15. janúar 2017

RÚSSNESK TÓNLIST

 

„Ég set niður á blaðið fagran hljóm – og allt í einu ryðgar hann,“ sagði Alfred Schnittke.

 

Dimítrí Sjostakóvits var einhverra hluta vegna ekki mjög velviljaður Alfred Schnittke – kannski voru þeir um margt of líkir. Sjostakóvits var öllu vingjarnlegri við Sofiu Gubaidulinu.

 

„Mér finnst að þú eigir að halda áfram á þinni röngu braut,“ sagði hann við hana.

 

(Af því tilefni er hér fiðlukonsert Sofiu, In tempus praesens. Um leið minnir titill verksins mig á að allt í einu er fyrsti mánuður ársins hálfnaður. Sem er svakalegt.)

 

11. janúar 2017

Það er allt að fara að gerast:

 

Í sjávarútvegsmálum:

 

Kannaðir verða kostir þess að í stað ótímabundinnar úthlutunar verði byggt á langtímasamningum og samhliða verði unnið að mati á þeim kostum sem tækir eru, svo sem markaðstengingu, sérstöku afkomutengdu gjaldi eða öðrum leiðum, til að tryggja betur að gjald fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind verði í eðlilegu hlutfalli við afrakstur veiðanna.

 

Í landbúnaðarmálum:

 

Endurskoða þarf ráðstöfun innflutningskvóta og greina forsendur fyrir frávikum frá samkeppnislögum fyrir mjólkuriðnaðinn og gera viðeigandi breytingar.

 

Í gjaldmiðlamálum:

 

Forsendur peninga- og gjaldmiðilsstefnu Íslands verða endurmetnar, meðal annars í ljósi breytinga sem orðið hafa á efnahagsmálum þjóðarinnar með stórsókn ferðaþjónustunnar og ört vaxandi gjaldeyrisforða. Ráðherranefnd mun hafa samráð við þingflokka og starfa náið með Seðlabanka Íslands[…]

 

Í Evrópumálum:

 

Komi fram þingmál um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið eru stjórnarflokkarnir sammála um að greiða skuli atkvæði um málið og leiða það til lykta á Alþingi undir lok kjörtímabilsins. Stjórnarflokkarnir kunna að hafa ólíka afstöðu til málsins og virða það hver við annan.

 

Í stjórnarskrármálum:

 

Unnið verður að endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands á grundvelli þess viðamikla starfs sem átt hefur sér stað undanfarin ár.

 

(Fengið að láni úr Kvennablaðinu, úr grein Viktors Orra Valgarðssonar: http://kvennabladid.is/2017/01/11/malamidlun-ekkert/)

10. janúar 2017

 

„Þetta er auðvitað allt saman tómur þvættingur og fyrirsláttur og ekkert nema pólitík.“ (Bjarni Benediktsson, verðandi forsætisráðherra, í viðtali við Ríkisútvarpið 7. janúar 2017) Með öðrum orðum – og algerlega berum orðum – viðurkennir verðandi forsætisráðherra að hann sé ekki í pólitík. Enda hefur lengi verið ljóst að hann er það ekki. Verðandi fjármálaráðherra nefnir síðan lygi verðandi forsætisráðherra „slaka dómgreind og klúður“. Og verðandi heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að endurskoða – og væntanlega taka aftur – orð sín um að forsætisráðherrum sem tengdir eru aflandsfélögum sé ekki stætt í embættinu. Honum finnst það allt í lagi núna. Ég vil fara aftur upp í sveit. Ég var nefnilega uppi í sveit (þótt „uppi í sveit“ finnist mér einkennilegt orðalag. „Úti í sveit“? …„í sveitinni“? … „in the countryside“ … „en el campo“ …). Ég var á Árbakka, á Hvítársíðu, í Reykholtssveit. Og þar gerði mikið veður eina nóttina, og í þykku myrkrinu í kringum húsið tóku að heyrast einhver ókennileg hljóð; og þessi hljóð urðu meiri og meiri, á meðan vitneskjan um hvað þeim ylli var engin – þetta hljómaði eins og einhver þungstígur væri reiður gagnvart pallinum fyrir utan. En svo kom skýringin – að minnsta kosti skýring sem hægt var að ímynda sér að hefði einhver skynsamleg rök. En þótt skýringin hafi komið, varð ekki mikill svefn þessa nótt. Og þess vegna var rænan ekki 100% í gær (eða 90%, 85%, 75%, 60%? … ég skal ekki segja hversu hátt hún mælist almennt). Ég kýs aftur á móti að líta svo á að þessi óhugnanlegu hljóð í Reykholtssveitarnóttinni hafi táknað reiði þeirra kjósenda Bjartrar framtíðar (og jafnvel Viðreisnar líka) sem enn líta svo á að þátttaka í ríkisstjórn eigi að fela í sér pólitík, ekki bara sérhagsmunavörslu. Og að forsætisráðherra landsins sé ekki lygari. Að landsmenn eigi að minnsta kosti að geta haft þá tilfinningu að forsætisráðherra segi stundum satt. En landsmenn eru ekki vanir því. „Landsmenn“? Er maður landsmaður? „Countryman“? Og núna eru landsmenn að fá yfir sig enn einn forsætisráðherra af þeirri sort sem ekki er hægt að reikna með að segi satt. Við (we, the countryfolk of Iceland) erum að fara úr öskunni í eldinn.

