2. maí 2016

FRAMANDI LÖND

 

Í hótelherbergi í framandi löndum

er spegill fyrir ofan skrifborðið,

til að sá sem sest við borðið

geti horft á sjálfan sig

 

á meðan hann skrifar. En þessi spegill

er ekki spegill í hefðbundnum skilningi,

eins og mér sýndist hann vera

þegar ég kom inn í herbergið,

 

heldur einhvers konar myndverk:

kringlóttur flötur á stærð við höfuð

sem heldur að það sé

mun stærra en það er; hann er hvítur

 

með ljósgulum strokum

eftir pensil

sem ekki eru vel greinanlegar

fyrr en maður kemur nær

 

og rýnir í flötinn. Sem myndverk

er þetta ekki mjög spennandi.

Það verður að segjast eins og er.

En alveg nothæft sem spegill.

30. apríl 2016

Fyrir nokkrum dögum datt inn um bréfalúguna kynningareintak af fréttablaðinu DV. Þar var í leiðaranum fjallað um páfann Frans. Nú í morgun kom hið norður-kóreska fréttablað Morgunblaðið (kynningareintak) inn um lúguna, og ekki bara eitt blað, heldur tvö: laugardags- og sunnudagsblað. Sem þýðir að á morgun, sunnudag, sem allajafna er prentblaðalaus dagur, getur maður lesið „yfir morgunkaffinu“ sunnudagsblað Morgunblaðsins. Í „laugardagsblaðinu“ er tveggja opnu umfjöllun um ritstjóra Morgunblaðsins. Hún er skrifuð af prófessor ritstjórans í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands. Ég hef fyrir ósið að lesa svona greinar „afturábak“, það er að segja að byrja á endanum, og þræða mig síðan í átt að byrjuninni. Vegna tímaleysis (laugardagar eru oftar en ekki „uppteknari“ dagar en þeir „virku“), þá ætla ég bara að láta hér fylgja nokkrar setningar úr síðustu málsgrein greinarinnar. Ég læt vera að nefna nafn ritstjórans og þjóðarinnar sem um ræðir í brotunum, af tillitssemi við ritstjórann og þjóðina (ég set þau innan hornklofa), en ég mæli með að þetta lesist með norður-kóreskri framsögn og áherslum:

„Þegar Ísland var að falli komið hugsuðu vinstrimenn um það eitt að flæma [ritstjóra blaðsins] úr Seðlabankanum. Skyldi nú hefnt ófara þeirra í ótal viðureignum við hann.“

„Nú virtist [ritstjórinn] hafa beðið miklu stærri ósigur en árið 2004, þegar honum mistókst að koma í veg fyrir skefjalaust auðræði. En hann kiknaði ekki undan högginu, heldur spratt upp og gerðist ritstjóri Morgunblaðsins. Þar skrifar hann beinskeytta og áhrifamikla pistla og beitir sér af alefli.“

„En þrátt fyrir alla sína sigra er [ritstjóri blaðsins] enn sami upplitsdjarfi alþýðupilturinn og þegar hann lagði fyrst út á stjórnmálabrautina með sitt góða vegarnesti úr rösklega ellefu hundruð ára sögu [þjóðarinnar sem hann reyndi hvað hann gat – af fremsta megni – að forða frá skefjalausu auðræði].“

28. apríl 2016 (aukafærsla)

Um leið og ég hafði sent síðustu færslu í loftið fann ég að eitthvað var rangt í henni – eitthvað var að trufla mig. Enda var ég ekki lengi að finna hvað það var. Ég sagðist hafa spurt Rósu hvort nafn mágkonu hennar, sem hún kallaði Lindu, væri hugsanlega „dulnefni einhverrar annarrar manneskju“, en auðvitað var það ekki rétt orðað. Ég hefði átt að spyrja hana hvort nafn mágkonunnar væri „dulnefni hennar“, en ekki „dulnefni annarrar manneskju“. Það segir sig sjálft. Enda tók ég fram að spurningin hefði verið út í hött – ég hafði að minnsta kosti rétt fyrir mér þar.

28. apríl 2016

Ég veit það hljómar einkennilega – og beinlínis eins og ég sé að ljúga því – en Rósa Sæberg, sú sem hringdi í mig fyrir þremur dögum, hringdi aftur í mig í gær, tveimur dögum eftir að hún hringdi í mig fyrst. Ég veit ekki hvað hún ætlar sér með viðtalið sem hún hugðist taka við mig – eða tók (maður getur allt eins orðað það svo) – en hún sagðist vera með „viðbótarspurningu“. „Og hver er hún?“ spurði ég, ekki alveg laus við að hljóma pirraður, enda var ég það; mér finnst engin ástæða til að leyna því. Og í raun hefði ég átt að verða enn pirraðri þegar ég fékk að heyra spurninguna; en ég varð það ekki. Mér fannst spurningin áhugaverð – eða ef til vill er réttara að segja að mér hafi fundist hún spennandi. Hún (Rósa) spurði mig hvort ég þekkti „Lindu Gylfadóttur“. Mér heyrðist hún fyrst segja Linda Gísladóttir, og mér varð strax hugsað til söngkonunnar í Lummunum; en það var Linda Gylfadóttir. Ég veit ekki hvers vegna mér fannst eitthvað „spennandi“ við þessa furðulegu spurningu (og enn síður hvort raunverulega eitthvað „furðulegt“ við hana); en ef til vill lá „spenningurinn“ í nafninu sjálfu; nöfn hafa auðvitað mismunandi áhrif á mann, ekki síst þegar maður heyrir þau í fyrsta skipti, og látið er að því liggja að þau tengist manni á einhvern hátt. Ég sagðist ekki þekkja þetta nafn; og fékk þá skýringu á spurningunni að Linda Gylfadóttir væri mágkona Rósu Sæberg; Linda hefði sagt Rósu (þegar Rósa sagði henni að hún hefði verið að taka viðtal við mig) að hún, Linda, hefði hitt mig í árgangsafmæli Hagaskólans fyrir nokkrum árum; hún hefði sjálf ekki verið í Hagaskóla, en farið með vinkonu sinni í afmælið (hvers vegna vissi Rósa ekki). Ég sagðist ekki muna eftir þessu, og afsakaði mig með því að ég væri ekki mjög mannglöggur; ég þyrfti yfirleitt að hitta fólk nokkrum sinnum áður en hægt væri að ætlast til þess af mér að ég heilsaði því á götu – að ég myndi eftir andlitinu. En um leið og ég sagði þetta við Rósu gerði ég mér auðvitað grein fyrir því að hún var ekki að sýna mér andlit þessarar Lindu; hún var einungis að nefna nafn hennar. „Þetta er ekki dulnefni einhverrar annarrar manneskju?“ spurði ég, en vissi um leið að sú spurning var einhvern veginn fullkomlega út í hött. Enda svaraði Rósa henni ekki beint; og símtalið varð ekki mikið lengra; hún sagðist bara hafa viljað spyrja mig að þessu. Um leið og ég lagði niður símtólið sá ég eftir að hafa ekki spurt hana út í viðtalið sem hún ætlaði að taka við mig fyrir þremur dögum; hvort hún hefði eitthvað í hyggju með það. En svo hugsaði ég: hvaða viðtal?

