Íslandi; að hinum pólitískt ómögulega manni, formanni Sjálfstæðisflokksins, verði haldið frá ráðherrastóli, hvað sem það kostar. Nú þarf Ísland á pólitískum möguleika að halda, og hann er ekki bandarískur, heldur evrópskur. Mér líður eins og Ingvi Hrafn Jónsson sé orðinn valdamesti maður heims.

8. nóvember 2016

Ég lét mig hafa það að horfa á heilan þátt um Robin Williams í Ríkissjónvarpinu í gær, ætli hann hafi ekki verið sirka klukkustundarlangur, kannski rúmlega það. Og það var ekki minnst á bíómyndina Birdcage, þar sem Robin Williams lék hinn samkynhneigða föður unga mannsins sem hugðist giftast dóttur repúblíkanans, þess sem Gene Hackman lék. Nú sé ég fyrir mér að framleiddur verði þáttur um Gene Hackman, rúmlega klukkustundarlangur, þar sem ekki verður vikið einu orði að bíómyndinni Birdcage. Þessi heimur verður æ skrítnari með hverri mínútunni sem líður, og hverjum þætti sem sýndur er í Ríkissjónvarpinu. Í ævisögu leikkonunnar Claire Bloom er heldur ekki minnst á þátttöku hennar í bíómyndinni The Haunting. Og samt skrifar Claire Bloom ævisöguna sjálf; þetta er sjálfsævisaga. En eins og svo oft áður, þá er þetta (sem ég hef nú gert að umtalsefni) alls ekki það sem ég ætlaði mér að tala um. Ég ætlaði mér að rifja upp setningu úr leikdómi í Fréttablaðinu sem birtist um daginn. Ég hafði punktað þessa setningu niður hjá mér, hún er úr dómi um leikrit eftir Sölku Guðmundsdóttur, Extravaganza, en það er alveg stolið úr mér hver skrifaði dóminn. Setningin er svona:

 

„Þrátt fyrir fögnuðinn sem fylgir ávallt nýjum íslenskum leikverkum þá er einhver ógnvænleg undiralda sem þjakar íslenska leikritun um þessar mundir.“

 

Ég varð mjög hugsi yfir þessum orðum. En veit ekki hvað skal segja. Væri ég sjálfur að skrifa leikrit (sem getur verið að ég sé að gera – það er skilgreiningaratriði), þá fyndust mér þessi orð gagnrýnandans í Fréttablaðinu mjög svo uppörvandi fyrir skrifin; ég myndi hreinlega stökkva á þessa undiröldu sem minnst er á, eins og brimbrettamaður/brimbrettakona sem stekkur á næstu öldu sem hann/hún sér. En undiralda er flóknara fyrirbæri en aldan á yfirborðinu. Satt að segja hef ég ekki hugmynd um hvað þetta merkir. Það var heldur ekki útskýrt neitt frekar í ritdómnum – ég held að minnsta kosti ekki. „Undiralda sem þjakar …“ Ég þyrfti að fletta þessu upp aftur. En þangað til, þá verður þetta að fá að standa svona. Nú bíð ég bara eftir þættinum um Gene Hackman. Þar er leikari með undiröldu. French Connection, The Conversation, Unforgiven … Og Birdcage! Það hefði verið gaman að sjá fleiri myndir með Gene Hackman og Robin Williams saman. Fyrir stuttu las ég að Gene Hackman væri skáldsagnahöfundur. Ég verð að tékka betur á því. Og skoða betur ritdóminn í Fréttablaðinu.

 

4. nóvember 2016

Þegar ég nálgaðist Hörpu á hjólinu mínu í hádeginu í dag spurði ég sjálfan mig þeirrar spurningar (sjálfan mig, vel að merkja; það var ekki annað fólk nálægt nema nokkrir japanskir túristar, og amerískt par sem ég taldi víst að væri hérna vegna Iceland Airwaves – ég hefði svo sem getað varpað spurningunni til þessara „aðila“, en ákvað að beina henni frekar til mín, þar sem ég sat á hjólinu) hvort Alfred Jarry sálugi VÆRI ennþá hjólandi á hjólinu sínu, VÆRI hann á lífi. Augljósasta svarið VÆRI auðvitað það að Jarry VÆRI orðinn allt of gamall til að vera að þeysast um á reiðhjóli; hann VÆRI orðinn 143 ára gamall (VÆRI hann á lífi); en hitt svarið sem mér kom í hug var að líklegast myndi Jarry ferðast um götur borgarinnar (Parísar – nú eða Reykjavíkur, ef við gefum okkur að hann hefði ákveðið að dvelja hér í Reykjavík í ellinni, orðinn 143 ára gamall, væntanlega einn elsti rithöfundur sem sögur færu af) á mótorhjóli. Jú, ætli það ekki. Ég er kominn heim úr hádegishjólatúrnum (VÆRI varla að færa inn þessa færslu sitjandi á hjólinu), og eftir að hafa velt þessu með Jarry svolítið betur fyrir mér, er ég nokkuð viss um að hann myndi ferðast um götur borgarinnar á mótorhjóli en ekki reiðhjóli, eins og hann var vanur á sinni tíð. Ég ferðast aftur á móti um borgina á reiðhjóli, þegar ég er ekki á bíl eða fótgangandi (eða í flugvél). Oftast er maður fljótari að komast milli staða á reiðhjóli en bíl (innan borgarinnar, það er að segja); í gær var ég til dæmis heilan hálftíma að komast úr Mordor upp í Efstaleiti; ég lenti milli bíla á Kringlumýrarbrautinni, og bíllinn fyrir framan mig var einnig staddur milli bíla, og bíllinn á undan honum sömuleiðis, og svo framvegis. Það hefði tekið mig 12 til 14 mínútur að hjóla úr Mordor upp í Efstaleiti. Það hefði tekið Alfred Jarry sirka 6 til 7 mínútur á mótorhjólinu sínu, hefði hann laumað sér upp á gangbrautina (sem hann hefði auðvitað gert).