Ansjósur

Ég kem inn á veitingastað og segi: Ansjósur þykja mér vondar, þjónn. Ég get ekki með nokkru móti pantað mér ansjósur. Ansjósur eigum við ekki til, segir þjónninn. Og hann heldur áfram: Ég kannast við yður, herra. Það var áður en ég hóf hér störf að ég sá yður borða hér. Ég sat þá við borðið þarna og fylgdist með yður. Vegna þess hve tónlistin var lágt stillt það kvöld, heyrði ég til yðar þegar þér pöntuðuð matinn og svo aftur þegar maturinn var kominn á borðið. Ég ætla ekki að endurtaka pöntun yðar þetta umrædda kvöld – jafnvel þótt hún sé mér í fersku minni – en þegar hún barst yður varð yður að orði: Þarf ég að margendurtaka að ég vil ekki ansjósur! Þær eru einhver sú allra versta fæða sem ég get hugsað mér. Og þar eð ég var gjörsamlega sammála yður og ekki laus við aðdáun yfir hreinskilni yðar, fylgdist ég með yður þar til þér yfirgáfuð staðinn. Og nú hafið þér enn á ný vakið forvitni mína og hrifningu með afdráttarlausri neitun yðar á einhverju sem þér alls ekki viljið.

Leave a Reply