29. maí 2016

Ég var að lesa grein eftir enska rithöfundinn Adam Thirlwell um fjórar nýlegar bækur; tvær sem með ólíkum hætti fjalla um svokallaðar heimsbókmenntir, og aðrar tvær, skáldsögur, eftir perúanska höfundinn Mario Bellatín. Í þessari grein er að finna eftirfarandi orð frá Clarice Lispector, sem vitnað er til í tengslum við veruleikasýn og skáldskaparaðferð Marios Bellatín: Það sem kallað er óhlutbundið er svo oft í mínum augum tákn fyrir viðkvæmari og erfiðari veruleika. Eða kannski er réttara að snara þessu svona: Það sem kallað er abstraksjón virkar svo oft á mig sem tákn fyrir fínofnari og flóknari veruleika …? Hvort sem er, þá er erfitt að hverfa ekki inn í heim þessara orða, eða festast ekki í vef þeirra.