Einn helsti kosturinn við bíla, að mínu mati – fyrir utan að þeir menga hlutfallslega minna en öll kjötframleiðsla í heiminum – er að yfirleitt hljómar öll tónlist betur úr litlu hátölurunum í hurðunum (þar sem þeir eru oftast staðsettir) en í stofugræjunum heima. En það er ekki nóg að hafa góðan hljóm í bílgræjunum, það þarf að vera einhver tónlist til að spila í þeim. Það er ekki sjálfgefið að hún sé til staðar – það er að segja tónlist sem mann langar til að heyra í bílnum. Það veldur mér oft miklum heilabrotum hvað ég á að taka með mér út í bíl til að hlusta á. Það veldur því jafnvel stundum að ég mæti ekki á réttum tíma þar sem ég hef lofað mér að mæta – og það er eitthvað sem mér er mjög illa við: að vera óstundvís. En núna (það gerðist í gær, á sama tíma og ég ákvað að mæta ekki á prógrammið í Háskólanum, bara í Stúdentakjallarann þegar prógrammið var búið – ég fékk bara að heyra að þetta hefði verið glimrandi gaman og áhugavert) – núna í gær, upp úr hádeginu, fann ég út hvaða tónlist er alltaf hægt að taka með sér út í bíl, og girða þannig fyrir að sú ákvarðanataka valdi seinkun í lífi manns. Maður tekur með sér plötuna Grotesque með The Fall. Og einmitt vegna þess að í gær var föstudagur, fannst mér best að hlusta á þetta: