23. júní 2016

Ég hef ekki hugmynd um hvers vegna, en mér finnst þessi dagsetning, ásamt ártalinu, alveg sérstaklega falleg. Það hefur ekkert með úrslit gærdagsins að gera. Sá dagur, gærdagurinn, virkar reyndar á pappírnum ekkert sérlega aðlaðandi: 22. júní. Of miklar sléttar tölur. 22 finnst mér heldur ekki mjög skemmtileg tala, þótt ég hafi búið við Tómasarhaga 22 nokkur ár í æsku minni. En í gær var ég að velta fyrir mér „stöðunni“. Og dró inn í þá „umræðu“ vin minn Ásmund Jónsson. Staðan í dag er gerbreytt frá stöðunni í gær. Ekki bara vegna fótboltakeppninnar í Frakklandi, heldur almennt. (2 – 1 er samt falleg staða, þótt ég hafi spáð henni öfugri: 1 – 2.) Ég hitti Andra Snæ í gær; ég var að keyra eftir götum Reykjavíkur, og hver annar en Andri Snær, ásamt Margréti konunni sinni, er þá að ganga eftir götum sömu borgar. Við heilsuðumst í gegnum framrúðu bílsins, svo gekk hann að bílnum, ég opnaði dyrnar, og við heilsuðumst með handabandi. Andri var á leiðinni niður á Ingólfstorg til að fylgjast með leiknum. Ég á sjálfur mjög erfitt með að taka þannig þátt í stemmningunni; að standa mitt í fjöldanum og gleðjast eða syrgja einhver úrslit; ég er svo hræddur við að fólkið í kringum mig fari að syngja einhver lög, eins og til dæmis Lofsongur, því ég kem svo illa út í slíkum aðstæðum; það verður svo áberandi að ég vil ekki taka þátt í söngnum. Þetta er ekki ósvipað því þegar ég herpi saman munninn í útförum þegar kirkjugestir byrja að taka undir með prestinum í Faðirvorinu. Það er vandlifað. En ég á engan miða á leikinn í Nice á mánudaginn. Og ég á ekki heldur farmiða út. Enda til lítils að eiga bara miða út, ef maður á ekki miða á leikinn. Ekki ætla ég að fara að svindla mér inn, eins og mig minnir að ég hafi einhvern tíma gert á Melavellinum á sjöunda eða áttunda áratug síðustu aldar. En hvað er ég að fara? Af hverju kem ég mér ekki bara að efninu, eða játa fyrir sjálfum mér að það sé ekkert efni. Það er engu líkara en ég sé kerfisbundið að forðast hið augljósa umfjöllunarefni dagsins, það er að segja úrslit gærdagsins. Drakk ég bjórinn sem ég setti í frystinn í gær? Eða er hann ennþá í frystinum, orðinn tvöfaldur að ummáli í afmyndaðri dósinni sem er við það að springa? Ég ætla ekki að svara svona spurningum.