27. ágúst 2018

Einhverra hluta vegna var ég aldrei mjög spenntur fyrir hljómsveitinni Joy Division á sínum tíma, um og eftir 1980 – það voru aðrar hljómsveitir frá Manchester sem tóku meira pláss í lífi mínu (og vitsmunalífi, eins og Guðbergur Bergsson myndi orða það), sérstaklega The Fall og The Smiths, jafn ólíkar og þær tvær hljómsveitir voru. En kannski hafði ég ekki þörf fyrir myrkrið sem fylgdi Ian Curtis og félögum þegar ég var að verða tvítugur, og kannski fannst mér eitthvað tilgerðarlegt við allan þann drunga. En nú eru nokkur ár liðin frá árinu 1980; og í fyrradag, á laugardagsmorgni, horfði ég á mynd frá árinu 2007 um Joy Division: their own story in their own words. Þetta er í einu orði sagt frábær mynd. Á umslaginu er vitnað í einhvern gagnrýnanda hjá The Guardian, “A must-see“, og það er einmitt það sem þessi mynd er: ekki hægt að láta hana framhjá sér fara, eða hvernig sem maður útleggur “A must-see“. Efst á umslaginu er vitnað í gagnrýnanda Time Out: “A visionary piece of filmmaking.“ Kannski eru það óþarflega hástemmd orð, en ég var alveg sammála þeim á meðan ég horfði á myndina. Ég er ekkert endilega viss um að ég muni hlusta mikið meira á Joy Division en ég gerði áður, en ég veit að ég á eftir að horfa á þessa mynd aftur, því hún sýnir manni á mjög svo lágstemmdan og áreynslulausan hátt hversu mikil áhrif fjórir ungir menn geta haft á líf annarra (og vitsmunalíf), án þess að fatta það almennilega á meðan þeir eru að því. Maður fær að vísu á tilfinninguna að Ian Curtis hafi verið fyllilega meðvitaður um hverju þeir voru að miðla. Kvöldið áður en hann drap sig horfði hann á hina snilldarlegu bíómynd Stroszek eftir Werner Herzog, um þau Bruno S., Evu og Scheitz, sem ferðast úr eymdinni í Berlín yfir í annars konar eymd í Bandaríkjunum – og eins og þeir vita, sem eitthvað vita um Joy Division, átti hljómsveitin að fara í sína fyrstu hljómleikaferð til Ameríku daginn eftir að Ian hengdi sig.