ps. í dag er eitt ár frá því David Bowie lést. Næsti kafli ætlar af því tilefni að hafa tóndæmi af youtube:

 

4. janúar 2017

Þeir sem kusu Bjarta framtíð í október síðastliðnum kusu Viðreisn. Og til að Viðreisn komist í ríkisstjórn þarf Sjálfstæðisflokkurinn að vera í forsæti. Eða framsæti. Ég þekki fólk sem kaus Bjarta framtíð. Eina leiðin til að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum virðist hafa verið sú að kjósa Pírata. Þess vegna kaus ég Pírata. Ég myndi kjósa Pírata aftur. Samfylkingaratriðið í áramótaskaupinu er klassískt grín. Mér finnst að Smekkleysa eigi að gefa út lagið. Svo er ekki meira með það. Jólasýningar stóru leikhúsanna halda áfram að fá tvær stjörnur í Fréttablaðinu – mér er sagt að rithöfundur á facebook hafi spurt sjálfan sig (og þar með lesendur facebook) hvers vegna leiklistargagnrýni sé óvægnari en önnur listgagnrýni. Mér dettur í hug að svarið liggi í því – og þá er ég að hugsa um tveggjastjörnusýningar síðustu daga – að höfundar þeirra sýninga eru að semja texta í nafni leikskáldanna sem um ræðir; þeir eru að láta William Shakespeare og Halldór Laxness tjá sig um búsáhaldabyltinguna sem átti sér stað (ef hún átti sér stað) árið 2008 – og stöðu kvenréttinda á Íslandi árið 2016. Ég held ég skilji alveg hvers vegna leiklistargagnrýni síðustu vikna á Íslandi er óvægnari en önnur listgagnrýni.

31. desember 2016

Það er auðvitað mjög fróðlegt að fylgjast með sendingum fólks á milli varðandi sýningu Þjóðleikhússins á Ótelló. Í augnablikinu hentar mér ekki að hafa miklar skoðanir á þessari sýningu, ekki á meðan ég hef ekki séð hana; en ég get ekki annað en verið sammála því sem minnst hefur verið á í einhverjum dómum að vafasamt sé að búa til senu í leikritinu þar sem kvennakór fer að tjá sig um pólitískt ástand á Íslandi. Ef þetta er rétt – að „íslenskt ástand“ sé dregið inn í verk Shakespeares – þá er þetta hluti af þeim viðvarandi plebbisma í leikhúsi samtímans að líta svo á að leikrit þurfi að hafa samfélagslega skírskotun, að það þurfi að „tala inn í samtímann“, og til þess að svo geti orðið, þá sé í lagi að teygja til og aðlaga texta leikskáldanna, jafnvel bæta við hann, eða einfaldlega taka hann í burtu; að leikstjórinn megi gera hvað sem er við upprunalegan texta leikritsins, en samt láta svo líta út fyrir að leikritið sé eftir upprunalegan höfund. Það er erfitt að vera ósammála því að stundum megi „snyrta til“ texta Shakespeares, og jafnvel gera styttingar á leiktextum höfunda á borð við Tsékov; en að bæta inn í texta þessara höfunda finnst mér svakaleg frekja og óvirðing við Shakespeare og Tsékov. Það eru til höfundar – látnir höfundar – sem gáfu þau fyrirmæli á meðan þeir voru lifandi að ekki mætti hrófla við texta þeirra. Þeirra á meðal eru Beckett og Pinter. Og hafi menn gefið svona fyrirmæli, þá á að hlýða þeim. Enda er aldrei ástæða til að stytta texta höfunda eins og Becketts og Pinters. Og þaðan af síður að gera eitthvað við hann, annað en að leika hann (og þýða, þegar þess er þörf) eins vel og hægt er. Í sýningu Þjóðleikhússins á Heimkomu Pinters á síðasta ári var ekki aðeins klippt af textanum, heldur einnig bætt við hann; það var hent inn einhverjum setningum, bara af því að leikstjóranum, eða dramatúrginum, datt það í hug. Mér finnst svo hræðilegt að hugsa til þess sem þarna var gert að ég fæ mig ekki til að hugsa um þetta meira núna, því núna (bara alveg núna) er síðasti dagur ársins (ég þarf að dusta rykið af skúffunni í geislaspilaranum, og ná í plötuna sem ég ætla að spila í kvöld – eitthvað amerískt/írskt), og mann skal vera glaður. Mig langar samt til að hafa nokkur orð um þetta í viðbót, þetta með frekju íslensks leikhúsfólks gagnvart útlendum höfundum, og þá sérstaklega í samhengi við uppsetningu á leikriti Pinters, No man´s land, sem ég sá fyrr í mánuðinum í London; en þetta (eins og flest sem ég brydda upp á) verður að bíða betri tíma. Næsta árs. Sem ég vona að verði betri tími. Næsti kafli verður alltaf að vera betri en sá á undan. En til að slútta þessu núna get ég ekki verið þekktur fyrir annað (því ég hefi fengið áskoranir þess efnis) en að birta myndina af páfanum og grísnum. „Páfinn og grísinn“. Þetta er eins og heiti á sögu í Ævintýrum Æskunnar. Eitthvað klassískt. Enda er myndin af páfanum og grísnum orðin háklassísk. Hér er hún (og gleðilegt ár, kæru landsmenn í vefheimum):

