22. apríl 2016

Svona heldur hinn kanadíski Rufus Wainwright upp á 400 ára ártíð Williams Shakespeare; hann gefur út plötu sem hann kallar Take all my loves: 9 Shakespeare sonnets. Hún kom út í dag, þótt ártíðarafmælið sé á morgun. Þrjú af þeim lögum sem Rufus hefur samið við sonnettur Shakespeares komu út á plötu hans All days are nights: Songs for Lulu fyrir nokkrum árum, þar sem eina hljóðfærið utan raddarinnar var píanó; en hér eru þessi sömu lög í öðrum og stærri útsetningum, plús fleiri sonnettur, sungnar og lesnar af Rufusi sjálfum og nokkrum öðrum. Af sonnettu nr. 20, A woman´s face, eru tvær útgáfur: ein með Rufusi og önnur með sópransöngkonunni Önnu Prohaska. Samkvæmt þessu myndbandi hér eru Anna og Rufus góðir vinir; hann kynntist henni í gegnum eiginmann sinn, Austurríkismanninn Jörn.

 

 

En hvernig held ég upp á 400 ára ártíð Shakespeares? Það stóð til að smásagnasafnið mitt, Dulnefnin, ætti að koma út á Degi bókarinnar (sem er ekki aðeins dagur Shakespeares, heldur líka afmælisdagur Cervantesar og Halldórs Laxness, og auðvitað Halla Jóns og Hilmars Arnar Hilmarssonar), en það plan breyttist; bókin kemur í búðir 26. apríl, sem breytir annars ekki miklu – held ég. Eitthvað merkilegt hlýtur að hafa gerst þann dag – kannski fæddist einhver – en ef ekki, þá gerist það allavega að bókin mín kemur út. Sem er væntanlega ekki neinn stórviðburður, nema auðvitað í mínum augum, og í lífi bókarinnar. Bókin – nú er ég enn að tala um Dulnefnin – hefur reyndar ferðast svolítið, þótt ekki sé hún formlega komin út. Hún fór til Selfoss í gær, þar sem ég las upp úr henni (eina eintakinu sem komið er í umferð) á Sunnlenska bókakaffinu hjá Bjarna og Elínu, ásamt fleiri höfundum úr tímaritröðinni 1005. Eins og alltaf á Sunnlenska, þá var mikið fjör. Það var meira að segja músík. Og ansi fín músík: sönghópur sem kallaði sig Svölurnar. Þær sungu Spáðu í mig, nokkur „lög við vinnuna“, og Atla Heimi. Eftir samkomuna á Sunnlenska fór 1005-liðið í hús á Stokkseyri (nú verð ég að fara að passa mig á að þetta breytist ekki í eitthvert partí- og matarblogg), og nokkur okkar löbbuðu niður á strönd og sáu afar einkennilegt hús, hannað af þekktum arkitekt, íslenskum. Þetta hús er tilefni í sérfærslu; ég hef ekki pláss fyrir það hér. En þegar við virtum það fyrir okkur í kvöldsólinni rifjaðist upp fyrir mér lítil saga af rithöfundinum Auberon Waugh, syni Evelyns Waugh. Hann á að hafa sagt eitthvað á þessa leið: „Hvað ber manni að gera þegar maður kemur inn í samkvæmi og sér arkitekt standandi á miðju gólfinu? Maður gengur að honum og slær hann utan undir.“