18. nóvember 2017 (aukafærsla, allt að því næturpóstur)

Fyrir sirka átta árum var Davíð Oddsson ráðinn sem ritstjóri Morgunblaðsins. Mjög margt fólk ákvað á þeim tímapunkti að eiga ekki samskipti við blaðið vegna þessa – en kannski finnst mér það bara hafa verið „margt fólk“ vegna þess að ég þekkti nokkra „aðila“ innan þess hóps. Sá „hópur“ er reyndar ekki til lengur. En Davíð Oddsson er ennþá ritstjóri blaðsins. (Auðvitað er mjög freistandi að láta sig detta í söng, og einhvers konar „hallgrímsku“, og kveða eitthvað á þá leið að það hafi verið „fyrir átta árum / að ég kvaddi þig í sárum“, en svoleiðis lætur maður ekki eftir sér – maður verður að passa sig.)

18. nóvember 2017

Hið óvænta hefur gerst. Upplag ljóðabókarinnar Öfugsnáði kom til landsins frá Eistlandi í gær. (Reyndar gerðist svolítið með kápu bókarinnar, svolítið ófyrirséð, en allt um það verður að bíða annarrar færslu.) Í bókinni eru um það bil 30 ljóð (ég hef ekki talið þau nákvæmlega), og eitt þeirra ljóða birtist, án titilsins, utan á kápunni – það er stysta ljóð bókarinnar:

EINS KONAR MILLIFYRIRSÖGN

Áður en orðin röðuðust saman

voru öll þessi ljóð til í huganum.

Nú á bara eftir að losa þau við titlana

og taka þau í sundur.

17. nóvember 2017 (aukafærsla nr. 2)

 

 

 

 

 

 

 

Í gær, 16. nóvember, birtist viðtal við tvo af höfundum Bjarts þetta árið, okkur Ragnar Helga Ólafsson (við erum ekki bræður, vel að merkja), þar sem til umfjöllunar var seinkun á afhendingu bóka okkar frá Eystrasaltinu, og vöntun á þeim sömu bókum í hillum jólabókaflóðsins á Íslandi nú fyrir jólin. Þetta viðtal, sem birtist á vef Bjartsútgáfunnar (sem reyndar lá niðri í gær vegna bilunar í heimi internetsins) vakti mikla athygli (þrátt fyrir bilunina); og höfðu sumir þá skoðun (ekki bara út af fyrir sig, heldur „beint í andlit“ okkar höfundanna) að við ættum bara að láta prenta okkar bækur innanlands, en ekki í einhverjum Eystrasaltslöndum. Vegna bilunarinnar í vefheimi Bjarts gat ég sjálfur ekki lesið viðtalið, en allt sem ég hef sagt hér að ofan, t.d. þetta um viðbrögð „sumra“ við áhyggjum okkar Ragnars, er byggt á því sem ég hef heyrt frá notendum facebook-síðunnar; því þar gafst fólki kostur á að lesa viðtalið við okkur Ragnar (það var ekki þannig að viðtalið hefði birst á himni, eitthvað svoleiðis – einhvers staðar hlaut það að hafa birst (annars staðar en á himni eða yfirborði sjávar), fyrst ég nefndi að „sumir“ hefðu lesið það, vitandi að það birtist ekki á vef Bjarts, sem eins og áður sagði lá niðri í allan gærdag, og gerir hugsanlega enn. Ég vildi bara koma þessu að. Bækurnar Handbók um minni og gleymsku og Öfugsnáði verða bara að koma út einhvern tíma seinna. Það er hugsanlegt að þær muni koma út fyrst í Eistlandi eða Finnlandi – að „aðilarnir“ í prentsmiðjunni hafi misskilið minnismiðann sem fylgdi skjölunum með handritum bókanna, og sent þær til dreifingaraðila í þessum löndum – hvað vitum við? Við vitum ekki neitt. Það á að vera svokölluð Bókamessa í Hörpu núna um helgina, og við Ragnar höfum engin gögn til að leggja fram í messuhaldið. En þetta með prent á Íslandi eða ekki – svarið við þeirri spurningu verður líklega að koma að handan, eins og Halldór Laxness svaraði einu sinni dularfullri spurningu sem hann fékk fyrir framan sjónvarpstökuvélarnar …

17. nóvember 2017

 

„Ný íslensk fyndni?“

„Mig grunar að þetta muni raðast í þann flokk, já.“

„En byggt á þeirri gömlu?“

„Á þeirri gömlu, já – það orðalag á vel við.“

„Og hvað var svona fyndið?“

„Ég fór í fiskbúðina í gær. Viðskiptavinurinn á undan mér (nr. 0566 – ég var nr. 0567) var maður sem ég þekki. Við ræddum um blokkarlifnað – það að búa í blokk.“