30. desember 2016 (aukafærsla)

Nú, þegar búið er að velja popplag ársins, er ekki úr vegi að velja snörpustu fjölmiðlaorð ársins. Það vill svo til að þau voru látin falla í dag, á næstsíðasta degi þessa einkennilega árs, þannig að litlu munaði að þau næðu ekki inn sem kandidat fyrir snörpustu orð ársins; þau voru sögð í tilefni þess að fyrrverandi forsætisráðherra var kosinn Maður ársins á Útvarpi Sögu (Radio Saga – ef einhver enskumælandi er að lesa):

„Hann hefur sýnt og sannað að hann vill þjóð sinni vel og vék til hliðar úr stóli forsætisráðherra til þess að skapa frið í þjóðfélaginu.“

Svo má alveg hafa snörpustu orð nr. 2, en þau komu einmitt í beinu framhaldi af nr. 1, af sama tilefni: Maður ársins á Útvarpi Sögu:

„Sigmundur Davíð varð fyrir aðför að hálfu ríkisútvarps allra landsmanna og í raun var það aðför að stjórnkerfi landsins.“

Ég er allt að því stoltur yfir að búa í nágrenni höfuðstöðva Útvarps Sögu. Ég sé skiltið þeirra af svölunum. Gleðilegt ár, Útvarp Saga. Takk fyrir að vera þið. Njótið dagsins. Og Sigmundur Davíð – takk fyrir að vera þú. Og njóttu dagsins.

30. desember 2016

Nú finnst mér ég allt í einu þurfa að velja eitthvað „ársins“. Nú þegar einn dagur er í gamlársdag. Ég á við „besta-eitthvað-ársins“. Þó ekki væri nema til að gefa bróður mínum í afmælisgjöf. Því hann er auðvitað besti bróðir minn. Enda líka sá eini. Ég hafði hugsað mér að skrifa svolítinn pistil um menningarsíðu Fréttablaðsins í gær, þar sem fjallað var um Óþelló-sýningu Þjóðleikhússins og sakamálasöguna Verjandann – mér fannst eins og á þeirri síðu væri Íslensk menning samtímans samankomin í heild sinni: leikhús „inn í samtímann“ og spennusögur „að erlendri fyrirmynd“ – en eins og svo oft áður, þá verður sá pistill að bíða aðeins (og nú veit ég að einhver hugsar: Hver heldur maðurinn að sé að bíða eftir þeim pistli?). Ég hefi ákveðið að velja popplag ársins. Ekki skúrk ársins. Og ekki Sigmund Davíð Gunnlaugsson ársins. Ég ætla að vera á uppbyggilegum nótum: popplag ársins verður sem sagt valið hér í Næsta kafla. Á þessu ári hafa dáið nokkrir tónlistarmenn – kannski ekki rétt að kalla þá alla poppara (án þess að ég hugsi eitthvað niðrandi um það orð, þvert á móti): Leonard Cohen, Prince, George Michael, Leon Russell, Merle Haggard, Phife Dawg (Tribe Called Quest), Maurice White (Earth, Wind and Fire), Paul Kantner (Jefferson Airplane) – ég er eflaust að gleyma einhverjum nöfnum – og síðast en ekki síst þrír popparar sem unglingurinn ég hlustaði hvað mest á þegar unglingurinn ég var unglingur (þótt tveir þessara tónlistarmanna, þeir tveir fyrstnefndu, hafi mjög fljótlega, eða á ofanverðum unglingsaldrinum, verið kippt út af mínum persónulega vinsældarlista og ekki sést þar aftur): Glenn Frey (The Eagles) og Greg Lake (Emerson, Lake & Palmer). Sá þriðji er auðvitað David Bowie. Ekki það að Glenn Frey og Greg Lake séu ekki fínir tónlistarmenn; maður gat bara ekki lengur verið þekktur fyrir að halda upp á þá. Og getur í raun ekki enn – svona er maður svakalega hégómlegur. Og spéhræddur. (Það er samt eitt lag með ELP sem ég rifja stundum upp, án þess þó að hlusta á það; og nokkur lög með The Eagles sem ég slekk ekki á, gerist það að þau byrji allt í einu að hljóma úr útvarpstækinu.) En ókei, þetta er orðinn alveg nógu langur formáli að lagi ársins. Það þarf heldur engan heilaskurðlækni eða geimvísindamann til að finna út hvaða tónlistarmaður á lag ársins að mati Næsta kafla. Það er sem sagt ekki Glenn Frey eða Greg Lake, heldur David Bowie. Lagið kemur samt ekki af plötunni sem hann gaf út tveimur dögum áður en hann dó, í janúar, heldur af plötunni með lögunum úr Lazarus-söngleiknum, þeirri sem kom út í október. Þær plötur voru reyndar tvær: ein með lögunum úr söngleiknum, mestanpart sungnum af leikurunum, en samt líka David Bowie, og síðan önnur með fjórum lögum með David Bowie: Lazarus (af Blackstar) og þremur öðrum sem hann tók upp samhliða Blackstar-lögunum. Þau lög heita No Plan, Killing a Little Time, og When I Met You. Og lag ársins er … No Plan. Þá er það komið á hreint. Næsti kafli hefur valið lagið No Plan sem popplag ársins. Hér mun það þó ekki hljóma í útgáfu Davids Bowie sjálfs (hún er ekki tiltæk á youtube, fólk verður að kaupa plötuna – sem ég mæli með: auðvitað á fólk að kaupa plötuna), heldur í hinni „Verzlunarskólalegu“ útgáfu úr Lazarus-söngleiknum. Útgáfa höfundarins á þessu lagi finnst mér absólút með því besta sem hann gerði – afsakið hátíðleikann – en þessi útgáfa hér, með söngkonunni Sophia Anne Caruso, er líka fín; það er eitthvað mjög krúttlegt við þennan yfirdrifna og nánast naívíska söng, sem, eins og fyrr segir, minnir svolítið á eitthvað sem ég ímynda mér að hljómi í söngleikjunum sem Verzlunarskóli Íslands setur upp árlega. En hey (svo ég vitni í fræga bíómynd, um aðra popptónlistarmenn), let´s boogie! Hér er lagið:

