Útvarpsleikrit

Augnrannsóknin

Frumflutt 4. nóvember 2001 (umfjöllun Mbl)

Þar segir frá fasteignasalanum Maríusi sem dag einn fær þær fréttir að litla dóttir hans hafi verið í augnrannsókn og læknirinn vilji hafa tal af honum. Maríus kemur af fjöllum og hefur ekki hugmynd um hvað er á seyði. Hann heldur af stað, ásamt félaga sínum Gunnari, í þeim tilgangi að leita uppi eiginkonu sína og fá frekari upplýsingar um málið. Þannig verður ófyrirséð aukaatriði á venjulegum starfsdegi fasteignasala að flóknu stórmáli í lífi fjölskyldumanns.

Bragi sagði í samtali við Morgunblaðið að þetta væri raunsæ lýsing á fólki í Reykjavík nútímans. “Það kemur á daginn að Maríus veit nánast ekki neitt um hagi fjölskyldu sinnar, hann veit ekki hvar konan hans vinnur og hefur ekki hugmynd um hvar dóttir hans er niðurkomin. Hann fer í vinnuna á morgnana og þær eru komnar heim þegar hann snýr aftur úr vinnunni. Meira veit hann ekki fyrr en þennan dag,” segir Bragi.

“Atburðarás Augnrannsóknar er byggð óbeint á sönnum atburðum; ég segi ekki að þetta hafi gerst nákvæmlega svona en eitthvað í þeim dúr. Ég er líka að fjalla svolítið um skynfærin, hvernig við beitum þeim, hvað við sjáum og hvað við heyrum.”

“Mér líkar vel að skrifa fyrir útvarpsleikhúsið,” segir hann. “Útvarpsleikhúsið er skemmtileg stofnun en verst er að hafa á tilfinningunni að leikritin nái ekki hlustum margra og að þeir sem hlusta séu flestir í eldri kantinum, að ekki sé meira sagt. Það er synd því útvarpsleikritun er skemmtilegt form sem býður upp á endalausa möguleika.”

Augnrannsókn er annað útvarpsleikrit Braga en eftir hann hefur m.a. komið út skáldsagan Hvíldardagar og á næstu dögum er væntanleg ný skáldsaga eftir hann, Gæludýrin, sem að sögn er Reykjavíkursaga úr samtímanum.

Leikendur í Augnrannsókn eru Harpa Arnardóttir og Bergur Þór Ingólfsson og leikstjóri er Hjálmar Hjálmarsson. Hljóðvinnslu annaðist Hjörtur Svavarsson.

Gróið hverfi

Frumflutt sunnudag 18. maí; endurtekið fimmtudagskvöld 22. maí 2003  (Umfjöllun Mbl)

Eins og í fyrri leikritum Braga skarast hér ímyndun og raunveruleiki og í óvissunni sem skapast býr ógn. Galdurinn við nálgun Braga er að hann kemur alltaf að viðfangsefninu úr nýrri átt. Persónurnar í Sumardeginum fyrsta (1996) bjuggu í órökrænni fullvissu sem einkenndist af ranghugmyndum og áráttuhegðun. Í Augnrannsókninni (2001) réð martröðin ríkjum og persónurnar bjuggu í ringulreið algjörrar óvissu, enda reyndist ekkert eins og við mátti búast við nánari athugun.

Í Grónu hverfi er hversdagsleiki nútímans ráðandi afl, en að honum sækja dularfull öfl úr fortíðinni. Þessir tveir heimar skarast í gömlu húsi í Þingholtunum þar sem íbúarnir reyna að henda reiður á því sem fram fer. Á yfirborðinu er sagan rakin skilmerkilega með hjálp sögumanns en undir niðri kraumar óreiðan sem Braga finnst svo gaman að fjalla um. Þeim upplýsingum sem áheyrandinn viðar að sér úr samtölum persónanna ber ekki að öllu leyti saman – að vísu nóg til að heimur verksins hangi saman en áhorfandinn verður jafn forviða og persónurnar þegar ómögulegt reynist að skipa hinum dularfullu atburðum í rökrænt samhengi.

Óskar Jónasson leikstjóri nálgast efniviðinn af varfærni og forðast að ýkja um of viðbrögð persónanna. Leikurunum tekst því að koma vel til skila ógninni sem fylgir í kjölfar óvissunnar sem ríkir, auk lágt stemmds spaugsins sem felst í skringilegum tilsvörum. Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir lék hina skapmiklu aðalpersónu frábærlega; Margrét Vilhjálmsdóttir og Kjartan Guðjónsson drógu upp snaggaralegar myndir af vinkonunni og eiginmanninum; Ingvar E. Sigurðsson skilar afar hófstilltum leik í lykilhlutverki, þar sem ekkert má vera of eða van; Steindór Hjörleifsson og Margrét Ólafsdóttir nostruðu við gömlu hjónin og Karl Guðmundsson leiddi áhorfendur kíminn í bragði í þessa ferð um hugarheim Braga Ólafssonar, sem olli ekki vonbrigðum nú frekar en endranær.

Sumardagurinn fyrsti

Leave a Reply