Regnið séð gegnum fingur mannsins eftir Sturlu Jón Jónsson

Að bendla ljóðlistina við vísindin eða dyggðirnar kallar ekki á neitt nema dauða eða útskúfun; viðfangsefni Ljóðlistarinnar er ekki Sannleikurinn heldur Ljóðlistin sjálf.
(Charles Baudelaire)

Þegar ljóðskáldið er aðeins fimm mínútna leið frá ræðupúltinu minnist það regnsins sem það horfði á gegnum fingur sér fyrr um daginn. Það rifjar upp orð Vitezslavs Nezval um heimaborg sína Prag sem hann horfði á gegnum fingur regnsins, og það minnir sig á að til að skilja myndir Nezvals verður að snúa þeim á hvolf.

Ljóðskáldið sem ferðast frá heimalandi sínu til annars lands í þeim tilgangi að lesa upp kvæðið sitt hefur mikilvægt verkefni með höndum.

Ekki síður en skáldið Egill Skallagrímsson sem bjargaði höfði sínu undan exi Eiríks blóðaxar með því að snara fram Höfuðlausn, tvítugri lofdrápu um konung.

En í dag er enginn Noregskonungur í salnum. Þegar skáldið stígur í pontuna situr hins vegar fyrir framan það hlustandi með jafnmikið vald og Eiríkur blóðöx. Og sá hlustandi hefur að líkindum aldrei áður heyrt ljóð frá landi skáldsins lesið upp áður.

Og hann bíður spenntur. Hann er mættur í salinn til að heyra eitthvað nýtt og komast að einhverju sem hann vissi ekki áður.

Þessi tiltekni hlustandi er ef til vill frá Eistlandi. Og mjög líklega sjálfur kominn til að lesa upp eigin ljóð sem hann hefur samið.

Og í salnum er fleira fólk sem ýmist hefur komið til að lesa upp ljóð sín eða hlusta, nema hvort tveggja sé. Það kemur frá Danmörku. Og Rússlandi. Frá Englandi. Og Argentínu. Það kemur frá nágrannalandinu Póllandi. Og yfir Atlantshafið frá Bandaríkjum Norður-Ameríku. Og Ítalíu. Einn hlustandinn kemur frá Afganistan, annar frá Íran. Sá þriðji frá Noregi, hinn fjórði frá Svíþjóð. Tvennt kemur frá Lettlandi. Aðeins einn frá Þýskalandi. Og frá Hollandi sömuleiðis. Einn hlustendanna í salnum er hvít-rússneskur. Og annar, af sama kyni og sá hvít-rússneski – kvenkyninu – kemur frá Finnlandi. Einn ferðaðist frá Sviss, annar kom frá Úkraínu, en flestir hinna viðstöddu þurftu ekki annað en að ferðast innan Litháen til að mæta í fyrirlestrarsalinn í Druskininkai.

Því það er í Druskininkai, heilsulindabænum í sunnanverðu Litháen, sem þjóðir heimsins hafa safnast saman til að leyfa hver annarri að heyra ljóðin sín.

Og í augnablikinu er aðeins fjögurra mínútna leið að ræðupúltinu fyrir fulltrúa Íslands. Þegar þrjár og hálf mínúta hafa liðið mun hann standa upp af stól sínum í fremstu sætaröðinni við sviðið, og ætla sér hálfa mínútu til að ganga að púltinu og stilla sér upp fyrir aftan það.

Tilfinningin sem bærist innra með skáldinu er annars vegar stolt yfir að hafa verið boðið. Að borgað hefur verið undir það alla þá þrjú þúsund kílómetra leið sem liggur upp að púltinu, og séð um hótelreikninga þess; það hefur verið fætt og að því hafa beinlínis verið haldnir áfengir drykkir.

Hins vegar skelfur skáldið að innan, af ótta við að bregðast þeim væntingum sem fylgdu boðinu. Það veltir því fyrir sér í síðasta sinn hvort ljóðin sem það valdi til upplestrar séu valin af kostgæfni, og hvort röð þeirra hafi verið ákveðin af skynsemi.

Og skáldið ávítar sjálft sig fyrir að velja sér sskynsemi að leiðarljósi. Ljóðskáldið hefur aðrar gyðjur en skynsemina.