28. desember (held ég) 2016

Eftir á (að minnsta kosti) er myndáhorf gærkvöldsins einhver mest viðeigandi leiðin til að koma út úr jólunum, og ekki síður var valið á myndinni í harmóníu við veðrið sem herjað hefur gegn gluggunum hér á sjöundu hæð í Tungltúni síðustu daga (og gerir enn). Ég horfði á Tórínóhross Béla Tarr – aftur. Sú mynd gerist á sex dögum (sem er kannski mesta kómíkin við hana, því hvíldardaginn vantar); og fyrstu fjóra dagana hvín vindurinn án afláts, ekki bara fyrir utan húsræksni feðginanna, bóndans og dótturinnar, heldur líka innan í óþéttum híbýlunum, og auðvitað líka í hesthúsinu, þar sem viljalaus og lífsþreyttur jálkurinn bíður eftir að draga vagn þeirra í burtu – sem hann fæst síðan ekki til að gera. Þetta er sannarlega áhrifamikil mynd; ein af þeim myndum sem maður spyr sig stöðugt í gegnum áhorfið hvort sé innantómt drasl eða eintóm snilld. Drasl er hún ekki – ég veit ekki af hverju ég læt mér detta í hug slíkt orð. Kannski vegna þess að myndin fær mann stundum til þess að æpa upp yfir sig (hið innra) og spyrja sig hvers vegna í ósköpunum maður láti draga sig í gegnum 146 mínútur hennar. En af hverju datt mér í hug að nefna Tórínóhrossið „viðeigandi leið“ til að fara út út jólunum? (Nú hugsar eflaust einhver: En jólin eru ekki búin; þau eru búin 6. janúar. Í mínum augum – og huga – eru jólin búin kl. 21.45, 26. desember, um það leyti sem jólaboði móður minnar lýkur. Ég hefði því með réttu átt að setja Tórínóhrossið í afspilunartækið kl. 21. 57 í fyrradag, þegar við komum heim úr boðinu hennar mömmu.) En af hverju „viðeigandi leið“? Mér finnst hún eiga mjög vel við á þessum tímapunkti, vegna þess að neysla matar og drykkjar hjá þeim feðginum er á fullkomnu undirstöðustigi (andstætt því sem svo margir kvarta yfir í tengslum við jólin; að allt of mikill matur og drykkur íþyngi þeim yfir hátíðina). Þessi þáttur Tórínóhrossins, neysla matar og drykkjar, er ef til vill mikilvægasta „spurning“ myndarinnar: hringrásin sem persónurnar ferðast eftir. Á kvöldin borða þau fegðin soðna, sjóðheita kartöflu, sem þau strá salti yfir – að vísu borða þau alltaf mjög lítið af kartöflunni; mestur hluti hennar fer í ruslið – og á morgnana fá þau sér staup af palinku (sem er ávaxtabrandí – ég fékk svoleiðis flösku í fimmtugsafmælisgjöf frá Stefáni Jónssyni – mjög góður drykkur); faðirinn fær sér alltaf tvö staup, og fimmta daginn fær hann sér aukasopa beint úr flöskunni. Þetta er þeirra daglega matar- og drykkjaræði. Í einni af eftirminnilegustu senum myndarinnar kemur nágranni í heimsókn (annars ekki mikið um heimsóknir eða annað fólk í myndinni) til að kaupa af þeim flösku af palinku. Þetta er ekki í eina skiptið í myndum Béla Tarr þar sem fólk leggur á sig langa leið til að ná sér í ávaxtabrandí; en í þessari senu finnst mér kristallast það sem einna helst heillar mig í myndum leikstjórans: það hvernig hlutir eru færðir til, og hversu mikil alúð er lögð í að sýna þá færslu. Þetta á vitaskuld ekki síður við um fólk og dýr. Ég stenst ekki þá freistingu að láta senuna fylgja (fyrst hún er tiltæk á youtube) – það er á 1.30 til 1.47 sem dóttirin kemur með brandíflöskuna, og setur hana á borðhluta föðurins, sem aftur rennir henni í átt að nágrannanum, sem síðan kemur henni lengra í burtu frá föðurnum, eins og til að eigna sér hana:

Einræða nágrannans er ekki síður einkennandi element í myndum Béla Tarr. Þótt stundum bjóði hann upp á yndislega kómísk samtöl, ekki síst í myndinni Satanstangó, þá eru einræður persónanna algengari – heimspekilegar yfirlýsingar sem oftar en ekki virka fremur „sljóbeittar“, enda oft mikið af palinku í blóði þeirra sem þær flytja. Það er líka skemmtilegt, í þessu broti með föðurnum og nágrannanum, hvernig sá sem hlustar (eða hlustar ekki) bandar einræðunni frá sér sem einskisverðu bulli. En hvernig samskipti persóna í myndum Béla Tarr eru dregin upp er kannski ekki svo ólíkt því hvernig áðurnefnd færsla hlutanna er sýnd. Mín upplifun er sú að í þessu sé „merking“ myndanna falin; það er þetta sem heillar mig mest við verk Béla Tarr, og fær mig til að horfa á þau aftur. Auðvitað finnst manni miður að hann ætli sér ekki að gera fleiri myndir, en um leið er það aðdáunarvert – ef rétt er (kannski nennir hann einfaldlega ekki að búa til fleiri myndir) – að honum finnist hann ekki þurfa að hafa þær fleiri; að hann sé búinn að segja það sem hann ætlaði sér að segja. Eflaust hafði ég í huga að slútta þessari eftirjólafærslu með einhvers konar útleggingu á því síðastnefnda, að listamaður líti svo á að hann hafi ekki neitt fleira að segja; en það verður að bíða betri tíma – hún hræðir mig alltaf, þessi tilhugsun.

24. desember 2016

Næsti kafli óskar lesendum sínum gleðilegra jóla! (Ég ætla að bíða með gott nýtt ár – það verður í næstu viku.) Í 105 hefur Rameau verið hirðtónskáldið fyrir þessi jól. Hann verður það líka í Næsta kafla – í vefheimum (kann ekki svæðisnúmerið þar).

22. desember 2016 (aukafærsla)

Nokkur orð í viðbót um Brian Eno. Á nýjustu plötu sinni, The Ship, gerir hann eigin útgáfu af hinu undursamlega lagi Velvet Underground, I´m set free. Auðvitað ber manni að lýsa því yfir að þessi útgáfa Enos jafnist ekki á við þá upprunalegu, með Lou Reed og félögum, en mér finnst hún virkilega fín; hún er eiginlega alveg frábær. I saw my head laughing / Rolling on the ground. Hér er Eno (og síðan Velvet Underground og texti Lous í framhaldi):

 

I’ve been set free and I’ve been bound

To the memories of yesterday’s clouds

I’ve been set free and I’ve been bound

 

And now I’m set free

I’m set free

I’m set free to find a new illusion

 

I’ve been blinded but

You I can see

What in the world has happened to me

The prince of stories who walk right by me

 

And now I’m set free

I’m set free

I’m set free to find a new illusion

 

I’ve been set free and I’ve been bound

Let me tell you people

What I found

I saw my head laughing

Rolling on the ground

 

And now I’m set free

I’m set free

I’m set free to find a new illusion

22. desember 2016

Af öllum þeim lúxusvandamálum sem hrjá mann þessa dagana er eitt sýnu verst: ég hef ekki getað hlustað á Bob Dylan síðan hann fékk nóbelsverðlaunin. Þetta vandamál er of djúpstætt til að ég treysti mér til að reyna að útskýra. En til allrar hamingju er til önnur tónlist en Bob Dylan. Sibelius hefur reynst betri en enginn, auk þess sem upprifjun á poppplötum Brians Eno frá miðjum áttunda áratugnum hefur verið góð. Before and after science sérstaklega. Svo eignaðist ég nýju plötuna með Tribe Called Quest, þá fyrstu sem þeir gefa út í átján ár, og hún nær ekki einungis að heilla mig, heldur er tíu ára einstaklingur á heimilinu sem er „hokked“. Getur hugsast að ég sé kominn í einhvern jóla- eða áramótagír – að vera að rifja svona upp einhverja neyslu á árinu? Ég ætti auðvitað frekar að tala um Sýrland, Berlín, Dónald – sem er auðvitað líka frekar mikið „áramóta“ – og þann óhug sem leitar á mann við tilhugsunina um að Björt framtíð muni leiða Sjálfstæðisflokkinn til valda; en nei, ég hefi tekið þann pólinn í hæðina að ræða tónlistarneyslu mína síðustu vikurnar. Ég ætti líka að segja frá minni gleðilegustu leikhúsupplifun (ævinnar), þegar ég sá No man´s land eftir Pinter í London fyrr í desember; en það gerist síðar. Ég verð nefnilega líka svo ergilegur þegar ég hugsa um þá reynslu, því hún rifjaði svo harkalega upp fyrir mér hina skelfilegu uppfærslu Þjóðleikhússins á Heimkomu Pinters á síðasta ári. Ég ætla að geyma mér að verða meira ergilegur yfir því þangað til á næsta ári, eða kannski bara fram yfir jól. En núna, þegar langþráður snjórinn er sestur á svalagólfið fyrir utan gluggann, og tréstyttan af Cervantes og bandaríski jólabangsinn horfa á mig af vinstra horni skrifborðsins, verð ég að setja einn popp-Eno á fóninn. Backwater (ef ég finn það lag á youtube):

20. desember 2016

Eitt það einkennilegasta – og sorglegasta – sem ég hef upplifað á þessu ári gerðist í hádeginu í gær. Ég var staddur í matvöruverslun, ávaxtadeildinni, þegar ungur starfsmaður búðarinnar, varla eldri en tvítugur, gekk upp að öðrum starfsmanni, stúlku á svipuðum aldri, og sagðist rétt í þessu hafa verið að fá „alveg hræðilegt símtal“, besti vinur sinn hefði dáið í nótt. Drengurinn var skiljanlega í losti. Mér var auðvitað ekki ætlað að heyra þetta, en ég komst ekki hjá því; og það fyrsta sem ég hugsaði um var hvort ég ætti að ganga upp að drengnum og votta honum samúð mína. Ég er enn að hugsa um hvort ég hefði átt að gera það. Ég er líka enn að hugsa um hvort ég eigi að segja frá þessu hér.

