Til flugsins

Aldregi á ævi minni
upp í flugvél komið hef.
En oft mig dreymir daga langa
dásemd himins meðan sef.

Hugvit mannsins hefur komið
honum ofar skýjahnjúk.
Á milli landa fljótt hann ferðast
með farangur og eigin búk.

Og vélar þessar þykja fínar
og þjónusta er víða góð.
Færð er á bökkum fæða og drykkur
og ferðin er örugg snögg og hljóð.

Hægt er að versla varning margan
við vægri borgun og frjálsan skatt.
Hlutir þeir sem hægt er að eignast
hafa mæður og frændur glatt.

Og sæki að þorsti þarf ei annað
en þrýsta á lítinn rauðan hnapp,
og birtist þá stúlka með blíðum orðum
og býður þér drykki, hvílíkt happ!

Aldregi á ævi minni
upp í flugvél komið hef.
En oft mig dreymir daga langa
dásemd himins meðan sef.