4. apríl 2016

Ég ákvað að freista gæfunnar og leita að hinu vinsæla og mikið tekna orði (í heimi ísl. stjórnmála) óheppilegt í orðabókinni minni (tveggja binda útgáfunni). En ég fann það ekki. Það næsta sem ég komst því var orðið óheppinn, en það er ekki það sama og óheppilegt eða -legur. Þá datt mér í hug að fara í samheitaorðabókina (gömlu útgáfuna; ég á ekki þá nýju), og þar fann ég orðið óheppilegur. Samheiti þess (samkvæmt Þórbergi; enn og aftur dúkkar hann upp hérna) er óþægilegur, og andheitið: heppilegur. Þetta er sem sagt allt fremur „óþægilegt“. Ekki „heppilegt“. En svo datt mér í hug að athuga hvort orðið óheppilegt væri að finna í útlensku orðabókunum mínum, úr því forsætis- og fjármálaráðherra landsins eru orðnir umfjöllunarefni í erlendum fjölmiðlum. Þar fann ég þessar myndir af orðinu: unfortunate og inoportuno. Ég er ekki með fleiri hefðbundnar orðabækur við höndina í augnablikinu, en á nú frekar von á því að búið sé að þýða þetta yfir á þýsku og Norðurlandamálin. En áður en ég raðaði þessum bókum mínum aftur upp í hillu datt mér í hug að fletta upp í Útlendum orðum á ensku, sem Haraldur Jóhannsson tók saman, og þegar ég blaðaði í gegnum þá bók (sem ef til vill er réttara að kalla hefti), algerlega handahófskennt, þá fann ég þetta: in extremis, sem er latína og merkir: að dauða kominn, aðfram kominn, í andarslitrunum.