19. desember 2016

Núna ætla ég að setja inn færslu í þeim eina tilgangi að koma að þýðingu Helga Hálfdanarsonar á ljóði Arthurs Rimbaud, Í GRÆNU KRÁNNI, klukkan fimm að kvöldi. „Í viku hafði ég hruflað mína skó,“ og svo framvegis. Ekki það að einhver tilgangur þurfi að réttlæta færslu á bloggsíðu (ef þetta er þá bloggsíða; ég er ekki viss um að hún flokkist sem slík); og ekki heldur það að einhver brýn þörf sé á að birta þýðingu Helga á ljóði Rimbauds. En svo langaði mig í leiðinni – og þar með er kannski kominn raunverulegur tilgangur með öllu saman – til að tala illa um jólabókaflóðið. Þetta er sem sagt orðið ansi gott upplegg sem ég er kominn með fyrir þennan „næsta kafla“. Ég fór í spjall í Ríkisútvarpinu í fyrradag; það fór fram í bókabúðinni í Austurstræti, og þar var samankominn heill hellingur af rithöfundum og þýðendum og tónlistarfólki. Ásamt Sölva Birni Sigurðssyni, Sigurði Pálssyni og Kristínu Svövu Tómasdóttur átti ég að spjalla um nýútkomnar ljóðaþýðingar. Kristín átti að tala um nýja þýðingu sína á kúbanska skáldinu Virgilio Piñera, Sigurður og Sölvi um Rimbaud og Willem M. Roggeman, og ég um þýðingar okkar fimmmenninganna (Olgu, Áslaugar, Óskars og Magnúsar) á Ewu Lipsku. Og þetta gerðum við, allt undir stjórn Jórunnar Sigurðardóttur. En áður en spjallið hófst, þá talaði ég aðeins við Sölva og Kristínu, og Arngunni Árnadóttur, og það samtal (sem ekki taldi nema á bilinu 100 til 120 orð) snerist nær eingöngu um það hversu vont fyrirbæri jólabókaflóðið væri. Nú þarf ég reyndar – í þessum skrifuðu orðum – að gera upp við mig hvort ég eigi að tjá mig eitthvað frekar um jólabókaflóðið umfram það sem ég gerði í félagsskap Sölva, Kristínar og Arngunnar. Ég hallast að því að svarið verði nei; að ég eigi ekki að tala meira um jólabókaflóð. Maður verður svo leiðinlegur (án þess þó að ég óttist það mjög að verða leiðinlegur – að vera leiðinlegur er eðlilegt ástand). Kannski nægir í þessu sambandi að minna á þá staðreynd að í þessu „hamingjusama“ flóði nóvember- og desembermánaðar hefur ekki verið skrifaður einn stakur stafur í fjölmiðlum um nýja ljóðabók Magnúsar Sigurðssonar, Veröld hlý og góð. Magnús gefur út hverja frábæra ljóðabókina á fætur annarri, á milli þess sem hann þýðir önnur ljóðskáld, en nánast ekkert er skrifað um þær bækur, á meðan hóað er í alla tiltæka starfsmenn fjölmiðlanna til að skrifa dóma (eða tilkynningar með stjörnugjöf) um hverja einustu glæpasögu sem rennur vélrænt gegnum vélar prentsmiðjanna, og þaðan átómatískt inn í jólapakkana, undir jólatréð, í hendur lesendanna og þaðan inn í huga þeirra, þar sem þær síðan deyja (eftir að búið er að finna morðingjann). En ég ætlaði að rifja upp þýðingu Helga Hálfdanarsonar á Grænu kránni. Ég minntist nefnilega á það ljóð í Ríkisútvarpsspjallinu á laugardag, í tengslum við Rimbaud-þýðingar Sigurðar og Sölva. Það sem þetta ljóð hefur lifað í huga mínum frá því ég las það fyrst; ég held þetta sé einhver mest inspírerandi samsetningur í ljóðaformi sem ég þekki (plús auðvitað önnur ljóð eftir Rimbaud – og Baudelaire ekki síður). En ekki meira um það: hér kemur

GRÆNA KRÁIN

klukkan fimm að kvöldi

 

Í viku hafði ég hruflað mína skó

á hrjúfu grjóti vegarins, er mig bar

að Grænu kránni. Þar bað ég um brauð, og nóg

af bezta smjöri, og flesk. Ég hvíldi mig þar

 

í góðu skapi, með skankana teygða við borð,

og skoðaði mynd, sem hékk þar litrík og gljáð

á vegg, – þegar stúlkan, ó! nú skortir mig orð!

með ofsa-brjóst og fjörmikið augnaráð,

 

– sú hláturmilda, sem ekki er alltof feimin

við einn koss! – var þar komin, með brauð og smér,

og rósóttan disk með fleski, og færði mér,

 

já, flesk, rósrautt og hvítt, með ljúffengan eiminn

af lauk! – og hellti unz feikna krús var full

af freyðandi bjór sem skein í kvöldsól sem gull.