„Er eitthvað að því?“

„Brandarinn er ekki búinn – bíddu aðeins. Þegar hann, maðurinn sem ég þekki, hafði fengið sinn fisk afgreiddan, sagðist hann þurfa að flýta sér út í bíl, því 97 ára gömul móðir hans biði í bílnum. Mér datt strax í hug að biðja hann að flýta sér enn meira en hann virtist vera að gera – móðir hans, jafngömul og hann sagði að hún væri, gæti þegar verið dáin í bílnum. En ég hélt aftur af mér. Ég reyni að vera kurteis maður og háttvís (þótt mér takist það ekki alltaf). En jæja, svo kveðjumst við, og maðurinn fer út í bíl til móður sinnar – ég, aftur móti, hóf mín viðskipti við fisksölumanninn. Þegar ég er um það bil að ganga frá þeim viðskiptum kemur kunningi minn aftur inn í búðina, ekki alveg eins afslappaður og hann var þegar við töluðum saman rétt áður; og hann sagði mér (og reyndar öllum hinum í búðinni) að móðir sín væri dáin úti í bíl. Hún varð sem sagt 97 ára gömul, sem er ansi hár aldur.“

16. nóvember 2017 (aukafærsla nr. 2)

„Við og við vellur gröfturinn upp í formi frændhygli, innherjaviðskipta, skattaskjóla, auðvaldsdekurs, útlendingarandúðar eða skjaldborgar um ofbeldismenn. Þá verður VG í þeirri stöðu að verja samstarfsflokkinn og mörkin munu sífellt færast til í samstarfinu líkt og í ofbeldissambandi. Þetta verður eins og að éta skít í heilt kjörtímabil, ef stjórnin endist svo lengi. Með ákvörðuninni um stjórnarviðræður setti flokkinn niður, trúverðugleikinn laskaðist verulega og vinstrið á Íslandi mun eiga erfitt uppdráttar næstu árin og áratugina.“ (Drífa Snædal, 16. nóv. 2017)

Nákvæmlega. Það er til mynd af þessu í bíómynd Pasolinis frá árinu 1975:

https://www.youtube.com/watch?v=3GVV7L66xh4

 

16. nóvember 2017 (aukafærsla)

Nei, ég var ekki búinn að gleyma að í dag er Dagur íslenskrar tungu. Enda Dagurinn ekki liðinn, varla byrjaður. Mig langar þess vegna – nei, líklega er það ekki góð hugmynd, í raun alls ekki … Ég hafði verið að hugsa um að auglýsa umfjöllun Jóhanns Helga Heiðdal um Sögur frá Rússlandi, og ætla hér með að gera það (enda ærin ástæða til) – þetta er að finna á Starafugli:

Dýrmæt gjöf til íslenskra bókmenntaunnenda

En vegna þess að við hliðina á umfjöllun Jóhanns Helga er póstur sem nefnist Bláa Hawaii, þá rifjaðist upp fyrir mér rúmlega þrjátíu ára gamalt ljóð, og ég fór að hugsa um bókina mína nýju, sem enn er á leiðinni frá Eistlandi, eftir tveggja mánaða vist handritsins, eða skjalsins, þar í landi; og ég fór að sakna þeirrar óútkomnu bókar, þó ekki væri nema vegna kápunnar utan um hana (sem Ragnar Helgi bjó til); og ég hugsaði líka um Dag ísl. tungu, að hann myndi líða án þess að skipið kæmi með Öfugsnáða að landi; og ég hugsaði ýmislegt annað, sem ég fattaði síðan að var allt að finna í ljóðinu Blue Hawaii (nema kannski þetta í síðustu línunni, um ferskjurnar sem „velta út af hillum ávaxtasala / hraðar en nokkur fær keypt“, því auðvitað kaupir fólk ekki það sem liggur lokað í gámi á hafsbotni í Eystrasaltinu eða Rauðarárvík); en vegna þess einmitt að það er Dagur ísl. tungu í dag, þá ákvað ég að láta ljóðið Blue Hawaii fylgja með hér í enskri þýðingu Bernards heitins Scudder, sem birtist í ljóðasafninu Brushstrokes of Blue (sem útgefandi minn Páll Valsson ritstýrði árið 1994) – mér fannst einhvern veginn „of mikið“ að vera að birta ljóð á íslensku, nú þegar Dagur ísl. tungu er ekki að kveldi kominn – það myndi jaðra við væmni eða tilfinningasemi að vera að gera of mikið úr íslenskri tungu á þessum degi, osfrv. Auk þess sem ljóðið ber enskan titil (mig grunar reyndar að uppsetning ljóðsins muni brenglast eitthvað þegar það flyst yfir á „bloggið“):

BLUE HAWAII

 It´s on the corner of Bayswater Road and Lækjargata

that two bearded men

have trouble finding words

in tune with the times,

but “Dear Susan,

now Charlie Mingus

has broken a string in my heart,”

says a sensitive sergeant

in the fourth battalion of the magnanimous.

