26. nóvember 2015

Ekki fyrir alls löngu var eitthvað verið að ræða um það í fjölmiðlum hver væru fallegustu orðin í íslenskri tungu. Ef ég man rétt hlaut orðið ljósmóðir flest atkvæði. Það er alls ekki slæmt orð, en þegar ég leiði hugann að þessu núna finnst mér að orðið popppoki hefði átt að ná inn í umræðuna. Það er þó ekki svo að mér detti í hug þetta orð vegna þess að ég var að hugsa um keppnina um fallegasta orðið, heldur varð orðið sjálft, orðið popppoki, til þess að ég fór að rifja upp keppnina. Fjögur p í átta stafa orði. Og tvö o. Hvernig orðið skoppar á vörunum þegar maður lætur það út úr sér minnir á hljóðið sem fylgir því þegar maís springur í pottinum. Svo er hugsanlegt að í því sé einhver finnskur hljómur líka. Sem aftur leiðir hugann að orðinu ljósmóðir. Í finnsku hefst orðið móðir ekki á stafnum m, eins og í flestum þeim tungumálum sem við þekkjum (mother, madre, mamma, mutter, matka, mom, mère, maman osfrv.), heldur á stafnum ä. Móðir er á finnsku äiti. Nú er ekki víst að orðið ljósmóðir á finnsku sé búið til á sambærilegan hátt og í íslensku, en það væri fróðlegt að vita hvernig það lítur út. Ég ætla að fletta því upp. Ljósmóðir á finnsku er kätilö.