16. desember 2016

Dagsetningin er of falleg til að láta hana eiga sig (jafnvel þótt hún sé samsett úr sléttum tölum). Ég fór í jólaföndur Rithöfundasambandsins í gær. Í Gunnarshúsi. Þar var ekki svo margt um manninn – hefur verið margmennara (er þessi mynd orðsins í raun og veru til: margmennara?) – en einn höfundanna hafði orð á því að það væri góðmennt. Kannski hefði ekki verið góðmennt hefði sá sem lýsti því yfir (að væri góðmennt) ekki verið meðal gesta. Átti hann ef til vill við okkur tvo þegar hann lét þessi orð falla: að vegna þess að við tveir, ég og hann, værum á staðnum, væri góðmennt? Ég fæ seint svör við þessum spurningum. En góðmennt er einkennilegt orð. Ekki síður en orðið einlægni, sem ég gerði að umtalsefni í fyrradag. (Samkvæmt Árna og Merði þýðir einlægni hreinskilni, það að vera einlægur: 1 sá sem liggur einn, stakur 2 hreinskilinn 3 trúr, tryggur 4 fastráðinn 5 sífelldur, osfrv.) En aftur að góðmennt. Góðmennt gæti verið einhvers konar fag. „Hann er útskrifaður úr góðmennt.“ „Hún lærði góðmennt í fjögur eða fimm ár.“ Sömuleiðis er margmennt athyglisvert orð. „Hann kenndi margmennt í fjölda ára.“ (Þetta hljómar auðvitað svolítið eins og Þórarinn Eldjárn að velta fyrir sér orðum í íslenskri tungu. Kannski er hann nú þegar búinn að afgreiða þessi orð.) En núna ætla ég að snúa athyglinni að annarri veislu en jólaföndri Rithöfundasambandsins, þótt margt megi rifja upp frá þeirri samkomu, ekki síst „færslur“ höfunda á milli „samtalshópa“ á gólfinu, sem er alltaf mjög vert umhugsunar- og umtalsefni. Í þeirri veislu sem ég ætla að hugsa um núna var einnig góðmennt, og að mig minnir frekar margmennt, að minnsta kosti framan af. Þetta var á Bræðraborgarstígnum. Eða við Bræðraborgarstíginn. Á horni Bræðraborgarstígs og Bárugötu. Ástæðan fyrir því að ég leiði hugann að þessu er sú að ég las viðtal og umfjöllun um Sigurð Pálsson skáld í Stundinni í gær. (Nú er ég búinn að nefna tvo höfunda „fyndnu kynslóðarinnar“ í þessari færslu: Þórarinn og Sigurð.) Ég orti nefnilega ljóð um Bræðraborgarstígsveisluna, sem ég birti í bókinni Rómantískt andrúmsloft árið 2012. Ljóðið er eins konar textaskreyting við ljósmynd sem var tekin af okkur Sigurði Pálssyni í þessu boði – mig minnir að þetta hafi verið árið 1988 eða 9. Auðvitað ætti ég að láta sjálfa ljósmyndina fylgja (eins og ég gerði fyrr á þessari síðu minni, þegar ég birti ljóðið Ljósmynd af stefnumóti Benedikts páfa og forseta Íslands í Vatikaninu úr sömu bók), en vegna tillitssemi við okkur báða, Sigurð og mig, ætla ég að láta nægja að rifja upp textann, ekki myndina. Ljóðið heitir photo opportunity:

manstu Sigurður

þegar við sátum í stofunni á Bræðraborgarstígnum

og það var veisla

vegna þess að óvænt gafst tilefni í vinahópnum

 

til að halda veislu og veislan

var ennþá veisla undir morgun næsta dags

og þá kom aðvífandi Janet

sú ameríska með aflitaða hárið

 

sú sem í raun var tilefni fagnaðarins

hún kom dansandi með hendurnar út í loftið

eins og miðill í miðjum transi

sem ekki hefur eirð í sér

 

til að sitja á stól sínum

eins og eitthvað í umhverfinu

sé áþreifanlegra en það

sem hann er að hugsa

 

og við sátum enn

og horfðum fram þótt engu væri líkara

en að miðill væri að störfum fyrir aftan okkur

við sátum þarna ennþá

 

í stofunni

í reykmettaðri stofunni

og miðpunktur gleðinnar

hafði færst yfir í eldhúsið

 

og Janet

Janet var enn í sínum djúpa transi

fyrir aftan okkur

og þá villtist inn í stofuna einn samkvæmisgesturinn

 

og sá var með vél í höndunum

og hann beindi vélinni að okkur

þar sem við sátum í djúpu plussinu

og það var tekin af okkur ljósmynd

 