“Now I can never again

embrace you with any

circular conviction.”

 

The sweat of lovers in a Zurich suburb

breaks forth from a craftswoman in Laos,

a brass player in a seedy North Norwegian basement

dies a bitter death into his pipe,

and from the palm leaves, from the eyes of wailing women,

dirty tears run into

tins marked cat liver.

But it´s on the corner of Bayswater Rd. and Lækjargata,

behind every sprig that they peep out;

the shy lost maidens,

as fresh as the peaches that

roll of the fruitseller´s shelves

 

faster than you can buy them.

14. nóvember 2017

 

 

 

 

TVÖ STUTT SAMTÖL UM ÍSLENSK STJÓRNMÁL

1

„Til hvers fer vinstrafólk á kjörstað?“

„You tell me. Til að kjósa?“

„Já, en til hvers?“

2

„Ég þekki fólk sem kaus Vinstri græna.“

„En enga sem kusu Sjálfstæðisflokkinn?“

„Jú, en það fólk vissi hvað það var að kjósa.“

10. nóvember 2017

Næstu kaflar gerast erlendis, og þar af leiðandi gerist ekki neitt. En að horfa á myndband er góð skemmtun (jafnvel þótt efnið sé endurtekið):

8. nóvember 2017 (aukafærsla)

Það stóð ekki til að hafa aukafærslu, en nú vildi svo til að ég var að skrifa svolítið annað, og þetta annað minnti mig á (hugsanlega of mikið) mannlýsingu sem ég las í gærkvöldi, í sögu eftir Fjodor Dostojevskí, í hinu undursamlega smásagnasafni Sögum frá Rússlandi, sem var að koma út hjá Uglu:

Enginn spilaði við hann, enginn bauð honum vindil, enginn gaf sig á tal við hann; kannski áttuðu menn sig á hvers konar mann hann hafði að geyma. Þess vegna var þessi herramaður neyddur til að sitja og strjúka bartana sína allt kvöldið svo hann sæti ekki bara með hendur í skauti. Bartarnir voru vissulega mjög tilkomumiklir. En hann strauk þá af svo miklu kappi að hiklaust hefði mátt halda – þegar fylgst var með honum – að fyrst hefðu bartarnir komið til sögunnar en síðan hefði maðurinn verið festur við þá í þeim eina tilgangi að strjúka þá. (úr sögunni Jólatré og brúðkaup, bls. 108 – þýð. Áslaug Agnarsdóttir)

8. nóvember 2017

Maður verður aðeins leiður á því sem er nýtt. (Sören Kirkegaard)

Þrátt fyrir það er ástæða til að benda á nýjustu útgáfuna á tónlist Bill Evans. Enda er upptakan gömul – hvað annað? Ég kom við í Smekkleysu í gær, og Ási benti mér á þessa fallegu útgáfu frá Resonance:

Og fyrst Eddie Gomez er hluti af tríóinu, þá er ástæða til að rifja upp þessa dásamlegu myndupptöku frá Finnlandi (mig minnir að henni hafi áður verið „deilt“ á þessari fáránlegu síðu minni):

En aftur að hinu „nýja“. „Nýja“ bókin er enn ekki komin með skipinu. Hún átti að koma í fyrradag – ég er orðinn nokkuð viss um að skipið er sokkið. Hugsanlega hefur það náð inn á Rauðarárvíkina (þar sem fyrsta ljóðið í bókinni „gerist“), en augljóslega ekki komist lengra. Ég verð bara að lifa með því.

