22. júní 2016

Unknown-1

„Ó, nei.“ Allt í einu fannst mér ég þurfa að setja þessi orð (innan gæsalappa) fram opinberlega. Þau spruttu fram af vörum mér (og núna fingrum) þegar ég sá frétt á vísi punktur is um Íslendinga að syngja íslenska þjóðsönginn (Lofsongur) fyrir framan Rauðu mylluna í Parísarborg. „Ó, nei,“ verða orð sem eiga við í lok dags (um sexleytið), hvernig sem úrslitin í leiknum við Austurríkismenn verða. Ég keypti bjór í tilefni dagsins. Og ég setti hann í frystihólf ísskápsins til að hann yrði kaldur klukkan fjögur. Núna er ég aftur á móti að hugsa um að taka hann ekkert úr frystinum, að leyfa honum bara að vera þar. Fá mér kaffi í staðinn. Ég veit alveg hvað mun gerast fyrir bjórdósina – hún mun springa. En er það ekki bara allt í lagi? Þegar hljómsveitin Purrkur Pillnikk ferðaðist um England árið 1982, í þýskum rúgbrauðsbíl (minnir mig), vorum við með nokkra kassa af umslögum utan um hljómplötuna Googooplex aftan í bílnum. Hvort sjálf platan var ekki komin í umslögin man ég ekki, en líklega áttum við eftir að raða þessu saman, plötunni og umslaginu – allavega man ég að við ætluðum að selja þetta í tónleikahúsunum þar sem við vorum að hita upp fyrir The Fall á þessu ferðalagi. Ásmundur Jónsson, sem rak útgáfuna okkar Gramm, var með okkur í bílnum. Ásgeir heitinn Bragason keyrði. Og ég man að hann keyrði oft mjög hratt, svo okkur hinum varð ekki um sel. Og hann hefur ábyggilega verið að keyra eitthvað mjög hratt þegar afturdyrnar á bílnum opnuðust allt í einu, og nokkrir kassar með plötuumslögunum utan um Googooplex hentust út úr bílnum og lentu á enska sveitaveginum. Við gerðum okkur strax grein fyrir hvað hafði gerst. Ásgeir hefur ábyggilega hemlað mjög snöggt, en Ási hrópaði: „Hvernig er staðan!“ Sem var í sjálfu sér alveg eðlileg spurning, en vissulega einkennileg. Ég rifja þessa sögu upp núna vegna þess að í morgun fór ég eitthvað að velta fyrir mér hvernig staðan í leik Íslendinga og Austurríkismanna yrði klukkan átján í dag. Það þarf samt engan fótboltaleik til að rúgbrauðssagan frá Englandi komi upp í huga minn, því ég rifja þessa sögu mjög oft upp, við ólík tækifæri, ýmist þegar um er að ræða stöðu í fótboltaleik, stöðu gjaldmiðils, eða bara stöðu mála almennt. En nú að öðru, en þó því sama. Ég fékk svakalegan aulahroll þegar ég sá myndir í sjónvarpsfréttum í gær af íslenskum fyrirmennum standandi við einhver tjöld í Frakklandi í gær; þau voru að njóta einhverra veitinga, og forsætisráðherra var á staðnum. Það er að segja forsætisráðherra Íslands, sá sem hefur þann titil núna. Honum er ætlað að horfa á leikinn á Stade de France í Saint Denis. Og hann mun gera það. En nú að öðrum hrolli. Hrollinum sem ég fékk við að horfa á ólöglega markvörslu króatíska markvarðarins í gær. Sá hrollur var af allt annarri tegund. Króatar voru ansi fínir, og máttu alveg vinna leikinn fyrir mér (Spánverjar eru hvort eð er komnir áfram); en vítaspyrnuna hefði átt að endurtaka. Þetta var svakalegt. Markvörðurinn fór einhverja tvo eða þrjá metra fram fyrir línuna áður en Spánn sparkaði boltanum. Það má ekki. Mín yfirgripsmikla þekking á tækniatriðum fótboltaíþróttarinnar fullyrðir það. Síðustu tíðindin af EM í bili eru aftur á móti kennslustund Ronaldos, hins portúgalska, í því hvernig bregðast skal við kjánalegum spurningum fjölmiðlafólks. Hann tók bara hljóðnemann af manninum og henti honum í ána. Mér fannst eins og þetta kæmi úr bók eftir Óskar Árna.