2. ágúst 2016

Að hlusta á Moments musicaux eftir Schubert er góð skemmtun (sbr. „Að horfa á myndband,“ osfrv). Sá sem leikur þau fyrir mig heitir Folke Nauta. Alltaf þegar ég hlusta á Schubert, eða horfi á kilina merkta honum í plötuskápnum, hugsa ég um fjörutíu ára afmæli Oddnýjar Eir; hún var með Schubert á fóninum, einhverja strengjamúsík; ég man ekki hvort það voru píanótríó eða kvartettar eða kvintettar (fáránlegt að muna það ekki). Annað var það ekki að sinni. Ég er enn að bræða með mér hvað skal segja um forsetaatriðið í gær. Á kosningavöku Andra Snæs í Iðnó fyrr í sumar var mér sagt – ekki bara einu sinni, heldur tvisvar, af sitthvorri manneskjunni – að ég líktist Guðna Th. í andliti. Önnur manneskjan beinlínis hélt eitt augnablik að Guðni Th. væri mættur á kosningavöku Andra Snæs. Ég get ímyndað mér að það sé einkennileg tilfinning fyrir 48 ára gamlan mann að vera allt í einu (eins og ég upplifi það: „allt í einu“) orðinn forseti Íslands. Hefði Guðni Th. skyndilega veikst í gærmorgun, t.d. fengið einhverja heiftarlega pest, þá dettur mér í hug að hann hefði getað hringt í mig og spurt hvort ég gæti ekki tekið að mér að mæta í atriðið í alþingishúsinu seinnipartinn í gær. Ég þekki Guðna ekki mikið, en ég hefði svo sannarlega ekki brugðist honum á slíkri ögurstundu. Ég hefði mætt í hans stað, hefði hann farið fram á það. Og mun gera, biðji hann mig um það síðar. Þá ætla ég að láta Schubert hljóma í bakgrunninum. (Eins og hefð er fyrir hér á síðunni, þá ætti að fylgja færslunni eitthvert myndefni. Ég er að hugsa um að láta það vera myndina af Ólafi og Ratzinger, nú þegar Ólafur er ekki lengur forseti. Ratzinger er ekki heldur lengur páfi, þannig að áfram eiga þeir eitthvað sameiginlegt, Ólafur og Ratzinger.)