7. nóvember 2017

 

 

 

 

 

„Það stefnir sem sagt í stjórn tveggja afturhaldsflokka og eins íhaldsflokks.“

„Krónur undan snjónum.“

„Fundið fé.“

6. nóvember 2017 (aukafærsla)

Illar tungur innan bókmenntaheimsins ræddu það sín á milli að einhver (innan bókmenntaheimsins) hlyti að segja eitthvað um nýjasta útspil (eða kert´og spil) Forlagsins hvað varðar nýjasta Arnald. Nú hef ég ekki myndefnið á tölvutæku formi, en gæti alveg eins látið fylgja mynd af Kim Jong-un eða Donald Trump –„útspil“ Forlagsins er alveg jafn fyndið – og það eru fleiri sem hafa komið auga á hið „kómíska tækifæri“ sem svona „útspil“ býður upp á. Jónas Reynir, höfundur skáldsögunnar Millilendingar og ljóðabókarinnar Stórra olíuskipa (og fleiri bóka), hefur stokkið á lest Forlagsins og Arnaldar, með því að kynna til sögunnar „pakka“ með sínum bókum. Utanáskrift pakkans frá Arnaldi er Af því þú ert frábær (ef til vill svolítill tónn frá ákveðnu tímabili í ísl. fjármálalífi?), en Jónas Reynir kýs að bjóða sínum markhópi upp á eftirfarandi: Af því þú átt skilið skilyrðislausa ást. Verst að hafa ekki myndefnið sem ætti að fylgja þessari frétt, en það á ábyggilega einhver eftir að dreifa því – ég gæti vel trúað að það rati í prentmiðlana fljótlega.

6. nóvember 2017

„Er ekki kominn tími á nýjan flutning Fiskistofu? Verður ekki að láta Fiskistofu-Sigurð hafa eitthvert verðugt verkefni, fyrst hann réð ekki við síðasta verkefni? Hvað með útlönd? Er ekki hægt að flytja Fiskistofu til útlanda? Bara eitthvað. Það verður að flytja Fiskistofu aftur. Hún getur ekki verið þar sem hún er. Slíkt er ekkert annað en kyrrstaða. Stöðnun. Dauði. Burt með Fiskistofu þaðan sem hún er. Sigurður? Sigurður Ingi? Fiskistofa. Flytja hana.“

5. nóvember 2017

Stormur á leiðinni. A storm´s coming in, eins og sagði í The Straight Story. Ég hefi áhyggjur af borðinu („pallborðinu“) sem var skilið eftir í hendi vindsins í Reykholtssveitinni; það er engin leið að spá fyrir um hvert, og í hvaða átt, hann, vindurinn (sem á að vera hvað öflugastur í Reykholtssveitinni í dag og í kvöld) mun henda borðinu. En þetta eru smávægilegar áhyggjur miðað við allar hinar. Kafli á dag ákvað að heimsækja aðra bloggsíðu á alheimsnetinu. Útgerðarmaður þeirrar síðu (svo ég notist við orðalag Össurs Skarphéðinssonar eða Jóns Baldvins Hannibalssonar, til dæmis) gerir að umtalsefni næturpósta sem hann fékk frá ónafngreindum lesanda síðunnar. Og ekki bara „einhverja næturpósta“, heldur 11 stykki sömu nóttina. Að vísu hafði viðtakandi póstanna haft vit á því að lækka niður í hljóðinu í tölvunni sem hefði að öðrum kosti gefið honum til kynna (í hvert skipti) að hann væri að fá sendan póst, þannig að næturpóstarnir ellefu héldu ekki fyrir honum vöku. (Að vakna ellefu sinnum sömu nóttina er ekki alveg það sem maður óskar sér, að minnsta kosti ekki áður en maður fer að sofa.) Fyrirbærið næturpóstar er mér hugleikið. Því þetta er nefnilega ákveðið „fyrirbæri“. Ég hefi sjálfur ekki „orðið fyrir þeim“, póstunum (þessari tegund pósta), en ég hef heyrt þeim mun meira um þá, og reynt að gera mér grein fyrir hvaða áhrif þeir hafa á viðtakendur (fyrir nú utan það hvernig sendendum þeirra líður daginn eftir að þeir sendu þá). Og ég hef ort um þá ljóð. Meira að segja tvö ljóð. Það seinna (ljóð nr. 2) verður með í bókinni sem samkvæmt farmskýrslunni á að koma til landsins á morgun. Það ljóð er að vísu ekki nema skugginn af því fyrra, en samt betra að ég held – fyrra ljóðið verður væntanlega ekki gefið út nema í einhvers konar posthumous útgáfu, eða kannski bara sent sem næturpóstur á adressu einhvers vel valins viðtakanda? En allavega, þá er í „aðra röndina“ gaman að lesa um svona „ónæði“ sem „útgerðarmaður“ bloggsíðunnar sem ég heimsótti, lýsti í sinni færslu – það mætti alveg vera meira af því (í bókmennta- og bloggheiminum, eða hinum bókmenntalega bloggheimi) að „aðilar“ sendi hver öðrum næturpósta, jafnvel þótt þeir séu sendir að degi til. Ég er að minnsta kosti óskaplega spenntur að vita hver það var sem vakti nógu lengi til að senda fleiri en tíu pósta á sama „aðila“ – sömu nóttina! Og hvað „aðilinn“ hafði gert til að verðskulda svona mikla athygli. Eða er ég bara að gera þetta að umtalsefni (á sunnudegi, þannig séð hvíldardegi) til að koma því til skila að ég sé alveg örugglega ekki höfundur næturpóstanna ellefu (með því að taka fram að ég hafi bara skrifað tvo svoleiðis, sem þar að auki eru bara ljóð)?