án þess hún væri af okkur

án þess hún væri af okkur

14. desember 2016

20150605_173104

Í Fréttablaði dagsins í dag er dómur eftir Magnús Guðmundsson um nýtt smásagnasafn Andra Snæs Magnasonar, Sofðu ást mín. Þar er fimm sinnum talað um einlægni. Ég held að með þessari umsögn sinni hafi Magnús „farið yfir um“, eins og Steinn Steinarr taldi að Kristmann Guðmundsson hefði gert með útgáfu bókar sinnar Félagi kona. Hvers vegna einlægni í skáldskap? Er hún góð? Verður skáldskapur betri ef skammturinn af „einlægni í tilfinningalífi“ sögumanns eða höfundar er meiri en minni. Ég leyfi mér að stórefast um það. En eins og ég nefndi, þá er það Magnús Guðmundsson sem skrifar dóminn um bók Andra Snæs, ekki Andri Snær sjálfur, þannig að ég ætla ekki að „dæma“ Andra Snæ fyrir einhverja óþarfa einlægni (eða skort á einlægni, sem Magnús segir reyndar á einum stað í dómnum að mætti vera meiri í texta Andra); og það má líka alveg fylgja, svo því sé haldið til haga, að ég hlakka í raun og veru mikið til að lesa þessar smásögur Andra Snæs. Sú tilhlökkun er alls ekki sprottin af því að mig langi til að „bragða á“ allri hinni meintu einlægni Andra Snæs – það er „einlæg“ tilhlökkun. Annars stenst ég ekki þá freistingu að líma inn í færsluna þessi fimm skipti þar sem minnst er á einlægni í dóm Magnúsar:

„Sofðu ást mín er ótvírætt ein per­sónulegasta og einlægasta bók Andra Snæs til þessa. Vel að merkja þá þýðir það ekki að höfundurinn hafi ekki lagt líf og sál í fyrri bækur, heldur finnur lesandinn hér meira fyrir per­sónu höfundarins og jafnvel einka­lífi með mun afdráttalausari hætti en áður.“

„… enda finnur lesandinn þar vel fyrir einlægni í tilfinn­ingalífi sögumanns og höf­undinum sjálfum.“

„Það er reyndar áberandi hversu miklu betur Andra Snæ tekst upp þegar málin virðast snerta hann persónu­lega og hann leyfir ein­lægri en sjálfsgagnrýnni rödd að njóta sín.“

„… og það veldur því að persónurnar verða ekki alveg jafn raunverulegar, einlægar og djúpar og í hinum sögunum. Þar með rennur tækifærið til samlifunar aðeins frá höfundi en það er í raun aðeins í þessari einu sögu.“

„Allt hefur það verið unnið af vandvirkni og metnaði en hingað til er ekki laust við undir­ritaður hafi á stundum saknað til­finningar og einlægni. En hér kveður við nýjan og persónulegri tón sem er óskandi að Andri Snær nái að vinna með áfram og virkja til góðra verka í komandi skáldverkum.“

5. desember 2016

NÁMSKEIÐ Í LISSABON

til Dags Sigurðarsonar

Vegna skorts á lýsingarorðum fór einn barþjónninn á Brasileira á námskeið í tungu sinni. Eftir þrjár vikur þegar hann sneri aftur til starfa hafði allt tekið breytingum; eldri kona sem setið hafði við sama borð frá því elstu menn mundu, og lesið í þykkri bók, var dáin, og í stað andlitsmynda á veggjum var kominn spegill svo djúpur að verð hafði hækkað á drykkjum. Þjónninn gat ekki fundið eitt einasta orð til að lýsa því sem hann sá! Eitt andartak fannst honum sem námskeiðið hefði verið sóun á tíma og peningum en með hjálp starfsfélaga sinna sættist hann á að nú væri lýsinga ekki þörf; námi hans væri lokið og breytingunum myndi hann venjast áður en vissi.

(úr Ansjósum, 1991)

29. nóvember 2016 (aukafærsla nr. 2)

Eggjamálið brúna verður enn svartara með hverri mínútunni sem líður. Í viðtali við Vísi punktur is er brúni eggjamaðurinn beðinn um að útskýra myndskeiðin sem birt voru í Kastljósi í gærkvöldi, og hann játar (óumbeðinn) að hafa slátrað þeim sem tóku myndirnar:

Hvernig útskýrirðu þá myndskeiðin sem birt voru í Kastljósi? 

„Þessi myndskeið höfum við reyndar ekki séð áður og þau voru tekin af hópi sem var slátrað stuttu síðar.

29. nóvember 2016 (aukafærsla)

Vigdís Hauksdóttir, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, segir að umfjöllun RÚV um Brúnegg sé gerð „til þess að knésetja íslenskan landbúnað.“ Það sé „agenda RÚV og “góða fólksins”.“ Þetta kemur fram á Facebook­síðu Vigdísar. Þar sakar hún Kastljós líka um að falsa myndirnar sem birtust í þættinum í gærkvöldi og segir þáttinn þekktan fyrir að falsa myndir með umfjöllun. „Voru þessar myndir frá búinu? Voru þessar myndir kannski frá öðru hæsnabúi í öðru landi? Kastljós er þekkt fyrir að falsa myndir með umfjöllun – væri einnar messu virði að senda fyrirspurn um það“

Þá segir Vigdís að Ríkisútvarpið stundi falsanir og „3.600 milljónir renna úr vasa okkar landsmanna inn í þessa skoðanamyndandi stofnun – það var maður sem hafði samband við mig í gær og sagði mér að starfsmannafjöldinn á RÚV væri kominn yfir 700 manns með verktökum – hvenær er nóg nóg?“ segir hún á Facebook. (Kjarninn, 29. nóvember 2016)