En svo vaknar skyndilega ný tilfinning í brjósti Íslendingsins þegar skáldið á undan, frá Bandaríkjum Norður-Ameríku, nánar tiltekið Kansas City, kynnir síðasta ljóð sitt og lætur fylgja sem eins konar formála að ljóðið sé ort í tilefni af ófyrirgefanlegri framkomu sinnar öflugu og stóru þjóðar á erlendri grundu.

Kliður fer um þéttsetinn salinn þegar fyrstu orð ljóðsins bregða upp mynd af efnaðri þjóð í samkvæmisklæðnaði, þjóð sem lítur hvorki til hægri né vinstri áður en hún girðir niður um sig og „fer á salernið“ í garði nágranna síns. Og kliðurinn, sem íslenska skáldið veit að táknar hrifningu, fylgir lestri skáldkonunnar frá Kansas inn í síðustu mínúturnar sem hún hefur til umráða, og tvær eða þrjár mínútur fram yfir, vegna þess að merkingin sem falin er í orðum ljóðsins beinlínis flór út yfir.

Og þegar hin ameríska skáldkona sendir af vörum sínum skröltandi dreka úr málmi yfir sólbakaða vöggu siðmenningarinnar, og hendir sprengjum úr lofti á fjölbýlishús full af lífi, uppsker hún ósvikna aðdáun og lófaklapp sem fylgir henni alla leið aftur í áhorfendasalinn, og heldur áfram að lifa á meðan skáldið frá Íslandi rís bæklað af eigin vanmáttarkennd upp úr sæti sínu og gengur óstyrkum fótum með arkirnar hvítu upp á aftökupallinn.

Við þá óbeinu umræðu sem fyrirvaralaust hefur verið hrundið af stað í salnum hefur skáldið frá Íslandi engu að bæta; engu nema óræðum lýsingum á innviðum eigin húsnæðis í Reykjavík, upphafinni fjallasýn úr friðsælum dölum, skuggum sem teygja sig yfir hljóðlátar götur og gangstéttir, og hinum og þessum tilfallandi ljóðmyndum sem engan snerta nema pappírinn sem þær hvíla á.

Og skáldið þornar í munninum. Þögnin sem mætir því í salnum er sú sama og liggur yfir eyðileggingu kristinna og gyðinglegra innrásarherja.

Og þegar skáldið nálgast í lestri sínum niðurlag ljóðs sem einum þræði fjallar um hið óvandaða efni sem það sjálft er gert úr, að það efni muni ekki duga út lífið, finnur það snöru hins alþjóðlega dómstóls í salnum þéttast um hálsinn. Og skáldið á enn eftir að lesa einhver fjögur eða fimm ljóð, þar sem hvergi er minnst á að heimurinn láti óátalið að ungir og hraustir menn drepi börn og gamalmenni, svo framarlega sem það er gert í Guðs nafni, og það veit að skáldleg kyrrðin sem ljóðum þess er ætlað að lýsa er á engan hátt eins djúp og sú þögn sem þau munu uppskera.

Og snaran bíður eftir að fá að kippa í hálsinn sem hún heldur um.

En hvað gerist síðustu augnablikin í lífi þess sem er hengdur? Kannski tekur hann nokkur dansspor út í loftið eða rekur tunguna framan í áhorfendur. Sé viðkomandi hins vegar heppinn, og fallið niður undir gálgann nægilega langt, má hann búast við því að hálsinn brotni um leið og snaran kippir í, og færi honum endalokin án tafar.

En rétt eins og með neglurnar, sem halda áfram að vaxa að loknum líkamsdauðanum, gerist hið óhjákvæmilega að lokinni eiginlegri jarðvist hins hengda. Hann „fer á salernið“, jafnvel þótt engin klósettaðstaða sé nálæg.

Og slíkt vill enginn láta spyrjast um sig að sér látnum, hvorki ljóðskáldið né hlustandinn.

Og þess vegna flýr hið íslenska ljóðskáld örlög sín. Það lætur aðra um að yrkja sínar höfuðlausnir.

Því höfuðlausan mann er ekki hægt að hengja.

Það laumar sér út úr fyrirlestrasalnum og hímir um stund undir þéttri rigningunni á stéttinni fyrir utan. Og áður en það drepur í blautri sígarettunni og lætur sig hverfa, horfir það á regnið gegnum fingur sína og finnur það renna niður eftir handarbakinu og inn um jakkaermarnar.

Og hinn vaxborni frakki skáldsins, sem er ætlað að hrinda burt regninu, veitir ámóta skjól og bókarkápa veitir gegn gagnrýni.