23. desember 2015

Ofgnótt. Það er ekki vegna hátíðanna sem ég fer að hugsa um orðið ofgnótt. Alls ekki. Dytti það ekki í hug. Ég er að hugsa um amerísku kvikmyndina Three Amigos frá árinu 1986. Hún er að verða 30 ára gömul. Og leikararnir í henni þar með jafnmörgum árum eldri en þeir voru í myndinni. Steve Martin, Chevy Chase og Martin Short. Ég hef ekki hugmynd hvað hinir leikararnir heita, t.d. þeir sem léku Mexíkanana, en þeir voru ekki síðri í sínum hlutverkum en Steve, Chevy og Martin. Þegar ég horfði á þessa mynd á sínum tíma, fyrir næstum 30 árum, lærði ég orð á ensku sem þýðir ofgnótt á íslensku. Ég ætla mér ekki að fara að rifja upp efni eða þráð Three Amigos – geri það kannski síðar, í betra tómi – en þegar fer að síga á seinni hluta myndarinnar kemur að því að El Guapo, skúrkurinn, sá sem Vinirnir þrír eiga í höggi við, verður fertugur. Og vinir hans, vinir El Guapos (sem eru ekki Vinirnir þrír, vel að merkja), halda honum mikla veislu í þorpinu þeirra. Eftirfarandi samtal á sér stað þegar verið er að undirbúa veisluna, og El Guapo er að ræða við sinn helsta vin, sína hægri hönd má segja, persónu sem ég man ekki í augnablikinu hvað hét, eða hvað hún var kölluð; en sá maður er með fallegan sombrero á höfðinu (eins og þeir flestir, dólgarnir í liði El Guapos); og undan hattinum teygja sig fallegir grásvartir, síðir lokkar sem ná yfir byssubeltin á brjósti hans. El Guapo er sjálfur með drengjalegt hrokkið hár, og hann er fjallmyndarlegur, eins og nafn hans, eða gælunafn, gefur til kynna – jafn mikill óþokki og hann er. Sá síðhærði talar til yfirmanns síns, sem situr í háum söðli á hrossi sínu – þeir hafa verið að ræða um á hverju sá síðarnefndi megi eiga von í afmælisgjöf: „You will like your other presents too. I have put many beautiful piñatas in the storeroom, each of them filled with little surprises.“ Og El Guapo svarar, með tilhlökkun í augum: „Many piñatas?“ „Yes, many!“ segir sá síðhærði, og leggur mikla áherslu á orð sín með höndunum. En El Guapo finnst hann þurfi frekari fullvissu: „Would you say I have a plethora of piñatas?“ Smá þögn. „A what?“ spyr sá síðhærði. Og El Guapo endurtekur orðið: „A plethora.“ Sá síðhærði hefur ekki hugmynd um hvað foringinn á hestbakinu á við; hann verður hálfkindarlegur á svip, en svarar síðan, 100% viss í sinni sök (eða hugsanlega bara 40%): „Oh yes. You have a plethora.“ Þá brosir El Guapo og nefnir nafn vinar síns, sem nú kemur í ljós að er kallaður Jefe: „Jefe, what is a plethora?“ Jefe verður enn kjánalegri til augnanna en áður, og spyr: „Why, El Guapo?“ Og El Guapo svarar: „Well, you told me I have a plethora, and I just would like to know if you know what a plethora is. I would not like to think that a person would tell someone he has a plethora and find out that that person has no idea what it means to have a plethora.“ El Guapo er í senn reiður og fullur hneykslunar á Jefe. „Forgive me, El Guapo,“ segir Jefe afsakandi. „I know that I, Jefe, do not have your superior intellect and education. But could it be that once again you are angry at something else and are looking to take it out on me?“ „Like what, Jefe?“ spyr El Guapo, og virðist ekki kannast við nokkuð af því tagi sem Jefe hefur ýjað að. Og Jefe spyr: „Could it be because you are turning 40 today?“ Og svar El Guapos er einfalt – en ákveðið: „No!“ Svo heldur samtalið áfram; það kemur inn á konuna sem El Guapo þráir, þá sem myndin fjallar í raun um, þannig séð. Ég gæti vel hugsað mér að halda áfram með þetta spjall þeirra Jefes og El Guapos – ég gæti reyndar vel hugsað mér að horfa á myndina núna (í sjötta eða sjöunda skiptið) í staðinn fyrir að vera að skrifa upp úr henni samtölin – en ég hef bara ekki tíma. Aðfangadagur á morgun.