3. nóvember 2017 (aukafærsla)

„Ég hef orðið fyrir vonbrigðum með fjölmiðlana.“

„Ég veit að „Guð blessi Ísland“ virkar betur sem titill á leikriti, en þessar tvær setningar (eða yrðingar? fullyrðingar? skipanir? hótanir? eða hvað sem þær myndu kallast) hljóta að enda í sætum nr. 1 og 2 yfir … yfir hvað?“

„Játningar?“

„Trúarjátningar?“

„En er ekki trúarjátning alltaf eins konar hótun?“

„Gagnvart þeim sem er ekki sammála henni?“

„Já.“

„Nei, er það?“

„En Geir Haarde hótaði Íslandi að Guð myndi blessa landið.“

„Það er rétt. Og játaði um leið trú sína á Guði. Geir Waage – Geir Haarde … hvað er þetta með alla þessa Geira?“

„En þetta með leikritatitlana – gæti hinn titillinn (yfir leikritið sem byggt verður á síðasta – og vonandi alsíðasta – forsætisráðherra FLokksins) – gæti hann ekki verið Vonbrigðin með fjölmiðlana?“

„Algerlega. Ekki síðri titill en Guð blessi Ísland.“

3. nóvember 2017

Ef-færsla dagsins hlýtur að vera „ef“tirfarandi: H„ef“ði verið gaman ef Elvin Jones og Bill Frisell h„ef“ðu hljóðritað meira saman.“

2. nóvember 2017

„Grein Hermanns Stefánssonar í Fréttablaði dagsins í dag fannst mér svo áhugaverð að ég fékk leyfi hjá eiganda annarrar tölvu en minnar til að kíkja aðeins á facebook – bara svona rétt aðeins, kannski í tvær eða þrjár mínútur (hugsanlega fjórar, í mesta lagi fimm). Burtséð frá hinni „skáldlegu“ forvitni sem ég þjáist af langaði mig hálft í hvoru til að ganga úr skugga um að ég væri alveg örugglega ekki skráður inn á apparatið facebook, því einu sinni – það var fyrir nokkrum árum – prófaði ég (í einhverri augnabliksvitleysu) að skrá mig þar inn, en hætti við sirka fimm mínútum eftir innskráningu, því mér bárust svo margar vinabeiðnir frá fólki sem mig langaði frekar til að eiga sem vini í „ketheimum“ en netheimum; og ég allt að því tók á rás í burtu frá tölvunni, rétt eins og tollvörðurinn Rousseau hljóp í átt frá striganum þegar hann hafði málað á hann ljónið ógurlega.“

„Og hvað?“

„Ég rakst á alnafna minn á facebook. Það er einhver „aðili“ skráður á facebook sem hefur sama nafn og ég, skírnar- og föðurnafn. En er þó alveg örugglega ekki ég, ef eitthvað er að marka myndina af honum. Þannig að þetta er ekki „ég hinnar gömlu skráningar minnar“.“

„En hvar ert „þú hinnar gömlu skráningar“?“

„Í felum bakvið facebook.“

„En stelst samt til að skoða?“

„Bara í tvær, þrjár mínútur. Hugsanlega fjórar eða fimm.“

„En nógu margar til að …?“

„Já. Til að sjá að ég er ekki skráður þar.“

„Nema að nafninu til.“

„Viltu að ég breyti um nafn?“

„Hefur það ekki alltaf staðið til?“

„Jú. Þegar ég var ellefu eða tólf langaði mig til að heita Sigurvin. En núna er ég búinn að nota það nafn í bók, þannig að þegar sú bók kemur út, þá verður það að vera undir einhverju öðru nafni en Sigurvin, því annars gæti efni hennar verið túlkað sem sjálfsævisögulegt.“

„Sem hún er, er það ekki? Eða verður?“

„Jú, reyndar. Sjálfsævisaga, en ekki mín eigin.“