26. apríl 2016

Það er svolítið fyndið að ég skyldi byrja eina færsluna um daginn á orðunum „Það var hringt í mig“, því nú í gær var einmitt hringt í mig aftur; en í þetta sinn var það í tilefni af bókinni sem kemur út í dag. Ég var beðinn um að „koma í viðtal“, eins og það er kallað. Manneskjan sem hringdi heitir Rósa Sæberg. Ég er alltaf hálfskeptískur gagnvart þeim sem vilja hafa viðtöl, nema auðvitað að ég þekki fólkið; en mér fannst ég strax skynja á þessari Rósu að ekkert „skrítið“ lægi að baki ósk hennar um viðtalið; mér fannst ég jafnvel þekkja manneskjuna, eftir að við höfðum spjallað saman smástund (þá eingöngu um það hvort af viðtalinu yrði eða ekki). Enda vissi hún að ég væri að gefa út bók. Mér fannst ekki síður góð hugmynd hjá henni að vilja byrja viðtalið á tilvitnun í annan höfund; þetta var eitthvað sem hún sagðist alltaf gera, og hún sagðist ennfremur vona að ég „hefði ekkert á móti því“. Þvert á móti; mér fannst það vel við hæfi. Tilvitnunin reyndist vera í franska höfundinn Louis-Ferdinand Céline: Skemmtigarðar eru óheflaðir staðir. Það er ekki hægt að vera fágaður þegar maður leikur sér. Fangelsi er aftur á móti göfugur staður. Þar þjáist maður. Og í því felst fágun. Lengri var tilvitnunin ekki. Og þá kom fyrsta spurningin: „Nú birtir þú ljóð í fyrra, í Tímariti Máls og menningar, sem nefnist …“ (Ég læt titilinn ekki fylgja, því hér hafði Rósa rangt fyrir sér; ég birti nefnilega ekki ljóð í Tímariti Máls og menningar í fyrra.) „Ég gerði það reyndar ekki,“ svaraði ég; og mér fannst skrítið hversu lítið það kom Rósu á óvart að hún hefði farið rangt með staðreyndir, og það í fyrstu spurningunni. Ég hef sjálfur rangt fyrir mér í þessu samhengi, því auðvitað var ekki um neinar staðreyndir að ræða; ég birti aldrei smásögu í Tímariti Máls og menningar á síðasta ári, hvað þá grein eða ritdóm. Ég birti hreint ekki neitt í því tímariti; ég hafði öðrum hnöppum að hneppa á síðasta ári, meðal annars þeim „hnappi“ að gefa út skáldsögu. (Gat verið að þessi Rósa vissi ekki af henni?) „Og nú er sem sagt að koma út ný bók eftir þig,“ hélt hún áfram; og í framhaldi nefndi hún titil nýju bókarinnar (sem hún fór rétt með), og þá „staðreynd“ að bókin innihéldi smásögur úr áður útgefnum bókum. Hún nefndi meira að segja titla þeirra bóka (sem eru fjórar), og fór rétt með þá alla, nema titilinn Við hinir einkennisklæddu; hún kallaði þá bók Hinir einkennisklæddu. Ég jánkaði þessu þó öllu; mér fannst óþarfi að trufla frekar flæði viðtalsins, ef þannig má að orði komast. „Að trufla flæðið“ svona strax í upphafi spjalls vill oft verða til þess að allt framhaldið höktir, eins og ósmurð vél, og nær sér ekki á strik aftur. Næst spurði Rósa (eða þannig hóf hún næstu spurningu): „Í formála bókarinnar …“ Og nú varð ég að leiðrétta hana aftur, því það er enginn formáli í bókinni, einungis eftirmáli. (Og rétt að nefna að sá eftirmáli er ekki skrifaður af mér; hann er skrifaður af Guðrúnu Láru Pétursdóttur, sem fyrir einu og hálfu ári kláraði MA-ritgerð um mínar bækur, með áherslu á tvær þeirra, Hvíldardaga og Samkvæmisleiki. Sú ritgerð segir mér ýmislegt sem ég ekki vissi, eða hafði ekki gert mér grein fyrir, að væri að finna í bókunum mínum. Ég er ekki síður ánægður með eftirmálann sem fylgir hinu nýja smásagnaúrvali sem kemur út í dag.) En þegar hér var komið sögu í símtalinu við Rósu Sæberg var ég farinn að fá á tilfinninguna að ef til vill vissi hún ekki mikið um þessa nýju útgáfu mína (hafði hún ekki fengið eintak frá útgefanda til að kynna sér fyrir spjallið? nei, líklega ekki; ég fæ sjálfur ekki höfundareintökin mín fyrr en í dag, útgáfudag); og mér varð hugsað til öftustu sögunnar í bókinni (sem – kannski rétt að nefna það – heitir Dulnefnin, sögur 1996 – 2014, það er að segja bókin); sögu sem nefnist Forstofan (og skiptist í tvo hluta: Dyrabjöllunni hringt og Gegnum símann), þar sem ókunnugur maður bankar upp á hjá sögumanni (eða hringir bjöllunni, eins og segir í titlinum) og spyr hvort hann megi hirða tómar flöskur sem kunni að hafa safnast saman hjá sögumanni. Ég ætla ekki að segja meira frá sögunni hér; og líklega er ástæðan fyrir því nokkuð augljós, því ég er að reyna að kynna bókina mína, og vil síður rekja efni hennar áður en hugsanlegir lesendur (og/eða kaupendur) kynna sér það af eigin raun. Viðtalið við Rósu Sæberg virðist sömuleiðis hafa fengið fremur snöggan endi, en það var ekki mín sök. Fljótlega eftir að þessi kona, Rósa, hafði flaskað á þessu með formálann og eftirmálann, fékk ég á tilfinninguna að líklega væri hún ekki rétta manneskjan til að taka við mig viðtal. Og ég held hún hafi skynjað það sjálf; að réttast væri að setja punktinn þarna; þessu væru í raun sjálfhætt. Til að bæta þeim það upp sem áttu von á lengra spjalli datt mér í hug að láta fylgja eitthvert lag af youtube, til dæmis með hljómsveitinni Emerson, Lake & Palmer (það er minnst á Keith heitinn Emerson í einni sögu bókarinnar), eða jafnvel eitthvað eftir Jósef Haydn (það er leikinn eftir Haydn strengjakvartett í sögunni Stofutónlistin); en ég hætti þó við að hafa músík; mér fannst fullmikið að vera aftur með músík; það var músík í fyrradag. Í staðinn dettur mér í hug að hafa ljóð úr ljóðabókinni Rómantískt andrúmsloft, sem kom út árið 2012, vegna þess að með því ljóði fylgir í raun myndefni; það er byggt á ákveðinni mynd, ljóðið. Og það birtist upphaflega í Tímariti Máls og menningar, en ekki í fyrra (eflaust hefur Rósa Sæberg eitthvað ruglast á ártölum; líklega haldið að 2015 væri 2012). Ritstjóri Tímarits Máls og menningar, Guðmundur Andri, vildi láta ljósmyndina fylgja með ljóðinu þegar það birtist í tímaritinu, en ég vildi það ekki; og nú sé ég eftir að hafa ekki samþykkt hugmynd Guðmundar Andra, því auðvitað á myndin að fylgja ljóðinu: myndin er ljóðið – og öfugt.

Unknown-1

LJÓSMYND AF STEFNUMÓTI BENEDIKTS PÁFA OG FORSETA ÍSLANDS Í VATIKANINU

 

Hægri helmingur myndar, með gulu veggfóðri og opnum dyrum

 

Myrkur fellur yfir Kína. Youngsun-bar hefur verið lokað tímabundið vegna breytinga á innréttingum. Hinir áfengu drykkir munu vísa þér veginn inn í hinn ölvaða alheim. Drekktu í þig hið rómantíska andrúmsloft. Það er á þriðju hæðinni. Á þriðju hæðinni geturðu gleymt stað og stund – þar er hinn ölvaði alheimur. Á meðan Kína eykur hermátt sinn dag frá degi ríkir rómantískt andrúmsloft á þriðju hæðinni á Youngsun-bar. En þar er lokað tímabundið. Þar er lokað vegna breytinga á innréttingum. Drekktu í þig hið rómantíska andrúmsloft; hinir áfengu drykkir munu opna þér dyrnar að ölvuðum alheiminum. En hvar er vor heimur staddur á sínu hringsóli? Var manneskjunum ætlað að veita hver annarri liðsinni í þrautum sínum? Eru opnar dyr tákn fyrir eitthvað annað en það sem þær eru?

 

Vinstri helmingur myndar, með hvítum gluggatjöldum og forseta og páfa

 

Myrkur fellur yfir Kína. Youngsun-bar hefur tímabundið verið lokað vegna breytinga á innréttingum. Ég er forseti Íslands. En ekki beint karakter í það starf. Svo ég er ekki forseti Íslands. Það er annar. Ég vex eins og blóm upp úr iittala-vasanum. Ég elti froskinn niður af borðbrúninni, ef við hefðum froska á Íslandi. Ég er sjálfur páfinn. Ef við hefðum páfa. Þannig að það er ekki. Ég fæ mér drykk á Youngsun-bar. Við höfum svoleiðis. Eitthvað mjög svipað. Eitthvað alveg eins. Á Youngsun-bar er lokað tímabundið. Það er verið að skipta um andrúmsloft, það er verið að sveigja það meira inn á línu hinnar sívölu mýktar, það er verið að gera það meira suave.

22. apríl 2016

Svona heldur hinn kanadíski Rufus Wainwright upp á 400 ára ártíð Williams Shakespeare; hann gefur út plötu sem hann kallar Take all my loves: 9 Shakespeare sonnets. Hún kom út í dag, þótt ártíðarafmælið sé á morgun. Þrjú af þeim lögum sem Rufus hefur samið við sonnettur Shakespeares komu út á plötu hans All days are nights: Songs for Lulu fyrir nokkrum árum, þar sem eina hljóðfærið utan raddarinnar var píanó; en hér eru þessi sömu lög í öðrum og stærri útsetningum, plús fleiri sonnettur, sungnar og lesnar af Rufusi sjálfum og nokkrum öðrum. Af sonnettu nr. 20, A woman´s face, eru tvær útgáfur: ein með Rufusi og önnur með sópransöngkonunni Önnu Prohaska. Samkvæmt þessu myndbandi hér eru Anna og Rufus góðir vinir; hann kynntist henni í gegnum eiginmann sinn, Austurríkismanninn Jörn.

 

 

En hvernig held ég upp á 400 ára ártíð Shakespeares? Það stóð til að smásagnasafnið mitt, Dulnefnin, ætti að koma út á Degi bókarinnar (sem er ekki aðeins dagur Shakespeares, heldur líka afmælisdagur Cervantesar og Halldórs Laxness, og auðvitað Halla Jóns og Hilmars Arnar Hilmarssonar), en það plan breyttist; bókin kemur í búðir 26. apríl, sem breytir annars ekki miklu – held ég. Eitthvað merkilegt hlýtur að hafa gerst þann dag – kannski fæddist einhver – en ef ekki, þá gerist það allavega að bókin mín kemur út. Sem er væntanlega ekki neinn stórviðburður, nema auðvitað í mínum augum, og í lífi bókarinnar. Bókin – nú er ég enn að tala um Dulnefnin – hefur reyndar ferðast svolítið, þótt ekki sé hún formlega komin út. Hún fór til Selfoss í gær, þar sem ég las upp úr henni (eina eintakinu sem komið er í umferð) á Sunnlenska bókakaffinu hjá Bjarna og Elínu, ásamt fleiri höfundum úr tímaritröðinni 1005. Eins og alltaf á Sunnlenska, þá var mikið fjör. Það var meira að segja músík. Og ansi fín músík: sönghópur sem kallaði sig Svölurnar. Þær sungu Spáðu í mig, nokkur „lög við vinnuna“, og Atla Heimi. Eftir samkomuna á Sunnlenska fór 1005-liðið í hús á Stokkseyri (nú verð ég að fara að passa mig á að þetta breytist ekki í eitthvert partí- og matarblogg), og nokkur okkar löbbuðu niður á strönd og sáu afar einkennilegt hús, hannað af þekktum arkitekt, íslenskum. Þetta hús er tilefni í sérfærslu; ég hef ekki pláss fyrir það hér. En þegar við virtum það fyrir okkur í kvöldsólinni rifjaðist upp fyrir mér lítil saga af rithöfundinum Auberon Waugh, syni Evelyns Waugh. Hann á að hafa sagt eitthvað á þessa leið: „Hvað ber manni að gera þegar maður kemur inn í samkvæmi og sér arkitekt standandi á miðju gólfinu? Maður gengur að honum og slær hann utan undir.“

20. apríl 2016 (aukafærsla)

Til að forðast misskilning (og ekki síður til að koma í veg fyrir ranghugmyndir í mínu eigin höfði), þá vil ég taka fram, vegna færslunnar hér fyrir neðan, að ég er ekki áskrifandi að DV-blaðinu. Þetta sem datt inn um bréfalúguna í gær var kynningareintak – geri ég ráð fyrir.

20. apríl 2016

Seint í gær, gott ef ekki í gærkvöldi, datt inn um bréfalúguna nýtt tölublað af DV. Ég sá reyndar ekki strax að þetta væri DV, því forsíðan var heilsíðuauglýsing – það var einungis mjó lína á vinstri kanti blaðsins sem gaf til kynna um hvaða blað væri að ræða. Línan var með rauðum og hvítum röndum, eins og á rakarastofustöng. DV er sannarlega einkennilegt blað. Mér finnst ekki ólíklegt að það sé gefið út í þeim tilgangi einum að vera lesið á rakarastofum. En auðvitað þarf dagblað ekki að hafa einhvern yfirlýstan tilgang – það þarf ekki einu sinni að hafa tilgang – ekki frekar en skáldverk eða líf manneskjunnar í heiminum. Leiðari blaðsins fjallar um Frans páfa. En talandi um líf manneskjunnar, þá er áðurnefnd heilsíðuauglýsing, sú sem blasti við mér þegar ég teygði mig eftir blaðinu sem datt inn um lúguna í gær – og sem virkar eins og hlífðarkápa utan um sjálft DV-tölublaðið – frá fyrirtæki sem kallar sig Graníthöllin, og gerir út frá Hafnarfirði. Það er orðið frekar algengt að dagblöð „pakki sér svona inn“ í auglýsingar. En hvað hefur þessi auglýsing frá Graníthöllinni með „líf manneskjunnar“ að gera? Svarið við þeirri spurningu er ábyggilega mjög margþætt, jafnvel flókið (svo maður notist við orðalag úr íslenskri stjórnmálaumræðu), en einfalt svar við henni gæti verið á þá leið að líf kviknar á vorin, og blómstrar síðan með sumrinu. Auglýsingin fjallar nefnilega um vorið og sumarið (sem formlega kemur á morgun, 21. apríl). Hún er svona:

 

VORIÐ ER KOMIÐ OG NÚ ER RÉTTI TÍMINN TIL AÐ HUGA AÐ SUMRINU

 

Graníthöllin

Legsteinar

 

PANTAÐU SNEMMA OG FÁÐU STEININN TÍMANLEGA UPP

 

ALLT INNIFALIÐ

með öllum okkar legsteinum

 

(Fyrir neðan textann er mynd af legsteini hjóna sem hétu Rósa Margrét Jónsdóttir og Jón Magnús Jónsson. Hún var fædd 10. 2. 1924, og dáin 21. 3. 2012; hann, Magnús, var fæddur 17. 4. 1922 – það ár sem allt var að gerast í módernískum skáldskap – og dáinn 29. 9. 2013. Fyrir neðan nöfn Margrétar og Jóns Magnúsar, hægra megin á steininum, stendur letrað, með skáletri: Blessuð sé minning ykkar)

18. apríl 2016 (aukafærsla)

Ég ætlaði að segja eitthvað, af augljósu tilefni – vissi alveg að það yrði svona „undirkafli“, eftir að forseti boðaði blaðamannafund – en svo varð mér óglatt – það getur gerst – og ég ákvað að hafa bara hérna stuttan texta úr 1005-heftinu Styttri ferðir, sem kom út fyrir tveimur árum. Þetta er seinni textinn af tveimur sem voru samhangandi í tímaritinu; og ég geri mér vel grein fyrir því núna að Mercedes Benzinn, sá sem sagt er frá í textanum, átti í raun að vera Lexus; ég komst að því fljótlega eftir að tímaritið var prentað að forseti Íslands ekur ekki lengur um á Benz, heldur Lexus.

 

NIÐUR Í IÐNÓ – OG TIL BAKA

 

Góður vinur minn var tilnefndur til verðlauna í sínu fagi. Það átti að veita þau niðri í Iðnó við Tjörnina. Og mér var boðið. Það var þó ekki laust við að mér fyndist svolítið óþægilegt að fara á slíka samkomu, því verðlaunahafar yrðu ekki tilkynntir fyrr en á hátíðinni. Og það gat brugðið til beggja vona, eins og sagt er. Ég var þó nokkuð bjartsýnn um að verðlaunin myndu falla í réttar hendur, svo ég ákvað að fara. Það er ekki nema nokkurra mínútna gangur frá Laufásveginum niður í Iðnó. Ég fór í fínu skóna mína og lagði af stað. Ég var í góðu skapi. Sem var synd, í ljósi þess að það átti ekki fyrir mér að liggja að njóta þess að vera í góðu skapi, að minnsta kosti ekki í því umhverfi þar sem einmitt hefði verið svo gaman að vera í góðu skapi. Hið góða skap mitt myndi heldur ekki nýtast vini mínum, ef svo má að orði komast; honum sem var í þann veginn að fara að fagna svolitlum áfanga í lífi sínu, færi svo að ég hefði rétt fyrir mér að hann hlyti verðlaunin. Þegar ég kom fyrir hornið á Iðnó, þeim megin sem styttan af óþekkta embættismanninum stendur, sá ég svartan Mercedes Benz sem var lagt á horni Vonarstrætis og Templarasunds; glansandi svartan og stóran Benz, sem líkt og stóð skrifað utan á að hefði leyfi til að leggja þarna á horninu, ólíkt öðrum bílum. Og ég sagði við sjálfan mig að þetta væri sá svarti bíll sem ég var að vona að yrði ekki fyrir utan Iðnó. Því ég vissi hver ók um í þessum bíl. Eða réttara sagt: hverjum var ekið um í honum. Ætli hafi ekki tekið mig um það bil hálfa mínútu að ákveða að snúa til baka. Mig langaði ekki lengur til að fara á hátíðina. Og ég sneri til baka. Ég myndi síðan hringja í vin minn eftir klukkutíma eða svo, til að forvitnast um hvort hann hefði fengið verðlaunin.

18. apríl 2016

Í gær, sunnudag, var ég spurður að því hvort ég hefði í raun og veru farið til Akureyrar um páskana, eins og ég gaf í skyn hér á síðunni (og ekki bara gaf í skyn, heldur nánast fullyrti, ef ekki sagði berum orðum) að ég hefði gert. Þegar ég svaraði (þetta var í gegnum síma) lagði ég mig fram um að gefa eins loðið svar og mér var unnt, enda vildi ég ekki að hægt væri að vitna í orð mín því til sönnunar að ég hefði í raun og veru farið – eða ekki – til Akureyrar. Mér er nefnilega vandi á höndum þegar ég stend frammi fyrir spurningum á borð við þessa (hvort ég hafi farið til Akureyrar, osfrv) – eða öllu heldur: þegar ég er krafinn svars um það hvort lýsingar mínar og frásagnir á þessum rafrænu blaðsíðum hér á netinu byggi á því raunverulega, eða því sem okkur er sagt að sé raunveruleiki og/eða teljum okkur sjálfum trú um að svo sé. Ég gef mér líka þann möguleika að lýsingarnar og frásagnirnar séu einhvers konar póetískt rými þess sem þær skrifar, með eða án veggja, eða einhver mér óþekkt tegund af hliðarveruleika, þar sem bæði eru veggir og dyr, og meira að segja gluggar líka. Í dag, mánudag, hefur verið boðað til blaðamannafundar á Bessastöðum. Ég heyrði það í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins. Hvað merkir það? Hvað gengur forsetanum til? Hvað á það að þýða að vera með blaðamannafund svona nokkurn veginn fyrirvaralaust á mánudegi? Spurning hvort ástæða verði til að hafa aukafærslu (einhvers konar undirkafla) að þeim fundi loknum. En – það er alltaf hið stóra EN – ég hafði lofað að tala um Sögu tónlistarinnar, bókina sem var að koma út hjá Forlaginu um daginn. Og aftur stend ég frammi fyrir ákveðnum vanda. Því ég vil helst ekki gefa uppi hvort ég hef þá bók undir höndum eður ei. En hvað sem því líður, þá eru hérna tvær setningar úr henni (sem ég gæti hafa lesið á bókasafninu og lagt á minnið; en gæti líka verið að rati svona hárrétt á síðuna einmitt vegna þess að Saga tónlistarinnar liggur opin fyrir framan mig): „Þegar síminn hringir og þú svarar er það ekki tónlist. Ef hann hringir og þú svarar ekki, þá er það tónlist.“ Þetta kemur frá John Cage. En meira um bókina hans Árna Heimis síðar. Annaðhvort þarf ég að verða mér úti um hana, eða ég þarf það ekki. Og fyrst ég er búinn að nefna bæði tónlist og myndir (Sögu tónlistarinnar og John Cage og allt það; og Ólaf Ragnar að undirbúa sig fyrir blaðamannafundinn), þá finnst mér við hæfi að birta texta úr bók sem ég gaf einu sinni út, texta sem einmitt fjallar um hljóð og mynd:

 

HLJÓÐ OG MYND

 

Eftir að hafa reynt í rúmar þrjár vikur tókst mér að ná mynd af símanum á sama augnabliki og hann hringdi. Þá hafði hann hringt allt að hundrað sinnum og ég ýtt um það bil helmingi oftar á takkann á myndavélinni. En það tókst að lokum. Allt tekst að lokum. Líka þetta.

16. apríl 2016

Það var hringt í mig í gær. Ég fékk símtal. Efnislega var símtalið svona: „Útskriftarsýning Listaháskólans verður haldin eftir viku, 23. apríl, og okkur datt í hug að hafa yfirskrift hennar Ytri höfnin. Okkur varð hugsað til ljóðabókarinnar sem þú gafst út [það var árið 1993], og fannst að við ættum að biðja þig um leyfi, eða láta þig vita.“ Ég hef hingað til ekki litið svo á að ég væri eigandi einhverra ákveðinna orða í íslensku orðabókinni, og allra síst þeirra orða sem um ræddi; en þau hjá skólanum langaði til að tengja Ytri höfnina bókinni minni, og ég varð auðvitað upp með mér af því. Og er. Enda gaf ég fúslega leyfi mitt til notkunar á þessum fallegu orðum. Það segir sig líka sjálft að mér fannst þetta mjög vel til fundið, að nota orðin Ytri höfnin yfir sýningu ungra listnema í Hafnarhúsinu. Núna, þegar sólarhringur er liðinn frá hinu óvænta símtali við Listaháskólann, var ég að hugsa um að láta tækifærið ekki liggja ónotað, og birta ljóð úr bókinni gömlu, Ytri höfninni, en ég fékk aðra betri hugmynd, nefnilega þá að birta einungis síðustu línuna í þeirri bók:

 

… að framtíðin feli í sér óvænta símhringingu

 

og síðan láta fylgja með fyrsta ljóðið úr næstu bók á eftir (sem heitir Klink), þar sem orðin ytri höfnin koma fyrir (þau gera það nefnilega ekki í bókinni Ytri höfninni, þótt ytri höfn Reykjavíkur komi fyrir á blaðsíðum hennar):

 

GLÆSTAR SMÍÐAR

 

Yfir sumarmánuðina

þegar skemmtiferðaskipin eru að sökkva

úti á ytri höfninni

hvert á fætur öðru undir krefjandi aðdáun borgarbúa

 

verður spurningin um meira eftirlit með skipaferðum

áleitnari

og ekki aðeins áleitnari heldur einnig varpað fram

eins og spurningunni um það

 

hvers vegna þessar glæstu smíðar

þessi fljótandi samkvæmi sigurs og vonar

sökkvi alltaf að næturlagi

alltaf á þeim tíma sem aðdáun okkar er mest

 

Í dag, 16. apríl, hafði ég reyndar ætlað mér að gera að umtalsefni nýju bókina eftir Árna Heimi Ingólfsson, Sögu tónlistarinnar, en það verður að bíða betri tíma. Ég veit að sú stóra og fína bók á eftir að staldra frekar lengi við á borðinu hjá mér (áður en hún fer upp í hillu), svo ég mun varla gleyma þessu. Ég las bók Árna Heimis um Jón Leifs fyrir nokkrum árum, og fannst hún bæði fróðleg og skemmtileg. Þegar ég rifja upp þá bók, eða þegar eitthvað minnir mig á Jón Leifs, þá rifjast alltaf upp fyrir mér saga sem mér var sögð af honum – saga sem ekki er að finna í bók Árna Heimis. Jón Leifs var í rútu, og í útvarpinu í rútunni var verið að spila popptónlist, frekar hátt. Jón hafði ekki mikið yndi af popptónlist – honum var mjög illa við hana, held ég megi örugglega fullyrða – og hann stóð upp úr rútusætinu og fór til bílstjórans til að biðja hann um að slökkva á útvarpinu. En bílstjórinn vildi það ekki. Og þeir fóru að rífast, geri ég ráð fyrir. Þessi litla saga af Jóni Leifs endar síðan á því að Jón reif útvarpstækið úr mælaborðinu. Það hefði ég líka gert. Eða viljað gera – en ekki látið eftir mér.

14. apríl 2016

Það er með hreinum ólíkindum hversu oft ég minnist á Halldór Laxness í þessu prógrammi mínu. Það var aldrei ætlunin. En auðvitað var ekkert plan – upphaflega – um það hversu oft ég ætlaði að minnast á hinn eða þennan, eða hversu einbeittur ég ætlaði að vera í því að forðast að nefna einhvern annan. Að tala svona oft um Halldór Laxness gefur held ég ekki rétta mynd af því hversu mikið ég held upp á hann sem höfund, eða hversu oft ég les hann – hlutfallslega – miðað við aðra höfunda; ég les nefnilega ekki mjög oft í bókum hans. Ekki miðað við aðra höfunda. En hver vill vita það? Af hverju er ég að tala um aðra höfunda? Ég ætti náttúrlega bara að tala um sjálfan mig. Sem ég er alltaf að gera – ég fer bara stundum krókaleiðir að því. Það getur jafnvel hugsast að stundum komi ég aftan að sjálfum mér. Í fyrradag lofaði ég því hins vegar hálfpartinn að tala um Bósa Ljósár. Um síðustu helgi var nefnilega á heimili mínu horft á teiknimyndina Toy Story 2. Líklega er það í fimmta eða sjötta skipti sem það er gert. (Við vitum að verið er að framleiða fjórðu myndina, sem verður þá væntanlega kölluð Toy Story 4 – við lásum það í blaðinu – og nokkuð reglulega minnum við okkur á þá vitneskju, og eftirvæntingin eykst í hvert skipti.) Eitt vakti sérstaka athygli mína núna, þegar við horfðum á Toy Story 2: að Bósi Ljósár (Buzz Lightyear) minnir allverulega á Íslending sem mikið hefur verið fjallað um í fjölmiðlum hérlendis síðustu daga – og erlendis líka. Bósi er stórkostleg fígúra. Ég hélt ég yrði ekki eldri þegar hann fór að tala spænsku í Toy Story 3. En það er þetta með að líkjast eða líkjast ekki. Manneskja sem ég þekki hefur gaman af því að senda í tölvupósti myndir af þekktum, eða frægum, einstaklingum sem líkjast hver öðrum, og ég hef ekki síður gaman af því að senda henni svoleiðis myndir til baka. Um daginn sendi ég henni myndir af Halldóri Halldórssyni (X-D) og Boris Karloff (í hlutverki Frankenstein); ég sendi henni líka myndir af leikaranum Reggie Nalder (sjá Fellini og Hitchcock) og Gunnari Sigurðssyni (í Hraðfréttum); og nýlega fann ég út að Fassbinder (leikstjórinn, það er að segja) og Atli Þór Fanndal blaðamaður eru býsna líkir á ákveðnum myndum. Þannig að ég sendi henni myndir af þeim tveimur. Það sem einna helst sló í gegn í þessari óeiginlegu keppni um útlitslíkindi voru aftur á móti myndir sem ég setti saman af Jóni Gunnarssyni (X-D) og Gérard Depardieu (þeim fransk/rússneska), þótt svolítið snúið sé að finna réttu myndirnar af þeim sem renna stoðum undir samlíkinguna. En aftur að Bósa Ljósári. (Ég verð þó fyrst að nefna eitt, svo ég verði ekki sakaður um sérhlífni í þessu samhengi. Fyrir nokkrum mánuðum fékk ég nefnilega sendar frá kunningja mínum myndir af mér sjálfum og Guðmundi Ragnarssyni, formanni Félags vélstjóra og málmtæknimanna, með þeim skilaboðum að við Guðmundur værum líkir. Þá er það frá.) En nú að Bósa (svo ég geti loks farið að slá botninn í þetta fimmtudagsspjall mitt). Ég veit að það er ekki sanngjarnt gagnvart hinu geðþekka leikfangi að vera að nefna þau útlitslíkindi sem ég hef í huga (hin meintu líkindi), en ég ætla samt að láta eftir mér að birta mynd af hinum góða vini Vidda; hún, myndin, ein og sér, hefur ótvírætt skemmtigildi.

 

 

12. apríl 2016

21. apríl nk., sem er Sumardagurinn fyrsti, stendur til að verði upplestur á Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi. Þar munu lesa upp nokkrir höfundar sem birtu texta í tímaritröðinni 1005, en sú röð var gefin út á árunum 2013 – 2015, og kemur ekki meir – það var ákveðið í upphafi að útgáfurnar yrðu ekki fleiri en þrjár. Mitt framlag í tímaritið var smásagnahefti, Rússneski þátturinn, sem hafði (það er svo gaman að nota þessa sögn svona; Halldór Laxness gerði það – og hann var íslenskur) 9 smásögur. Öll eintök tímaritsraðarinnar eru uppseld. Þau voru 300 eða 350 af hverri útgáfu. Einn höfunda 1005 hefur síðan nýlega gefið út sitt hefti í hefðbundinni bókarútgáfu: Halldóra Thoroddsen gaf út söguna Tvöfalt gler hjá forlaginu Sæmundi; og ég tel mig hafa rökstuddan grun um að fleiri hefti 1005-raðarinnar muni koma út í bókum fyrr en síðar, enda full ástæða til. Í smásagnasafninu Dulnefnin (sjá hér að ofan – það hefur reyndar eitthvað klippst ofan og neðan af kápunni), sem á að koma í kringum Dag bókarinnar 23. apríl, verða 7 sögur af 9 úr Rússneska þættinum. Í raun eru þær átta, því ég splæsti tveimur saman í eina, eða þannig lagað: setti þær undir sömu yfirskrift, þótt í raun séu þær aðskildar. Auk þess lagaði ég eitthvað smávegis í textunum, og kippti út einni og einni setningu. Ég ætlaði reyndar ekki að tala um þetta; ég ætlaði að tala um Bósa Ljósár. Ég geri það kannski næst. En það er allavega upplestur á Selfossi Sumardaginn fyrsta, klukkan fjögur, í einu skemmtilegasta kaffihúsi landsins, Sunnlenska bókakaffinu.

10. apríl 2016

„Kaflastjórnandi“ hefur heyrt því fleygt að sú ákvörðun að breyta yfirskrift þessa prógramms hér á netinu úr „Kafli á dag“ í „Kafla á viku“ hafi verið mistök. Það er reyndar svolítið langt síðan það gerðist. En ég get alveg ímyndað mér að þetta sé rétt hjá þeim sem hafði orð á því. „Kafli á dag“ er þó í augnablikinu ekki mjög aðlaðandi hugmynd fyrir „stjórnanda“ síðunnar. „Stjórnandi“ síðunnar veit í raun ekki í hvorn fótinn hann á að stíga. Hann verður að skoða þetta betur. Taka stöðuna, eins og sagt er. Svo má vel vera að „það liggi ljóst fyrir“ að eitt sé betra en annað; að „Kafli á dag“ henti betur en „Kafli á viku“, eða öfugt. En nóg um það. Til að færsla dagsins fái einhverja „vigt“ eða „tilgang“, þá hefur mér dottið í hug að setja smá músík. Gil Evans verður fyrir valinu: fyrsta lagið á hljómplötu hans, The Individualism of Gil Evans, frá árinu 1964. (Það var annars gaman að fara á Austurvöll í gær. Ég held að á endanum muni íslensku þjóðinni – fyrr en síðar – takast að koma fjármálaráðherra frá völdum – og hans virktarvinum.) Ef fólk á bíl með geisladiskaspilara, þá mæli ég með því að hlusta á Time of the Barracudas undir akstri. (Elvin Jones er beinlínis yfirnáttúrulegur í þessari upptöku.) En til að hlusta á þetta í bíl, þá er best að eiga diskinn. Nema að fólk hafi yfir þeirri tækni að ráða sem gerir því kleift að tengja tölvuna sína (internetið) við græjurnar í bílnum. En allavega, hér er Gil Evans:

8. apríl 2016

Kannski er það aukakaffibollinn sem ég drakk í morgun sem hraðar svona á hjartslættinum, en ég held samt að það sé fjármálaráðherra Íslands. Og nýi forsætisráðherrann. Og maðurinn sem nú er búið að skipa sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem strangt til tekið er nafni minn, þótt ég heiti ekki Gunnar eins og hann. (Það eru þrjú sem í síðustu setningu; það skrifast á hraða hjartsláttinn. Og það uppnám sem ég tel mig vera í þessa stundina.) Mér er skapi næst að vitna í eitthvert skáld. Ég veit ég gerði það í síðustu færslu; en mér finnst eins og ég ætti að gera það aftur. Jafnvel að biðja Guð að blessa mig og alla hina líka. Ég ætla samt ekki að gera það; ég ætla frekar að vitna í fjármálaráðherrann: „Tímarnir hafa aldrei verið eins bjartir og einmitt nú.“ (á Alþingi Íslendinga, 8. apríl 2016)

6. apríl 2016

Einn íslandskokkteil? segir hann.

Nei þakka svo heimskt mikið, herr grossist, sögðu þeir, og sá litli feiti fór að taka skjölin uppúr töskunni hjá sér og raða þeim á borðið.

(úr Guðsgjafaþulu e. Halldór Laxness, bls. 17)

 

 

ÍSLANDSKOKKTEILL

– bjór

– skvetta af koníaki

– skvetta af vískíi

– rauðvín

 

 

Ég kom frammúr sekretéraherberginu aftur meðan Íslandsbersi var niðrá marmaranum að kveðja gesti sína. Aungvar sænskar miljónir á borðinu, aðeins þrjú mjólkurglös fleytifull af íslenskum kokkteil; það fjórða hafði húsbóndinn drukkið sjálfur í botn sem fyr segir.

(úr Guðsgjafaþulu e. Halldór Laxness, bls. 20-21)

 

 

Vorið færði mér óhugnanlegan hlátur fábjánans.

