25. mars 2016

Líklega er aðeins eitt sem vekur í manni meiri depurð en þá að sjá íslenska fánanum flaggað í prívat húsagarði, og það er að sjá KR-fánann dreginn upp á sömu stöng. Ég vann eitt sinn við það að draga fána að hún. Það var fyrir mörgum árum; ég var sumarstarfsmaður í varahlutaverslun Globus-fyrirtækisins, og fyrir framan húsið í Lágmúlanum voru nokkrar flaggstangir. Ég man eftir að Árni Johnsen kom stundum í búðina og keypti af okkur varahluti; ég man það reyndar mjög vel því hann laumaði sér gjarnan fram fyrir biðröðina; hann mátti ekki vera að því að bíða eins og hinir; og okkur starfsmönnunum fannst þetta fyndið (og svolítið frekt). Ég man samt ekki hvernig það kom til að ég var valinn til að draga upp fánana. Kannski var það vegna þess að ég var ekkert sérlega vel að mér í varahlutunum; ég hafði ekki einu sinni bílpróf, þótt ég væri löngu orðinn sautján. En þetta var verkefni sem fól í sér ábyrgð; ég fann það. Og vissi. Þetta krafðist ákveðinnar kunnáttu, og auðvitað líka þess að manni væri treystandi til að sýna fánunum virðingu, meðal annars með því að láta þá aldrei snerta jörðu. Sú er að minnsta kosti reglan með þjóðfánann. Ég man samt ekki hvort íslenski fáninn var meðal þeirra sem ég dró upp þessa sumarmorgna í Lágmúlanum (skrítið að muna það ekki); þetta voru mestmegnis fánar með merkjum framleiðenda sem Globus var fulltrúi fyrir á Íslandi, meðal annarra Zetor, New Holland og Citroen. Hvað þann íslenska snerti, þá hafði ég dregið hann að hún oftar en einu sinni áður, til dæmis þegar ég var í skátunum og sumarbúðum K.F.U.M. í Vatnaskógi. KR-fánann hef ég þó aldrei dregið að hún: ég fullyrði það. Jafnvel þótt ég hafi verið félagsmaður í nokkur ár sem barn og unglingur. KR … Skátarnir … K.F.U.M. … Globus … Maður verður beinlínis hugsi yfir öllu þessu saman. En nú þegar ég hef enn á ný rifjað upp hið svokallaða „Globus-sumar mitt“ (sem þarf þó ekki að merkja að ég geri það reglulega), þá horfi ég til baka með undrun og stolti, og eiginlega furðu, því mér finnst nánast óskiljanlegt hvernig mér auðnaðist að afgreiða alla Zetor- og Citroen-eigendurna um varahlutina sína; hvernig þeim Árna Johnsen og öllum hinum tókst að gera sig skiljanlega við mig – mig sem skildi ekki orð af því sem þeir sögðu. Við höfðum náttúrlega bækur til að styðjast við; þeir bentu mér á teikningar af innviðum traktoranna og bílanna, og ytra byrði, nánast óendanlega flóknar teikningar með endalausum númerum og vísunum í enn aðrar teikningar, og þeir sögðu við mig: „Mig vantar þessa legu hér“, eða „karborator“ eða „spindilkúlu“, guð veit hvað; og ég, sem var fullkomlega rænulaus á þessu sviði, bað þá að bíða á meðan ég fyndi til hlutinn, og kom síðan aftur og sagði (á svipinn nákvæmlega eins og ég ímynda mér að ég hafi verið): „Gjörðu svo vel: spindilkúla, lega, karborator, DX, heybindivél – ekki málið.“ Ég myndi ekki ráða við þetta í dag. Ég myndi ekki heldur ráða við að draga fána að hún, ekki alla leið að minnsta kosti. Er ekki annars föstudagurinn langi í dag?