10. desember 2015

Ókunnugur í húsinu. Titill. Auðvitað hljómar þetta eins og þýðing úr ensku, Stranger in the house, Unfamiliar with the house, eitthvað svoleiðis, en þetta er það sem hann er, hinn ókunnugi: Ókunnugur í húsinu. Morguninn sem barnið er að verða of seint í skólann fer hann niður í þvottahús til að ná í föt handa því; föt sem hann hafði sjálfur sett í vélina daginn áður, og eiga því að vera orðin þurr á snúrunum. Hann átti að ná í bol og sokka. Þegar hann kemur upp bendir hann á sokkana, sem eru rauðir, og segir: „En þetta eru ullarsokkar. Átti barnið ekki að fara í venjulega sokka?“ Svarið sem hann fær er eftirfarandi: „Nei, þetta eru ekki ullarsokkar. Þetta eru sportsokkar.“ Og hann segir: „En þeir eru svo þykkir. Eru sportsokkar svona þykkir?“ Aftur er honum svarað: „Það er eins og þú sért ókunnugur í þessu húsi. Það er eins og þú þekkir ekki neitt hér innandyra. Þú þekkir ekki muninn á sportsokkum og ullarsokkum.“ Og hinn ókunnugi segir: „Já, ég gæti best trúað að það sé rétt. Að ég sé ókunnugur í húsinu.“ Og þaðan kemur titillinn: Ókunnugur í húsinu.