Fjarveran bókakápa

Fjarveran

Fjarveran er sjötta skáldsaga Braga Ólafssonar. Aðalpersóna sögunnar er íslenskufræðingurinn og prófarkalesarinn Ármann Valur Ármannsson, en hugsanlegt er að lesendur skáldsagna Braga muni eftir þeim manni úr tveimur öðrum sögum hans, Sendiherranum og Gæludýrunum.

Ármann Valur Ármannsson er íslenskufræðingur og prófarkalesari. Lengst af hefur hann fengist við að lesa yfir texta eftir aðra, en núna, þegar hann er kominn á sjötugsaldur, hefur hvarflað að honum að ef til vill ætti hann að einbeita sér meira að eigin skrifum. Það eina sem hefur birst eftir hann opinberlega hingað til er 218 orða texti sem vinur hans, tónskáldið Markús Geirharður, setti við músík sem hann samdi fyrir rödd, strengi og útvarpshljóðbylgjur. Verkið var gefið út á hljómplötu en náði ekki mikilli útbreiðslu, enda mjög framsækið verk og sérstakt. Textinn hefur einnig þá sérstöðu að hugsanlega – reyndar mjög líklega – felast í honum mikilvægar upplýsingar sem varða óupplýst mannshvarf, sem vill svo til að er frægasta mál íslenskrar sakamálasögu, Geirfinnsmálið. Textann samdi Ármann eftir að hann hleraði samtal tveggja manna á veitingastaðnum Klúbbnum í nóvember 1974, tveimur dögum áður en Geirfinnur hvarf. Fyrir utan þá Ármann og Markús veit hins vegar enginn neitt um raunverulega merkingu textans, ekki einu sinni söngvarinn sem flutti hann á plötunni. En mikilvægar upplýsingar eru ekki lengur spennandi þegar þær eru komnar upp á yfirborðið. Og hver þekkir mikilvægi spennunnar betur en prófarkalesarinn?

Kaupa bókina á vef Forlagsins