Gagnrýni TMM

Silja Aðalsteinsdóttir, tmm.is, 28. febrúar:

Glæpasaga úr Hlíðunum

Það sem Bragi Ólafsson gerir svo snilldarlega í verkum sínum, skáldsögum og leikritum, er að leiða mann inn í aðstæður sem eru raunsæjar og eðlilegar og vinna með þær, á máta sem freistandi er að kalla ofur-raunsæjan, þangað til þær verða óbærilegar. Um leið og viðtakandi hlær geðveikislega fer honum að líða illa; hann fer að skammast sín og taka andköf þótt hann eigi enga sök á því sem fram fer. Bragi þvælir lesendum sínum og áhorfendum svo rækilega inn í það sem persónurnar taka sér fyrir hendur að þeir komast ekki hjá því að samsama sig þeim.
Kjarni Hænuunganna eftir Braga sem voru frumsýndir í Kassanum í Þjóðleikhúsinu í gærkvöldi er setning sem aðalpersónan, Sigurhans vínilplötusafnari (Eggert Þorleifsson), segir að minnsta kosti tvisvar: “Þjóð sem lætur völdin í hendurnar á þjófum og glæpamönnum, hlýtur að gera ráð fyrir að einhverju verði stolið frá henni.” Þetta sannast svo jafnvel á þeim sem síst skyldi í rás viðburða og er ekki rétt að tíunda það frekar – nema minna á orð sálmaskáldsins: Það sem helst hann varast vann, varð þó að koma yfir hann.

Svo fór í gærkvöldi að ég lifði mig ekki inn í líf og hversdagsbrjálsemi aðalpersónunnar Sigurhans heldur konunnar hans, Olgu (Ragnheiður Steindórsdóttir). Leiksýning er nefnilega að því leyti betri en skáldsaga með einni vitundarmiðju að hún gefur manni kost á að velja sér bandamann. Olga er væn og skynsöm kona, en hún á þennan mann og eins og allar vænar konur reynir hún í lengstu lög að ganga með honum þá braut sem hann vill endilega ganga: Að efna til húsfundar þar sem hann ætlar að neyða feðgana í næstu íbúð, Carl (Pálmi Gestsson) og Anastasías (Friðrik Friðriksson), til að játa – með flóttalegum svip ef ekki beinni játningu – að hafa stolið frosnum kjúklingum úr frystikistunni í kjallarageymslu þeirra hjóna. En Olga á eftir að sjá beisklega eftir að hafa látið þetta eftir manni sínum því hún áttar sig fljótlega á því að Sigurhans er á kolrangri leið í ásökunum sínum og reynir með öllu móti að þagga niður í honum – nema hinni augljósu leið að segja honum að grjóthalda kjafti, því svoleiðis segir ekki væn eiginkona við manninn sinn. Látæði Ragnheiðar í þessu erfiða hlutverki var listilega unnið og hún átti samúð mína alla.

Aðdáun mína hlaut jafnvel enn frekar (ef hægt er) Kristbjörg Kjeld í hlutverki Elínar gömlu á efri hæðinni sem er kölluð á húsfundinn sem eins konar vitni Sigurhans og leið hans til að láta þetta ekki líta út eins og beina ásökun um þjófnað heldur umræðu um sameiginlegan vanda íbúa hússins. Kristbjörg skapaði flunkunýja persónu í Elínu, og má það teljast til tíðinda, svo margar ólíkar kerlingar sem hún hefur sýnt okkur á undanförnum árum. Ég minni bara á tvær þær síðustu, Mömmu Gógó sem hún fékk Edduna fyrir í gærkvöldi og Villu/Millu í Utan gátta. Elín er algerlega í sínum eigin heimi þar sem hún spjallar við húsfundarmenn. Fundarefnið fær hún aldrei að vita en skemmtir sér hið besta með því að rabba við feðgana og móðga þá til skiptis án þess að hafa hugmynd um það. Meistaraleg meðferð á meistaralegum texta.

Eiginlega nær sú einkunn yfir alla í þessari sýningu, og má þar þakka bæði leikurum og leikstjóra. Eggert Þorleifsson er óþolandi persóna Sigurhans lifandi komin með ótal töktum og tiktúrum í orði og æði. Mann langar á köflum til að taka hann og hrista hann duglega en skilur um leið af hverju kona hans getur ekki hamið hann, hvað þá lamið. Pálmi Gestsson var fullkomlega sannfærandi sem hinn aðþrengdi og óhamingjusami Carl Böhmer (“er það ekki eitthvað þýskt?” spyr Elín með óviljandi meinfýsi) og Friðrik Friðriksson vakti samstundis samúð manns sem vesalings sonur hans. (“Það er stúlkunafn, er það ekki rétt hjá mér?” spyr Elín enn og heyrir aldrei að nafnið endar á s-i sem gerir allan mun.) Persónan sem kemur að utan og veldur ýmsum óróa er Lillý, dóttir Þórodds, nýlátins einbúa á efri hæðinni. Hún er að taka til í eigum föður síns og greinilega að gera ýmislegt annað sem ekki þolir fyllilega dagsljósið. Hver þáttur hennar er í dramatískum atburðum verksins er everybody’s guess, eins og Sigurhans myndi orða það, og mun verða efni í rökræður meðal allra þeirra sem sjá þetta dýrlega stykki. Lillý lék Vigdís Hrefna Pálsdóttir og dró listilega vel fram tvíræða, margræða eða jafnvel óræða merkingu persónunnar.

Stefán Jónsson leikstjóri bætir hér vænni rós í sitt listræna hnappagat. Það gerir Börkur Jónsson leikmyndahönnuður líka sem býr til fjölbýlishús í Hlíðunum á sviðinu, snjalla myndræna hliðstæðu við ofurraunsæi textans. Ríkey Kristjánsdóttir hannar skínandi skemmtilega búninga á þessar skrautlegu persónur; sérstaka aðdáun mína vakti fallegur búningur Ragnheiðar Steindórsdóttur sem dró vel fram fegurð hennar og sjarma. Og ljósin, þau skipta merkilega miklu máli, því þótt þetta sé “stofuleikrit” fær það hugtak víkkaða merkingu í þessu verki. Þau hannar Halldór Örn Óskarsson og þau eiga jafnvel til að stela senunni.

Gætu atburðir Hænuunganna gerst í alvörunni? Já, hver veit nema þeir gerist strax í kvöld, ef ekki í Hlíðunum þá í Laugarnesinu, Breiðholtinu eða Grafarvoginum … Verið á verði!