(úr ljóðinu Fyrrum, ef ég man rétt eftir Arthur Rimbaud – þýð. Jón Óskar)

4. apríl 2016

Ég ákvað að freista gæfunnar og leita að hinu vinsæla og mikið tekna orði (í heimi ísl. stjórnmála) óheppilegt í orðabókinni minni (tveggja binda útgáfunni). En ég fann það ekki. Það næsta sem ég komst því var orðið óheppinn, en það er ekki það sama og óheppilegt eða -legur. Þá datt mér í hug að fara í samheitaorðabókina (gömlu útgáfuna; ég á ekki þá nýju), og þar fann ég orðið óheppilegur. Samheiti þess (samkvæmt Þórbergi; enn og aftur dúkkar hann upp hérna) er óþægilegur, og andheitið: heppilegur. Þetta er sem sagt allt fremur „óþægilegt“. Ekki „heppilegt“. En svo datt mér í hug að athuga hvort orðið óheppilegt væri að finna í útlensku orðabókunum mínum, úr því forsætis- og fjármálaráðherra landsins eru orðnir umfjöllunarefni í erlendum fjölmiðlum. Þar fann ég þessar myndir af orðinu: unfortunate og inoportuno. Ég er ekki með fleiri hefðbundnar orðabækur við höndina í augnablikinu, en á nú frekar von á því að búið sé að þýða þetta yfir á þýsku og Norðurlandamálin. En áður en ég raðaði þessum bókum mínum aftur upp í hillu datt mér í hug að fletta upp í Útlendum orðum á ensku, sem Haraldur Jóhannsson tók saman, og þegar ég blaðaði í gegnum þá bók (sem ef til vill er réttara að kalla hefti), algerlega handahófskennt, þá fann ég þetta: in extremis, sem er latína og merkir: að dauða kominn, aðfram kominn, í andarslitrunum.

2. apríl 2016 (aukafærsla)

Það var boðið mér í afmælisveislu á föstudaginn. Sem var í gær. Var mér boðið það á föstudaginn í afmælisveislu? Mér boðið það var í afmælisveislu á föstudaginn. Á föstudaginn var mér það boðið í afmælisveislu. Í afmælisveislu á föstudaginn mér boðið það var. Var þar boðið upp á veganbrauðtertu. Á veganbrauðtertu boðið upp þar var. Og svo framvegis. Í veislunni hitti ég manneskju sem ég hef ekki hitt lengi. Ég sparkaði í sköflunginn á henni. Sköflunginn á henni sparkaði ég í. Og ég gleymdi að koma með afmælisgjöf. Með afmælisgjöf gleymdi ég að koma og. Og hvað? Þessi manneskja sem ég hafði ekki hitt lengi fór að tala við mig. Að ég hafi sparkað í sköflunginn á henni er reyndar svolítið ýkt. Ég gerði það alls ekki. En við töluðum saman. Og um hvað? Nú, auðvitað bækur, en líka um sjónvarpsþætti. Ég sagði henni að ég væri nýbúinn að horfa á alla Breaking Bad-seríuna; að ég væri eiginlega ekki samur eftir þá reynslu. En núna er ég aftur að ýkja; ég orðaði þetta alls ekki svona. Ég er nákvæmlega sá sami og ég var, nema hugsanlega að því leyti að ég er nokkrum dögum eldri en ég var þegar ég lauk við að horfa á þættina. Það gerðist á Akureyri; það var þar sem ég kláraði áhorfið. Akureyri – Albuquerque. „Mér finnst ég hafa verið að lesa [í merkingunni að horfa á] mjög langa skáldsögu,“ sagði ég við manneskjuna í afmælisveislunni; og ég átti við Breaking Bad. Í framhaldi fórum við að tala um aðrar skáldsögur, aðallega út frá því hvernig löngum skáldsögum er stundum skipt upp í hluta eða aðskild hefti eða bækur. Manneskjunni fannst t.d. fyrsti hluti Íslandsklukkunnar eftir Halldór Laxness mun betri en þeir sem komu á eftir; en þá sagði ég eitthvað á þá leið að það þýddi ekki fyrir hana (manneskjuna) að ræða við mig um Íslandsklukkuna; ég hefði engan áhuga á henni – besta bók Halldórs Laxness fyndist mér vera Kristnihald undir Jökli. Ég sagði þetta í og með til að athuga hver viðbrögð manneskjunnar yrðu, því ég hafði einhvern tíma lesið frekar neikvæð orð frá henni um þessa tilteknu skáldsögu Halldórs Laxness. Og það stóð ekki á viðbrögðunum: manneskjan sagði ekki neitt; það var eins og hún vildi að við breyttum um umræðuefni sem fyrst. Og við gerðum það. Var þetta ef til vill augnablikið sem mér datt í hug að ég ætti að sparka í sköflunginn á henni? Mig hefði langað til að tala meira um Kristnihald undir Jökli. Mér finnst það ein af skemmtilegustu (og um leið bestu) bókum sem ég hef lesið. Susan Sontag er líka á þeirri skoðun að Kristnihaldið (Under the Glacier, eins og hún kallast í enskri þýðingu Magnúsar Magnússonar) sé ein af fyndnustu bókum síðustu aldar, eða hvaða aldar sem er. En töluðum við, ég og umrædd manneskja í afmælisboðinu, um forsætisráðherra Íslands og fjármálaráðherra? Nei, það vannst ekki tími til þess. Hefði okkur gefist lengri tími – bæði var það að ég þurfti að fara annað, og í raun stóð afmælisveislan ekki lengi; þetta var svona síðdegisboð, og afar vel heppnað sem slíkt – þá hefðum við án nokkurs vafa tekið smá snúning á forsætis- og fjármálaráðherrunum. „En ég ráðlegg þér að horfa á restina af Breaking Bad,“ sagði ég við manneskjuna undir lok spjallsins. (Hún hafði horft á eina eða tvær af seríunum sex.) „Ég hef aldrei séð fjallað jafn ítarlega um lygina áður,“ bætti ég við. (Reyndar sagði ég það aldrei; ég er að búa það til núna. Með öðrum orðum: að ljúga. Auk þess sem ítarlega er ekki vel til fundið orð í þessu samhengi. Sem er auk þess ekki vel til fundið orð í þessu ítarlega samhengi.) Svo kvöddumst við.