1. júlí 2016

Seint í gærkvöldi fékk ég einhvern undarlegasta póst sem ég hef nokkurn tíma fengið. Ég hef reynt að svara honum – eða réttara sagt: ég hef svarað honum – en ekkert svar fengið við svarinu; og ég fékk strax á tilfinninguna að sendandinn væri sömuleiðis látinn, líkt og hann upplýsir mig um aðra manneskju. Pósturinn var svona: „(dagsetning osfrv) Kæri Bragi. Rósa er dáin. Hún lést á heimili sínu í gær. Með hlýrri kveðju og lófataki, Linda G. (Gylfadóttir)“ Svona var pósturinn orðréttur. „ …og lófataki“? … Og Gylfadóttir innan sviga? (Ég geri ráð fyrir að „lófatak hafi átt að vera „handtak“ – það þarf samt ekki að vera.) Ég veit ekki hvað ég á að halda um þetta – auðvitað veit ég það ekki. Ég hafði ætlað mér að skrifa um svolítið annað í dag, og var búinn að forma þá áætlun lauslega í huganum í gær þegar pósturinn frá Lindu (ef hann er þá frá þessari Lindu) barst mér. Ég hafði meðal annars ætlað mér að segja eitthvað – eða öllu heldur spyrja spurninga – um hin svokölluðu kirkjugrið; en þessi póstur um Rósu (ef hann er þá virkilega um Rósu; ég veit ekki hvað ég á að halda) sló mig einhvern veginn alveg út af laginu. En hafi einhver raunverulega dáið, þá þykir mér það leitt. Og set af því tilefni (eftir)myndina af Fernando og Luis hér í hausinn.