Síðasti kafli fyrsta hluta

Galopinn eldhúsglugginn veitir inn köldu og fersku vetrarlofti. Mér verður ósjálfrátt hugsað til vangaveltna Ármanns um ris og hnig hitans í heiminum; eftir stutta stund mun ég standa mitt á milli þessarar miklu andstæðna (eða hvernig sem hann orðaði það): kuldans inn um gluggann og vatnsins sem ég ætla að sjóða fyrir neskaffið. Ég fylli minnsta pottinn af ísköldu vatni og kveiki á hellunni. Reyndar veit ég ekki hvers vegna ég fylli pottinn fyrir einn lítinn bolla af kaffi; það er bara einhver óþægileg tilfinning sem fylgir því að sjá lítið vatnsmagn sjóða. Líklega óttast ég það innst inni að ég gleymi pottinum á heitri hellunni, að vatnið gufi upp og potturinn brenni og verði svartur að innan.

Síðustu tónar Lonely Fire deyja út. Áður en ég fer aftur inn í svefnherbergi til að svara póstinum frá Vigdísi, sný ég plötunni við og hækka um einn eða tvo. Ég geri mér grein fyrir því að ég hef svolítið hátt stillt, auk þess sem tónlistin sjálf er ekki beinlínis lágvær, en hugsa sem svo að það sé allt í lagi að láta Bellu fyrir ofan vita að ég sé kominn heim. Hún verður eflaust hæstánægð ef eitthvað er að marka það sem Tómas sagði mér rétt áðan, að hún gæti ekki hugsað sér betri nágranna en mig.

Ég virðist vera umkringdur rosknu fólki. Bella sýnist mér vera að nálgast áttrætt, Tómas við hliðina gæti verið í kringum sextíu og fimm ára, og í litla húsinu austanmegin búa fullorðin hjón með miðaldra syni sínum. Þótt ekki hafi verið mikið að marka lýsinguna á íbúðinni þegar ég fann hana í fasteignablaðinu – sérstaklega ekki hvað varðaði fermetrafjölda og frágang – var að minnsta kosti eitt atriði sem stóðst: hún var á rólegum stað.