14. apríl 2016

Það er með hreinum ólíkindum hversu oft ég minnist á Halldór Laxness í þessu prógrammi mínu. Það var aldrei ætlunin. En auðvitað var ekkert plan – upphaflega – um það hversu oft ég ætlaði að minnast á hinn eða þennan, eða hversu einbeittur ég ætlaði að vera í því að forðast að nefna einhvern annan. Að tala svona oft um Halldór Laxness gefur held ég ekki rétta mynd af því hversu mikið ég held upp á hann sem höfund, eða hversu oft ég les hann – hlutfallslega – miðað við aðra höfunda; ég les nefnilega ekki mjög oft í bókum hans. Ekki miðað við aðra höfunda. En hver vill vita það? Af hverju er ég að tala um aðra höfunda? Ég ætti náttúrlega bara að tala um sjálfan mig. Sem ég er alltaf að gera – ég fer bara stundum krókaleiðir að því. Það getur jafnvel hugsast að stundum komi ég aftan að sjálfum mér. Í fyrradag lofaði ég því hins vegar hálfpartinn að tala um Bósa Ljósár. Um síðustu helgi var nefnilega á heimili mínu horft á teiknimyndina Toy Story 2. Líklega er það í fimmta eða sjötta skipti sem það er gert. (Við vitum að verið er að framleiða fjórðu myndina, sem verður þá væntanlega kölluð Toy Story 4 – við lásum það í blaðinu – og nokkuð reglulega minnum við okkur á þá vitneskju, og eftirvæntingin eykst í hvert skipti.) Eitt vakti sérstaka athygli mína núna, þegar við horfðum á Toy Story 2: að Bósi Ljósár (Buzz Lightyear) minnir allverulega á Íslending sem mikið hefur verið fjallað um í fjölmiðlum hérlendis síðustu daga – og erlendis líka. Bósi er stórkostleg fígúra. Ég hélt ég yrði ekki eldri þegar hann fór að tala spænsku í Toy Story 3. En það er þetta með að líkjast eða líkjast ekki. Manneskja sem ég þekki hefur gaman af því að senda í tölvupósti myndir af þekktum, eða frægum, einstaklingum sem líkjast hver öðrum, og ég hef ekki síður gaman af því að senda henni svoleiðis myndir til baka. Um daginn sendi ég henni myndir af Halldóri Halldórssyni (X-D) og Boris Karloff (í hlutverki Frankenstein); ég sendi henni líka myndir af leikaranum Reggie Nalder (sjá Fellini og Hitchcock) og Gunnari Sigurðssyni (í Hraðfréttum); og nýlega fann ég út að Fassbinder (leikstjórinn, það er að segja) og Atli Þór Fanndal blaðamaður eru býsna líkir á ákveðnum myndum. Þannig að ég sendi henni myndir af þeim tveimur. Það sem einna helst sló í gegn í þessari óeiginlegu keppni um útlitslíkindi voru aftur á móti myndir sem ég setti saman af Jóni Gunnarssyni (X-D) og Gérard Depardieu (þeim fransk/rússneska), þótt svolítið snúið sé að finna réttu myndirnar af þeim sem renna stoðum undir samlíkinguna. En aftur að Bósa Ljósári. (Ég verð þó fyrst að nefna eitt, svo ég verði ekki sakaður um sérhlífni í þessu samhengi. Fyrir nokkrum mánuðum fékk ég nefnilega sendar frá kunningja mínum myndir af mér sjálfum og Guðmundi Ragnarssyni, formanni Félags vélstjóra og málmtæknimanna, með þeim skilaboðum að við Guðmundur værum líkir. Þá er það frá.) En nú að Bósa (svo ég geti loks farið að slá botninn í þetta fimmtudagsspjall mitt). Ég veit að það er ekki sanngjarnt gagnvart hinu geðþekka leikfangi að vera að nefna þau útlitslíkindi sem ég hef í huga (hin meintu líkindi), en ég ætla samt að láta eftir mér að birta mynd af hinum góða vini Vidda; hún, myndin, ein og sér, hefur ótvírætt skemmtigildi.